Færsluflokkur: Bloggar

Jeppavá

Kia Sportage 2002Í sumar sem leið skiptum við yfir á jeppa. Ekki stóran, bara lítinn, en samt jeppa - með tvískiptum gírkassa fyrir lága drifið og fjórhjóladrifið (eða hvernig sem maður nú á að segja þetta) - alvöru jeppa en ekki jeppling. Þetta á sem sagt ekki að gefa mér falskt sjálfstraust í torfærum og ófærð. En því aðeins að ég kunni vel með að fara og nota þetta rétt.

Þegar fór að frysta og örþunn ísfilma yfir malbikinu á morgnana fannst mér jeppinn ekkert alltof skemmtilegur. Það var eins og honum skrikaði í spori án þess þó að renna en það dró úr því þegar við prófuðum að setja hann í fjórhjóladrifið í slíkum aðstæðum.ABS hemlakerfi

Vandinn sem nú blasir við er hvernig ég nýti mér eiginleika ABS bremsukerfisins sem á víst að vera leynivopn í hálku. Ég var vön að pumpa létt bremsurnar á fólksbílunum þegar ég þurfti að bremsa í hálku en nú bara urrar jeppinn á mig þegar ég geri það. Varla er ABS kerfið bilað því bílinn var á verkstæði fyrir mánuði þar sem það var endurnýjað. Lýsi ég hér með eftir reynslusögum þeirra sem kunna og netnámskeiði á blogginu um hvernig ég á að bremsa í hálku. Ég á víst bara að stiga eðlilega á bremsuna og halda henni niðri en leyfa kerfinu að vinna og get stýrt frá hindruninni á meðan. Ég ætla að æfa mig eitthvert kvöldið úti á leikskólaplani þar sem allir hormónaslánarnir spæna upp malbikið í frostinu.

Þó það sé ekki skemmtileg tilhugsun að aka aftan á annan bíl og valda þeim sem þar sitja e.t.v. viðvarandi hálshnykksáverkaeftirmálum þá finnst mér það allt í einu ásættanlegra að gera slíkt þegar maður er ekki á jeppa. Kannski á ég þá bara frekar að skipta yfir í fjórhjólin og aka yfir næsta bíl ef mér sýnist svo frekar en að reyna að bremsa.

 


Hvað heitir heita vatnið?

Heita börn þá ekki neitt samkvæmt skilningi dómsmálaráðuneytisins nema beitt sé til þess opinberum gjörningi? Börnunum mínum var gefið nafn strax við fæðingu og voru nefnd því nafni alla daga upp frá því. Nöfnin þeirra voru rituð með það sama á vöggurnar þeirra á sængurkvennadeildinni, ekki af okkur foreldrunum, heldur starfsfólkinu sem vísaði ekki til barnanna okkar með númerinu á stofunni minni og rúmi þegar um var rætt (3:2), heldur eiginnafni barnsins sem stóð á merkispjaldinu. Það þótti mér vænt um. 

Það er svo annar handleggur hvaða leið er farin til að koma því nafni lögformlega á pappíra í opinberum skrám. Mér finnst miður ef foreldrar trassa það að tilkynna nöfn barna sinna opinberlega. Það er eins og sjálfstæði barnsins í samfélagi mannanna og sérstaða með mannvera sé ekki viðurkennd. En þetta virðist ekki vera mikið vandamál lengur eftir að tímamörk voru sett þar á svo nú eru aðeins 3.7% barna ónefnd við 6 mánaða aldur.


mbl.is Börnum sem fá nafn við skírn í þjóðkirkju fækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lengi býr að fyrstu gerð

3childrenÞað þarf náttúrulega að ala vinnuhörkuna upp í fólki frá fyrstu tíð. Ef börnin læra strax að maður fer veikur í vinnuna venjast þau við að vera ekki að kveinka sér heldur harka af sér og langt um aldur fram grípa þau krampakennt um hjartastað og hníga örend niður, öllum að óvörum, því þau leituðu sér aldrei lækninga þegar kvillarnir fóru að gera vart við sig. Allt frá vöggu vöndust þau því að fá bara verkjastíl ef það var eitthvert ambur á þeim og þau héldu uppteknum hætti þegar þau komust á legg og gleyptu bara verkjatöflur, vöðvaslakandi og róandi þegar þau fengu pílur. Svo var farið í vinnuna. Um þetta fólk er skrifað í minningargreinum: "Henni féll aldrei verk úr hendi og hún bar harm sinn í hljóði".

Minni á vitundarvakninguna - Verndum bernskuna 


mbl.is Veik börn send í leikskólann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næturógnir

Það á sem sagt að tryggja öryggi einhverra með þessu fyrirkomulagi. Ef búðunum væri lokað þá væru ekki nein öryggismál á dagskrá. Þetta er svona álíka óþarfi og að grafa brunna á barnaleikvöllum og hreykja sér svo af því að hafa sett lok á þá svo börnin detti ekki ofan í.

Er ekki einfaldara að loka búðum um nætur? Eru næturopnanir að skila inn hagnaði? Umsagnir nágranna slíkrar nætursölu benda til þess að nær væri að fyrirtækin sæktu um skemmtanaleyfi. Þessar sólarhringsbúðir eiga ekkert skylt við búðir lengur. Þetta eru uppskrúfaðar samlokusjoppur. Ég get ekki ímyndað mér að fólk almennt eigi ekki brauð og ost heima hjá sér alla jafna ef það svengir á nóttunni. Svo er líka afar óhollt að borða á nóttunni. Þá á maður að vera sofandi. Fólk á næturvöktum er í vinnunni á nóttunni svo ekki er það að flandra í þessar sjoppur. Kannski eru þetta einmitt sjoppur fyrir öryggisverði sem rúnta á milli fyrirtækja svo þeir geti fengið sér samloku með næturkaffinu og kaffibollann í leiðinni.


mbl.is Sérþjálfaðir öryggisstarfsmenn til starfa í verslunum 10-11
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á róli á hjóli

Jæja, nú er búið að aflétta hjólabanninu af mér með því skilorði að ég fari varlega. Það var frekar súrt í broti að hætta að hjóla fyrir tæpum fjórum mánuðum þegar ég var þá loksins komin yfir rasssærið og hætt að svitna eins og dýjamosi sem stigið er á þegar heim var komið. Mesta baslið er þó að koma hjólinu út úr frumskóginum í hjólageymslunni og inn í hana aftur. Til þess þarf einurð og afgerandi ásetning. Það er því ekki skrítið að illa gangi að hemja sig þegar hindranir verða á vegi hjólareiðamanns eins og í myndbandinu hér að neðan.

Ef vel tekst til með endurhæfinguna er aldrei að vita nema djúpstæður draumur minn um "alter-ego" verði að veruleika. 


Hefnd þulunnar

Ég náði mér niðri á sjálfvirku netþýðingarvélunum sem snúa alveg hrikalega út úr íslenskunni þegar ég lét Röggu vefþulu lesa enskan texta. Þá hljómaði hún eins og íslenskur ráðherra á alþjóðafundi. 


Nýjasta þulan

Gleraugu og bókVefþulan Ragga er góð í lestri en hún les frekar hratt. Það kemur þó ekki að sök því fólk hefur textann fyrir framan sig á meðan hún les. Þetta gagnast þó ekki aðeins lesblindum heldur líka sjóndöprum. Útlendingar sem glíma við framburð og hrynjandi geta haft mikið gagn af flutningi Röggu. Þetta er hægt að nota bæði á vefsíður og eigin, innsleginn texta.

Þó hefðu tenglar mátt fylgja fréttinni. Af óbilandi trú á mitt eftirtektarverða blogg set ég þá inn hér:

Leiðbeiningar um notkun vefþulu og uppsetning í vefskoðara notanda

Til að slá inn eigin texta:

 


mbl.is Yfir eitt þúsund manns nýttu sér Vefþuluna á fyrsta degi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áfengi með forvörnum!

Drekkum vatnÆtli það stafi af kaldhæðnislegu skopskyni ritstjórnar "24ra stunda" að forvarnir séu kynntar með áfengi?

Heilsíðan sem helguð er forvarnardeginum á bls. 26 í blaðinu í dag ber einnig áfengisauglýsingu.

Hér er "24 stundir" í dag, 17.11.07 


mbl.is Viljastyrkur ungs fólks skiptir mestu í baráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá er eldurinn heitastur er á sjálfum brennur

 Taser byssa

Ef íslenska lögreglan tekur upp notkun á þessum byssum eins og rætt hefur verið undanfarið eiga lögreglumenn sem bera þær að gangast undir prófun á þeim á sjálfum sér eins og gert er með piparúðann sem þeir bera í dag. Ef slík prófun er talin ógna öryggi þeirra þá held ég að spurningin um rafbyssurnar svari sér sjálf.

Upplýsingar af Wikipedia um rafbyssur. 


mbl.is Maður lést í Kanada þegar lögreglumenn skutu hann með rafstuðbyssu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Amma þín hvað?

Granny, Kerry SaccoStund sannleikans rann upp fyrr í vikunni. Ég heimsótti unga vinkonu mína og fór með henni á leikskólann að sækja dóttur hennar. Þegar við voru á leiðinni út mætti ég skólasystur minni frá unglingsárunum í dyrunum. Árin síðan við sáumst síðast eru í tugum talin. Við heilsuðumst og hún spurði: "Ert þú amma hér?"

Ég stend fyrir framan spegilinn og svekki mig á því að varaliturinn rennur alltaf út í línurnar í kringum munninn og að augnskugginn sest í grunnu fellingarnar við augun. Ég furða mig á því að það sjáist í hár í nösunum á mér en verð að viðurkenna að þrátt fyrir afneitunina hef ég litið á verðmiðann á hillunni með nefháraklippunum.

Er hægt að fara í nefháravax?

Teikningin er eftir Kerry Sacco og er hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband