Jeppavá

Kia Sportage 2002Í sumar sem leið skiptum við yfir á jeppa. Ekki stóran, bara lítinn, en samt jeppa - með tvískiptum gírkassa fyrir lága drifið og fjórhjóladrifið (eða hvernig sem maður nú á að segja þetta) - alvöru jeppa en ekki jeppling. Þetta á sem sagt ekki að gefa mér falskt sjálfstraust í torfærum og ófærð. En því aðeins að ég kunni vel með að fara og nota þetta rétt.

Þegar fór að frysta og örþunn ísfilma yfir malbikinu á morgnana fannst mér jeppinn ekkert alltof skemmtilegur. Það var eins og honum skrikaði í spori án þess þó að renna en það dró úr því þegar við prófuðum að setja hann í fjórhjóladrifið í slíkum aðstæðum.ABS hemlakerfi

Vandinn sem nú blasir við er hvernig ég nýti mér eiginleika ABS bremsukerfisins sem á víst að vera leynivopn í hálku. Ég var vön að pumpa létt bremsurnar á fólksbílunum þegar ég þurfti að bremsa í hálku en nú bara urrar jeppinn á mig þegar ég geri það. Varla er ABS kerfið bilað því bílinn var á verkstæði fyrir mánuði þar sem það var endurnýjað. Lýsi ég hér með eftir reynslusögum þeirra sem kunna og netnámskeiði á blogginu um hvernig ég á að bremsa í hálku. Ég á víst bara að stiga eðlilega á bremsuna og halda henni niðri en leyfa kerfinu að vinna og get stýrt frá hindruninni á meðan. Ég ætla að æfa mig eitthvert kvöldið úti á leikskólaplani þar sem allir hormónaslánarnir spæna upp malbikið í frostinu.

Þó það sé ekki skemmtileg tilhugsun að aka aftan á annan bíl og valda þeim sem þar sitja e.t.v. viðvarandi hálshnykksáverkaeftirmálum þá finnst mér það allt í einu ásættanlegra að gera slíkt þegar maður er ekki á jeppa. Kannski á ég þá bara frekar að skipta yfir í fjórhjólin og aka yfir næsta bíl ef mér sýnist svo frekar en að reyna að bremsa.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þegar ABS - kerfið er að virka eins og það á að gera, þá "urrar" það grimmdarlega og þú finnur fyrir "urrinu" í gegn um bremsupedalann. Þá er tölvubúnaðurinn að gera það sem hann á að gera, leita að því hjóli eða hjólum sem hafa mest viðnám og dreifa átakinu skv. því milli hjólanna. Hitt er annað mál, að jeppi með venjulegu fjórhjóladrifi og venjulegum millikassa (þ.e. millikassa á mismunadrifs) er ekki sérstaklega góður í hálku. Bestu bílarnir í hálku eru t.d. Subaru, Toyota Land-Cruiser og Toyota RAV4, Mitsubishi Outlander ofl. Jeppar, sem eru með venjulegum millikassa, geta orðið ansi stirðir á hálkulausu vegyfirborði, nánast eins og beltavélar!

Ellismellurinn (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 15:24

2 identicon

Hvaða dekkjum ertu á? Farðu á bensínstöð og fáðu eitthvað efni til að hreinsa tjöru af dekkjum.... athugaðu loftþrýsting á dekkjum og prófaðu aftur...

Færð 10 stjörnur frá mér fyrir viðleitni að umferðaröryggi!

ABS kerfið hugsar alveg um sig sjálft....dekkin gera það ekki..

Magnús Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 27.11.2007 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband