Færsluflokkur: Bloggar

Nálgast jólin, búinn skólinn

HáskólatorgÞað var ekki seinna vænna að mér tækist að fara inn á hið nýja Háskólatorg áður en ég lyki námi. Síðasta prófið mitt var í dag og á meðan ég beið þess að vera sótt fór ég inn í glerhöllina, kíkti í bóksöluna og fékk mér djús. Húsið er búið að vera í byggingu mest allan námstíma minn með tilheyrandi sprengingum, vélagný og flæktum aksturs- og gönguleiðum.Peysuföt

Sjálf er ég gamaldags sál í byggingarmálum, sakna flúraðra loftalista, bólstraðra sóffa og lífrænna forma. Mig svíður undan tilhugsuninni um húsarif í hundrað og einum og sakna gamla Þjóðminjasafnsins. Verst þykir mér að passa ekki lengur í peysufötin mín til að vera í við útskriftina í febrúar. En á þessum bæ stóð aldrei til að fara í kjól fyrir jól og ætla mér ekki að fá kveisu vegna peysu. Málið er heldur ekki svo einfalt. Hún langamma mín sem átti búninginn var lægri vexti en ég svo peysan nær mér ekki nema rétt niður fyrir bringspalir. Annars langar mig svolítið til að uppfæra peysuna og toppa menntamálaráðherra sem  mætti í stuttermabol við upphlutinn þegar Þjóðminjasafnið var opnað eftir breytingar. Hver veit nema ég saumi nýja peysu við pilsið, "a la art quilting". Ég er ekkert endilega svo íhaldssöm!

Fróðleikur um íslenska kvenbúninga frá Elsu E. Guðjónsson.


Sök bítur sekan

Höfum við ekki kallað þennan vanda yfir okkur og súpum nú seyðið af "hnattvæðingunni"? Vestræn fyrirtæki hafa unnvörpum flutt framleiðslu sína úr landi til ódýrari framleiðslusvæða. Hvernig fara þau svæði að því að halda niðri framleiðslukostnaði? Jú, sum hver með bágum aðstæðum, þrældómi barna og fullorðinna og lágum launum. Nýlega kom í ljós að sumar leikfangaverksmiðjur í Kína nota innihaldsefni sem hafa verið bönnuð á Vesturlöndum, bara til að ná niður kostnaði. Og af hverju vilja þessar lágvöruverðsverksmiðjur halda niðri framleiðslukostnaði? Jú, til að fá pantanir frá vestrænum birgjum.

Sjálf er ég mjög tortryggin gagnvart matvöru á sjokkprísum og kaupi þær ekki. Sleppi frekar munaði í staðinn.


mbl.is Varhugaverðar vörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvenföt hönnuð af konum?

Hverjum datt yfirhöfuð í hug að halda því að konum að ganga í óhentugum, háhæluðum, támjóum skóm sem getur verið hættulegt að keyra í? Hverjum datt í hug að hanna kvenföt sem hafa ekki vasa og svo þröng pils að varla er hægt að ganga upp stiga í þeim, hvað þá að príla upp í jeppa? Eitthvert mesta dragakkeri á konur eru þessar líka hlussustóru kventöskur sem allt kemst í og þar með allt fer í.

Mér hverfur ekki úr minni fína konan sem var sótt á hárgreiðslustofuna á jeppanum. Hún gekk út í hælaskónum sínum og bosmamiklum pels með fáguðu fasi, opnaði jeppadyrnar og hóf svo fjallgöngu inn í bílinn. Þegar hún hafði hálfpartinn lagst í framsætið voru fæturnir frá jörðu og rassinn út í loftið um opnar dyrnar. Í þessari stellingu sneri hún sér til hliðar til hálfs, greip um handfangið fyrir ofan dyrnar, togaði sig upp og náði þá loksins að tylla tánni á stigbrettið til að spyrna sér inn í bílinn.

Eftir þetta vissi ég ekki hvort mig langaði síður í pels eða jeppa. En nú er ég á jeppa og á engan pels enn svo vandamálið hefur ekki þurft að koma til úrlausnar á þessum bæ.


mbl.is Í kvenmannsföt til að skilja þarfir kvenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupa meira og meira, meir' í dag enn í gær

Íslendingar í utanlandsferðum myndu gera slíka uppreisn ef þeir fengju ekki að fara í fleiri búðir. Hér er kvartað yfir þyngdartakmörkunum á ferðatöskum og hámarksupphæð varnings sem flytja má tollfrjálst inn í landið. Það ætti að bjóða upp á skiptiferðir fyrir Kínverja og Íslendinga því hér fæst víst ekki nóg til að kaupa.
mbl.is Túristar gerðu uppreisn gegn verslunarhópferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spádómskertið

SpádómskertiðFyrsta kertið á aðventukransinum, spádómskertið, bar daufa birtu um stofuna. Í samanburði við rökkrið umhverfis var ljósið þó sterkt.

Um fyrsta sunnudag í aðventu má lesa hér. Dagurinn markar upphaf fjögurra vikna jólaföstu. Aðventukransinn er norður-evrópsk jólahefð, talinn upprunninn í Þýskalandi á 19. öld. Þaðan barst notkun hans til Danmerkur og hingað til lands á síðustu öld. Fyrst sást hann sem skreyting í búðargluggum en varð skjótt að fastri skreytihefð heimila á sjöunda áratugnum.

Umræða um markaðsvæðingu jólanna er svolítið í ætt við eggið og hænuna. Ég fór í Blómaval í dag að kaupa kerti og vafraði þar um í leit að einhverju til að setja í skál með þeim og endaði á lituðum sandi. Ég hef ekki sett upp grenikrans síðan á fyrsta hjúskaparárinu. Til að byrja með stafaði það af blankheitum og skorti á handlagni þegar blómaskreytingar eru annars vegar svo ég réð hvorki við að kaupa kransinn tilbúinn né búa hann til (reyndi það einu sinni og lærði af því). Sama handvömmin háir mér við tertuskreytingar. Það er því sitthvað handlagni og handlagni. Ég get saumað nánast hvað sem er í saumavél. En biddu mig ekki um að þræða saumnál! Þess vegna á ég núna saumavél með þræðara. Kannski ég saumi bara aðventukrans fyrir næstu jól.


Ys og þys út af engu?

Hurry-up Crabbie MasterDagurinn í dag hafði fyrirheit um fjölmarga valkosti. Ritgerðarskrifin höfðu vinninginn.

Fyrsti valkosturinn bar yfirskriftina "Jólaföndur 2007" á auglýsingu frá grunnskóla afkvæmisins. Miðað við slíkar fyrirsagnir á öðrum vettvangi þótti mér líklegt að þetta væri keppni. Afkvæmið hafði lítinn áhuga á að vinna titilinn "Herra jólaskraut 2007" og því fórum við hvergi þrátt fyrir að einnig væri boðið upp á jólakaffihús, leikrit um jólaskap og heimsókn jólasveins.

Jólaljós voru tendruð á Ísafirði og í Kópavogi en ég sat það af mér heima.Robert Cenedella Ég las í Mogganum í gær að þegar hefðu borist tilkynningar um 90 tónleika í desember (jólatónleika geri ég ráð fyrir). Appelsínið sem keypt var til heimilisins í gær er jólaappelsín og í ísskápnum stendur jólaléttmjólk. Nú eru jólasveinamyndir á öllum innkaupapokum. Sjálf er ég svo heppin að nota aðeins heilsárundanrennu því einhverra hluta vegna hefur undanrennan alltaf sloppið við markaðssetningartiktúrur.

Hvert stefni ég með þessu? Jú, það er bara fyrsti desember. Aðventan byrjar ekki einu sinni fyrr en á morgun. Þegar strákarnir mínir voru litlir og ætluðu að missa sig í jólatrylling snemma í nóvember (já, þetta byrjaði ekkert seinna fyrir einhverjum árum þó okkur finnist það gerast fyrr með hverju árinu) sagði ég þeim að jólaskreytingar verslana væru til að minna afana og ömmurnar sem ættu barnabörn í útlöndum á að það þyrfti að kaupa gjafirnar núna svo pósturinn hefði tíma til að koma þeim til skila því skipin væru svo lengi að sigla til annarra landa. Þessu var skilningslega svarað með "Jaaá!"

Það liggur sem sagt ekkert á enn. Ég verð þó að játa að seinni partinn í dag var komin ljósasería í stofugluggann okkar. Ég held að það sé Skröggur í mér.

 


Endurkoma kaupmannsins á horninu

Kaupmaðurinn á horninu eiga sterkan leik á borði. Neytendur hafa fengið sig fullsadda á því að láta gera grín að sér. Var það allt og sumt sem sem nýútskrifuðu markaðsfræðingarnir að lærðu að gera í skólanum? Stóru keðjurnar misstu allan trúverðugleika þegar verðsamráð þeirra og verðhringlandaháttur fékkst loks staðfest og nú hafa þær líka misst andlitið, þ.e. fellt grímuna og sýnt sitt rétta andlit. Um leið og ég las þessa frétt vissi ég að nú yrði slegið met í bloggheimum og vil ég leggja mitt af mörkum til þess.

MBL0137267 Við afgreiðslu í RangáNei, nú er lag - hverfisbúðir í einkaeigu einstaklinga þar sem ekki er svona vitleysa í gangi eru það sem koma skal - aftur. Í hverfisversluninni Rangá sem rekin hefur verið áratugum saman fæst allt það helsta, viðmót og þjónusta er betri en nokkurs staðar og þar leiðist engum svo að hann þurfi að biðja um sæti inni á kaffistofunni á meðan "frúin" kaupir inn. Þangað geta fastakúnnar hringt ef þeir eru rúmfastir og látið taka til fyrir sig í poka sem kaupmaðurinn hefur svo skotist með til þeirra. Þar hefur meira að segja verið pöntuð fyrir mig vara sem annars var alla jafna ekki til sölu. Slíkt mundi Hagkaup aðeins gera í draumum mínum.

Ég man eftir a.m.k. fimm nýlenduvöruverslunum við Langholtsveginn einan þegar ég var krakki auk fjölmargra annarra. Þær eru allar farnar. Nú fer ég að rifja upp hvar hinar voru og telja á fingrum mér.

Rangá er að Skipasundi 56, á horni Skipasunds og Holtavegar. Hættið við að fara í Hagkaup í Holtagörðum og farið suður Holtaveginn í staðinn. Þá akið þið fram á Rangá.


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mínar eru sorgirnar þungar sem blý

 Name of fame

Já, misskipt er mannanna bölið. Ef tilvera mín væri nú svo einföld að eg þyrfti bara að finna einn "wanna-be" af mörgum í staðinn til að halda áfram að "mæma" á sviði. Það er skelfilegt til þess að hugsa að Geri Halliwell hafi valdið Kryddpíunum slíku "trauma" að þær séu enn að læra að fyrirgefa. Mikið svakalega hefur nú tilvera þeirra verið þröng síðan fyrst enn svíður undan svikunum.

Maður fer nú fyrst að skilja líf hinna sem mikið til hefur farið fram á forsíðum slúðurblaða. Greyin hafa bara verið að "acta út" alla þessa sálarangist eins og venjulegir vandræðaunglingar. 


mbl.is Niðurbrotnar er Geri fór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðlögun atvinnulífsins

Er atvinnulífið tilbúið að aðlaga sig því að fólk hafi skerta starfsorku? Er atvinnulífið reiðubúið að taka upp sveigjanleika svo fólk sem ræður ekki við formúluna ((9-->5)+yfirvinna+helgar) geti verið á vinnumarkaði? Eru atvinnurekendur fúsir að draga úr vinnuhörkunni?

Það er nánast hending að hægt sé að fá hlutastörf sem skipulögð eru sem hluti úr vinnudegi. Helst er hægt að semja um lægra starfshlutfall sem felst í færri vinnudögum og þá helst við afgreiðslustörf en þá þarf samt að vinna fullan vinnudag í senn. Endurhæfing er ekki svarið fyrir alla því sumir þurfa hreinlega nýmenntun en við skólavist fellur ýmislegt niður sem gerir öryrkjum kleift að framfleyta sér og fjölskyldum sínum á meðan. Það vantar að byggja inn aðlögun.

Ég hef minnstar áhyggjur af bótasvindli. Svindlarar eru og verða alltaf til. Þeir eru líka meðal eigenda og stjórnenda fyrirtækja. 


mbl.is Núverandi réttindakerfi framleiðir öryrkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tólatækni 1

Að nota skurðarhnífHér eru leiðbeiningar um notkun skurðarhnífs í bútasaumi. Hvort þetta eru skiljanlegustu leiðbeiningarnar skal ósagt látið. Aðalatriðið er að passa puttana á sér því hnífurinn fer fyrirstöðulítið í gegnum merg og bein. Það þarf að viðhafa ýmsar öryggisreglur, s.s. að loka hnífnum eftir hvern skurð, hafa ekki fingur niðri á efninu sem verið er að skera og geyma hnífinn þar sem börn eða forvitnir gestir sjá hvorki né ná til. Mér finnst afar þægilegt að nota hann og nota hann mikið til að skera tau fríhendis án reglustiku eða skapalóna. Myndaræman efst á blogginu er úr veggteppi eftir mig þar sem þannig er skorið og saumað fríhendis.

Þetta lærði ég af vefsíðu Alison Schwabe og hef sett tengil inn á leiðbeiningar hennar þar og hér til hliðar. Fyrir fólk sem lifir og hrærist klippt og skorið inni í ferningslaga blokkum kann þetta að virðast ógnvekjandi en ef viðkomandi finnst tímabært að rífa af sér helsið þá er þetta lífið! Aðferðin er viðráðanleg. Það hef ég sannreynt því ég hef kennt þetta á námskeiði og öðrum tókst að læra þetta þar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband