Færsluflokkur: Bloggar

Aftur og nýbúin

KóngulóÞá er ég flogin, lent, sofnuðu, vöknuð og búin að éta hér úti í Kanans landi. Ég held til á heimili skólasystur minnar í sumar. Þau höfðu mínar ferðadagsetningar en einhverja hluta vegna komu allir í húsinu af fjöllum þegar ég birtist. Ég gruna skólasystur mína um að hafa haldið ferðaáætlunum mínum út af fyrir sig. Unglingsdóttirin sagðist hafa verið skíthrædd þegar leigubíll stoppaði fyrir framan húsið og manneskja kom út sem gekk upp að húsinu. Ég held að þetta hefði verið mun sársaukaminna fyrir hana ef þau hefðu ljós logandi við húsið svo þau sæu hverjir eru að koma á kvöldin og svo gestkomandi og gangandi fari sér ekki að voða á stéttinni. Ungherrann kom líka ofan af fjöllum. Húsbóndinn kom svo varfærnislega niður í morgun og opnaði inn til mín, hafði heyrt umgang og stóð ekki á sama. Húsfrúin er af bæ. Það er eins gott að þau urðu mér ekki að meini eins og í bíómyndunum.

En nú er allt gott. Ég er búin að fá mér tebolla og þá fyrst er hægt að ganga í málin af einhverju viti. Ég þarf að gera matarinnkaup og finna restina af eldhúsdótinu mínu, t.d. uppþvottaburstann.  Einnig vantar mig skordýraeitur. Þessi kjallari er kóngulóarbæli. Eða, ég held að þetta séu kóngulær. Kvikindin eru með fálmara og geta stokkið. Þær eru stórar. Ég ólst upp í kjallara og þar voru líka kóngulær. En ég held að þær hafi verið mjög fjarskyldar þessum. Þessar eru amerískar og spila hafnabolta á nóttunni.


Fljóð á förum

VorgróðiNú líður að brottför af Ísalandinu bláa. Það hefur verið yndislegt að vera heima, kúldrast með eiginmanni og afkvæmi, fá sér kleinur og rjómatertur og njóta lands og náttúru. Við hjónin skruppum á Þingvöll í gær. Þó náttúran taki hægt við sér svo við fáum löng vor er fallegt að sjá lífið inn á milli sinutoppanna. Ætli okkur sé ekki þaðan komin vonin - það vorar um síðir.

Framundan er langt ferðalag og hækkandi hiti. Í næstu viku verður rigning bæði hér og í DíSí nema hitinn þar verður þrisvar sinnum hærri. Það er æðislegt að geta skroppið í svona hitabelti um stutt sumarfrí en ekki eins spennandi að búa við það. Ég verða að segja alveg eins og er að ég kvíði hitanum, sérstaklega þar sem ég verð á ferðinni daglega í almenningsfarartækjum, bíðandi úti á stoppistöð undir brennandi sólinni. En þá er bara að breyta lífstaktinum. Ég held að við Íslendingar kunnum það þegar brestur á með góðviðri. Reyndar fáum við þá góðviðrismaníu hér á landi. Svo í staðinn ætla ég að hægja á ferðinni, taka tíma í verkin og ferðirnar og sitja í köldu fótabaði á kvöldin.
Við Öxará


Skammsýni - myndir

Altaristafla MöðruvallakirkjuÞetta er altaristaflan sem um ræðir. Möðruvallakirkja er ekki bara eitthvert kofatildur heldur bygging með sérstökum einkenni. Ég set inn fleiri myndir svo þið getið séð altaristöfluna í samhengi sínu og dæmt fyrir ykkur sjálf hvað það mundi gera kirkjunni að taka altaristöfluna út.

Ég get skilið að einhver vilji verða sér úti um aur, það er þungur baggi að reka kirkjubyggingar. Það fylgir því ábyrgð að eiga menningarverðmæti. En mér finnst einkennilegt viðhorfið sem fram kemur í fréttinni, haft eftir lögmanni eiganda kirkjunnar: "Þess er getið að altaristaflan hafi hangið á vegg Möðruvallakirkju og þar hafi enginn sýnt henni áhuga. Virðist hún þjóna litlum tilgangi á þeim stað." Kannski eru þessi orð tekin úr samhengi en ef þau geta staðið eins og þau eru sýna þau litla innsýn eða skilning á eðli kirkjubygginga, þess sem þar er inni og þess sem þar fer fram. Altaristöflur einfaldlega hanga á vegg í kirkju. Sá er tilgangur þeirra að þjóna innihaldi helgihaldsins til íhugunar og minningar um þær sögur Biblíunnar sem hver einstök altaristafla vísar til. Það lýsir einfaldlega þekkingarleysi á kirkjumunum að telja þá þjóna litlum tilgangi.

Það er fyrirsláttur í bréfi lögfræðingsins sem segir, "Hér er í raun aðeins verið að skila menningarverðmætum til síns heimalands, eins og átt hefur sér stað með íslenskar minjar sem grannþjóðir okkar hafa skilað til okkar." Þegar menningarverðmætum er skilað til upprunalanda sinna eru þau ekki seld á uppboði. Þeim er einfaldlega skilað. Varla ætlar Christies uppboðshúsið að ákveða hverjir mega kaupa altaristöfluna svo tryggt sé að hún endi ekki á knæpu í Timbúktú. Hún selst hæstbjóðanda.

En kirkjueigandinn virðist ekki hafa hugmyndir um aðra möguleika en að selja það sem fémætt er. Þetta minnir mig svolítið á fólkið sem svarar núna nafnlausum auglýsingum braskara sem kaupa gull og bræða. Ég hef gert mér ferð upp að Möðruvallakirkju til að sjá þessa altaristöflu. Af eðlilegum ástæðum er kirkjan læst. Annað er ekki boðlegt þegar hún inniheldur 15. aldar altaristöflu úr fílabeini. En inn komst ég ekki og altaristöfluna sá ég ekki. Engar upplýsingar voru hjá kirkjunni hvert ég gæti snúið mér til að fá að sjá inn í hana. Ég hefði verið tilbúin að borga fyrir slíka skoðunarferð. Eigandi heldur ekki úti neinni kynningu á kirkjunni og munum hennar, það er engin vefsíða með myndum. Nú þegar þjóðin hefur verið seld í skuldaþrælaánauð af útrásarvíkingum er óþarfi að rífa frá henni menningararfleiðina líka.

Myndir með færslunni eru teknar af Þorsteini H. Ingibergssyni og eru vistaðar á Kirkjunetinu.

Séð inn MöðruvallakirkjuPrédikunarstóll MöðruvallakirkjuAltaristafla MöðruvallakirkjuMöðruvallakirkja, Eyjafirði


mbl.is Altarisbrík ekki úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta er svo mikið 2007"

LeikfangaeldavélÉg held ég hafi verið að fatta hvernig bankahrunið varð.

Sko, það bilaði hjá okkur bakaraofninn. Við höfum verið að svipast um eftir heppilegri eldavél í staðinn, svona án þess að vera í alvarlegum kauphugleiðingum. Við vildum bara vera tilbúin þegar tækifærið gæfist, geta tekið áhættuna. Svo sá ég vél á föstudaginn. Hún var á lækkuðu verði, 130 þúsund í stað 175 þúsund. Þetta hefði verið sparnaður upp á 45 þúsund krónur. Góð kreppufærni þar.

Nema hvað, eiginmanninum tókst að laga ofninn svo við kaupum ekki eldavélina. Og þá kveikti ég á perunni. Fyrst við kaupum ekki eldavélina og eyðum þar með ekki 130 þúsundum vorum við að græða 130 þúsund! Og ekki nóg með það, við fáum arð upp á 45 þúsund sem er mismunurinn á upprunalega verðinu og lækkaða verðinu.

Nú stofna ég hlutafélag sem er með 130 þúsund króna höfuðstól og 45 þúsund króna viðskiptavild. Gengið á bréfunum er strax komið upp í 1,35 svo þið sjáið að þetta er rakið fjárfestingadæmi. Það gildir einu að ég fékk engar 175 þúsund krónur inn í heimilisbókhaldið því það er draumurinn sem ég er að selja, draumurinn um hina nýju eldavél. Hugsið ykkur bara, þið kaupið hjá mér alla hlutina á genginu 1,35. Þá erum við komin upp í 235 þúsund króna eign. Þið seljið bréfin ykkar aftur á genginu 1,81. Það gerir 427 þúsund krónur. Við verðum óstöðvandi. Það vilja allir kaupa af okkur á þessari siglingu.

Við skulum svo vona að bakaraofninn gefi ekki endanlega upp öndina og við verðum að reiða fram þessar 130 þúsundir sem komu keðjunni af stað því þá breytist draumurinn í martröð. Ég á þær ekki til. Þið lánuðuð mér aurana.


Römm er sú taug

JúrógleðiÞessa dagana lep ég upp allt sem má mér til styrktar verða í fríinu enda stutt stopp á Fróni. Það er svo mikilvægt að fylla á alla tanka. Ég var svo einföld að búast við að síminn mundi ekki stoppa hér heima eftir að ég lenti en það hefur enginn hringt nema tengdapabbi að bjóða mig velkomna heim. Svo ég rása út á meðal þjóðarinnar í staðinn og það er þrusugott.

Listahátíð varð fyrir valinu á laugardaginn. Stangardansararnir áströlsku voru einstaklega frumlegir og það var mikil upplyfting fyrir mig að verða vitni að því. Í gær fórum við hjónin niður á Austurvöll að taka á móti Júróvisjón hópnum. Í venjulegu árferði hefði mér aldrei komið til hugar að fara þangað af þessu tilfelli enda nánast hætt að fylgjast með keppninni. En nú er allt sem þjóðlegt er dýrmætara en gull, að vera innan um fólk sem talar sama mál og ég og deilir sömu menningu er hvíld fyrir sálina. Úti í Ameríku finnst mér skondið að verða vitni að þjóðrembunni sem mér finnst svo sjálfsögð hér heima. Úti fór allt á annan endann út af úrslitaleiknum í Super Bowl og mér stóð nákvæmlega á sama um embættisinnsetningu nýs forseta þar sem ég stóð ásamt milljónunum við Washington Monument en hér skunda ég á Austurvöll og treysti mín heit. Ég hefði þó átt að taka með mér búsáhöld, jafnvel á báða staðina.

Ég fór í messu í gærmorgun og svo fórum við í ísbúðina eftir hádegið og spókuðum okkur með sólþyrstum Reykvíkingum þennan heitasta dag vorsins. Það er svo gaman að því hvernig allt umhverfist hér í góðu veðri. Í því tilliti kunnum við Íslendingar að grípa daginn og verðum eitthvað svo afslöppuð í framan eftir frostviprur undangenginna umhleypinga.


Yfirklór

SykurkarÉg borga sykurskatt með einu skilyrði: að hann renni óskertur til greiðslu fyrir tannlækningar skólabarna. Það dregur ekki úr gosdrykkjaneyslu þó verðið hækki. Það kemur smá afturkippur í söluna og svo nær hún sér aftur á strik. Það er fleira en gosdrykkir sem skemmir tennurnar.

Sykur fer í fleira en gosdrykki. Ég sé lítið vit í því að setja sykurskatt á hálfu teskeiðina af sykri sem fer í brauðdeigið mitt til að næra gerið. Það fer sykur í uppstúfið með bjúgunum og hangiketinu. Frekar en að liggja í bakaríum er af og til bakað á þessu heimili og það er óþarfi að leggja sykurskatt á heimilisbaksturinn. Svo náttúrulega nota ég sykur til að brúna kartöflur á stórhátíðum. Af og til baka ég pönnukökur og þær eru bestar nýbakaðar með strásykursskán. Nei, nú skal skattleggja íslenskar heimilishefðir af því að einhverjir drekka of mikið af gosi. Það verður gósentíð hjá Skattmann þegar íslenskar húsmæður fara að sulta rabbabarann í gríð og erg í haust til að drýgja matarpeningana. Kíló á móti kílói, góð innkoma þar í ríkissjóð.

Ég man eftir herferð þar sem auka átti mjólkurneyslu barna til að vega á móti gosdrykkjunni. Mjólk var sett í skólamáltíðir og safinn tekinn út. Kalkið átti að efla tannheilsuna. Þá komst einhver spekingurinn að þvi að ekki væri nóg drukkið af vatni. Einnig var öll þessi mjólki orðin fitandi fyrir íslensk börn sem hreyfðu sig víst ekki nóg og væru orðin alltof þung. Mjólkin fór úr skólamáltíðinum og vatnið sett inn. Til að halda niðri kostnaði áttu börnin að mæta með drykkjarglös í skólann. Þau fóru upp á hillu svo þau væru ekki fyrir og ekkert barn mundi eftir að drekka vatn því glasið var ekki í augsýn og vatnið ekki á vegi þeirra. Ekki var farið út í að setja upp drykkjahana í stórum stíl. Í barnaskólanum okkar var einn slíkur hani innan dyra en börnin mín forðuðust að nota hann því það var alltaf rusl í honum. Glösin týndu tölunni þó merkt væru, líkt og inniskórnir sem uppálagt var að mæta með í skólann svo ekki þyrfti að þrífa gólfin eins oft og til að draga úr táfýlu og bæta fótaheilsu barnanna.

Af hverju eru ekki drykkjarvatnshanar inni í stórverslunum svo maður geti fengið sér sopa í stað þess að rjúka á næstu goshillu og byrja að þamba áður en maður borgar? Af hverju kostar vatn á flöskum ekki kúk á kanil?

Má ekki setja upp vatnshana, ala á góðri umgengni um þá og sjá börnum og ungmennum fyrir endurgjaldslausum tannlækningum? Koma þeim á barnsaldri í þá rútína að stunda reglulega tannhirðu undir reglulegu eftirliti tannlæknis? 


mbl.is Sykurskattur fyrir lýðheilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnutækifæri

Kannski er hér á ferðinni viðskiptahugmynd fyrir brauðlausa guðfræðinga sem hafa áhuga á fræðistörfum - handbókagerð.
mbl.is Prestur gefur út kynlífshandbók
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimferðadagur

Ég fer heim í dag og lendi í fyrramálið! Það er bara til eitt orð yfir það: "Jibbí!"

Hér er vorið löngu komið, þótti þó hafa komið hendur seint enda áleit ég að það sem hér var kallað vorkoma væri sumarkoma. Svona erum við Íslendingar nú nægjusöm. Síðustu daga hefur hlýnað og stytt upp eftir margra daga rigningu og dæmigerðan íslenskan dumbung. Í fyrradag náði hitinn 30 stigum á meðan Reykvíkingar hírðust í 4 stiga vorkuli. Mamma hefur verið hjá mér þessa síðustu viku og verðum við samferða heim í dag. 

Ég er að selflytja skólabækur í hverri ferð sem fellur svo þetta verði ekki óviðráðanlegt þegar ég útskrifast.  Ég var að tala við eina í gær sem hefur í vetur þurft að kaupa 90 bækur fyrir námskeiðin sín.  Ég hef nú ekki talið mínar en þær ná þó ekki þeim fjölda.  Önnur sem  er að útskrifast eftir  3ja ára nám var að stafla bókunum sínum í bílskottið í fyrradag. Til að nýta plássið notaði hún enga kassa og bara múraði skottið. Það var stappað hjá henni.  Skólinn er á því að nemendur eigi að koma sér upp góðu bókasafni með náminu. Nemendur eru hins vegar ekki allir á því að þessar bækur sem uppálagt er að kaupa séu allar jafn eigulegar. Ég hef athugað með mínar bækur hvort þær séu til á Háskólabókasafninu en svo er yfirleitt ekki. Þar sem þær verða mér ill aðgengilegar eftir útskrift  tek ég þær með heim svo ég eigi nú "gott bókasafn" að námi loknu. Þið vitið þá hvert á að leita eftir aðskiljanlegustu  fróðleiksmolum.
SumarblómSaman við Washington minnismerkiðÍ garði Freer GalleryMamma á Eastern Market


Uppskeruhátið

Nú er vorönninni loksins lokið. Hún hefur gengið ágætlega þó ég hafi stundum þurft að hafa svolítið fyrir hlutunum. Framundan er tveggja vikna frí áður en sumarnámið mitt hefst og verð ég lungann úr pásunni heima. Ég kem á klakann í byrjun næstu viku og fer svo aftur út þann 24. Það verður yndislegt að vera aftur heima hjá sér, drekka vatnið og borða brauðið. Ætli ég eigi ekki eftir að rölta nokkrum sinnum út í bakarí eftir rúnnstykki á morgnana. Ég fær bara bullandi heimþrá eina ferðina enn við það að hugsa um þetta.

Í morgun lauk námskeiðinu um Jobsbók. Þetta hefur verið stórgott námskeið og mig langar til að vinna áfram sjálf með þetta rit. Við sýndum skapandi verkefni okkar út frá ritgerðarvinnunni. Mitt var unnið öfuga leið, þ.e. fyrst setti ég niður umfjöllunarefni og hönnun listaverksins og svo skrifaði ég ritgerðina út frá því. Hér að neðan er mynd af því ásamt tveimur öðrum veggteppum sem ég hef unnið í vetur. Saman mynda þau eina efnislega heild. Hvert um sig er 44x57 cm að stærð. Þetta er listrænn bútasaumur, applikerað og síðan vattstungið fríhendis.

Verkin heita, talið frá vinstri: Consumed, Ruminated, Devoured

Ólöf I. Davíðsdóttir - Listaþrenna


Einörð útsjónarsemi

Hafrar til hagræðisÞað er annað hvort að duga eða drepast í Ameríku. Hér í landi tækifæranna, einstaklingsframtaksins og einkaleyfanna liggur beinast við að redda sér og nota til þess það sem hendi er næst og hugsa ekki um það sem ekki fæst.

Það var þó ekki naglasúpa þetta skiptið heldur vinnuplata við saumavélina mína. Það var algjört basl að vattstinga á fríarminum eingöngu. Vélina keypti ég notaða og henni fylgdi ekki tilheyrandi vinnuplata og sennilega ekki hægt að kaupa hana eina og sér því þessi vélargerð er ekki framleidd lengur. Ég get vel skilið að hún hafi verið tekin úr framleiðslu. Mér hefur ekki gengið svona bölvanlega að fást við nokkra saumavél eins og þessa. Þegar þessir agnúar fóru að koma í ljós runnu á mig tvær grímur og hafði ég áhyggjur af að hafa keypt köttinn í sekknum. Þetta virðist þó allt vera að koma. Þar sem ljóst er að þessi vél er aðeins fyrir þá sem gefast ekki upp hef ég gefið henni nafnið "Einörð". Ég hef líka bakþanka um að gefa hana þegar ég fer einhverju þurfandi nemanda úti í listaskóla. Það gæti orðið til þess að vinda allan kjark úr greyinu sem yrði ekki öfundsverður af gjöfinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband