Skammsýni - myndir

Altaristafla MöðruvallakirkjuÞetta er altaristaflan sem um ræðir. Möðruvallakirkja er ekki bara eitthvert kofatildur heldur bygging með sérstökum einkenni. Ég set inn fleiri myndir svo þið getið séð altaristöfluna í samhengi sínu og dæmt fyrir ykkur sjálf hvað það mundi gera kirkjunni að taka altaristöfluna út.

Ég get skilið að einhver vilji verða sér úti um aur, það er þungur baggi að reka kirkjubyggingar. Það fylgir því ábyrgð að eiga menningarverðmæti. En mér finnst einkennilegt viðhorfið sem fram kemur í fréttinni, haft eftir lögmanni eiganda kirkjunnar: "Þess er getið að altaristaflan hafi hangið á vegg Möðruvallakirkju og þar hafi enginn sýnt henni áhuga. Virðist hún þjóna litlum tilgangi á þeim stað." Kannski eru þessi orð tekin úr samhengi en ef þau geta staðið eins og þau eru sýna þau litla innsýn eða skilning á eðli kirkjubygginga, þess sem þar er inni og þess sem þar fer fram. Altaristöflur einfaldlega hanga á vegg í kirkju. Sá er tilgangur þeirra að þjóna innihaldi helgihaldsins til íhugunar og minningar um þær sögur Biblíunnar sem hver einstök altaristafla vísar til. Það lýsir einfaldlega þekkingarleysi á kirkjumunum að telja þá þjóna litlum tilgangi.

Það er fyrirsláttur í bréfi lögfræðingsins sem segir, "Hér er í raun aðeins verið að skila menningarverðmætum til síns heimalands, eins og átt hefur sér stað með íslenskar minjar sem grannþjóðir okkar hafa skilað til okkar." Þegar menningarverðmætum er skilað til upprunalanda sinna eru þau ekki seld á uppboði. Þeim er einfaldlega skilað. Varla ætlar Christies uppboðshúsið að ákveða hverjir mega kaupa altaristöfluna svo tryggt sé að hún endi ekki á knæpu í Timbúktú. Hún selst hæstbjóðanda.

En kirkjueigandinn virðist ekki hafa hugmyndir um aðra möguleika en að selja það sem fémætt er. Þetta minnir mig svolítið á fólkið sem svarar núna nafnlausum auglýsingum braskara sem kaupa gull og bræða. Ég hef gert mér ferð upp að Möðruvallakirkju til að sjá þessa altaristöflu. Af eðlilegum ástæðum er kirkjan læst. Annað er ekki boðlegt þegar hún inniheldur 15. aldar altaristöflu úr fílabeini. En inn komst ég ekki og altaristöfluna sá ég ekki. Engar upplýsingar voru hjá kirkjunni hvert ég gæti snúið mér til að fá að sjá inn í hana. Ég hefði verið tilbúin að borga fyrir slíka skoðunarferð. Eigandi heldur ekki úti neinni kynningu á kirkjunni og munum hennar, það er engin vefsíða með myndum. Nú þegar þjóðin hefur verið seld í skuldaþrælaánauð af útrásarvíkingum er óþarfi að rífa frá henni menningararfleiðina líka.

Myndir með færslunni eru teknar af Þorsteini H. Ingibergssyni og eru vistaðar á Kirkjunetinu.

Séð inn MöðruvallakirkjuPrédikunarstóll MöðruvallakirkjuAltaristafla MöðruvallakirkjuMöðruvallakirkja, Eyjafirði


mbl.is Altarisbrík ekki úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ólöf, þú veist þetta líklegast betur en ég, en er þetta ekki ein af fjórum alabasturtöflum sem til eru hér á landi og ein af örfáum (8) í heiminum?  Allar voru þær skornar út í Nottingham á 14. öld.  Ein er í Hóladómskirkju og önnur í Þingeyrarkirkju, en ég man ekki hvar sú fjórða er.

Eðlilegasta lausnin á þessu máli er að ríkið eignist kirkjuna og sýni henni og innihaldi hennar þá virðingu sem hún á skilið.

Marinó G. Njálsson, 20.5.2009 kl. 12:41

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta átti að vera að þær voru skornar út í Nottingham á 15. öld.

Marinó G. Njálsson, 20.5.2009 kl. 13:02

3 identicon

Þakka þér kærlega Ólöf, fyrir þessar athugasemdir. Ég fékk algjört sjokk að við að lesa þessa frétt, hélt að svona lagað tíðkaðist ekki lengur hér á landi. Þvílík skammsýni. Þessar alabastursbríkur eru alveg ómetanlegar og eitt af því fáu sem við eigum enn frá því fyrir siðaskipti, komu væntanlega hingað til lands á ensku öldinni svokölluðu. Ég hélt reyndar að það væru einungis 3 slíkar töflur á Íslandi, hef bara heyrt um Hóladómkirkju, Þingeyrarkirkju og Möðruvallakirkju.

Kveðja,
Laufey Erla 

Laufey Erla Jónsdóttir (IP-tala skráð) 20.5.2009 kl. 15:41

4 Smámynd: Baldur Gautur Baldursson

Hér er eiginlega um langa sorglega sögu að ræða, þar sem þetta fyrirbæri "bændakirkja" er á ferðinni. Bændakirkjur eru erfiðar viðfangs og afleiðingar skammsýnnar kirkjustjórnar fyrri tíma.  Engar bændakirkjur ættu að vera til, heldur ættu söfnuðir að vera ábyrgir fyrir kirkjunum sínum sem félagaslegrar eignar.

Um alabasturstöfluna fallegu og sögulegu sem um er rætt, er ljóst að um slíkt fágæti er um að ræða að ríkið ætti (Þjóðminjasafn) ætti að kaupa töfluna. Ef ríkisvaldið vill ekki leggja fjármuni til slíkra kaupa er ljóst að minjastefna þjóðarinnar/ríkissins er verðlaus með öllu. Taflan á ekkert erindi til útlanda. Þar grotna hlutir niður rétt eins og hvar annars staðar. Ljóst er að með því að tryggja töflunni góðu verðugan stað og umönun, um leið að gera hana sýnilegri þjóðinni allri - er sómagjörningur.

Ljóst er að afhelga á kirkjuna á Möðruvöllum. Selja má eða gefa til annarra kirkna innanstokksmuni. Ljóst er að ekki er hægt að halda öllum kirkjum landsins við og í notkun. Fækka verður söfnuðum og þannig hagræða í kirkjustarfi. Einn dag kemur að því að kirkjan verður ein og sjálfstæð og án stuðnings ríkissins.  Þá verður ekki hægt að halda úti öllum núverandi gömlum kirkjum landsins og velja verður úr þær sem eru af þeim byggingarsögulegu verðmætum að þess virði sem að halda þeim við.

Því ber að rannsaka og endurmeta allar kirkjur og búnað þeirra áður en um langt er liðið.  Ég býð krafta mína til slíks starfshóps.

Baldur Gautur Baldursson, 24.5.2009 kl. 18:56

5 identicon

Afhverju á að afhelga kirkjuna þó svo að þessi maður sem keypti jörðina fyrir nokkrum árum geti ekki fundið það í hjarta sínu að veita henni þá virðingu sem hún á skilið. Söfunðurinn sem sækir kirkjuna sýnir henni þá virðingu sem hún á skilið og hefur árum saman séð til þess að henni sé haldið við!

Sara Sigurbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 20:25

6 identicon

Sammála þér Sara.

Afi og amma eiginmanns míns eru grafin í Möðruvallarkirkjugarði, þannig að þessi kirkja sem því miður fylgdi með í kaupunum þegar jörðin var seld skiptir fjölskyldu okkar miklu máli.

Mér finnst ekki rétt að hann Jósep geti gert það sem hann vill við hana!!

Júlía Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 20:41

7 identicon

Sammála þér Sara!

María Sveinsdóttir (IP-tala skráð) 24.5.2009 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband