"Þetta er svo mikið 2007"

LeikfangaeldavélÉg held ég hafi verið að fatta hvernig bankahrunið varð.

Sko, það bilaði hjá okkur bakaraofninn. Við höfum verið að svipast um eftir heppilegri eldavél í staðinn, svona án þess að vera í alvarlegum kauphugleiðingum. Við vildum bara vera tilbúin þegar tækifærið gæfist, geta tekið áhættuna. Svo sá ég vél á föstudaginn. Hún var á lækkuðu verði, 130 þúsund í stað 175 þúsund. Þetta hefði verið sparnaður upp á 45 þúsund krónur. Góð kreppufærni þar.

Nema hvað, eiginmanninum tókst að laga ofninn svo við kaupum ekki eldavélina. Og þá kveikti ég á perunni. Fyrst við kaupum ekki eldavélina og eyðum þar með ekki 130 þúsundum vorum við að græða 130 þúsund! Og ekki nóg með það, við fáum arð upp á 45 þúsund sem er mismunurinn á upprunalega verðinu og lækkaða verðinu.

Nú stofna ég hlutafélag sem er með 130 þúsund króna höfuðstól og 45 þúsund króna viðskiptavild. Gengið á bréfunum er strax komið upp í 1,35 svo þið sjáið að þetta er rakið fjárfestingadæmi. Það gildir einu að ég fékk engar 175 þúsund krónur inn í heimilisbókhaldið því það er draumurinn sem ég er að selja, draumurinn um hina nýju eldavél. Hugsið ykkur bara, þið kaupið hjá mér alla hlutina á genginu 1,35. Þá erum við komin upp í 235 þúsund króna eign. Þið seljið bréfin ykkar aftur á genginu 1,81. Það gerir 427 þúsund krónur. Við verðum óstöðvandi. Það vilja allir kaupa af okkur á þessari siglingu.

Við skulum svo vona að bakaraofninn gefi ekki endanlega upp öndina og við verðum að reiða fram þessar 130 þúsundir sem komu keðjunni af stað því þá breytist draumurinn í martröð. Ég á þær ekki til. Þið lánuðuð mér aurana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband