Færsluflokkur: Bloggar
18.6.2009 | 00:35
Hundakúnstir II
Alltaf má eiga von á að tilveran færi manni upp í hendur ný lærdómstækifæri og ávinninga. Ég fór í meistaranám í guðfræði og lærði að reima skóna mína upp á nýtt. Ég er í klínísku sálgæslunámi og læri að ala upp hund. Í augnablikinu er ég að kenna hundinum að hætta að gelta. Tíkin geltir svo sem ekki upp úr þurru en hún er hávær með eindæmum þegar hún geltir og það syngur í eyrunum á mér. Svo er þetta hvimleitt. Hún er búin að gegna mér þrisvar í röð með því að þagna. Ég var nokkuð hreykin af okkur báðum í gær úti þegar ámóta stór hundur kom á móti okkur handan götunnar. Ég gerði mig klára, stytti í ólinni og hélt þétt í. Mín stökk af stað og gelti. Ég rykkti á móti og gaf skipun. Og hvað haldið þið, kvikindið stoppaði og þagnaði. Hún stóð frosin eitt augnablik uns hún lét undan toginu og gekk aftur af stað með mér. Ég hef áður mætt smárakka með konu á hæð við mig í eftirdragi. Það líktist brimbrettareið, yfir blómabeð og í gegnum limgerði. Ég sá mig í anda og hét því að lenda aldrei í þessu.
Það má hugga sig við það að fái ég ekki vinnu að námi loknu get ég tekið að mér hundagæslu milli þess sem ég stimpla mig inn hjá vinnumiðluninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2009 | 18:02
Naflaló til sölu
Og ekki orð um það meir!
![]() |
Munnvatn fagurra stúlkna til sölu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2009 | 01:10
Notendaþjónusta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2009 | 00:44
Kók og prins
Ég var að kyngja síðasta bitanum af Prins Póló sem ég tók með mér að heiman í maí. Með þessu svolgra ég kók enda fer sá drykkur hvað best með kexinu. Þetta var eins konar björgunarhringur í skúffu sem ég gleymdi þar viljandi til síðari tíma. Í dag rann sú stund upp. Það er eitthvert innflytjendapappírsvesen í gangi á spitalanum vegna þess að spítalinn getur ekki vitað hvort manneskjan sem skrifaði upp á heimild mína til námsins hafi heimild til að gefa heimild. Ég spyr nú bara hvort líkleg sé að lögvottuð stofnun feli einhverjum heimild til að skrifa slíkt bréf sem ekki hefur heimild til þess. Með þennan þvergirðingshátt skrifræðisins á bak við eyrað rölti ég aftur yfir á skrifstofuna mína, opnaði póstinn minn og þá blasti við mér öfugsnúningur pappírsflóðsins á Íslandi. Eftir að hafa sent neyðarskeyti með reykmekki og tilheyrandi á öldum ljósvakans þrammaði ég á fund nokkurra sjúklinga, fékk mér hádegismat og svo á fund verkja- og líknarmeðferðarteymisins og bað þau að skjóta mig.
Og þó, ég fór á þennan fund og hafði gagn og gaman af, þrammaði svo áfram milli sjúklinga og svo í strætó. Tók vitlausan vagn, náði þeim rétta á næstu stöð sem var fastur í umferðaröngþveiti, rölti svo um bæinn á meðan ég beið eftir næsta vagni áfram. Og nú er svo komið að ekkert á eins vel við og Prinsinn og kókið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.6.2009 | 23:51
Kaupæði í Vesturheimi
Það ku vera hægt að gera svo góð kaup í henni Ameríku. Íslendingar virðast flykkjast í mollur og átlett (ef marka má barnaland og bloggsíður) og virðast fátt annað finna sér til dundurs en kaupa aðskiljanlegasta óþarfa á ferðalögum. Óþarfa sem best má kaupa heima en veiðieðlið dregur okkur til að fanga með kreditkortinu á víðfeðmum gólffleti verslunarhúsa hinna bandarísku. Þegar ég fór í klippingu heima í hinu stutta sumarfríi mínu í maí sagði hárskerinn minn að svipast um eftir fagmannasjampóum í venjulegum búðum. Þau fengjust þar fyrir aðeins brot af því verði hársnyrtistofur heima selja þau á, þar með talin stofan sem ég fór á. Fagsjampó má ekki selja í almennum verslunum á Íslandi. Nú hampa ég hróðug lítrabrúsa af umfangsaukandi hársápu frá Broaer fyrir litla 8 dollara. Þetta nær sennilega að endast mér fram að fimmtugu ef vel er á haldið.
Myndin er eftir Anni Morris og er hægt að kaupa sem póstkort hér
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2009 | 14:49
Smátaska
Þessi smátaska, hálfgerður lausavasi, varð morgunverkið í dag. Ég byrjaði á henni í gær og ætlaði að vera enga stund. Engin stund er drjúgur tími. Fötin min eru mörg vasalaus og það verður ómögulegt að vinna þannig á spítalanum. Það þarf að stinga niður skrifblokk, penna og lyklum. Það hefði verið áhugavert að hafa þetta alvöru lausavasa í endurnýjun hefðarinnar en þar sem ég geng aldrei með belti þá varð að vera axlaról í staðinn. Vinnuna og afurðin má sjá á myndunum hér að neðan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.5.2009 | 12:56
Tímans rás
Gleðilega hvítasunnuhátíð!
Í stað þess að fyllast andanum í morgunsárið lá ég og dormaði þangað til ég gat ekki meir og hunskaðist fram úr klukkan átta í morgun. Með tebolla og hrökkbrauð við rúmbríkin las ég morgunfréttinar og rakst þar á þessa grípandi grein um Svefnrof eftir Bergstein Sigurðsson. Þar færir hann rök fyrir því að Íslendingar séu búnir að dorma samfellt frá árinu 1653.
Það gerðist ýmislegt markvert það ár:
Sæmundur Filippusarson settist í próventu hjá Þorláki biskup.
Hamfarir urðu í Stóraflóði (sjávarflóð) á Eyrarbakka, Selvogi og Grindavík.
Nýja Amsterdam fékk borgarréttindi og hollensku landnemarnir hlóðu þar varnarvegg sem gatan Wall Street dregur nafn sitt af.
Bygging holdsveikraspítala hófst á Íslandi og byggingu Taj Mahal á Indlandi lauk.
Oliver Cromwell var settur í embætti.
Landnemar stofnuðu bæinn Dracut í Massachusetts.
Blaise Pascal skrifaði stærðfræðirit um þríhyrninginn.
365 árum síðar sitt ég enn í náttfötunum undir sæng og blogga, nenni ekki á fætur og eyði dýrmætum tíma sem mætti verja til landvinninga og menningarafreka. Næsta verkefni mitt er að bursta í mér tennurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2009 | 10:48
Persónurými
Þetta er merkilegt fyrir Bandaríkin þar sem persónurými (personal space) er tekið mjög alvarlega. Þetta friðhelga svæði sem segir til um hversu nálægt fólk megi koma er mjög stórt, sennilega hið stærsta í heiminum. Þess vegna væri forvitnilegt að vita hvers vegna unglingarnir hafa komið sér upp annars konar líkamssamskiptamynstri. Það er væri líka í takt viðforsjárhyggjuna að banna faðmlög af ætlaðri tillitssemi við þá sem eru ekki faðmaðir. Hin hliðin á þeim rökum er að unglingar sem ekki kæra sig um faðmlög séu ekki þvingaðir til þeirra.
En miklu eðlilegra væri uppfræðsla um virðingarrík líkamssamskipti og um góða snertingu. Líkaminn sem hefur verið markaðssettur grimmt í landi sölufræðanna er yndislegt fyrirbæri. Líkamanum á að beita til góðra verka. Það á ekki að nota hann til að faðma suma til að sýna öðrum útilokun. Það á ekki að nota líkama sinn til að láta öðrum líða illa í eigin skinni eða vegna eigin persónu. Ofbeldi og misbeiting eru líkamlegar aðgerðir sem eiga ekki að líðast og enn síður að tíðkast undir yfirvarpi notalegheita. Líklega er það það sem skólayfirvöld hafa áhyggjur af og með réttu. En það væri gagnlegra að bregðast við með uppfræðslu og að skapa umhverfi þar sem misbeiting hvers konar er ekki liðin.
Snerting var rædd á kynningardögum nýliða á sjúkrahúsinu mínu. Þar var rætt að snerting er óhjákvæmileg í starfi margra. Þar var einnig rætt hve mikilvæg snerting er og hvernig hægt sé að snerta á viðeigandi hátt, m.a. vegna þess að í sumum tilvikum telja heilbrigðisstarfsmenn að snerting sé það sem mest sé þörf á. Það var líka rætt um sjálfsákvörðunarrétt einstaklings til að þiggja eða hafna snertingu. Knúsararnir í hópnum sögðust oft lenda í vandræðum en virtust flestir líta svo á að það væri vandamál hinna sem þeir knúsa. Sessunautur minn á námskeiðinu sagðist lenda í enn meiri vandræðum því hann væri kyssari. Ég skellti upp úr og sagði: "Hugsið ykkur, ég þarf að vinna með honum."
Sjálf verð ég þó að segja eins og er að þrátt fyrir að koma frá landi sem iðkar miklu meiri snertingu og hefur þrengra persónurými en tíðkast í Bandaríkjunum almennt þá hefur mér oft verið brugðið af ágengni ókunnugs fólks gagnvart mínu persónurými. Hér hefur bráðókunnugt fólk vaðið að mér og knúsað mig og kreist undir því yfirskini að það væri að óska mér gleðilegra páska. Ég hafði aldrei séð það áður og vissi ekki einu sinni hvað það hét. Snerting er orðin mér dýrmætari nú þegar ég fær minna af henni, aðkomumanneskja í ókunnu landi og einbúi í þokkabót. Það þýðir þó ekki að allt sé hey í harðindum.
![]() |
Knúsin tímatakmörkuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 3.6.2009 kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.5.2009 | 01:50
Inngangsfræði
Þá er lokið kynningarprógrammi fyrir nýtt starfsfólk á sjúkrahúsinu. Það tók tvo daga að kenna okkur að þvo okkur um hendur og læra hin fjögur grunngildi sjúkrahússins sem ég man ekki í augnablikinu hver eru. Við lærðum svo margt fleira að það hið hálfa væri nóg. Að öllum hálfkæringi slepptum þá voru þetta athyglisverðir tímar og margt sem fylgir mér sem vegarnesti út í sumarnámiþð. Það má Kaninn eiga að hann kann vel á svona kynningar. Svo var þarna líka svo skemmtilegt fólk, nýliðarnir.
National Institutes of Health er ekki aðeins stærsta rannsóknarsjúkrahús landsins heldur líka stærsta 250 rúma sjúkrahúsið. Það á ekki aðeins við um húsakostinn heldur líka starfsmannafjöldann. Í gegnum byggingarnar fara daglega 6000 starfsmenn. Sjúklingarnir eru sérstakir fyrir þær sakir að hafa allir verið valdir inn. Þeir eru sennilega upplýstasti sjúklingahópur landsins og hafa vakandi auga með frammistöðu starfsmanna. Þeir eiga það margir sameiginlegt að þessi staður er þeirra síðasta von, ýmist vegna þess að:
- sjúkdómurinn er það fátíður að meðferð fæst óvíða,
- sjúkdómurinn er svo flókinn að fæst sjúkrahús ráða við umfang meðhöndlunarinnar,
- meðferð hefur ekki enn verið fundin upp eða er á tilraunastigi,
- það er ekki almennilega vitað hvað er að þeim,
- og fleira.
Ég hafði einhvern vegin séð fyrir mér svona "ER" sjónvarpsumhverfi þegar ég færi í þetta nám með svaka hasar og endalausum uppákomum. Þetta er ekki þannig staður. Það koma engir babúbílar brunandi með fólk í andaslitrunum. Samt hefur þetta sjúkrahús stuðlað að lífsbjörg milljóna um allan heim vegna uppgötvana í læknisfræði sem þar hafa orðið. Mér finnst áhugavert að fá að kynnast sjúklingunum sem þar dvelja. Ég hef á tilfinningunni að þeir séu hörkutól sem geti kennt mér margt. Það kom líka á daginn á námskeiðinu að þetta er eitt af grunnviðhorfum sjúkrahússins - við lærum af sjúklingunum.
Á mánudaginn hefst svo sálgæslunámið. Pappírsvinnunni er víst engan vegin ólokið. Seinni læknisskoðunin af tveimur er á morgun. Það hittir mig reyndar enginn læknir, heldur hjúkrunarfræðíngur sem er búinn að stinga mig nokkrum sinnum, ýmist til að sprauta einhverju í mig eða draga eitthvað úr mér. Mér var boðið upp á að láta geyma einhvern blóðhluta mér að kostnaðarlausu í 10 ár sem nota mætti sem grunnlínu til samanburðar ef ég veiktist og þyrfti slíka samanburðar rannsókn. Ég sá ekki fyrir mér að sena úr "Dr. House" yrði veruleiki í minni tilveru svo ég afþakkaði, aðallega vegna þess að ég er eitthvað tortryggin á lífsýnasöfnun.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2009 | 10:38
Fljóðið frækna
Á afrekum mínum ætlar enginn endir að verða. Óhöpp morgunsins, (ég skar mig og brenndi mig - já, og marði mig í gærkvöldi) blikna í samanburði við þrekvirkið í gær - að ganga út í búð í úthverfalandi sem hefur ekki gangstéttir þó svo strætisvagnastoppistöðvar standi eins og tanngarður eftir götunni endilangri. Það er sniðið af vegöxlunum með óbrotinni línu og þar hjólaði fólk eins og það ætti heiminn. Svo ég álít að þar megi ég ganga líka. Þó leiðin sé ekki nema 2,3 kílómetrar tók það mig hálftíma að ganga þetta í hitanum. Bakaleiðin tók meira á, með fulla hjólatrillu af varningi og á endanum með regnhlíf í annarri hendi í kappi við þrumurnar sem færðust nær og nær. Hvern langar að standa úti í þrumuveðri með regnhlíf? Það er ekki gáfulegt.
Í dag eru það svo formsatriðin vegna sumarnámsins. Dagurinn hefst á venjubundinni læknisskoðun og svo er tveggja daga kynning fyrir nýtt starfsfólk og sjálfboðaliða (það er ég samkvæmt samningnum, reyndar "special volunteer"). Ég fékk send eyðublöð til útfyllingar vegna læknisskoðunarinnar og þau voru ámóta ítarleg og þessi sem ég fyllti út á sínum tíma þegar ég keypti mér líftryggingu. En nú veit ég ekki hvort ég á að fylla þau út eða ekki því fylgibréfið sagði mér að fylla þau út en þegar ég pantaði tímann í skoðunina komst allt í uppnám vegna þess að ég var með eyðublöðin. Skrifstofa læknisins átti víst að fá þau. Það er skrítið. Í þokkabót sagði skrifstofan að þessara upplýsinga sé ekki óskað fyrir sumarfólkið svo ég eigi að koma með eyðublöðin óútfyllt. Skrifstofustjóri sálgæsludeildarinnar sagðist bara leysa þetta með því að senda læknastofunni annað einstak og ég gæti tekið mitt með ef þau skildu týna sínu. Þessi lausn fannst mér jaðra við íslenska skilvirkni.
Einu áhyggjurnar mínar þessa stundina er rigningin úti. Það er búið að rigna viðstöðulaust síðan ég vaknaði klukkan fimm. Það verður ekki gaman að rölta í regnfötunum lengri vegalengdir, með engar gangstéttir, alveg upp við umferðina. Og þó ég taki strætó þá eru engin biðskýli. Ég verð því eins og hundur af sundi dregin þegar ég arka inn á National Institutes of Health. Kannski vissara að vera með aukaföt í poka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)