Færsluflokkur: Bloggar

Atlaga að öryggi almennings

Fyrirsögnin á færslunni minni segir allt sem segja þarf um mitt álit á þessu skemmdarverki. Ég vona að hinir seku náist.
mbl.is Vargar rústuðu æfingasvæði SHS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á veiðum

Ólöf I. Davíðsdóttir: DevouredVegglistaverkið mitt um Jobsbók er nú komið saman þó gerð þess sé ekki lokið. Hér til hliðar er mynd af hluta þess. Þemað er Guð sem óvinur og sækir myndmálið í líkingu ljónsins og í hebresku sögnina [bala] sem þýðir að kyngja. Hún er notuð í merkingunni að eyða eða tortíma og þannig þýdd úr hebresku. Þetta er svo "nördalegt" að hið hálfa væri nóg en að gera svo listaverk í ofanálag strokar út allan kúristahátt svo eftir stendur svalur pakki.

Það sem eftir stendur af verkefnum annarinnar er lokaritgerðin í Jobsbók og lokapróf í listasögu. Mér finnst þetta svo lítið að ég hef mestar áhyggjur af að ég sé að gleyma einhverju. Ég á reyndar eftir að klára (man það núna) vinnubók sem á að fylgja listaverkinu sem ég sagði frá í síðustu færslu en hún er nú svo langt komin að það er bara handavinna eftir.

Ég stend núna í stappi við fjármálaskrifstofuna að endurgreiða mér námskeið sem ég sagði mig úr. Það strandar á því að "the system" segir að allt standi á núlli og því eigi ég ekkert inni. "The system" virðist ekki kippa sér upp við að ég hef borgað 15 einingar en tek 13 einingar. "The system" leysti það á einhvern undursamlegan sjálfvirkan hátt með því að skrá á mig námskeið sem ég veit ekki einu sinni til þess að sé til. Starfsfólk skrifstofunnar horfir á mig bláeygt og segir að samt sé allt í lagi hjá kerfinu. Á tíu daga tímabili hafa þau ekki enn haft tíma til að fara yfir reikninginn, villuleita og leiðrétta. Svo í dag rölti ég yfir í nemendaskrána (sem er hinu megin við skilrúmið) og fékk afritið af úrsögninni úr einingunum tveimur. Þar var mér sagt í óspurðum fréttum að fjármálaskrifstofan hafi ekki óskað eftir að fá að sjá þessa skráningu (sem staðfestir að það er akkúrat ekkert búið að gera í málinu). Sem betur fer er úrskráningin dagstimpluð. Það má Kaninn eiga að hann er reglugerðarsnati. Samkvæmt sömu reglugerðardrægni varð ég að skrifa á snifsi beiðni um að fá afrit af gögnunum mínum - samkvæmt alríkislögum. Svo er nemendur búnir að vara mig við því láta greiða mismuninn út. Ég skuli bara láta hann standa inni á reikningnum mínum til næsta misseris því annars skrái "the system" mig sjálfkrafa úr námi við skólann, úr öllum námskeiðum, lokar öllum aðgangi mínum og gerir lífmitt að svartri kómedíu næstu vikurnar.


Vorverkin

Ruminated - hlutamynd

Þetta hefur verið ágæt vinnuhelgi, þrátt fyrir kvef og góðviðri sem toga í krafta mína hvort í sína áttina. Ég saumaði saman veggteppi fyrir námskeiðið "Art as Worship, Worship as Art" í dag. Eftir er að leggja það saman með vatti, stinga og sauma svo bryddingu. Myndin er af hluta verksins. Það kallast á við annað verk sem ég gerði á síðustu önn, "Consumed". Þriðja verkið verður svo fyrir ritskýringarnámskeiðið í Jobsbók. Það verður síðasta stykkð af þrennu. Öll þrjú verkin mynda eina heild.

Jobsbókarnámskeiðið hefur verið áhugavert og mörgum steinum verið velt við þar. Hitt námskeiðið um list og tilbeiðslu hefur verið svona la,la. Þar skrifum við um heimalesturinn í hverri viku og skilum inn og hef ég leyft mér að láta allt fjúka enda kemur þetta ekki fyrir annarra augu en kennarans. En svo spjöllum við líka um viðbrögð okkar og ég gekk gjörsamlega fram af hópnum einu sinni þegar ég sagði að mér þætti viðkomandi listaverk hreinasta rusl og lágkúra kristninnar. Það fór náttúrulega þvert fyrir brjóstið á bekkjarfélögum mínum sem tilkynntu mér að sumum gæti nú fundist þetta gott og göfugt og það væri fullt af fólki sem finndist þetta frábært. Ég tók alveg undir að það gæti svo sem vel verið en það breytti ekki því að mér finndist þetta áfram klént og stæði við það. Það er stundum erfitt að hafa hugsjónir hér, nema maður geti límt því við að guð hafi sagt manni það. Ég á bara afskaplega bágt með að klína því sem ég segi upp á guð. Einhvern vegin þykir mér ábyrgara að hafa sjálf algjörlega rangt fyrir mér og gangast við því. En það er nú bara einu sinni ég.

Mín undarlegustu endaskipti á tilverunni hafa fengið góðar undirtektir í Jobsbókarnámskeiðinu, þ.e. frá kennaranum, þegar nemendur hafa horft á mig stórum augum - hvað er konan að segja - eins og þegar ég lét út úr mér að kannski hafi sköpunin aldrei verið fullkominn heldur aðeins góð. Guð leit á allt sem hann hafði gert og sá að það var harla gott. Að fullkomleikahugsunin sé okkar uppfinning ásamt skilgreining hennar. Eina leiðin til að fullkomleiki gangi upp er að hugsa hann sem heild, að vera heill. Það er nefnilega hægt að vera heill þó mikið vanti upp á.

Og nú er þessi útúrdúr minn kominn á netið og hverfur þaðan aldrei aftur eftir að ég hef ýtt á "vista og birta". Ég ætla að vista þessa hugsun með mér og vona að hún eigi eftir að birta upp tilveruna hjá mér þegar ég þarfnast þess mest.

Mín eigin hugleiðing um Jobsbók á námskeiðinu er hér, "A good enough god". Hún er á ensku og þykir mér leitt að hafa hana ekki í íslenskri þýðingu.


Vorvindar glaðir

MálshátturNú er vorið loksins komið til að vera hér í DiSí. Það var yndislegur dagur í dag, 23 stiga hiti og skordýrin ekki komin á kreik. Fólk talar um að þetta sé besti árstíminn. Ég er nú samt búin að kaupa mér flugnafælu því allur er varinn góður.

Ég hef góðar fréttir að færa og valhoppa innan í mér yfir þeim. Ég fékk inni í klínísku sálgæslunámi (CPE, Clinical Pastoral Education) í nágrenninu í sumar. Svo ég kem bara heim í stutt frí eftir að önninni lýkur og fer svo aftur út yfir sumarið. Skólasystir mín bauð mér að búa á heimili hennar á meðan svo ég slepp héðan út af vistinni. Það verður langþráð hvíld. Með í pakkanum fylgja hundur og köttur sem ég passa í leiðinni. Ég hef aldrei átt hund né kött, veit varla hvort geltir eða mjálmar. Kötturinn er reyndar sjálfvirkur, hann vill bara éta en að öðru leyti vera látinn í friði. Hundurinn er óþjálfaður en svo latur að það kemur ekki verulega að sök nema hann ræðst á allt matarkyns sem liggur á glámbekk og lætur engar umbúðir standa í vegi fyrir sér.

Páskaeggið mitt var hið besta og fyrst og fremst vegna þess að ég borðaði það ekki ein heldur í góðum félagsskap sonarins sem kom færandi hendi frá Íslandi. Eftir situr málshátturinn á rafmagnsrofanum á veggnum ofan við skrifborðið mitt: "Eftir vinnunni fara verkalaunin". Þetta gæti ekki átt betur við en einmitt núna á lokaspretti annarinnar. Í dag skilaði ég myndarlegri ritgerð í listasögu og nú leggst ég yfir ritskýringarritgerð um Jobsbók - með snúning. Við eigum að skrifa ritgerð og setja svo saman listræna eða skapandi útfærslu á framsetningu efnisins. Ég fór öfuga leið, hannað listaverk með þema í huga og svo verður ritgerðin ritskýring á listaverkinu með hliðsjón af Jobsbók. Þetta er bara spurning um hvaða kveikjan kemur. Við horfðum í kvöld á nemendauppfærslu skólans á þekktu leikriti um Jobsbók, J.B., sem flutt hefur verið á Broadway, og verður það tekið fyrir í næsta tíma. Við erum búin með námsefni annarinnar á þessu námskeiði svo framundan er uppgjör á afrakstrinum.


Sumarlán fyrir suma?

Skyldi verða sami handabakavinnugangurinn á þeirri úthlutun eins og neyðarlánunum sem urðu svo ekkert nema neyðarleg og að sumarlánin verði bara fyrir suma? Skólinn hér úti býður upp á sumarönn en þar sem hún er ekki skylduönn er hún ekki lánshæf út af fyrir sig. Eftir á get ég sótt um aukalán út á þær einingar þannig að þær bætist þá við síðasta skólaár eða leggist við hið næsta. Ég sé fyrir mér að LÍN hengi sig í úthlutunarreglurnar þannig að það fái ekki allir sumarlán sem stunda nám í sumar.
mbl.is 600 milljónir til sumarnáms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upprisinn er hann, húrra, húrra!

PáskaeggKristur er upprisinn! Hann er sannarlega upprisinn!

Sonurinn kom færandi hengi og gaf mér þetta páskaegg að heiman. Ég get fullvissað ykkur um það að eggið var í fínu lagi, súkkulaðið bragðgott og Nói gamli hefur engu gleymt.

Í bígerð er að fara í páskamessu klukkan ellefu og borða þar svo snarl á eftir. 


Eggjandi viðskipti

Páskaegg á faraldsfætiÞað var eins gott að íslensku páskaeggin tengjast ekki hvalveiðum því annars hefðu þau ekki fengist í Whole Foods eins og þessi sem blasa við á besta stað í augnhæð.

Þau kosta $5.60 stykkið með virðisaukaskatti.


Allt í blóma, sóma

Yðar einlæg stendur í ströngu þessa dagana að komast yfir að vinna ýmis konar skilaverkefni. Verst er þó staðan á 15 síðna lokaritgerð í listasögu sem gengur ekkert að byrja að skrifa því eftir að heimildavinnu var að mestu lokið fór kennarinn að demba yfir okkur smáverkefnum, samtals fjórum blaðsíðum með rausnarlegu aukalesefni, á síðustu tveimur vikunum fyrir ritgerðarskilin. Ég er svo innilega að tapa mér yfir þessu að hið hálfa væri nóg. Í gær þrammaði ég um háskólasvæði AU í leit að þessum kennara og nokkrum framhaldsnemum sem ég átti að hitta á sérfundi til að ræða úrlausnir okkar framhaldsnemanna. Herbergið sem tilgreint var fyrir fundinn, númer 312, er ekki til! Starfsmenn byggingarinnar sögðu mér að herbergi 312 væri ekki til og enginn fundur væri bókaður í húsinu öllu á þessum tíma. Eftir að hafa sent bæði kennara og einni samstúdínu minni skeyti fékk ég til baka að þau hefðu vissulega hittst í herbergi 312. Þetta minnir mig á hryllingsmynd sem heitir "18th floor" þar sem 18 hæð í húsi birtist og hvarf fyrir útvalda sem hurfu svo eftir að ramba þangað upp. Svo kannski slapp ég með skrekkinn og má prísa mig sæla. Það kemur þá í ljós í næsta tíma.

Hátíð kirsuberjaknúppanna stendur nú sem hæst og trén í fullum blóma. Ég fór niður í bæ um helgina ásamt yngri syninum sem er í heimsókn hjá mér í páskafríinu sínu. Það var stappað af fólki niðri við minnismerki Jefferson þar sem trén standa þétt meðfram tjörninni og mikil stórborgarstemming. Þetta minnti okkur mæðginin á 17. júní heima á góðviðrisdegi. Ég rakst á Íslandsvinkonu og ljósafrömuð og var ekki lengi að skella upp sólgleraugunum í allri flassbirtunni.

SólgleraugnagellurMæðgininUndir blómaskrúð


Grannaglens

KaffibolliHann er líka hjartanlega velkominn í kaffi til mín ef hann vill skjótast á milli funda enda í næst nágrenni. Ég á Síríus suðusúkkulaði sem bráðnar ljúflega í munni með amerísku skyndikaffi og gerir allt gott.
mbl.is Obama vill til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halló! Er einhver heima?

Einu sinni hélt ég að ég gæti ekki orðið Ungfrú Alheimur af því að ég er bara 153 sentimetrar á hæð. En nú sýnist mér þurfa eitthvað það til að bera sem ég get ómögulega fundið í eigin ranni. Þessi ummæli toppa alla þá skömm sem fegurðarkeppnir hafa á sér í huga sumra sem gripasýning. Ég hef ekki þá trú að nokkur önnur sem verið hefur handhafi titilsins léti sér koma til hugar að falla í stafi yfir hermannabar og baðströnd illræmdustu fangabúða vestræns réttarríkis. Hún hefði þá sennilega viljað setjast að í Gúlaginu.
mbl.is Ungfrú alheimur hrifin af Guantánamo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband