Færsluflokkur: Bloggar

Í mínum mátunarklefa

Mátun 1Mátun 2

 

 

 

 

 

 

 

 

Það ofgerir ekki taugunum að máta eigin sköpun. Ætli það sé ekki bara komið nafn á vinnuherbergið: mátunarklefinn. Ég dró fram gamlar syndir sem útleggst UFOs á máli saumfólks, Un-Finished-Objects, á útl-ensku. Þessir samsettu bútar hafa beðið upprisunnar því þá hefur vantað heppilega umgjörð. Ég raðaði þeim upp á gólfinu og henti hinum og þessum efnisvöndlum ofan á til að heyra hvað þeir segðu hver við annan. Röddin í höfðinu á mér sagði, "gult, gult, gult". Lesandinn athugi að litir bjagast við myndatöku og svo aftur á skjánum. Þessar myndir eru því ekki líkar því sem liggur á borðinu fyrir framan mig en sem nemur forminu. Gult er orðið drappað hér.

Nú er næst á dagskrá að strauja allt saman og leggja aftur saman. Það er ótrúlegt hvað áferð efnis breytist við það eitt að sléttast. Það er ekki skrítið að stjörnurnar flykkist í botox.


Buxur, vesti, brók og skór

DúkkulísaDúkkulísur voru í miklu uppáhaldi hjá mér í æsku. Ég átti virkilega flottar dúkkulísur. Eitt settið hafði mynd bæði á framhlið og bakhlið og svo var lísan með "alvöru" hár. Svo átti ég sett með frægum kvikmyndastjörnum fornaldar í Suðurríkjarjómatertukjólum í anda Scarlett O'Hara. Ég átti Addams fjölskylduna í dúkkulísum. Á tímabili voru dúkkulísur á haframjölspökkum sem innfluttir voru frá Danmörku og rak ég mjög á eftir fólki með að klára úr þessum pökkum svo hægt væri að kaupa nýja. Ég hins vegar borðaði ekki haframjöl.

Við stelpurnar lékum okkur daginn út og daginn inn með þetta ráðstjórnarríki okkar og teiknuðum líka sjálfar föt á dúkkulísurnar. Dótið fór að lokum veg allrar veraldar, eins og ráðstjórnarríkin. Ef einhver fær fortíðarkláða má smella hér og þá opnast vefsíða með gagnvirkum dúkkulísum sem hægt er að klæða á skjánum.

Mér varð hugsað til þessa bernskuleiks þegar ég fór í fataskoðun á höfuðborgarsvæðinu í dag. Útsölurnar eru svona á síðasta snúningi en ég ætlaði að athuga hvort ég sæi eitthvað sem mér hugnast að klæðast við útskriftina í febrúar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekki gaman að kaupa föt. Mér finnst gaman að eignast ný föt en að finna það sem mig langar að vera í er allt annar handleggur. Þegar ég er loksins komin kófsveitt með nokkrar flíkur inn í mátunarklefann er ég eiginlega ekki lengur í stuði, allra síst til að hátta mig. Mátunarklefar eru bara flestir óhentugir. Það vantar snaga, það vanta stól og það vantar hillu fyrir töskuna mína. Svo þegar ég er loksins komin í eitthvað stendur hárið á mér rafmagnað út í loftið, buxnaskálmarnar svo alltof langar að þær liggja inn í næsta mátunarklefa og ermarnar svo síðar að það væri hægt að hnýta þær aftur fyrir bak í spennutreyjustíl. Ég hef sjaldnast þol til að máta meira en tvo umganga í sömu ferðinni. Ný föt eignast ég því ekki oft.

Útsölur eru sérkapítuli út af fyrir sig. Ég hef ekki taugar í meiri upprifjun í bili.


Konan sem kyndir ofninn sinn

VinnuborðGærdagurinn hófst í hyllingum góðra fyrirheita. Ég lagðist svo á árar til að sækja á miðin. Fyrsta bráðin var vinnuborðið undir uppsöfnuðum vanda. Það er nú ekki djúpt á því, aðallega að þar bíði hlutir sem hafa ekki eignast samastað. Nú er ég komin niður á verkið sem ég byrjaði á sl. sumar en lagðist svo í dvala þegar saumakonunni varð fyrirmunað að sitja á rassinum. Gólfið er nú autt, áltrappan er orðin að stofustássi og saumavélin hefur endurheimt sinn réttmæta sess á skrifborðinu.

Svona rétt til að rifja upp handtökin gerði ég við rifna skálm á uppáhaldsbuxum unglingsins og fann að ég hef engu gleymt. Húsbandið sagði bara Vá! þar sem hann stóð í dyrunum þegar hann kom heim.  Eða sá hann kannski vá fyrir dyrum? Að það rynni saumaæði á konuna? Alla vega yrði þungum áhyggjum af unglingnum létt ef ég sæti við saumavélina því mér varð það á að sitja við tölvuinnslátt þegar hann kom heim úr skólanum og sagði með þeirri vanþóknun sem unglingum einum er lagin: "Þú ert þó ekki farin að læra aftur?"

Það var ætlunin að taka í dag upp þráðinn þar sem frá var horfið í gær en það fór fyrir lítið í fjölbreyttu snatti. Ég fór á kynningarfund um hugbúnað snemma í morgun og á leiðinni hlustaði ég á einstaklega áhugavert viðtal við Kristínu Gunnlaugsdóttur sem er nýkjörin bæjarlistakona Seltjarnarness. Ég trúði henni alveg þegar hún talaði um glamúrleysi listamannslífsins.

Svo kom klukkutíma gat sem fór í bensínkaup, bílastæðisleit og göngu á fund í klukkutíma. Þá kom hálftímagat á næsta stefnumót sem fór út um þúfur, svo klukkutíma bið eftir næsta erindi. Loks komst ég heim á leið, keypti fisk í matinn og kippti rennblautri gólfmottunni úr bílnum með mér inn. Ég man ekki einu sinni hvort ég hafði fyrir því að fara úr skónum áður en ég kveikti á katlinum. Mmm... heitt te og heimabökuð marmarakaka síðan í gær - best daginn eftir.


Ekki verður bókvitið í askana látið

Confetti naturaleÞetta orðatiltæki á rætur sínar að rekja til þess uppátækis er Íslendingar reyndu að endurvinna fornhandritin á harðindaárunum og þóttu þau ill til átu. Eða þannig!

Þar kom að því - ég varð að standa við stóru orðin! Týna alla sneplana út úr bókunum og eta þá. Mér þóttu þeir hvorki góðir til að eta af né fagrir á að líta þó þeir hafi merkt við það sem mér þótti girnilegt til fróðleiks í skruddunum. Ég reyndi að flikka upp á senuna með borðbúnaði og blómum en þornaði í munninum við tilhugsunina í stað þess að munnvatnskirtlarnir settu sig í startholurnar. Límið á rifrildunum reyndist enginn bragðbætir.

Ég verð þó að viðurkenna að ég leifði nokkrum sem áfram fá að sitja á síðubrúnum til að varða nokkra gullmola sem ég kem annars aldrei til með að finna aftur í bókastaflanum.

BA ritgerðinni var endanlega skilað í morgun.

Ég er búin í háskólanum! 

 

 


Sælir eru einfaldir ...

... því þeir munu sáttir verða.

Er hægt að nota svona merkjavöru? Lendir enginn annar í því en ég að hurðarnar á bílnum manns séu dældaðar og rispaðar eftir aðra bíla á bílastæðum, að ekið sé utan í stuðarana og þeir brotnir, að fá malarhríð yfir bílinn þegar öðrum er mætt, að óþekkir krakkar mylji súkkulaði niður í sætisáklæðið? Ef ég ætti svona dýran bíl mundi ég aldrei tíma að taka hann úr kassanum heldur fá mér barmnælu sem á stendur: "Ég á Land Cruiser 200" - og taka svo strætó.


mbl.is Kreppuspár stöðva ekki lúxusbílasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á öfugum kili

SkólabækurEftir að ég hafði skilað inn lokaritgerðinni í heild sinni til yfirlestrar varð mér starsýnt á bækurnar sem hafa fylgt mér í náminu undanfarin ár. Þetta eru bækurnar sem ég valdi mér sjálf að lesa þó mér hafi nú svo sem gagnast ein og ein af skyldulesningunni líka við ritgerðarskrifin. Ég hugsaði með mér hvað það væri nú flott að taka mynd af öllu knippinu en fannst það frekar geld hugmynd svo ég sneri þeim við. Svona líta þær þó út fyrir að hafa verið lesnar. Þegar lokaskil hafa farið fram mun ég losa alla límmiðana úr og éta þá. Ég gæti trúað að trefjarnar geri mér gott.

Kjarnakona - kona í kjarna

Moon MotherhoddTilvalið að hefja árið á mjúkrum og íhugulum nótum.

Til undirleiks þessi fortíðarsmellur með "The Mamas and the Papas" - "Meditation Mama" um ferðalag handanveru konunnar.

Smella á örina til að hlusta:

Textinn hér fyrir neðan:

 

 

Completely, good love for me

Up and down the western coast
In and out of bounds
Searching for her eastern ghost
And his magic fountain

Always just a thought behind
Never there beside her
Mojo daddy doesn’t mind
He knows he’s inside her

Transcendental mama travels
Feet barely touch the ground
You know the world goes around
For her sweet love

Completely, good love for me

Transcendental mama travels
Feet barely touch the ground
Time don’t mean a thing
Except that the world goes around

Meditation woman
Rather walk than ride
Never really quite convinced
She’s not supposed to fly

Mojo daddy mystic
Wants both feet on the ground
Meditation mama
Keeps them spinning around
For her sweet love
 

(Lag og texti: John Phillips & Lou Adler)

 


Ég er púðurkelling

StjörnuljósÞað verður lítið um sprengingar á þessu heimili um áramótin. Það er þó ekki veðrið sem setur strik í reikninginn heldur breyttur smekkur forráðamanns fjölskyldunnar (þ.e. unglingsins). Feðgarnir fóru í fyrra í hin árlegu stórinnkaup og þegar heim kom sagði hinn upprennandi unglingur mér að það hefði runnið upp fyrir sér er hann settist inn í bíl með pokana að hann hefði ekkert gaman af flugeldum. Móðurhjarta mínu létti stórum því ég áttaði mig samstundis á því að stórlega drægi úr líkum á flugeldaáverkum með tilheyrandi örkumlum yfirvofandi.

Nú um jólin tilkynnti hann svo að þetta árið vildi hann ekkert púður. Við foreldrarnir mættum kaupa okkur eitthvað smávegis en við skyldum ekki halda að hann kveikti í því fyrir okkur, við yrðum að bjarga okkur sjálf. Ég kímdi nú því það hefur mikið til verið á minni könnu að kveikja í herlegheitunum og egna aðra til hins saman og haft gaman af. Mér kemur ekki til hugar að kaupa flugelda. Eldri sonurinn hefur verið á kafi í sölumennsku árum saman með björgunarsveitinni og varið gríðarlegum fjármunum í skotfærin. Bróðir minn hefur verið undir sömu sökina seldur og fært heim lifandis býsn af bombum. Ég hef því mátt hafa mig alla við í gegnum árin en það hefur varla séð högg á vatni á nýársdag. 

Í fyrra sáum við fram á að verða að sjá um þetta sjálf vegna fjarveru hinna og vorum bara mjög hófsöm þrátt fyrir mikinn þrýsting frá náskyldum sölumönnum. Samt kvörtuðu nágrannar okkar undan því að við vektum börnin þeirra með restinni eftir kvöldmat á þrettándann. Til að ganga ekki fram af unglingnum né nágrönnunum eru birgðirnar í ár aðeins þetta: ein raketta, ein smáterta, tvö gos, tvö bengalblys, tvö kúlublys, þrír pakkar af stjörnuljósum og öryggisgleraugu.

Munið eftir öryggisgleraugunum! 


Grafarræningjar!

Við heyrum um ökumenn sem aka óþolinmóðir í gegnum lokaðan slysavettvang. Verður næsta skrefið að stela úr bílum fórnarlamba umferðarslysa og frá þeim sjálfum á meðan beðið er komu sjúkraliðs og lögreglu?

mbl.is Stolið frá lögreglunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Toblerone án Toblerone

Toblerone pæÉg áttaði mig á því að jólahefð hefur ekki komist á fyrr en einhver í fjölskyldunni segir, "verður ekki svona eins og venjulega". Þannig er það með eftirrétt aðfangadagskvölds á þessu heimili. Ég áttaði mig líka á að sú hefð hvílir á margfaldri vöntun:

1. Aðalhráefnið er ekki fáanlegt.

2. Ég kann ekki uppskriftina og þarf alltaf að leita að henni.

3. Ég tel mig alltaf eiga það sem þarf þegar ég ætla að búa hann til en kemst að raun um að svo er ekki þegar ég hef fundið uppskriftina.

4. Ég fer ekki eftir uppskriftinni þegar ég hef fundið hana frekar en öðrum uppskriftum, hvort heldur þær eru um matreiðslu eða önnur fyrirbæri í lífinu.Toblerone

Þar sem ég lagði ekki í að taka til i geymslunni á Þorláksmessu til þess að finna eina uppskrift leitaði ég á Netinu en fann hana aðeins á útrunninni vefsíðu sem kom ekki upp. En þar sem  Netið er eins og svarthol sleppir það engu frá sér sem einu sinni hefur ratað þangað inn. Með því að sækja afrit síðunnar í óravíddum sýndarheimsins gat ég sparað mér björgunarleiðangur í neðri kjallara fjölbýlishússins. Til að gera aftur aðgengilega uppskrift að því sem ekki er lengur til ætla ég að setja hana hér inn í minni útfærslu: Uppskrift að Tobleronerýru Toblerone-pæ

Ég lýsi hér með eftir bláu Toblerone sem ég er reiðubúin að greiða fyrir með nánast hverju sem er.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband