Færsluflokkur: Bloggar

Kaos í kosmos

Vinnuherbergið mitt er í rúst eftir að ég saumaði lítið prufustykki, 17x20 cm. Í því eru 6 mismunandi efni ásamt undirlagi og til að velja þau fór allt á flot. Svo þarf pappír, líka vaxpappír, það þarf glæru, tússpenna, blýant, strokleður, pappírsskæri, tauskæri, straujárn, straubretti, títuprjóna, tvinna og svo saumavél. Ég prófaði nýjan tvinna, Madeira Polyneon 40, við niðursaum á stykkjunum með blindföldunarspori og þarf að prófa mig áfram með hentuga nál fyrir hann. Það kallar á fleiri prufustykki. Það dugar ekki að setja tusku í saumavélina og sauma beint spor. Það verður að prófa tvinnann í sams konar verki og maður ætlar að nota hann í.

Prufuvinna - Ólöf I. DavíðsdóttirPrufuvinna - Ólöf I. DavíðsdóttirPrufuvinna - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Eiginlega er tvinni farinn að skipta mig meira máli en efnin sem ég sauma úr. Þennan tvinna fékk ég hjá B. Ingvarsson við Bíldshöfða 18. Ég nota eingöngu pólyestertvinna við að sauma saman stykki. Hann er yfirleitt fíngerðari en bómullartvinni og því leggst saumfarið betur niður. Varðandi stungutvinna, þá gildir mig eigu úr hverju hann er. Þar skipta litur og áferð máli en mest af öllu að tvinninn trosni ekki og slitni. Sá besti sem ég hef komist í er Isacord Polyester Embroidery Thread. Hann fæst ekki hér á landi en ég hef keypt mér nokkur kefli að utan til að prófa. Ef Madeira tvinninn stendur sig munu málin einfaldast til muna því þá get ég stokkið út í búð með efnisprufu og fengið þann tvinna sem helst passar í stað þess að panta eftir númerum og bíða eftir tvinnanum.

Aðferðina sem ég nota lærði ég af bók eftir Vikki Pignatelli, Quilting Curves. Hún hentar minni hönnun mjög vel þar sem ég nota mikið sveigðar línur og þegar formin verða að passa nákvæmlega saman kemur þetta best út. Þetta er ekki erfið aðferð þó handtökin séu mörg en krefst vandvirkni og úthalds. Ég sauma því stutta stund í einu og afkasta engin ósköp. Þó ég tauti af og til hvernig í ósköpunum mér datt í hug að byrja á þessu þá gleður árangurinn mig ósegjanlega í bland við andvarpið yfir því að ég verði seint búin að þessu. Þetta er fyrsta stórvirkið sem ég legg í eftir að ég varð að þróa aðrar leiðir til að sauma en sitja við vélina. Nákvæmnisvinnan tekur á svo verkin verða þá bara að taka þann tíma sem þau þurfa.


Bolur úr afskurði

Þessi bolur er sniðinn úr afskurði eftir kjólasaum. Efnið var gallað þannig að prentun mynstursins stóðst ekki á nema eftir miðju efnisstrangans endilöngum. Kjólinn var því sniðinn úr miðjunni á sínum tíma. Afskurðurinn dugði í síðerma bol. Það er þó það samræmi í flíkinni að mynstrið er alls staðar bjagað sem er vissulega sjarmerandi á sinn hátt. Þetta framtak flokkast undir hagsýni og nýtri. Í stað þess að falda hálsmál og ermar saumaði ég efnisræmu niður með jöðrunum. Það brotnar upp á ræmuna af sjálfu sér svo hún gefur bolnum örlítið sérkenni. Bolurinn er ófaldaður neðst. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að faldurinn rakni upp því svona prjónajersey heldur sér ágætlega sjálft. Til að tryggja saumana á loksaumnum fór ég ofan í þá með nokkrum sporum í heimilissaumavélinni.

Bolur úr afskurði - Ólöf I. DavíðsdóttirBolur úr afskurði - Ólöf I. Davíðsdóttir

 


Flikkað upp á flík

Bolur - Ólöf I. DavíðsdóttirÞessi bolur var sestur í helgan stein, kominn með fastan blett eftir augnháralitun og orðinn stuttur og breiður eftir marga þvotta. Ég vildi ekki fleygja honum því það er gott að vera í honum og flíkin heil að öðru leyti. Svo hann fékk andlitslyftingu. Hann var þrengdur og fékk á sig nokkur taublóm.

Ég sneið utan af hliðunum og það sem skarst af sneið ég í ræmur. Ég renndi öðrum jaðrinum á þeim í gegnum loksaumvélina. Síðan saumaði ég rykkingu í hinn jaðarinn og dró hana saman. Ræmurnar saumaði ég á bolinn í spíral og stakk þar undir skrautböndum sem áður héngu niður við faldinn á bolnum. Svo saumaði ég hliðarnar saman í loksaumvélinni. Toppurinn er nánast eins og nýr.

 

Bolur - Ólöf I. DavíðsdóttirBolur - Ólöf I. DavíðsdóttirBolur - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Svo er hér flíkin sjálf:
Bolur - Ólöf I. DavíðsdóttirBolur - Ólöf I. Davíðsdóttir


Líníngar

Fyrr á árinu gerði ég nokkur armbönd eða öllu heldur lausar ermalíningar. Í þær nota ég afklippur af þráðum sem falla til við vélstunguvinnu á veggteppunum mínum. Tvinni er vandfenginn hér á landi enda kaupi ég ekki hvað sem er og því tími ég ekki að fleygja því sem af gengur. Framundan er að finna upp á enn fleiri möguleikum.

Earlier this year I made a few bracelets or cuffs. I use cut off threads, saved from quilting my wall art. Thread can be hard to get in this country since I don't buy just anything. Therefore, I don't have the heart to throw these remnants away. The plan is so discover more possibilities.

Líníng - Ólöf I. Davíðsdóttir


Gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár

Kær kveðja til ættingja og vina, nær og fjær, með ósk um fögnuð og frið á jólum með minningum og vonum sem verma og efla hjarta og þor. Gleðilega jólahátíð því okkur er frelsari fæddur.

Heartfelt greetings to relatives and friends, near and far, wishing you joy and peace at Christmas with memories than warm and strengthen your heart and your courage. Merry Christmas for unto us a Saviour is born.

Jól 2011 - Ólöf I. DavíðsdóttirJól 2011 - Snorri HalldórssonJól 2011 - Elías Snorrason


Osso Buco súpa

Kvöldmaturinn var Osso Buco súpa eftir uppskrift taste.com.au . Þetta er einstaklega einföld matreiðsla á ódýrum rétti, líklega rétt innan við 1.000 krónur þessi skammtur sem dugði fyrir þrjá með ristuðu brauði. Hér fylgja myndir af frumraun minni og leiðbeiningar með uppskriftinni á íslensku eins og ég eldaði hana.

Osso Buco súpaOsso Buso súpaOsso Buco súpa

 

 

 

 

 

 

 

 
1/2 kíló Osso Buco
1 msk olía
1/2 saxaður laukur
1 kramið hvítlauksrif
2 gulrætur í sneiðum
1 lítri nautakjötssoð (eða vatn og soðteningur)
1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan kryddaðir)
1 lítið lárviðarlauf
svartur, nýmalaður pipar

Kjötið er brúnað létt í olíunni á pönnu í nokkrar mínútur.  Kjötið svo sett í pott ásamt öllum hinum innihaldsefnunum og látið malla við vægan hita í einn og hálfan tíma. Þá er potturinn tekinn af hitanum. Kjötið er fært upp á disk, kroppað í sundur frá beininu með göfflum og sett aftur út í súpuna. Maturinn er tilbúinn.

Gott er að skera í himnuna sem umlykur kjötsneiðarnar svo það verpist minna upp á þær við steikingu. Stækka má uppskriftina upp í kíló af kjöti, bæta við hinum helmningnum af lauknum og hálfum lítra af soði til viðbótar. Það kemur vel út að strá nýrifnum parmesanosti yfir súpuna í disknum.
Osso Buco súpa


Föstudagur til fyllingar

Sumir dagar eru sólríkari en aðrir, líða hjá eins og undir heillastjörnu. Dagurinn í dag var einn af þeim.

Í hádeginu fór ég á Listasafn Íslands þar sem listakonurnar Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá og Kristín Gunnlaugsdóttir fjölluðu um verk sem þær eiga á yfirlitssýningu safnsins, ÞÁ OG NÚ.  Tilefni sýningarinnar er útgáfa ritverksins "Íslensk listasaga" en hún er þó sjálfstæð frá ritverkinu og ekki ætlað að vera sýnishorn af bókunum. Það var mátulega stór hópur sem sótti spjallið sem gaf þægilega nánd við verkin og listakonurnar í senn. Andrúmsloftið var létt og viss glaðværð ríkjandi. Mér skildist að þetta framtak, að fá listafólkið sjálft til að hitta gestina við verkin þeirra, sé nýlunda hjá Listasafninu og stendur hugur til að endurtaka leikinn. Gestir gáfu þessu góðan róm, voru áberandi ánægðir og þakklátir. Umgjörðin öll átti ekkert skylt við sýningaropnun, bara hversdagsleg heimsókn án umstangs eða tilgerðar. Haft var á orði að sýningargestir hér á landi ættu ekki að venjast svona nánd í kringum listsýningar og var almennt tekið undir það um leið og fólk lýsti ánægju sinni með tækifærið.

Dadian Gallery, Washington DCÍ skólanum mínum í Bandaríkjunum var mikið um svona uppákomur, bæði í tengslum við galleríið og svo vinnustofu listafólks í skólanum. Listafólk sem gegndi stöðu staðarlistamanns kenndi jafnframt við skólann meðan á dvöl þeirra stóð, 6 vikna stúdíónámskeið með litlum hópi nemanda. Vissulega gaf þetta fólk mismikið færi á sér en vinnustofan er þó ávallt opin og nemendur hvattir til að rölta þar inn þó ekki sé nema til að sjá hvað verið er að vinna við hverju sinni. Ég get þó ímyndað mér að listafólkið hafi verið misánægt með þetta fyrirkomulag en það veit þó að hverju það gengur þegar það gerir vistsamninginn við skólann. Það væri ánægjulegt ef íslenskur listamaður/-kona tæki sig upp og settist að í Washington DC í nokkra mánuði til að vinna að list sinni og miðla nemendum um leið. Þess ber að geta að handan við götuna er listadeild The American University svo það eykur stórlega möguleika listafólks til að tengjast deiglunni. Þar sótti ég líka námskeið. Borgin iðar af list og menningu, með mörgum og stórum söfnum, svo þetta er góður viðkomustaður fyrir listafólk. Ef einhver listamaður/-kona hefur áhuga á að vita meira um staðarlistamannsprógrammið hjá Wesley skal ég með glöðu geði leggja fram það sem ég veit og grennslast fyrir um framtíðarplönin á þeim bæ.

Ljósmyndin er tekin af vefsíðu gallerísins, Dadian Gallery, með tengli inn á væntanlegar sýningar.


Vlogg - Röndótt efni


Um vloggvinnslu - Röndótt efni

Í færslunni hér að ofan er nýjasta vloggið. Það er smá basl að fá það til að birtast á moggablogginu með ritaðri færslu. Ég er að reyna að finna út úr því en ef það er ekki á forsíðunni þá er þetta tengill á færsluna sem má smella á eða með því að fara beint á Vimeo Ég fæ "embedded code" ekki til að virka þegar ég lími hann inn í HTML-haminn. Leiðbeiningar vel þegnar frá kunnugum.

Í þessu vloggi fjalla ég um það litla safn sem ég á af röndóttum efnum. Þetta er mikil framför frá fyrra myndbandi hvað varðar hljóðupptöku og lýsingu. Svo eru þarna líka tilraunir til að vinna viðbætur, s.s. kynningarspjald með hljóðeffektum og innsettar ljósmyndir með bakgrunnsuppfyllingu. Þetta er líka heimatilbúið, meira að segja hljóðið úr minni eigin saumavél í upphafi og niðurlagi. Aftur setti ég enskan texta. Það hefur tekið mig viku að gera þetta myndband. Upptakan tók þó ekki meira en eina og hálfa mínútu í annarri atrennu. Það kalla ég gott.

Hljóðið tók ég upp aukalega á tölvuna mína, felldi það svo að hljóðinu í myndbandsupptökunni og skipti svo út hljóðrásum. Lýsingin eru loftljósið og svo tveir borðlampar á hreyfanlegum örmum. Ég setti ljóssíur (úr sníðapappír auðvitað) yfir perurnar. Mér gekk ekki að snúa öðru ljósinu þannig að ekki yrði endurkast í gleraugunum. Tel mig þó vita hvernig ég á að fara að því, snúa ljósinu enn meira frá og setja hvítt spjald á vegginn á móti mér í staðinn til að endurkasta birtunni af ljósinu á mig.

Þetta vlogg hlóð ég inn á Vimeo í stað Youtube. Vimeo notkun er háð því að notandi hafi gert myndbandið sjálfur eða átt stóran þátt í gerð þess. Ég verð að hreykja mér af því að ég gerði nánast allt myndbandið sjálf. Eiginmaðurinn stillti hljóðrásirnar saman því hann er svo vanur að gera það og nú kann ég það. Allt annað er mitt verk. Svo ég uppfylli örugglega notkunarskilmála Vimeo. Það væri ofurgott ef mér tækist að gera tvö vloggskot á mánuði. Ef lesandinn hefur tillögur að viðfangsefni til upptöku, s.s. spurningar sem ég gæti svarað eða sýnt handbragð til skýringa, má gjarnan senda mér skeyti í athugasemdum hér fyrir neðan. Myndbandið verður þó aldrei lengra en ein og hálf mínúta að hámarki. Það er með vilja gert því sjálf nenni ég tæpast að horfa á lengri myndbönd á netinu nema viðfangsefni þeirra skipti mig máli.


Um bloggun og breytingar

Mannalæti - Ólöf I. DavíðsdóttirÞað hefur stórlega dregið úr tíðni bloggfærslna hjá mér. Ég er þó engan veginn hætt að blogga. Ég hef bloggað hér og þar í bráðum 10 ár. Fyrsta bloggið mitt var "Snittur - Vefannáll: hugarflugur og útúrdúrar." Það var með nokkuð öðru inntaki en hér. Þessu bloggi, "Fljóðið við fljótið", var komið í gang til að skrá ferðasöguna á meðan ég var í meistaranámi í Bandaríkjunum. Það er gott að ég gerði það því annars hefði svo margt af mínu stússi þar fallið í gleymskunnar dá án þess að nokkuð minnti mig á ýmislegt sem ég vil geta rifjað upp. Sem minnir mig á að ég þarf að taka öryggisafrit af því.

Eftir heimkomuna þurfti ég að finna mér nýjan fókus og hef ég mest megnis skrifað um textílvinnuna mína og matargerð. Það er ekki síður skemmtilegt, svo ekki sé minnst á gagnlegt. Uppskriftir sem ég hef gleymt hvar ég fann, finn ég nú á mínu eigin bloggi og með myndum sem gerir þær enn skemmtilegri. Hvoru tveggja ætla ég að halda áfram.

Þessa dagana er ég að kynna mér notkun vídeós sem bloggs, svo kallað vlogg. Þetta er skemmtilegur miðill. En hjálpi mér hamingjan hvað það er seinlegt og mikil handavinna. Í einfeldni minni hélt ég að þessi aðferð gæti orðið svona "miða og skjóta" aðferð með tímanum. Ég vissi og hafði lært, en hafði gleymt, hvað þetta er miklu meira "klippa og líma, klippa og líma,klippa og líma...." en að pakka inn jólagjöfunum. Eins og er verður vlogg engin hvíld frá lyklaborðsvinnu sem ég var að vonast til að geta sparað mér eitthvað. Það er líka gríðarlegur tímaþjófur, þó ég sé ekkert að flýta mér. Upptakan sem ég er að vinna með núna hefur þegar tekið 8 klukkutíma og hún er ekki enn tilbúin til sýningar. Samt er hún innan við ein og hálf mínúta. Markmið mitt er að hvert vlogg sé ekki lengra en minúta. En kannski verður þetta fljótlega einfaldara þegar ég er búin koma föstu formi á þetta og umgjörðin öll orðin mótuð, bæði við upptökur, úrvinnslu og frágang. En þangað til verð ég að umbera tæknilega hnökra og axarsköft þess sem er að læra og er fús að leyfa öðrum að fylgjast með því. Gagnlegar ábendingar eru vel þegnar í athugasemdum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband