Föstudagur til fyllingar

Sumir dagar eru sólríkari en aðrir, líða hjá eins og undir heillastjörnu. Dagurinn í dag var einn af þeim.

Í hádeginu fór ég á Listasafn Íslands þar sem listakonurnar Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá og Kristín Gunnlaugsdóttir fjölluðu um verk sem þær eiga á yfirlitssýningu safnsins, ÞÁ OG NÚ.  Tilefni sýningarinnar er útgáfa ritverksins "Íslensk listasaga" en hún er þó sjálfstæð frá ritverkinu og ekki ætlað að vera sýnishorn af bókunum. Það var mátulega stór hópur sem sótti spjallið sem gaf þægilega nánd við verkin og listakonurnar í senn. Andrúmsloftið var létt og viss glaðværð ríkjandi. Mér skildist að þetta framtak, að fá listafólkið sjálft til að hitta gestina við verkin þeirra, sé nýlunda hjá Listasafninu og stendur hugur til að endurtaka leikinn. Gestir gáfu þessu góðan róm, voru áberandi ánægðir og þakklátir. Umgjörðin öll átti ekkert skylt við sýningaropnun, bara hversdagsleg heimsókn án umstangs eða tilgerðar. Haft var á orði að sýningargestir hér á landi ættu ekki að venjast svona nánd í kringum listsýningar og var almennt tekið undir það um leið og fólk lýsti ánægju sinni með tækifærið.

Dadian Gallery, Washington DCÍ skólanum mínum í Bandaríkjunum var mikið um svona uppákomur, bæði í tengslum við galleríið og svo vinnustofu listafólks í skólanum. Listafólk sem gegndi stöðu staðarlistamanns kenndi jafnframt við skólann meðan á dvöl þeirra stóð, 6 vikna stúdíónámskeið með litlum hópi nemanda. Vissulega gaf þetta fólk mismikið færi á sér en vinnustofan er þó ávallt opin og nemendur hvattir til að rölta þar inn þó ekki sé nema til að sjá hvað verið er að vinna við hverju sinni. Ég get þó ímyndað mér að listafólkið hafi verið misánægt með þetta fyrirkomulag en það veit þó að hverju það gengur þegar það gerir vistsamninginn við skólann. Það væri ánægjulegt ef íslenskur listamaður/-kona tæki sig upp og settist að í Washington DC í nokkra mánuði til að vinna að list sinni og miðla nemendum um leið. Þess ber að geta að handan við götuna er listadeild The American University svo það eykur stórlega möguleika listafólks til að tengjast deiglunni. Þar sótti ég líka námskeið. Borgin iðar af list og menningu, með mörgum og stórum söfnum, svo þetta er góður viðkomustaður fyrir listafólk. Ef einhver listamaður/-kona hefur áhuga á að vita meira um staðarlistamannsprógrammið hjá Wesley skal ég með glöðu geði leggja fram það sem ég veit og grennslast fyrir um framtíðarplönin á þeim bæ.

Ljósmyndin er tekin af vefsíðu gallerísins, Dadian Gallery, með tengli inn á væntanlegar sýningar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband