Kaos í kosmos

Vinnuherbergið mitt er í rúst eftir að ég saumaði lítið prufustykki, 17x20 cm. Í því eru 6 mismunandi efni ásamt undirlagi og til að velja þau fór allt á flot. Svo þarf pappír, líka vaxpappír, það þarf glæru, tússpenna, blýant, strokleður, pappírsskæri, tauskæri, straujárn, straubretti, títuprjóna, tvinna og svo saumavél. Ég prófaði nýjan tvinna, Madeira Polyneon 40, við niðursaum á stykkjunum með blindföldunarspori og þarf að prófa mig áfram með hentuga nál fyrir hann. Það kallar á fleiri prufustykki. Það dugar ekki að setja tusku í saumavélina og sauma beint spor. Það verður að prófa tvinnann í sams konar verki og maður ætlar að nota hann í.

Prufuvinna - Ólöf I. DavíðsdóttirPrufuvinna - Ólöf I. DavíðsdóttirPrufuvinna - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Eiginlega er tvinni farinn að skipta mig meira máli en efnin sem ég sauma úr. Þennan tvinna fékk ég hjá B. Ingvarsson við Bíldshöfða 18. Ég nota eingöngu pólyestertvinna við að sauma saman stykki. Hann er yfirleitt fíngerðari en bómullartvinni og því leggst saumfarið betur niður. Varðandi stungutvinna, þá gildir mig eigu úr hverju hann er. Þar skipta litur og áferð máli en mest af öllu að tvinninn trosni ekki og slitni. Sá besti sem ég hef komist í er Isacord Polyester Embroidery Thread. Hann fæst ekki hér á landi en ég hef keypt mér nokkur kefli að utan til að prófa. Ef Madeira tvinninn stendur sig munu málin einfaldast til muna því þá get ég stokkið út í búð með efnisprufu og fengið þann tvinna sem helst passar í stað þess að panta eftir númerum og bíða eftir tvinnanum.

Aðferðina sem ég nota lærði ég af bók eftir Vikki Pignatelli, Quilting Curves. Hún hentar minni hönnun mjög vel þar sem ég nota mikið sveigðar línur og þegar formin verða að passa nákvæmlega saman kemur þetta best út. Þetta er ekki erfið aðferð þó handtökin séu mörg en krefst vandvirkni og úthalds. Ég sauma því stutta stund í einu og afkasta engin ósköp. Þó ég tauti af og til hvernig í ósköpunum mér datt í hug að byrja á þessu þá gleður árangurinn mig ósegjanlega í bland við andvarpið yfir því að ég verði seint búin að þessu. Þetta er fyrsta stórvirkið sem ég legg í eftir að ég varð að þróa aðrar leiðir til að sauma en sitja við vélina. Nákvæmnisvinnan tekur á svo verkin verða þá bara að taka þann tíma sem þau þurfa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nú einmitt "bjútíið" við að hafa saumaherbergi, maður skilur þetta bara eftir og lokar. Gott að heyra að þú sért byjuð aftur og njóttu þess!

Hellen S. Helgadóttir (IP-tala skráð) 31.1.2012 kl. 15:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband