Færsluflokkur: Bloggar

Vídeóblogg og vinnuaðstaða

Hér neðar er vídeóblogg um saumaverkefnið sem ég er að vinna í núna.


 

Uppsetningin á vinnuberginu er smátt og smátt að slípast til. Þegar ég byrjaði á teiknivinnunni sem ég tala um í myndbandinu kom á daginn að vinnuborðið er enn of lágt. Það er 85 cm á upphækkunum sem ég taldi að yrði mátulegt þar sem ég er ekki meðalmanneskja á hæð. En borðið hefur reynst of lágt. Ég þarf að beygja mig smávegis yfir það, sem ég get tæpast gert, og verð þá að styðja mig með vinstri hendi til að bera mig uppi. Ég get hins vegar ekki sett neinn þunga á handlegginn nema kreppa hnefann og leggja hnúana á borðið. En þá verður öxlin skökk því hún ýtist upp og vindingur kemur á bakið. Flatann lófann með boginn úlnlið get ég ekki lagt á borðið til að styðja mig. Besta lausnin er líklega að hækka borðið um 5 cm til að byrja með. Þá er framundan að finna tímabundna lausn á því til að prófa hæðina áður en ég legg út fyrir lengri borðfótum. Hins vegar verður borðið þá of hátt þegar ég sker efni sem er mikil nákvæmnisvinna því þá virka engin strokleður.

Að segja mér að fá mér þá bara rafmagnsborð er álíka hugsunarlaust og að suða í mér að fá mér strípur í hárið. Ég væri til í að fá mér rafmagnsborð ef ég hefði tekjur af því að sauma. Það er ekki raunin ennþá. En kona getur alltaf látið sig dreyma. Strípurnar eru hins vegar "off limits".


Vinnuherbergið Annexía

Vinnuherbergið mitt hefur smátt og smátt tekið á sig mynd alvörunnar. Eiginlega má segja að það sé ekkert annað eftir en að geta unnið þar að gagni. En aðstaðan er öll í áttina að þeim þörfum sem ég hef til að geta notað hana, þó stutt sé hverju sinni. Stærsta áskorunin hefur verið að útbúa umhverfi til að vinna standandi auk þess að vera hagnýtt og gott í umgengni, innréttað af hófsemi og hagsýni. Einnig skiptir geymslurými miklu máli, að hlutirnir séu aðgengilegir án þess að útheimta klifur, bogur eða lyftingar. Þetta er langt í frá fullkomið en þó mun betra en eldhúsborðið eitt á árum áður. Hér eru svo myndir með skýringum og neðar fleiri myndir með útskýringum á því hvernig ég sauma standandi:

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Herbergið er lítið, 2,35m x 3,15m. Leiðsögnin hefst frá vinstri til hægri á fyrstu myndinni sem tekin er úr dyragættinni og heldur svo áfram réttsælis í herberginu. Svarta borðið er á upphækkunum svo það er í þægilegri hæð til að skera efni, aðeins lægra en saumaborðið. Undir því er ýmsu staflað til geymslu. Draumurinn er að fá kommóðu á hjólum þar undir. Á veggnum við svarta borðið er hönnunarveggur úr flónelsklæddum einangrunarplötum. Straubrettið stendur svo við gluggann þegar ég nota það en annars stendur það samanbrotið vinstra megin við gluggann. Hillurnar og saumaborðið eru hillukerfi frá IKEA. Undir saumaborðinu er skúffukálfur fyrir áhöld. Þar ofan á liggja skurðarstikur og motta. Ofan á saumaborðinu er skúffukassi með tvinna og nálum. Til hliðar við saumaborðið er skattholið sem ég fékk í fermingargjöf. Þar geymi ég aðallega efni og meiri tvinna. Þarna langar mig að hafa háa kommóðu. En ég tými ekki að láta skattholið frá mér og hef ekki annan stað fyrir það en þarna.

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

Vinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Og þá er það rúsínan í pylsuendanum, hvernig ég sauma standandi. Á gólfinu framan við saumaborðið er gúmmimotta sem ég hef skorið úr fyrir fótstiginu. Fótstigið fer öfugt ofan í gatið, þ.e. þykkari hlutinn snýr frá saumavélinni. Lítið pappaspjald með broti er við þykkari jaðarinn á fótstiginu til að hindra að það strandi á mottukantinum þegar stigið er á það það. Í stað þess að þrýsta táberginu á fótstigið eins og maður gerir í sitjandi stöðu þá nota ég hælinn. Ég stend í tábergið og hef þungann á því en stend þó aðeins léttar í þann fótinn en hinn. Mottan gegnir því hlutverki að "lækka" fótstigið á gólffletinum og stuðla að því að hægt sé að standa í báða fætur og dreifa þunganum sem jafnast. Fótstigið þarf að liggja lægra því annars yrði að standa á einum fæti. Þetta er ekkert grín, skal ég segja ykkur. Ökklinn hefur miklu minni hreyfanleika þegar maður stendur í fótinn en þegar maður situr á stól og tyllir bara táberginu ofan á fótstigið. Eins og ég hef sett þetta upp er niðurstiginu sennilega mestmegnis stjórnað með hnénu, rétta úr því án þess að læsa því og um leið sígur hællinn niður og þrýstir á fótstigið. Ég skar úr mottunni fyrir tveimur ólíkum fótstigum og geymi bitana til að loka því gati sem ég nota ekki í það og það skiptið, nú eða báðum og hef þá heila mottu þegar ég geri eitthvað annað en að sauma við borðið. Annað sem ég varð að breyta í saumasiðum mínum er að vera í skóm. Áður var ég alltaf bara í sokknum á hægri fæti þegar ég sat og saumaði. Það voru mikil viðbrigði.

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 


Næla

Næla - Ólöf I. DavíðsdóttirÞessa nælu gerði ég einu sinni eftir leiðbeiningum sem ég fann á veraldarvefnum. Þessi aðferð og úrfærsla ku vera í anda viktoríanska tímans svo hugmyndin er ekkert slor. Samt nokkuð sérkennileg tenging því Viktoría drottning syrgði í 40 ár og þá var ekki notað neitt skrautlegt skart. En kannski fundu áræðnir skartgripasalar og hégómlegar konur sér leiðir út úr puntkreppunni. Það var víst mikið um svart skart á þeim tíma, búið til úr svartarafi. Svartaraf, gagat, er ekki raf heldur svokallað steindarlíki, viðarleifar þjappaðar undir miklu þrýstingi. 


Bláberjamuffins

Þessar bláberjakökur eru eftir uppskrift frá "The Australian Women's Weekly Cookbooks: Muffins, Scones and Bread".

BláberjamuffinsInnihald:
300 gr hveiti
4 tsk lyftiduft
150 gr púðursykur
1 egg, léttþeytt
180 ml súrmjólk
125 ml bragðlítil matarolía
150 gr bláber (fersk eða frosin)

Aðferð: Sigtið þurrefni saman í skál, hrærið hinum hráefnunum saman við. Setjið í muffinsmót, 6-8 stykki. Bakið við 175°C í 25 mínútur.

Kökurnar eru mjúkra og safaríkar, miðlungsstórar. Ég setti pappírsmót inn í silikón muffinsform, setti deig í sem nam hæðinni á pappírsmótunum og fékk 8 kökur út úr því. Þær tvöfölduðust í hæðina við bakstur. Við geymslu til næsta dags í þéttu iláti urðu kökurnar svolítið klístraðar svo ég mæli með að þær séu borðaðar upp til agna sama dag eða settar frysti þegar þær eru orðnar kaldar ef það þarf að geyma þær.


Randalína

RandalínaRandalína

Næstu heilabrot snúast um hvernig stinga skuli þetta littla stykki, "Randalína". Þar verður tvinninn og mynstrið í aðalhlutverki, stungan á að sjást og njóta sín. Ég ætla að nota sprengdan rayon/viscose tvinna í stunguna. Það mun líklega reynast þrautin þyngri því rayon tvinni trosnar mjög auðveldlega við vélstungu. Trixið felst því í tiltölulega "stuttum" stunguformum sem auðvelt er að stoppa í og byrja upp á nýtt, klippa framan að nálarþræðinum og þræða vélina aftur áður en næsta form er tekið. Ég hef verið að æfa mig að stinga á Juki vélinni. Hún er eins og spíttbátur miðað við heimilissaumavél svo það er öllu erfiðara að vinna við hana standandi en Pfaff vélina mína.


Vandræðalaus epla- og bláberjaskel

Epla- og bláberjaskelÞessa epla- og bláberjaböku gerði ég fyrr í mánuðinum, sérdeilis einföld í vinnslu og ljúffeng í munni. Vissulega eru mörg handtökin við þessa böku en engin erfiðisvinna þó. Fyllinguna má svo léttilega aðlaga að smekk og þörfum hvers og eins, breyta og bæta við því sem fólki hugnast. Myndin hér fremst er af mínu eintaki svo lesandinn sér að þetta er ekki óvinnandi vegur.

Kökuskreytingar teljast ekki til minna sterkustu hliða. Ég hef ekki átt þjála samvinnu við rjómasprautur. Kökur sem ekki þarf að skreyta eða eiga beinlínis að vera ófrýnilegar eru því í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kökuflokkur einkennist af náttúrulegri fegurð hráefnisins sem fær að njóta sín án tilgerðar. Lesandinn athugi að í besta falli er þetta er mjög upphafin ímynd af hliðrun og í versta falli beisk öfund með stungulagi í garð þeirra sem búa að þeirri færni að töfra fram goðsagnakenndar bollakökur og hnallþórur með krúsindúllum.

Uppskriftin að bökunni er héðan á vef BBC og deigið í skelina er hér hjá Taste. Umsagnir þeirra sem notað hafa uppskriftirnar eru mjög gagnlegur. Það eru þær sem stýra vali mínu á vefuppskriftum.


Heilhveitibrauð

Hér er uppskrift af tilgerðarlausu heilhveitibrauði ásamt myndum af bakstrinum - English translation in comments below ("Athugasemdir")

HeilhveitibrauðHeilhveitibrauð

 

 

 

 

 

 

 

 

5 dl heilhveiti (300 gr)
3 dl hveiti (180 gr)
1,5 msk þurrger (50 gr pressuger)
1 tsk salt
1 tsk sykur
1/2 dl olía (rétt rúmlega það)
3 dl volgt vatn

Þurrefni og þurrgeri blandað saman, olíu og vatni hrært saman við, hnoðað duglega í nokkrar mínútur í höndunum. Látið lyfta sér í skál undir klút í klukkutíma. Hnoðað duglega, mótað í hleif, lagt á plötu og látið hefast aftur í 25 mín. Bakað í miðjum ofni við 200°C í 20-25 mínútur.

Tekið skal fram að ég nota aðeins helminginn af saltinu, þ.e. hálfa teskeið.


Sætt mangó kryddmauk

Heimalagað mangó kryddmauk var húsverk dagsins eftir þessari uppskrift Sanjee Kapoor. Hér fylgir hún ásamt myndum af framvindunni í eldhúsinu mínu.
 
1 mangó, flysjað og brytjað
Sykur, sama þyngd og aldinkjötið
1 hvítlauksrif
1, 5 cm biti af fersku engifer
1/2 tsk rautt chiliduft
1/2 tsk garam masala krydd
1/8 tsk edik
Salt eftir smekk til bragðbætis
 
Kapoor mælir með að mangóið sé ekki alveg fullþroskað. Hér eru leiðbeiningar um mangóskurð. Bitarnir eru settir í pott ásamt örlitlu vatni. Ég setti 1 dl af vatni. Soðið við lágan hita undir loki þar til ávaxtabitarnir meyrna. Sykri hrært saman við og látinn bráðna rólega. Soðið áfram við lágan hita undir loki.
Mangó ChutneyMangó Chutney
 
Hvítlauksrifið marið og flysjað, engiferbitinn skrældur, kryddið mælt. Ég breytti til og notaði það sem var í skápunum. Ég notaði tandoori í staðinn fyrir garam masala og bita af fersku chili. Þetta er sett í taupoka, bundið fyrir og sett í pottinn. Hér spilaði ég líka af fingrum fram. Ég notaði kaffipoka úr pappír fyrir kryddböggulinn. Ég setti hann tóman í sigti og hellti hann sjóðandi vatni til að hreinsa úr honum pappírsbragðið. Svo fór kryddið í, pokinn vafinn upp og hnýttur saman með tvinna.
Mangó ChutneyMangó Chutney
 
Þetta mallar svo saman. Ég marði aldinkjötið með kartöflustappara þegar á leið. Uppskriftin tiltekur um 15 mínútna suðu eða þangað til áferðin er farin að líkjast sultu. Í lok þessa tíma lét ég sjóða loklaust og þá fór þetta að þykkna. Þá er ediki og salti bætt við og látið sjóða 5 mínútur í viðbót. Uppskriftin tiltekur ekki edikstegund. Ég notaði danskt eplasíderedik. Kryddbögglinum er svo fleygt.Mangó Chutney
 
Heitt maukið sett í hreinar, heitar glerkrukkur og lokað. Sjáið nú bara þetta fallega gullmauk. 
Mangó Chutney
 
Og hvað fannst mér svo um útkomuna? Þetta er mjög sætt og ekki mikið kryddbragð. Þó ég hafi notað hálfa teskeið ef eplaedikinu fann ég ekkert bragð af því í maukinu. Úr þessu urðu tæplega 700 ml af mauki. Mangó Chutney sem ég hef keypt er í 350 gr krukkum sem kosta á sjötta hundruð krónur. Mér reiknast til að minn skammtur hafi kostað í kringum 350 krónur og er magnið næstum tvöfalt á við búðarkrukkuna. Það borgar sig því búa sjálfur til sætt mangó kryddmauk

Debrecen ferðasaga 7 - myndir

Það var afmæli hér í gær. Sonurinn hóf afmælisdaginn sinn á því að vakna klukkan 6 til að mæta í próf klukkan hálf átta. Mánudagsmorgnar eru víst fráteknir fyrir próf í deildinni. Skemmtilegar helgar þá eða hitt þó heldur. Við fengum okkur svo nýbakaða og volgt Baconos Croissant í bakarí þegar hann kom heim og var búinn að opna afmælisgjafir sem bárust. Svo var bara slökun eftir prófið, horfðum á bíómynd fram að hádegi.

Debrecen 2011 181 compr

Á meðan hann var í skólanum fór ég í paprikuleiðangur með Lázsló á grænmetismarkaðinn. Það er erfitt að fá þurrkaðar, heilar paprikur á þessum árstíma en við fundum þó einn sölubás. Hinar ýmsu gerðir malaðrar, ungverskrar papriku fylla hins vegar heilu hillumetrana úti í búð og hægt er að kaupa duftið í hálfs kílóa pakkningum eins og kaffi.

Debrecen 2011 183 compr 

László bauð mér svo með sér í starfsstöðvar kærleiksþjónustu sviðs kalvinsku kirkjunnar þar sem hann er prestur. Þar er miðstöð kirkjunnar fyrir aldraða og fatlaða í borginni. Um 250 manns njóta þaðan ýmis konar þjónustu, m.a. heimavitjana, aðstoð við að komast til læknis og við samskipti við opinberar stofnanir. Húsnæðið hefur ekki gott aðgengi, það er í kjallara með þröngum stiga, langur og mjór gangur liggur eftir endilöngu og þröngt að komast inn í öll herbergi af honum. Þó fer fram fjölbreytt félagsstarf í húsnæði miðstöðvarinnar sem alla jafna er sótt af um 100 manns í viku hverri. Það var saumaklúbbur í gangi þegar ég kom. Á vegg þar inni var lífsins tré úr keramiki. Laufin bera nöfn notenda þjónustunnar og starfsmanna. Ég var svo leyst út með gjöfum, keramikflís með segulstáli og heklaðri blúndu sem blindur notandi bjó til.

Debrecen 2011 179 comprDebrecen 2011 178 comprDebrecen 2011 177 comprDebrecen 2011 175 comprDebrecen 2011 176 comprDebrecen 2011 193 compr

 

Ég gerði heiðarlega tilraun til að kaupa mér skó eftir hádegið. Það er mýgrútur af skóbúðum hérna og skómörkuðum. Ég er búin að þræða þær síðan ég kom. En það er eins og mitt númer sé bara ekki til í þvi sem ég get hugsað mér að ganga í, hvorki í sérverslunum né á mörkuðum. Svo ég er jafn skólaus og þegar ég kom. Þetta erindi fer að falla á tíma því ég flýg heim á morgun.

Seinni partinn mæltum við mæðginin okkur mót við háskólann og gengum þaðan á veitingastað í grenndinni sem gjarnan er sóttur af háskólafólki og héldum upp á afmælið.

Debrecen 2011 190 comprDebrecen 2011 186 comprDebrecen 2011 187 comprDebrecen 2011 188 comprDebrecen 2011 189 compr

Eftirmáli: Heimferðin þann 13. apríl var tíðindalítið, langt ferðalag. 


Debrecen ferðasaga 6 - myndir

Sunnudagurinn var tekinn snemma. Ég var við skírn 5 barna í Miklukirkju og var athyglisvert að sjá hvernig hún fór fram. Þetta var ekki í messu heldur afmörkuð athöfn ein og sér sem stóð í 20 mínútur. Í stað skírnarfonts eins og við eigum að venjast í lúthersku kirkjunni á Íslandi, var vatni hellt úr könnu á höfuð skírnarbarnsins og stór skál höfð undir. Það var nú ekki mikið vatn sem fór í skálina enda sjálfsagt helt af mikill natni. Börnin voru áberandi eldri en tíðkast heima og voru ekki sérstaklega klædd fyrir skírnina, bara í sínum fötum og yfirhöfnum líka.

Debrecen 2011 165 comprDebrecen 2011 167 comprDebrecen 2011 170 comprDebrecen 2011 169 compr 

Því næst fór ég í lúthersku kirkjuna og var við almenna guðsþjónustu þar. Hér er vefsíðan þeirra: http://degy.hu/templomunkrol Þetta er lítill söfnuður sem hittist í kirkjubyggingu frá 1889. Um margt minnti umhveri og athöfn á íslenska sveitakirkju. Guðsþjónustan stóð í rúman klukkutíma, þó engin væri altarisgangan, enda var predikunin um 35 mínútur og svo tók við 7 mínútna ávarp frá altari. Tveir prestar þjónuðu, mætingin var góð og vel tekið undir í söng.

Debrecen 2011 173 comprDebrecen 2011 171 comprDebrecen 2011 172 compr 

Það sem eftir lifði sunnudags tók ég því að mestu rólega, ef ég man rétt. Lagði mig um eftirmiðdaginn, keypti eitthvað smálegt í matvörubúð með kvöldmatnum, eldaði og horfði svo á bíómynd.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband