Um bloggun og breytingar

Mannalæti - Ólöf I. DavíðsdóttirÞað hefur stórlega dregið úr tíðni bloggfærslna hjá mér. Ég er þó engan veginn hætt að blogga. Ég hef bloggað hér og þar í bráðum 10 ár. Fyrsta bloggið mitt var "Snittur - Vefannáll: hugarflugur og útúrdúrar." Það var með nokkuð öðru inntaki en hér. Þessu bloggi, "Fljóðið við fljótið", var komið í gang til að skrá ferðasöguna á meðan ég var í meistaranámi í Bandaríkjunum. Það er gott að ég gerði það því annars hefði svo margt af mínu stússi þar fallið í gleymskunnar dá án þess að nokkuð minnti mig á ýmislegt sem ég vil geta rifjað upp. Sem minnir mig á að ég þarf að taka öryggisafrit af því.

Eftir heimkomuna þurfti ég að finna mér nýjan fókus og hef ég mest megnis skrifað um textílvinnuna mína og matargerð. Það er ekki síður skemmtilegt, svo ekki sé minnst á gagnlegt. Uppskriftir sem ég hef gleymt hvar ég fann, finn ég nú á mínu eigin bloggi og með myndum sem gerir þær enn skemmtilegri. Hvoru tveggja ætla ég að halda áfram.

Þessa dagana er ég að kynna mér notkun vídeós sem bloggs, svo kallað vlogg. Þetta er skemmtilegur miðill. En hjálpi mér hamingjan hvað það er seinlegt og mikil handavinna. Í einfeldni minni hélt ég að þessi aðferð gæti orðið svona "miða og skjóta" aðferð með tímanum. Ég vissi og hafði lært, en hafði gleymt, hvað þetta er miklu meira "klippa og líma, klippa og líma,klippa og líma...." en að pakka inn jólagjöfunum. Eins og er verður vlogg engin hvíld frá lyklaborðsvinnu sem ég var að vonast til að geta sparað mér eitthvað. Það er líka gríðarlegur tímaþjófur, þó ég sé ekkert að flýta mér. Upptakan sem ég er að vinna með núna hefur þegar tekið 8 klukkutíma og hún er ekki enn tilbúin til sýningar. Samt er hún innan við ein og hálf mínúta. Markmið mitt er að hvert vlogg sé ekki lengra en minúta. En kannski verður þetta fljótlega einfaldara þegar ég er búin koma föstu formi á þetta og umgjörðin öll orðin mótuð, bæði við upptökur, úrvinnslu og frágang. En þangað til verð ég að umbera tæknilega hnökra og axarsköft þess sem er að læra og er fús að leyfa öðrum að fylgjast með því. Gagnlegar ábendingar eru vel þegnar í athugasemdum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband