Færsluflokkur: Bloggar

Enginn heimskautavetur hér

copy 2 of img 8094Það er meinloka hjá borgaryfirvöldum að borgin liggi undir fimbulvetri níu mánuði ársins svo ekki sé hægt að athafna sig við eitt né neitt. Vel er hægt að hreinsa rusl lungann úr vetrinum, það fýkur og festist í gróðri á umferðareyjum og stingur í augun. Snjóþyngsli eru aðeins lítinn hluta af vetrarmánuðunum hér í Reykjavík. Þetta eru bara undanbrögð þess sem stingur höfðinu í sandinn sem hlaðið er á gangstéttar aftur og aftur en aldrei hreinsað upp á milli.

Ég vil sjá lagt meira nostur við umhverfið allan ársins hring. Það er hægt að hreinsa veggjakrot allt árið enda leggja þeir sem berjast gegn slíkum skemmdarverkjum áherslu á að það sé hreinsað jafnharðan. Hvernig á borgarbúum að lærast að ganga vel um ef fyrir þeim er höfð sú undanlátssemi að það sé í lagi að láta sitt eftir liggja hvar sem er og hvenær sem er því borgin láti verktaka taka til einu sinni á ári. Það væri félegt ástandið á mínu heimili ef ég færi aðeins einu sinni á ári með heimilisruslið út í tunnu.


mbl.is Hreinsitækni ehf.: Borgin kemur illa undan hörðum vetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jekyll

JekyllÞað hefur ekkert sjónvarpsefni náð að grípa mig svona á fullorðinsárum eins og þættirnir um Jekyll á Skjá einum. Spennan er yfirþyrmandi, leikur James Nesbitt er magnaður og fléttan lætur ekki of mikið uppi. Þegar þættinum lauk í kvöld greip ég um eyrun, lokaði augunum, sönglaði "nei, nei, nei, nei, nei" og staulaðist fram á gang á meðan Skjár einn gerði aulalega tilraun til að sýna brot úr næsta þætti, lokaþættinum. Nei, takk, mig langar ekki í konfektmola sem er búið að bíta í.

Ég er vant við látin fimmtudagskvöldið 12. júní frá klukkan 21 til 22. Vinsamlegast skiljið eftir skilaboð í talhólfinu.


Íslenskar ferðaskrifstofur

Gabriela Trynkler: Babel TowerGæti þessi dómur orðið fordæmisgefandi svo íslenskar ferðaskrifstofur sjái sig nauðbeygðar til að hætta að auglýsa á íslensku? Og ekki bara ferðaskrifstofur því hjá ýmsum fyrirtækjum hérlendis tala starfsmenn ekki íslensku og þjónusta kúnnann á útlensku.

Babelsturninn hefur verið endurreistur með öllu því tungumálaöngþveiti sem hann olli í denn.

Málverkið er eftir Gabriela Trynkler


mbl.is Fær bætur vegna of margra Þjóðverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

How do you like Iceland?

ÞjófavörnBlessaður maðurinn! Eitthvað virðist auglýsingaslagorðið, "Ísland, best í heimi!" hafa verið tekið bókstaflega. Sælir eru hrekklausir því þeim mun viðbrugðið verða.

Vonandi kemur bíllinn í leitirnar. Best væri ef hann fyndist svo í sama stæði. 


mbl.is Bíllinn ólæstur og lykillinn á milli framsætanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Strandaglópar

Ég þarf að kaupa farseðil milli borga erlendis en þori því ekki enn. Hingað til hef ég verið að bíða eftir því að gengi krónunnar nái stöðugleika svo ég kaupi ekki miða á fimmtungi hærra verði í dag en á morgun. Svo hef ég líka beðið frétta af þarlendum flugfélögum sem hafa unnvörpum verið að hagræða, renna saman, verið yfirtekin og orðið gjaldþrota. Ég vil ekki verða strandaglópur í útlöndum.

Vintage Barbie American Airlines StewardessÞað yrði illt í efni að mæta á flugvöllinn í útlöndum og komast að því við innritunarborðið að flugleiðin hafi verið lögð niður síðan maður keypti miðann, að miðinn gildi ekki lengur fyrir farangurinn líka eða að vegna sparnaðar verði maður fyrst að fljúga eitthvað annað en þangað sem stendur á miðanum og missa af tengifluginu fyrir vikið. Það væri í sjálfu sér ekkert að því að eitthvað af þjónustunni yrði valkvæmt og þá borgað fyrir það sérstaklega. Flugfélög virðast ekki lengur hafa ráð á því að bítast um viðskiptavinina og þá lækkar bara þjónustustigið samhliða því að fargjöldin hækka. En þetta er víst ekki svona einfalt.

Myndin: Ég á svona flugfreyjubúning á Barbie dúkku! Ég á Barbie dúkku! 

 


mbl.is Farangursgjald tekið upp hjá American Airlines
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki af þessum heimi

Foreldrar mínir fundu mig alveg örugglega í körfu úr framandi efni á dyraþrepinu einn morguninn. Smekkur minn á sælgæti er líklega ekki af þessum heimi því hvað eftir annað gerist það að eitthvert lostætið er tekið úr sölu eða framleiðslu af því að það eru ekki nógu margir sem vilja það. Þannig fór með Tab, vanillu-Kókið og tropical-Fanta. Þar á undan var það Spur.

Crunchie frá CadburyÁ unglingsárunum féll ég fyrir Crunchie frá Cadbury. Framleiðsla þess hófst árið 1929. Það fékkst hér í nokkur ár og svo var það búið. Fyrir 13 árum seldi hverfissjoppan úr einum kassa. Mér fannst ég endurborin. Svo var það búið.  Ég átti alvarlegt erindi til Bretlands fyrir tveim árum og tók með mér heim 6 slík súkkulaðistykki. Þetta nammi treindi ég mér í hálft ár. Geri aðrir betur. Ég var spurð af hverju í ósköpunum ég hefði ekki keypt mér meiri birgðir. Það fannst mér óþarfi vegna þess að 60 stykki bragðast ekkert betur en 6 og ef ég ætti meira en nóg þætti mér ekkert varið í að eiga það ofan í skúffu. Ég lýsi því yfir að vilji einhver eiga ævarandi vináttu mína þarf ekki meira til en færa mér eins og tvö Crunchie úr hverri Bretlandsferð.

Nú ætlar Nói að hætta að malla handa mér fíkjustöngina af því að ég kaupi ekki nógu mikið af henni. Því miður get ég ekki með nokkru móti staðið undir landsframleiðslunni. Það sem gerir fíkjustöngina góða er númer eitt hvað hún er smá. Það vantar lítil súkkulaðistykki í hillurnar. Allt er á leið í yfirstærð. Síðast varð Nizza fyrir barðinu á skemmdarvörgunum. Molarnir eru of stórir til að liggja vel í munni. Ef Síríuslengjan verður stækkuð er mér að mæta.


mbl.is Nói hættur með Fíkjustöngina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handhafi frelsisstyttunnar

statue of liberty nyFrelsisstyttan fellur Mischa Barton í skaut fyrir að lifa í frelsi. Mættum við öll finna hjá okkur náð til að vera raunsæ og æðrulaus.

P.s.: Fleiri stjörnur með appelsínuhúð.

Hér sannast hið fornkveðna að engin er rós án þyrna - né frelsi án marka. 


mbl.is Alsæl með líkamann þrátt fyrir appelsínuhúð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metin falla

IP-tölu metin mín féllu hratt hvert á fætur öðru í dag. Á góðum degi hafa ratað milli 5 og 9 hingað inn með litlu fleiri flettingum. Nú eru IP-tölurnar komnar upp í 901 með 1296 flettingum. Ég held ég haldi bara áfram eins og hingað til að skrifa um mitt hversdagslega líf svo það dragi aðeins úr traffíkinni. Það myndast svo mikill dragsúgur með öllu þessu rápi.

Lítil biblíuþekking

Piero della Francesca  Legend of the True Cross   the Queen of Sheba Meeting with SolomonDrottning af Saba og Salomon urðu ekki hjón eins og mbl.is fullyrðir í dag. Áhugamenn um Séð-og-Heyrt fréttir geta lesið allt um staðreyndir málsins í Fyrri konungabók, tíunda kafla.

Drottningin hafði heyrt orðróm um speki hans og þótti svo mikið til koma að hún varð að ganga úr skugga um það sjálf. Hún fór á hans fund og gat hann svarað öllum spurningum hennar. Þau skiptust á gjafaflóði og svo fór hún bara aftur heim.

Hér er speki Wikipedia um konuna. 


mbl.is Höll drottningarinnar af Saba fundin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar fór það

dr zhivagoÉg hrökk upp af ómeðvitaðri hugleiðslu minni á rauðu ljósi í liðinni viku þegar unglingurinn í farþegasætinu spurði: "Mamma, hvaða lag ertu alltaf að raula?"

"Ha? Hvaða lag var ég að raula?", spurði ég og afkvæmið hóf upp raust sína og söng af innlifun. "Hvað, kanntu þetta?", spurði ég í forundran. "Já, auðvitað, ég er búinn að heyra það svo oft," var svarað að bragði.

Ég varð að segja eins og var - ég hafði ekki hugmynd um hvað ég hef raulað þindarlaust í gegnum árin. Þó gat ég huggað mig við að þetta lag er með þeim frægari úr heimi dægurtónmenntanna, svo mikið gat ég munað. En nú var líka hugarró minni raskað. Ég hef ekki mátt hefja upp raust mína síðan án þess að byrja að hugsa - hvaða lag er þetta? - og þá eru rósemdaráhrifin fyrir bý. Í aðra röndina vildi ég helst ekki vita hvaða lag þetta væri, það var hluti af sefjuninni að vita ekki. Ég hef velt því fyrir mér hvern ég þekki sem gæti þekkt lagið og sagt mér deili á því.

Í dag rölti ég í foreldrahús og þar sem við feðginin sátum við borðstofuborðið með sitthvorn bollann, hann með Moggann og ég með Su Doku í DV þar sem ég datt inn í sama hugleiðslugírinn varð einhver samsláttur á vírum og ég spyr upp úr eins manns hljóði, "Veist þú hvaða lag þetta er?", og trallaði af stað. Það voru engar véfréttarvöfflur á gamla manninum sem svaraði með annarri spurningu, "Er þetta ekki úr doktor Zhivago?"

Þar fór það. Nú mun ég aldrei raula þetta öðru vísi en sjá fyrir mér yfirvaraskegg í yfirstærð á andliti Omar Sharif.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband