Færsluflokkur: Bloggar

Bleikur kóði fyrir gamla jaxla

Veteran's Day ParadeGamli vinnustaðurinn minn varð þeirrar gæfu aðnjótandi í vikunni að fá mig aftur til starfa yfir sumarið. Unglingurinn á heimilinu átti stjörnuinnkomu þegar ég var að segja þeim heima frá framvindu dagsins í dag. Honum þótti ljóst að ég hafði engu gleymt, lagði höndina á hné mér og sagði: "Mamma veteran!". Það verður að segjast eins og er að stundum er vinnudagurinn líkari orrustuvelli en búð, sérstaklega þegar hún fyllist af fólki sem ætlar að hremma einhverja tilboðsvöruna. Baráttudagur verkamanna snerist hálfpartinn á köflum upp í þrælkunardag verkamanna, svo mikil var víst ásóknin.

"Veteran" er titill um þá sem hafa látið af herþjónustu, fyrrum hermenn sem oft eru á íslensku kallaðir uppgjafarhermenn. Í hugum margra tengist þetta sérstaklega þeim sem hætt hafa hermennsku eftir að hafa særst. Víða um heim eru stjórnvöld gagnrýnd fyrir að sinna þeim og fjölskyldum þeirra illa. Sú gagnrýni kemur ekki hvað síst frá friðarsinnum og andstæðingum hernaðar. Kvennafriðarhreyfingin "CodePink - Women for peace" beitir sér ekki aðeins gegn hernaði heldur líka fyrir félagslegu réttlæti, bæði uppgjafahermönnum til handa og íbúum þeirra svæða sem hafa verið hernaðarvettvangur. Ef ég þekki sjálfa mig rétt væri ég vís með að skunda á einhvern fund þeirra. Ég á þó í það minnsta veglegan bleikan hatt að spóka mig.

Ljósmyndin er héðan af heimasíðu CodePink og fyrir neðan er áróðursmyndband úr smiðju samtakanna.

 


Grundirnar gróa

Partur úr veggteppiÞó tæpast séu farin að sjást fleiri blóm úti við en stöku fíflar og krókusar stendur allt í blóma heima hjá mér. Það er að segja, undir nálinni. Það fer að halla í árið síðan ég teiknaði upp veggteppi sem ég byrjaði svo loks að vinna við um miðjan apríl.

Það er merkilegt með listagyðjuna. Hún hefur sína eigin hentisemi. Hún féllst loks á hugmyndir verktæknifræðingsins um hvernig best væri að útfæra og framkvæma hugsýn hennar svo þá gat ég hafist handa. Það er bara rífandi gangur í verkinu. Á svona vegferð fær maður stundum nýjar hugdettur og þá þarf að doka við og prófa þær viðbætur eða úrdrætti, allt eftir efnum og hjartslætti.

Það er hugsanlegt að afkastagleði mín á saumasviðinu stafi að hluta af því að mín bíður pappírsvinna sem mig bara langar ekki að vasast í. Frestur er á illu verstur. En þegar hann snýst um hið góða er bara hægt að segja eins og ljóðinu: vont og það versnar. Tilkynnist hér með að klukkan tvö í dag sest ég með símann og hringi ég þau símtöl sem þarf og skrifa þau skeyti sem nauðsynleg eru til að ýta því verki úr vör. Veggteppið fer ekkert lengra en það hefur gert síðan í fyrra, ekki fet. 


Skissur og skyssur

Ég fann sjálfkrýnda kviltdrottningu eins og þær gerast bestar. Jarðneskt form hennar er breskur lögfræðingur að nafni Helen Conway sem heldur úti bloggsíðu um viðburði í Kviltlandi þar sem alter-ego hennar, kviltdrottningin Helen, ræður ríkjum. Það er svo nærandi að detta niður á skapandi tjáningu eins og þessa. Hún birtist bæði í orði og verki - skrifum hennar og handavinnu. Það er mikill fjölbreytileiki í mannflóru kviltheimsins. Ef mig vantaði pípulagningamann í Póllandi mundi ég spyrja eftir slíkum starfskrafti á áskriftarpóstlista saumaranna.

Creating sketchbooksÞað var færsla á öðru saumabloggi þessarar Helen sem flutti mig á hennar fund. Þar segir hún frá handbók í gerð skissubóka fyrir útsaums- og textílvinnu. Hún dásamaði gagnsemi hennar í hástert og lét auðveldlega sannfærast og ákvað að útvega mér bókina. Það þarf ekki að beita miklum sannfæringarkrafti í Kviltlandi. Þar sýna verkin merkin.

Bókin á Amazon: Creating Sketchbooks for Embroiderers and Textile Artists eftir Kay Greenlees.

 


Ber er hver að baki nema sér bróður eigi

Áróðursmyndband lögreglunnar vegna mótmæla flutningabílstjóra!

 


Grunnbrauð

GrunnbrauðBrauðið stökk úr ofninum í myndatöku. Örlög þess munu þó verða meira í ætt við stökkið úr öskunni í eldinn því það verður með kvöldmatnum. Ég kalla þetta "grunnbrauð" því uppskriftin í bókinni hefur mátt þola mikið tog og teygingar hjá mér í gegnum árin. Í henni er rúgmjöl sem ég á yfirleitt ekki vegna þess að mér finnst það ekki sérlega gott og því rennur það alltaf út á tíma og gott betur. Ég hef einu sinni náð að koma mér upp iðandi dýragarði í stampinum og er því mjög kresin á dagstimpla rúgmjölspoka.

Uppskriftin er hér neðar. Ég tek það fram að það er nauðsynlegt að halda eftir allt að tveimur desilítrum af hveitinu við blöndun því magn þess er undir því komið hvaða annað mjöl er notað með. Í þessu tilviki notaði ég sigtimjöl sem er blanda að hveiti og rúgi án hýðis. Sennilega má alveg sleppa einum dl af hveitinu.

Nýgræðinga vil ég lóðsa yfir á fyrri færslu mína um leyndardóma gerbaksturs til að kynnast krókum og kimum þessara eldhústöfra.

Grunnbrauð:

50 gr þurrger
1/2 msk salt
1/2 msk sykur
3 dl rúgmjöl
6,5 til 7 dl hveiti
2 msk olía
1 dl heitt vatn
2,5 dl undanrenna/mjólk

Þurrefnum blandað saman að undanskildum 2 dl af hveiti sem bætt er í eftir þörfum við hnoðun. Heitu vatni hellt saman við mjólkina til að velgja hana. Vökvanum og olíu hellt yfir mjölblönduna. Hrært saman. Hnoðað og þá er bætt í því sem þarf af hveitinu sem eftir er.
Látið lyfta sér í skál undir klút í 40 mínútur. Hnoðað aftur og sett í smurt form. Ofninn hitaður í 200°C á meðan deigið lyftir sér. Penslað yfir það með volgri mjólk. Bakað í 25-35 mínútur.


Með blóm í haga

KirsuberjaknúpparNú stendur sem hæst hátíð kirsuberjaknúppanna í Washington borg. Þá er þess minnst að árið 1912 fékk borgin fleiri þúsund tré að gjöf frá Tókýó í Japan. Hátíðahöldin draga að aragrúa ferðamanna. Í fyrra var ég einn þeirra en fór því miður að mestu á mis við blómskrúðið því viku áður en ég kom hafði gert illskeytt vorhret með slíku hvassviðri að brumhnappar hreinlega slitnuðu af trjágreinunum svo lítið var eftir. Það litla sem ég sá fannst mér þó alveg nóg á lágstemmdum hrifningarskala mínum. Á mælikvarða borgarbúa fengu knúpparnir þetta árið þó ekki nema tvö stig af tíu mögulegum. Til hliðar er ljósmynd sem ég tók af fyrsta trénu sem ég sá í ferðinni.

Það var óskaplega kalt í borginni þessa daga. Innfæddir kvörtuðu líka og sögðu að í venjulegu árferði sæti fólki úti á verönd í stuttermabolum að kvöldlagi um þetta leiti. Þess í stað var vettlingaveður svo ég þurfti að kaupa mér glófa og náði þrátt fyrir það að fá kuldaexem á hendurnar sem hefur ekki gerst árum saman.

Nú horfi ég til þess með tilhlökkun að geta kannski barið herlegheitin augum að ári. Hér eru myndasyrpur frá hátíðinni


Íhugun dagsins

Það tekur sig stundum upp gamalt bros svo ég fer að huga að andans málefnum. Gúgglið er í senn stórskemmtilegt verkfæri og gagnlegt - ef maður kann að nota það. Í leit að skilgreiningu á hugtaki er tengist íhugun datt ég niður á þetta myndband. Það lofar góðu strax í upphafi - að leiðbeina um einfalda nálgun fyrir byrjendur í íhugun. Við sem tökum tilveruna mátulega alvarlega inn á milli getum ekki annað en dáðst að þeirri viðurkenningu veruleikans sem þar kemur fram er á líður.

 


Þegar kúmenkringlur bakast

Kúmenkringlur

16-20 kringlur
Bökunartími: 8-10 mín
Ofnhiti: 225°C
Bakist í miðjum ofni

100 gr smjör eða smjörlíki
3 dl mjólk
2 msk þurrger
1 tsk salt
1 tsk sykur
1 msk kúmen
1 egg
½ kg hveiti (8-8½ dl)

Kúmenkringlur 3Þurrefnum blandað saman en skilja þó eftir hálfan desílítra af hveiti. Smjörið brætt, mjólkin hituð með því að rétt rúmlega líkamshita. Hellt saman við þurrefnin ásamt sundurslegnu egginu. Hrært saman í vél eða rösklega með sleif í skál og svo hnoðað á borði. Afganginum af hveitinu bætt í eftir þörfum. Látið lyfta sér í skál undir klút í 40 mínútur.

Deigið barið niður og hnoðað um stund. Skipt í 16-20 bita, þeir látnir hvíla í 2-3 mínútur. Hverjum bita rúllað út í 40 cm lengju. Endarnir lagði saman, snúið upp á þrisvar sinnum, endarnir lagði ofan á miðja lengjuna svo kringla myndist. Látið lyfta sér á plötu í 15 mínútur. Penslað með sundurslegnu eggi. Bakað.

*****

 

KúmeskurðurÞetta eru aldeilis ekki hvaða kúmenkringlur sem er. Kúmenið týndi ég í Viðey og verkaði eftir kúnstarinnar reglum. Það er reyndar svo einfalt að enginn ætti að mikla það fyrir sér. Í Viðey er boðið upp á kúmentínslu fyrir almenning í síðari hluta ágústmánaðar og þá gefnar leiðbeiningar úr vinnslu þess.

Um gerbakstur hef ég ýmislegt gagnlegt að segja. Gerbakstur er flókin aðgerð að því leiti að vera samsett úr mörgum verkliðum. Enginn þeirra getur þó talist flókinn og því ættu flestir að geta skammlaust reitt fram ljúffengt, heimabakað brauð. Hins vegar eru nokkrar þumalfingursreglur sem sjaldnast standa í bókunum sem gera útslagið um hversu vel tekst til.

Megin skyssan sem mörgum verður á er að setja of mikið hveiti í deigið. Deigið á að vera það rakt að það sé varla hægt að taka á því nema klessast við það. Í því ástandi á að hnoða það vel og lengi. Hvað er lengi langt? Svona 3 mínútur í höndunum eða á lægsta hraða í hrærivél. Hér á maður hálfan desílítra af hveiti til góða sem geymdur var og til þess má því aðeins grípa að manni finnist geimvera í formi blautrar deigklessu ætla að taka völdin. Sjálf nota ég matvinnsluvél en þá er hnoðað skemur í henni og svo klárað í höndunum ef þurfa þykir. Ég læt þó yfirleitt vélvinnsluna duga.

Kúmenkringlur 1Málið er að við hnoðunina virkjast glútenið sem gerir deigið teygjanlegt svo brauðið verður létt og mjúkt. Vökvinn gengur betur inn í mjölið svo deigið verður meðfærilegra. Það þarf því ekki alltaf að bæta í mjöli heldur hnoða lengur í staðinn. Það skiptir máli að hafa salt og sykur í deiginu því hvort tveggja nærir gerið. Þegar deigið er hnoðað aftur eftir fyrri lyftingu (hefun) þarf að forðast að bæta í það hveiti því viðbótarhveitið missir af áhrifum fyrri hnoðunar og lyftingar. Það getur því skemmt árangurinn. Einnig þarf að huga vel að tímanum. Deigið getur ofhefast svo það fellur saman. Það gerist ef það er látið bíða of lengi. Það nær sér ekki aftur á strik eftir það. Það passar að kveikja á ofninum þegar  búið er að móta deigið eftir fyrri lyftinguna og setja það á bökunarplötu eða í form.

Bökunartími sem uppskriftir gefa fyrir gerbakstur finnst mér yfirleitt of langur. Baksturinn verður of dökkur og þurr fyrir minn smekk. Ég hef hann heldur í ljósari kantinum og þá er lungamjúkt að bíta í brauðið. Heil brauð er best að láta kólna á rist, vafin í klút, jafnvel rakan klút. Smástykki kólna best óbyrgð á rist. Ef það á geyma smábrauð (rúnnstykki, smásnúða og þess háttar) er best að setja það í plastpoka um leið og hitinn er farinn úr og frysta strax því gerbakstur heldur sér ekki vel til næsta dags. Það er þó ekkert að brauðinu en áferðin verður öll önnur. Þetta finnst mér eini gallinn við heimabakað gerbrauð í veislum. Það verður að vera bakað sama dag svo ég sé sátt eða þá fryst strax og hitað í ofni þegar á að nota það. Það þarf bara yfirleitt að baka svo mikið því það er mikið borðað af góðu brauði!

Kúmerkringlur 2Þegar grófara mjöl er í deiginu finnst mér yfirleitt þurfa að breyta hlutföllum sem gefin eru upp í uppskriftum. Ég minnka grófa mjölið og eyk við hveiti í staðinn. Annars verða brauðin þurr og hörð enda er minna glúten í öðru mjöli en hveiti. Við getum leyft okkur þetta á mínu heimili því hér glímir enginn við glútenóþol.

Þegar ég var búin að taka ljósmyndina af uppstilltri kringlunni kom ekki annað til greina en setjast að snæðingi. Bollinn er gamall, keyptur í Góða hirðinum í gær ásamt þremur öðrum á 200 krónur. Ég er búin að bíða lengi eftir tebollum. Ég vil hafa bollann gamlan og úr þunnu postulíni. Fyrir nokkru fékk ég þar fjóra gamla kaffibolla, líka úr þunnu postulíni. Nú liggur beinast við að halda teboð. Mig langar ekki að vera í matarklúbb heldur teboðsklúbb. Þó mundi ég sennilega ekki afþakka aðild að matarklúbb en hitt snertir mínar rómantísku nostalgíutaugar, örvaðar af staðalímyndum breskra kvikmynda um liðna tíð.

 


Karen Armstrong

Á bókalistanum mínum er "Goðsagnir í aldanna rás" eftir Karen Armstrong. Hugsun og framsetning Armstrong er skörp og aðgengileg. Þýðing Ingunnar Ásdísardóttur er einstaklega vel gerð. Nú er bókin á tilboði hjá Bóksölu stúdenta á Háskólatorgi. Hér fjallar Armstrong um framvinduna í  reynslu mannkyns af handanveruleika, vægi og hlutverk þeirrar reynslu á hverjum tíma.

Armstrong var í hópi verðlaunahafa þetta árið hjá TED (Technology, Entertainment, Design) sem hefur frá árinu 1984 stefnt saman hugsuðum og dugnaðarforkum til að örva og stuðla að umbreytingu í veröldinni með því að tengja fólk saman á ólíkum sviðum.

Hér er upptaka af ræðu hennar þar sem hún ber upp verðlaunaósk sína um "Charter for Compassion": "I wish that you would help with the creation, launch and propagation of a Charter for Compassion, crafted by a group of leading inspirational thinkers from the three Abrahamic traditions of Judaism, Christianity and Islam and based on the fundamental principles of universal justice and respect." 

 Ræðan er 20 mínútur, hnitmiðuð og hnittin, mettuð og manneskjuleg.


Í stíl

Þegar ég segist vera að stinga teppi er það þá þessi ímynd sem þið sjáið í hugskoti ykkar?

 

Aðferðin sem ég nota er barnaleikur. Krefst reyndar töluverðrar æfingar. Viðmiðið er 100 fermetrar af stungu til að teljast vera orðinn góður. Varlega áætlað er talað um 1000 fermetra til að teljast mjög góður. Þess wegna á maður að byrja snemma. Ég lifi í voninni.

Í samanburði við mig er þessi orðin úberflínk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband