Færsluflokkur: Bloggar
12.7.2008 | 10:35
Fata morgana eða Í föt á morgnana
Tildurrófan hún Silvía kenndi mér þennan leik. Mér leiðast fatabúðir en kannski mundi það auðvelda mér leitina að prenta út myndasettið, spranga inn í búð og spyrja hvort eitthvað sé til sem líkist einhverju á myndinni. Ekki að furða að ég saumaði flest allt á mig hér áður fyrr. Núna er það bara vesen. Ef þig langar að prófa þá smelltu bara á myndina. Þó aðeins sé um kvenfatnað að ræða þá sé ég ekkert því til fyrirstöðu að karlar setji saman sitt drag-gervi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.7.2008 | 20:42
Murta - pönnusteikt
Karlpeningurinn lét vaða við Þingvallavatn í gær og landaði fimm Þingvallamurtum. Frúin lét til leiðast og kastaði nokkrum flugum undir lokin en ekkert beit á. Feðgarnir stóðu úti í Þingvallavatni í vöðlum og voru flottir á að líta álengdar þar sem ég rölti meðfram vatninu. Það var heitt úti, sól í heiði og allnokkrir veiðimenn við ströndina.
Þegar heim kom var leitað að uppskrift sem fannst í bók Kristínar Gestsdóttur, 220 gómsætir fiskiréttir. Ég set hana hér inn því okkur tókst ekki að finna slíka á veraldarvefnum. Okkar fingrafar á réttinum fólst í að sleppa steinseljunni og bæta tarragon við kryddlistann fyrir steikingu.
Heil murta steikt í smjöri. Handa 5.
10 murtur
salt/pipar
safi úr 1 sítrónu
100 gr hveiti
50 gr smjör til steikingar
steinselja og sítrónubátar
Murtan er slægð, uggar klipptir af, tálknin tekin úr hausnum en hann hafður á. Skafið slím af roðinu, þvoið vel og þerrið með eldhúspappír.
Sítrónusafa hellt inn í murtuna, salti og pipar stráð inn í, látið bíða í 10-15 mínútur.
Murtunni velt upp úr hveiti.
Smjör brætt á pönnu, hitinn lækkaður svo ekki brenni. Murtan steikt í 5-7 mínútur á hvorri hlið. Snúið aðeins einu sinni svo fiskurinn losni ekki í sundur.
Lagt á fat, smjöri bætt á pönnuna og það svo borið fram með fiskinum ásamt steinselju og sítrónubátum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.7.2008 | 10:58
Múffu munaður
Þessar múffur bakaði unglingurinn um helgina. Tilgangurinn var að fínpússa uppskriftina sem við höfum verið að aðlaga kenjum okkar um hríð. Það hefur verið vandamál að uppskriftir fyrir múffur hafa gefið af sér þurrar, lágreistar kökur. Skúffukakan okkar er rök, mjúk og loftmikil. Okkur fannst sú uppskrift því efnileg til múffugerðar en hún hefur reynst of mjúk. Kökurnar hafa rifnað í sundur þegar þær voru teknar úr forminu nema sett væru pappírsform innan í. Ef settir voru súkkulaðibitar ofan á sukku þeir til botns við bakstur og varð allt súkkulaðið eftir inni í pappírsforminu þegar múffurnar voru teknar úr því til átu. Það var sem sagt ekki eitt sem var að heldur allt.
En nú virðist þetta var komið. Allir sáttir og kökurnar til friðs. Þá er hægt að fara að leika sér með uppskriftina. Þessi uppskrift hefur komið betur út úr matvinnsluvél en hrærivél eða handþeytara. Sé slík vél ekki fyrir hendi mæli ég með að aðferðinni sé samt beitt í hinum tækjunum en ekki upp á gamla mátann þar sem tíðkast að hræra fyrst saman smjör og sykur, bæta í eggjum og loka þurrefnum á víxl við vökva. Í matvinnsluvél á að blanda öllum þurrefnum saman. Vélin er stöðvuð og smjörlíkinu í bitum er dreift yfir og svo hakkað saman við á mesta hraða í fína mylsnu. Vélin stöðvuð. Út í er sett egg og súrmjólk, vélin sett í gang á lágum hraða og blandað augnablik, hraðinn aukinn vel stutta stund á meðan allt samlagast. Ekki má hræra lengi. Áferðin á að vera svolítið kornótt. Deigið sett í djúp "möffins" bökunarmót, söxuðu súkkulaði stráð yfir. Bakað við 175°C í 15 mínútur. Kökurnar látnar kólna alveg í mótinu áður en þær eru teknar úr. Það borgar sig að renna hnífsblaði meðfram þeim áður en þær eru losaðar úr. Sjálf nota ég kökumót úr sílikoni og smyr þau örþunnt áður.
Súkkulaðimúffur:
2 bollar hveiti
1 1/2 bolli sykur
1/3 bolli kakó
1/2 tsk matarsódi
2 tsk lyftiduft
2 tsk vanillusykur
100 gr smjörlíki
1 egg
1 bolli súrmjólk
50 gr suðusúkkulaði
Skipta má út fjórðungi súrmjólkurinnar fyrir vel sterkt, kalt kaffi. Þá er líka prýðisgott að skipta út helmingnum af sykrinum fyrir púðursykur. Ef púðursykur er notaður má prófa að sleppa kakóinu og súkkulaðinu. Slíkar múffur heita hér "Púðurkellingar".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.7.2008 | 23:11
Útskrift úr starfsþjálfun
Í dag útskrifaði biskup Íslands 12 kandídata úr starfsþjálfun djákna- og prestsefna Þjóðkirkjunnar. Yðar einlæg var þar á meðal.
Eins og myndin sýnir sem undirrituð afritaði úr frétt af vefsíðu kirkjunnar var gleðin við völd enda fagnaðarefni fyrir okkur öll að ljúka þessum lokaáfanga í námi okkar. Í eiginlegum skilningi er þessi útskrift þó ekki endir heldur upphaf í nýju samhengi þess sem við höfum lengi lifað út. Það er víst að við munum ekki öll lenda þar sem við ætluðum okkur í upphafi ferðar. Sumum okkar mun það koma þægilega á óvart. Sumum okkar verður það til trafala við að finna köllun okkar hugmyndaríkan farveg. Ég á þá bæn að við mættum öll finna gjöfulan og nærandi vettvang fyrir hæfileika okkar og hjartans þrá í samfélagi við Guð og fólk með góðan vilja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
2.7.2008 | 22:47
Húsbóndapítsa
Þó Z-an sé ekki lengur í almennri notkun íslensks ritmáls nema hjá mogganum og nokkrum sérvitringum þá er ekki hægt að skrifa "pissa" þegar ritað er um flatbökur. Ég hef ekki getað fellt mig við íslenskun orðsins, pítsa. En nú þegar ég sé það hér á skjánum stingur það ekkert svo í augun að þau standi á stiklum.
Húsbóndi heimilisins er í sérhæfingu þessa dagana og bjó til pítsu frá grunni eftir uppskrift húsmóðurinnar. Ég hvíslaði fúslega ýmsum fagleyndarmálum um gerbakstur og ýmislegt fleira sem enginn veit í eyra hans. Það má deila um hvert þeirra kom honum best við matargerðina. En hér er afraksturinn rjúkandi í ofninum og uppskriftin fyrir neðan. Þeim sem vilja ólm hnýsast í leyndardómana er bent á fyrri færslur mínar um gerbakstur.
Áleggið hér er samtíningur úr ísskápnum: pítsusósa úr flösku, rifinn skólaostur, brauðskinka, kjúklingaálegg, ólívur, paprika, maís, rauðlaukur og feti.
Pizzadeig:
5 dl hveiti
1 1/2 tsk þurrger
1/2 tsk salt
1/2 tsk sykur
1 egg
2 msk olívuolía
1 1/2 dl volgt vatn
Þurrefnum blandað saman. Egg, olía og vatn sett út í og hrært saman við, síðan hnoðað vel.
Látið lyftast undir klút í 40 mínútur. Þá slegið saman og hnoðað um stund. Deigið sett á smurða plötu og látið hvíla í 3 mínútur áður en það er flatt út. Sósu og áleggi dreift yfir. Sett í 220°C heitan ofn og bakað í 12-18 mínútur.
Það má ekki gleyma að láta deigið hvíla áður en það er flatt út. Annars vill það skreppa saman jafnóðum og það er flatt út. Það passar að kveikja á ofninum þegar deigið er sett á plötuna eftir seinni hnoðun.
Bloggar | Breytt 16.3.2012 kl. 18:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.6.2008 | 11:54
Augnablik
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2008 | 17:28
Skjóta fyrst, spyrja svo!
Held ég panti Kevlar-vesti á alla familíuna og láti senda á hótelið áður en við förum til DíSí. Utan yfir verð ég í bol með þessari mynd!
Það getur víst verið með ólíkindum hvaða skilning fólk leggur í það að þurfa að verja sig, ef mark er takandi á Mogganum yfirhöfuð í gegnum árin. Mér finnst það afar óþægileg tilhugsun að almennir borgarar gangi með skammbyssur innanklæða á Laugaveginum, hvar sem hann er í heiminum. Ég get sætt mig við að sjá fólk í einkennisklæðum bera vopn við störf sín en að Jói á horninu sé með hólk í kúrekastígvélinu sínu þegar hann skutlar krökkunum í skólann er ekkert nema síðasta sort.
Við hjónin snæddum eitt sinn hádegisverð með manni í Chicago sem sagði okkur að hann hefði verið með pístólu í stígvélinu sínu árum saman en hætt því þegar hann áttaði sig á að ástæðan var sú ein að hann var smeykur við ekki neitt og mestar líkur væri á að hann skyti sjálfan sig í fótinn.
![]() |
Réttur Bandaríkjamanna til skotvopnaeignar staðfestur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.6.2008 | 22:11
Fegurðin býr í sjáandans brá
Hinir ýmsu útúrdúrar mannlífsins geta verið tækifæri til að setja hlutina í annað samhengi, jafnvel sjá þá loksins í réttu samhengi. Í það minnsta má velta fyrir sér möguleikunum njóti maður þeirrar náðar að koma auga á þá.
Ég fór í andlitsbað á snyrtistofu í dag. Það getur hvort tveggja talist dekur eða bruðl, allt eftir því hvernig á það er litið. Það er með ólíkindum hve margar tegundir andlitsbaðs er um að velja. Ég játaði mig algjörlega vanhæfa og treysti snyrtifræðingnum til að velja fyrir mig. Málið hefði verið mun einfaldara ef ég væri karlmaður því á verðlistanum var ekkert val fyrir karla, bara eitt stykki "herraandlitsbað", eins konar "one size fits all" svo það er full ljóst að þarna skiptir stærði ekki máli.
En aftur að reynslu minni. Niðurstaða mín, fyrir utan mjúkan vanga og eitt rennsli enn á debetkortinu mínu, er sú að það megi sjá líkamsdekur í víðara samhengi. Það sem fram fór minnti mig helst á trúarathöfn. Þar sem ég lá á bekknum - innvafin eins og reifabarn í dúka með stein í skauti mér, á meðan snyrtifræðingurinn bar mjúklega hvert dýrindis smyrslið á fætur öðru á andlitið og strauk taktbundið andlit, háls og herðar - leið mér eins og drottningu í magnþrungnu ritúali. Ég minntist sögunnar af Esther sem bjó sig undir að biðja þjóð sinni griða.
Þessi samlíking er ekki út í hött því fyrir manneskju eins og mig sem upplifir lífið stærra en svo að það verði vegið og mælt er það göfugt stefnumót að mæta lífinu sjálfu í eigin brjósti og fá að bergja af þeim óþrjótandi bikar. Það er auðmjúk reynsla sem vekur þakkargjörð.
Segið svo að andlitsbað sé helber hégómi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.6.2008 | 10:36
Kirkjusmartís
Litadýrðin hefur ekki vafist fyrir mér við hönnun kirkjutextíla þó hinir eiginlegu grunnlitir kirkjuársins séu fáir. Grunnlitinn lít ég á sem ramma og innan hans eru þeir litir sem best þjóna frásögn viðkomandi skrúða. Hér til hliðar er úrklippa úr fjólubláum skrúða sem ég saumaði. Litirnir í honum eru silfur, hvítur, rauður og fjöldinn allur af bláum, vínrauðum og fjólubláum litum.
Fleiri eru í vinnslu. Rauði messuskrúðinn er rauður og gulur, sá græni er í mörgum grænum og skærbláum litum með bæði silfri og gulli. Svarti skrúðinn er fyrst og fremst grár með svörtu, rauðu og silfri. Loks er það sá hvíti. Hann er hvítur en auk þess með gylltum og fjólubláum.
Liti kirkjuársins hef ég alltaf séð sem áskorun fyrir listafólk til að beita öllu innsæi sínu í litafræði og táknfræði. En ég er spennt fyrir þessari samþykkt prestastefnu að láta litgreina kirkjuárið upp á nýtt. Ég held að litblindan hafi frekar verið úr þeirri áttinni enda er engin listmenntun inni í guðfræðináminu. Það er nokkuð sem ég vil fá breytt.
![]() |
Kirkjan skiptir litum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2008 | 09:44
Handrukkun?
![]() |
Karl prins greiddi 350 ára gamla skuld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)