Færsluflokkur: Bloggar
2.2.2009 | 03:06
Útivera
Hér var bongóblíða í dag. Hitinn náði tæplega 17 stigum í hverfinu mínu þegar hæst var. Hitinn hefur hangið við og neðan við frostmarkið um hríð svo þetta var ómetanlegt tækifæri til að vera úti. Ég fór í dýragarðinn og fannst óviðjafnanlegt að gera verið svona lengi úti án þess að vera kafdúðuð og frostbitin í kinnum. Skokkararnir fóru hamförum, berleggjaðir í stuttbuxum og skokkbrjóstahöldurum eins og það væri komið sumar. Ég taldi mig þó vita af reynslunni af norðurhjara að slík umskipti séu varasöm og passaði mig að vera nógu vel klædd, í peysu og léttri úlpu. Það sýndi sig líka að þegar
maður stóð um hríð í skugga var næstum andkalt. Það var mikið af fólki í dýragarðinum enda vinsæll til gönguferða almennt hjá fólki því ekkert kostar inn.
Þarna sá ég meðal annars lítil búr með marglyttum. Leiðsögukona sagði okkur að illa hefði gengið að halda marglyttum á lífi í búrum því þar hröktust þær úr í horn og voru fastar án þess að ná nokkru æti. Svo datt starfsmanni í hug að hanna þröng búr með botni sem er hálfhringur að lögun sem veldur því að hið stöðuga vatnsstreymi sem er inn í búrið verður að hringstraumi. Þannig svífa marglytturnar upp og niður, hring eftir hring og braggast hið besta.
Frá dýragarðinum rölti ég að annarri lestarstöð en ég kom á og fann þá marga litla veitingastaði, ítalska matvöruverslun og aðra með lífrænum matvörum. Ég á örugglega eftir að ráfa þangað aftur enda uppáhalds ísbúðin mín á sömu slóðum. Ég hafði bara aldrei komið á svæðið úr þessari átt og því ekki séð valkostina. Það er alveg stórskemmtilegt að þvælast svona um ný svæði þegar maður veit svona nokkurn veginn hvar maður er til að komast þaðan aftur.
Ég hef alltaf farið ein í þessa sunnudagstúra. Hér á skólanum eru flestir bundnir af kirkjusókn á sunnudögum, ýmist sem beinir starfsmenn eða vegna starfsþjálfunar svo það þýðir lítið að leita eftir ferðafélögum. Kóreska vinkona mín kemst ekki með mér vegna sinnar starfsþjálfunar á sunnudögum. Hjá henni fer allur dagurinn í það. Hún fer úr húsi klukkan eitt og kemur heim um kvöldmatarleytið. Við höfum ætlað okkur að skreppa stundum saman en þurfum þá sennilega að skipuleggja það út í æsar með einhverjum fyrirvara svo báðar eigi fyrir því að líta upp úr bókunum á sama tíma.
Já, það var aldeilis munur á klæðaburði mínum í dag og um síðustu helgi þegar ég fór dúðuð í "Museum of American History" og heilsaði upp á C3P0.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2009 | 03:59
Snæðingur
Kvöldmaturinn minn var líbönsk pizza, Lahem Bel Ajin, með jógúrtsalati og hommos á veitingastaðnum Lebenesa Taverna. Þetta er afbragðs veitingastaður og afar vinsæll. Fyrirtækið er með nokkur útibú en staðurinn sem ég fór á er mjög viðkunnalegur. Ég borðaði þar líka þegar ég var hér um páska árið 2007 og heimsótti skólann. Pizzan minnti mig reyndar á kjötrétt sem móðuramma mín heitin eldaði stundum úr lambakjöti í lok sláturtíðar svo bragðið kom mér skemmtilega á óvart.
Það bar nokkuð sérstakt fyrir augu á kvennasalerninu þar, þessi líka stóri stampur af munnskoli fyrir gesti og birgðir af staupum þar við. Konur eiga því frekar að venjast að á salernunum séu tissjúbaukar eða jafnvel handáburður ef mikið er lagt í staðinn. En munnskol! Við skólafélagarnir sem fórum þarna saman í tilefni af afmæli eins okkar gátum ekki fundið ástæðuna fyrir þessu nema ef vera skyldi áhyggjur af hvítlauksandadrætti eftir á.
Þegar heim á vist var komið skruppum við yfir í forsetabústaðinn sem ein úr hópnum býr í. Forsetabústaðurinn er íbúðarhús sem reist var fyrir 50 árum fyrir forseta skólans en er nú nánast að hruni komið svo til stendur að breyta því í skrifstofur svo ekki þurfi að gera þær viðamiklu endurbætur sem heilbrigðisteftirlit mun krefjast fyrir íbúðarhúsnæði. Þar lærði ég afspyrnu skemmtilegt spil, Skeiðar, og skemmtum við okkur dáyndisvel við það. Nokkur í hópnum eru nú komin með augastað á þessu húsi í von um að geta fengið úthlutað þar næsta haust. Það væri hreint yndislegt að búa með þeim enda allt rólegheita manneskjur. Við vorum sammála um að þar þyrfti þó að taka til hendinni og kannski gætum við gert skólanum tilboð sem hann gæti ekki hafnað.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2009 | 18:15
Skríllinn fundinn
Skríllinn er fundinn. Hann er ekki almenningur heldur stjórnmálamennirnir. Meira vit hefði verið í að stjórnarandstaðan öll hefði fengið umboðið og Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hefðu lofað að verja þá ríkisstjórn falli og það ekki með neinum óútfylltum ávísunum eins og Framsókn uppástendur að hafa núna í höndunum. Framsókn fékk ekki neitt umboð og því í hæsta máta óeðlilegt að sá flokkur sé að leggja línurnar um málefnasamning VG og Samfylkingar. Forseti veitti umboð vegna vilyrðis Framsóknar fyrir stuðningi og nú sýnist mér Framsókn vera að draga í land með það.
Annars legg ég til að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar, hver sem hún verður, verði að koma á þjóðstjórn
![]() |
Ný ríkisstjórn eftir helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2009 | 03:45
Netættleiðing
Það má ættleiða mig í gegnum netuppboð hér á blogginu. Vinsamlegast setjið tilboðin inn á athugasemdir.
Ég er afbragðs námsmaður í spennandi og gefandi námi. Sá sem ættleiðir mig fær innsýn í mikilvæg gildi og nýjar leiðir í lífinu. Mér fylgir heil fjölskylda í ofanálag. Sá fjárfestir sem ættleiðir mig fær því barnabörn án nokkurrar fyrirhafnar. Maðurinn minn er stórgóður félagsskapur og kann eitt og annað fyrir sér. Hann kann líka að elda svo það er hægt að koma til hans í mat á meðan ég er í námi erlendis.
Ekki væri verra ef sá sem ættleiðir mig væri í aðstöðu til að láta útistandandi námslán mín gufa upp að námi loknu. Það kæmi mér einnig vel að fá endurgjaldslaus afnot af einkaþotu á meðan á námi stendur svo ég geti farið heim um helgi. Til að ylja þeim hinum sama um grunnlægar hjartarætur fær hann svo sent innrammað útskriftarskírteini mitt sem mun sóma sér vel yfir arni í hvaða glæsivillu sem er.
Það á móti mun ég og afkomendur mínir í tíunda lið greiða skuldir fjárfestisins og hans góðkunninga um heim allan af einskæru þakklæti fyrir athyglina.
![]() |
Bjóða fjárfestum að ættleiða stúdenta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2009 | 13:58
Addams fjölskyldan
Þau minna mig óneitanlega á Addams fjölskylduna, svartklædd með skvettu af gráu og hvítu. Kannski eru þau á leið í jarðarför. Skyldu börnin fá að nota alla vaxlitina í boxinu?
Myndin er tekin af visir.is
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2009 | 17:00
Lokað vegna veðurs
Það er búið að loka skólanum vegna veðurs og allir tímar eftir hádegi því verið felldir niður. Úti er tveggja sentimetra snjólag. Spáin hljóðar upp á allt að 10 sentimetra snjó eftir daginn. Það er eins gott að vera ekki veðurhræddur hérna. Ætli ég fari ekki bara í göngutúr í allri ófærðinni og býsnist yfir snjóalögum.
Krakkarnir sátu frammi í eldhúsi á náttfötum og nærbrókum í morgun og vonuðust eftir því að þurfa ekki að klæða sig. Þau töluðu um það með stjörnur í augunum að kannski félli kennsla niður í dag. Þá var bara snjóföl úti. Ég er ekkert hress með það enda kosta námskeiðin offjár og tímar sem falla niður þýða bara aukið vinnuálag. Íslenska vinnusiðferðið er upp á sitt besta vestan Atlantsála enda íslenskir námsmenn erlendis hin besta landkynning.
Síðar sama dag:
Nú er ég búin að bæta við nokkrum ljósmyndum héðan úr vetrarríki sem ég tók í glannafenginni gönguför minni í kafaldinu. Efst er Wesley garmurinn í sjóræningjagervi, þá skólabyggingar með matsal til vinstri og heimavistinni minni til hægri. Loks er mynd af runna í snjóham.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2009 | 23:28
1. Mósebók 1:3-4
Hér má sjá skapandi úrvinnslu mínua á námskeiðinu "Art as Worship, Worship as Art". Við fengum í hendurnar límstifti, svart blað og hvítt blað en engin verkfæri önnur og fengum svo 15 mínútur til að fanga þetta augnablik frásagnarinnar um tilurð ljóssins við sköpun heimsins. Mitt stykki er "aðgerðapakki" - samanbrotið svart blað og þegar það er opnað brýst ljósið fram.
Leiðbeinandi á námskeiðinu er Deborah Sokolov. Kennslubækurnar eru:
Don Saliers, Worship Come to its Senses
Timothy Beal, Roadside Religion
Robin Jensen, The Substance of Things Seen
Námsmatið byggir á vinnu nemenda allt námskeiðið. Skila þarf skriflegum viðbrögðum við lestri í hverri einust viku og gildir það 30% af einkunn. Þátttaka í kennslustundum er 30% af einkunn svo fólki er betra að mæta og leggja sitt af mörkum. Loks gildir lokaverkefni (listaverk) ásamt vinnubók um tilurð þess sem halda á allt námskeiðið 40%. Það verður ekki lokapróf en mikið held ég að við verðum fegin þegar þessu er lokið.
Bókarhöfundurinn Don Saliers ku hafa umbylt helgihaldi Meþódista hér í landi og þessi bók er algjör grundvöllur náms um tilbeiðslu þar sem hún skýrir litúrgíuna sem listform. Bókin er sögð aðgengileg til lestrar fyrir hvern sem er og mælti kennari með henni fyrir safnaðarfræðslu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.1.2009 | 18:32
Jobsbók
Færslur um ritskýringanám í Jobsbók verða á þessum vef. Þarna verða lestrarglósur úr námsbókunum en ekki mín viðbrögð við lestrinum. Þegar nýjar færslur rata þangað inn mun ég setja tilkynningu hér á bloggið.
Nú eru þar glósur upp úr A fresh reading on the book of Job eftir Philip Yancey.
Stórsniðugt myndband um Jobsbók þó ég fullyrði ekkert um afstöðu prófessorsins míns um sjónarmið þess:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.1.2009 | 03:01
Innsetningin í Richmond
Ráðstefnan í Richmond var formlega sett í morgun svo ég get loksins opinberað hverju ég hef verið að vinna að úti í henni Ameríku í allt haust. Þetta er innsetning, hönnuð af kennara mínum, Catherine Kapikian. Minn þáttur í verkinu var að búi til sniðin fyrir öll formin í fullri stærð, þ.e. bókstafina, hringformin og þrenningartáknið með tilheyrandi útreikningum út frá litlum skissum sem gáfu ekkert uppi nema endanlega lengd. Einnig bjó ég til þrenningartáknið. Ég hef heyrt því skotið á guðfræðinga að þeir hafi valið fagið vegna þess að þeir séu lélegir í stærðfræði. Ég segi nú bara að ef einhver er lélegur í stærðfræði þá ráði hann ekkert við guðfræði. Í þessari innsetningu er margur höfuðverkurinn fólginn og sem betur fer er þetta komið upp. Á morgun verður svo allt tekið niður og ekki notað aftur.
Verkið er allt saumað saman úr skelfilega óþekkum gerviefnum sem skríða þangað sem þeim sýnist án þess að svo mikið sem andað sé á þau. Sú fjölþraut var unnin af skólasystur minni, Soozung Sa Rankin. Þrenningartáknið var ég búin að sauma saman en þurfti að rekja upp aftur því það gekk í bylgjum. Ég harðneitaði að sauma það aftur, límdi það saman í staðinn og límdi það svo aftur á frauðkarton sem hangir laust framan á renningnum. Þarna á bak við eru opnar loftristar svo renningarnir eru á sífelldri hreyfingu sem gefur verkinu skemmtilega vídd. Við höfðum haft miklar áhyggjur af þessum loftstraumi en sem betur fer vann hann með okkur en ekki á móti.
Í gærkvöldi var vinnustofa þar sem ráðstefnugestir tóku þátt í að koma þessu upp. Einn hópurinn var með mér í að ganga frá þessu líka stóra þrenningartákni sem varð að krækiberi á heiðarlyngi í rýminu. Lofthæðin er svo mikil að maður fær hálsríg af því að líta upp í kapelluloftið.
Einn vinnuhópurinn hannaði frá grunni dúk á altari sem þarna er og setti hann saman á tveimur tímum. Mynd af honum er hér til hægri. Efnið er límt saman með straulími og rimpað í höndunum enda ekki ætlað til frekari notkunar. Ég á ekki orð yfir það að fólki skyldi takast þetta á svo skömmum tíma án nokkur undirbúnings.
Ráðstefnan hefur verið mjög ánægjuleg, fólk áhugasamt og einstaklega forvitið um listaverkið. Í vinnustofunni sýndum við myndasyrpur um vinnuferlið sem ég setti saman og sú innsýn reyndist gefa fólki enn meiri nánd við hina endanlegu afurð. Það er svo sjaldan að fólk fái að fylgjast með tilurð listaverka en fyrir listamanninum er vinnan oft sterkasti þáttur verksins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.1.2009 | 13:06
Á ráðstefnu í Richmond
Ég sit hér í kulda og nánast trekki í Richmond í Virginia. Þar er ég stödd á ráðstefnu Howie center um vísindi, list og guðfræði. Gestahúsið er örugglega ekki kynt og ég skil alls ekki hvernig fólk fer að hérna. Eftir klukkutíma byrja fyrirlestrarnir og hin nýuppgerða ráðstefnubygging er eins og frystihús. Ég verð álíka ósmart og við innsetningu forsetans á þriðjudaginn. Ég er lí opapeysu og með rúmteppi sveipað um mig.
Í gærkvöldi var sett upp listaverkið sem ég hef verið að vinna að með kennara mínum og einum samnemanda. Ráðstefnugestir gátu mætt í vinnustofu til þess og kom þátttökufjöldinn á óvart. Meira af því seinna. Skólinn, Union Theological Seminary, er staðsettur í einhverju úthjara úthverfi og það er ekki svo mikið sem kaffibolli í göngufæri í morgunkulinu. Aðframkomin lagði ég í leiðangur um húsið og fann eldhús sem lumaði á tepakka inni í skáp svo ég gat fengið mér tebolla. Nú er kominn tími á annan því ég er farin að skjálfa.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)