Færsluflokkur: Bloggar
12.3.2009 | 02:46
Vor í vændum
Það er að bresta á með vori hér í DíSí. Fyrir viku var hér ríflega ökkladjúpur snjór og þá tókum við hjónin þessar myndir af okkur. Eiginmaðurinn kom í viku heimsókn. Það var lestrarvika í skólanum og því engin kennsla. Ég komst þó ekkert frá því ég sæki líka tíma í American University og þeirra vorfrí er þessa vikuna. En skjótt skipast veður í loft og um síðustu helgi sat ég úti berfætt og á ermalausum bol fyrir hádegi með skólabækurnar. Það var slíkur vorhugur í mér að ég sópaði uppsöfnuðum hálkueyði af stéttinni framan við anddyri heimavistarinnar eins og ég ætti heima þar. Til að vera alveg viss makaði ég á mig sólarvörn þó
ekki væri lengur hætta á endurkasti frá snjónum enda hann allur búinn að taka sig upp. Í dag sá ég fyrstu blómstrandi tré vorsins, skollaber og kirsjuberjatré.
Ég kórónaði stemminguna og keypti ég mér pils í dag enda tók ég ekkert slíkt með mér út og komið Mæjorkaveður. Svona til að gera kaupóða og kreppusvekkta Íslendinga öfundsjúka fann ég á lagersölu silkipils frá Dana Buchman, eðalhönnuði í New York, fyrir litlar 2.600 krónur. Fullt verð á því var áður kr. 36.075 samkvæmt skráðu gengi Íslandsbanka í dag en þegar gengið var lægst í vetur (einmitt þegar ég fékk námslánið) hefði pilsið kostað 47.450 krónur. Annað hvort læt ég jarðsetja mig í þessu pilsi eða ánafna það erfingjum í fjarlægri framtíð. Hver gengur í svona löguðu á fullu verði? Ég bara spyr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2009 | 14:41
Þvottavélin hefur engu breytt...
...ef þvottar eru enn á ábyrgð kvenna.
...ef þvottavélar eru svo dýrar að efnalitlar konur hafa ekki ráð á þeim.
...ef þvottavélar eru enn auglýstar með súperkonum sem flögra milli glansandi heimilistækja.
...ef það er ekki sjálfsagt fyrir hinn sjálfstæða karlmann að nota þvottavél.
![]() |
Þvottavélin frelsaði konur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.2.2009 | 12:25
Skemmtanaskattur
![]() |
Komugjöld á skilunardeild verða afnumin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.2.2009 | 03:44
Kanverskur bolludagur
Í staðinn fyrir bollubakstur þetta árið rölti ég út í sælkerabúð og keypti mér "eclairs". Þó þetta slagaði hátt upp í að vera "besti vinur aðal" og fokdýrt þá jafnast ekkert á við heimabakaðar vatnsdeigsbollur með jarðarberjasultu, þeyttum rjóma og ofan á stökkri súkkulaðibráð úr Síríus suðusúkkulaði. Ég á svo sem súkkulaðið uppi í hillu og rjóma í frystinum en það var eiginlega of mikið fyrir því haft fyrir mig eina. En ég hélt upp á minn konudag með því að fá mér eklers í dag í staðinn fyrir bollur á morgun.
Í gær fór ég á "Píkusögur" í flutningi nemenda við American University í tilefni af V-Deginum. Þetta var stórgóð sýning og stemming í salnum. Mér áskotnaðist frímiði rétt fyrir þsýningu og ákvað að drífa mig enda nýbúin að ljúka einni ritgerð og var við það að vinda mér í næstu. Nú sit ég yfir henni og reyni að draga saman með eigin orðum sérstæða lífsreynslu heilags Antoníusar hins mikla frá Egyptalandi. Hann var "svo sannalega eitthvað annað", eins og Kaninn mundi segja. Við mundum segja að honum hafi ekki verið fysjað saman. Þessi munkur eyðimerkurinn dó 103 ára gamall árið 356 og hafði þá ekki þvegið á sér fæturnar öðru vísi en þegar hann neyddist til að vaða yfir ár sem voru nú óvíða í eyðimörkinni. Hann hélt góðri sjón og öllum tönnum en þær voru víst orðnar frekar slitnar. En það eru þó ekki svona smámunir sem prófessorinn minn hefur áhuga á að lesa um í ritgerðinni minni heldur um afstöðu Antóníusar til efnislegra gæða, veraldlegt líf, líkamans og aríanisma. Svo á ég að poppa þetta upp með útlistun á freistingum sem herjuðu á hann sérstaklega og allri þeirri tælingu freistarans sem hinir trúuðu gátu orðið fyrir á fjórðu öld. Punkturinn yfir i-ið, kirsuberið á kökunni, eru svo dyggðirnar sem þroska skyldi með sér í staðinn fyrir heimsins prjál. En, lesandinn athugi það, þetta er ekki fyrir guðfræðinámið heldur listasöguna sem ég læri í American University.
Það er eitthvað sérlega áhugavert við þessa tengingu "Vagina Monologues" og heilags Antoníusar sem var illa þjakaður af púkum í konumynd , kannski enn frekar vegna þeirrar freudisku innsláttarvillu minnar ofar að rugla saman trúaður og trúður. Það var ekki í fyrsta skiptið. Til að toppa það skrifaði ég fyrst innsláttarvinna. Ekkert rangt við það, merkingarlega séð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.2.2009 | 03:19
Menning í öll mál
Það er skammt stórra högga á milli hjá mér í menningunni. Ég var búin að koma mér í þá skipulagsóreiðu að fara tvisvar út að borða sama daginn. Síðast þegar ég fór út að borða hér gerðist það tvisvar á einni viku.
Í hádeginu fór ég á gríska krá og fékk mér pítu með lambakjöti, tómötum og lauk. Hún var með eindæmum góð og sósan hreint afbragð. Þar að auki var ekkert vesen að borða hana. Ég borða pítu helst bara heima hjá mér með dregið fyrir glugga og ljósin slökkt því þetta er subbumatur í mínum höndum. En ég var bara til fyrirmyndar í dag, klíndi engu í andlitið á mér, missti ekkert niður á mig og ekki heldur niður á borðið.
Í kvöld fór ég svo á ítalskan pizzastað og fékk kafbát með kjúklingi, pestó og ólívum. Hann var vel heppnaður, kjúklingurinn mjúkur og safaríkur og pestóið mátulega bragðmikið. Eins og gengur hér þá var þetta tveggja manna samloka svo ég á helminginn inni í ísskáp fyrir morgundaginn. Samlokuátið gekk líka slysalaust fyrir sig. Ég veit ekki hvort þetta er siðfágun á eftir áætlun eða að mér hafi bara farið fram í snæðingi á almannafæri.
Kóreska vinkona mín, Heesung, fór með mér í hádeginu en Madonna, bandarísk skólasystir mín, borðaði með mér í kvöld og er mynd af okkur saman hér neðar. Heesung er löngu búin að gefa bandarískan mat upp á bátinn enda mötuneytið ekki alltaf það besta sem Kaninn getur boðið upp á þegar hann leggur sig fram. Hún var orðin tortryggin á allan mat annan en kóreskan en var til í að prófa líbanska veitingastaðinn sem ég sagði frá í annarri bloggfærslu. Hún var svo alsæl með þá reynslu að nú vill hún framvegis þræða þjóðlega veitingastaði ef á að spandera í slíkt á annað borð. Við fundum í leiðinni írska krá sem við stefnum á síðar. Hversu írsk hún er í raun skal ósagt látið svo við ætlum að fá okkur hamborgara þar. Ég sagðist þvertaka fyrir að fara á McDonalds ef við ætluðum á annað borð að fá okkur hamborgara saman. Það væri bara sóun á upplifuna þó verðið sé tvöfalt. Svo það var afráðið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.2.2009 | 04:15
Brött að braggast
Kvefið fór loksins að láta undan síga í vikubyrjun. Þó ég taki enn hóstahviður vogaði ég mér út í langan göngutúr í dag, enda hékk hitastigið í 22°C. Nú kemur í ljós hvort það er góða veðrið sem leggur mann í rúmið eða ofraun. Á leið minni gekk ég fram á þessar prúðbúnu gínur að spóka sig í góðviðrinu, fjarri góðu gamni á útsölunni inni fyrir á sérsaumuðum tískuflíkum.
Ég gekk frá National Cathedral niður á M stræti í Georgetown. Þó þetta sé ekki nema 3 kílómetra leið þá verður hún drjúg með viðkomu í listagalleríum og áhugaverðum smáverslunum sem hafa yndislegar gluggaútstillingar til að horfa á. Einnig hægir á yfirferðinni hve stutt er á milli gatnamóta og þar þarf yfirleitt að bíða eftir hvíta kallinum. Það eru engir grænir kallar í Washington DC, aðeins hvítir. Hvort þetta er eftirlifandi angi af Suðurríkjastemmingu þessa landshluta skal ósagt látið. En hvíti kallinn hefur eitt fram yfir þann græna: hann kann að telja. Með honum birtist tíminn sem vegfarandinn hefur til að arka yfir. Svo er talið niður og yfirleitt er ekki naumt skammtað. Hér er algengt að fá frá 40 til 70 sekúndur til að komast yfir 4 til 5 akreinar. Það er nú eitthvað annað en heima þar sem maður strandar á miðlínu tveggja akreina eftir 10 sekúndur. Ég legg því til að græni kallinn verði settur á skólabekk og látinn læra að telja.
Í Georgetown fann ég kaffihús eða því sem næst, La Madeleine. Mér fannst ég himinn hafa höndum tekið að fá þar te úr bolla með undirskál en ekki einhverju pappamáli með lógói. Það er ekkert eðlilegt við að drekka te í gegnum gat á plastloki yfir ísdollu. Teið var nú ósköp venjulegt og ostakakan byrjuð að þorna en mér leist ljómandi vel á mig þarna. Staðurinn er laus við glymjanda og spiluð sígild tónlist.
Á leið minni staldraði ég víða við til að taka ljósmyndir af áhugaverðum formum og mynstrum. Ég er þátttakndi í vinnustofu þar sem við erum að búa til bækur og átti ég fyrir ágætis samsafn af áhugaverðu myndefni fyrir verkefnin en það er gott að hafa úr nógu að velja þegar tengja þarf saman stakar myndir sem mega ómögulega missa sín en vantar þéttara samhengi við hinar myndirnar svo samspilið gangi upp.
Ég þarf svo endilega að fara að setja hér inn hvaða námskeið ég sit þessa önnina. Hér að neðan eru nokkrar myndir úr gönguförinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2009 | 17:15
Draumaprinsinn
Draumaprinsinn kom á föstudagskvöldið. Þetta er verksmiðjuframleitt rakatæki. Þessi týpa er vinsæl til gjafa í barnadembum. Það býr yfir þeim ótvíræða kosti að það heyrist nánast ekki neitt í græjunni. Kvefið hefur varað en ég er ekki frá því að eftir að ég gat hækkað rakastigið inni í herberginu mínu þá sé það sá staður í húsinu þar sem ég hósta minnst. Það hefur verið kalt á nóttunni núna um helgina enda hefur hitinn úti hækkað á daginn og þá slokknar sjálfvirkt á kyndingunni. Það skiptir engu þó útihitinn fari niður fyrir frostmark á næturna, hitinn inni fer ekki í gang. Í fyrrinótt fór ég í aukabol undir náttfötin en það dugði ekki til. Svo í nótt svaf ég í ullarsokkum líka og breiddi teppi yfir sængina mína. Ég svaf líka miklu betur og vaknaði ekki um miðja nótt með frostbitið nef.
Áfram verður heitt á daginn, við 15°C, fram eftir vikunni en mun kaldara á nóttunni. Svo það er ekki séð fyrir endann á snjóhúsalífsstíl mínum. Baldur bloggvinur sendi mér skilaboð og sagði alþjóðlega tilraun á kuldaþoli nemenda á stúdentagörðum vera í gangi. Ég vona að niðurstöðu megi vænta á morgun svo þessum tortúrum linni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2009 | 18:54
Rakatæki
Loftið er afar þurrt hér núna, 34%, sem kemur illa út fyrir kvefaða námsmenn. Ég var að setja upp mitt eigið, heimatilbúna rakatæki. Stofnkostnaður var enginn enda efnið endurunnið og rekstrarkostnaður inni í húsaleigunni minni, þ.e. pappír fyrir uppsogið framan af almenningsbaðherberginu. Til að gæta alls hreinlætis skipti ég svo út pappírnum á morgun og þríf vatnsbakkann.
Ég held að ég sé í röngu fagi. Það er týpískt fyrir guðfræðinám að við "gerum" lítið. Við hugsum voða mikið og tölum líka svolítið (sem er þó afar mikið eftir kennurum sem þurfa mismikið að tala sjálfir). Við búum lítið til af "dóti" og eins og kirkjum er oft legið á hálsi - við breytum ekkert svo miklu heldur. Ég held að hvaða verk- eða tæknifræðingur væri hreykinn af sjálfum sér fyrir svona uppátæki.
Hitinn úti er nú loks kominn yfir frostmark, hangi í fimm gráðum svo kannski ætti ég að láta mig hafa það að þvælast yfir borgina þvera eftir alvöru rakatæki sem vonandi afkastar meiru en þetta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.2.2009 | 01:24
Meira úr Jobsbók
Ný færsla um Jobsbók er komin inn á glósuvefinn minn. Hér er það David J. A. Clines með pistilinn "A brief explanation of Job 1-3".
Hér eru listaverk sem fást við Jobsbók eftir Oldřich Kulhánek frá Prag í Tékklandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2009 | 13:35
Svo bregðast krosstré
Þá er mín bara komin með kvef. Það hefur hvorki dottið né dropið af mér í vetur heldur verið við hestaheilsu á meðan skólafélagarnir hafi hrunið niður eins og lýs af kvefpestum, sumir hvað eftir annað. Ég valdi mér heldur betur daginn eða hitt þó heldur. Þriðjudagar eru lengsti vinnudagurinn hjá mér en þá sit ég í tímum frá tíu til hálf sjö. Það vill til að hádegishléð er langt svo ég ætla að leggja mig í matartímanum og hvíla mig.
Stúlka sem var að veikjast var að sniglast í kringum mig í hádeginu á laugardaginn þrátt fyrir að ég gefi það ítrekað í skyn að ég vildi að hún kæmi sér í burtu. Ætli hún hafi ekki bara smitað mig. Hún var að vafstra í því með stöllu sinni að éta hvítlauk og malla engiferte svo líkaminn mundi hætta við að verða veikur. Ég hafði orð á því að sem mamma með reynslu ætti hún að fara í ullarsokkar, finna sér teppi og láta fara vel um sig á koddunum sínum - inni í herberginu sínu - svo hún mundi ekki smita okkur hin. Þá settist hún beint á móti mér og masaði. Ég spurði hana hvort hún gerði sér ekki grein fyrir virkni úðasmits en það var eins og að tala við vegginn. Svo sat hún yfir okkur öllum um kvöldið við kvöldmatinn sem kirkjukonurnar færðu okkur, auðsjáanlega sárlasin.
Nei, ykkar ágæta hefur lokað sig af inn á herbergi og þar verð ég í dag þegar ég er ekki í tíma og þá ætla ég að sitja fjær samnemendum mínum. Nábýlið er svo mikið hér á skólanum að manni ber skylda til þess að gefa gaum að hagsmunum hinna.
Hér er listi yfir verndardýrlinga hinna ýmsu krankleika. Myndin er þaðan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)