15.8.2011 | 10:24
Randalína
Næstu heilabrot snúast um hvernig stinga skuli þetta littla stykki, "Randalína". Þar verður tvinninn og mynstrið í aðalhlutverki, stungan á að sjást og njóta sín. Ég ætla að nota sprengdan rayon/viscose tvinna í stunguna. Það mun líklega reynast þrautin þyngri því rayon tvinni trosnar mjög auðveldlega við vélstungu. Trixið felst því í tiltölulega "stuttum" stunguformum sem auðvelt er að stoppa í og byrja upp á nýtt, klippa framan að nálarþræðinum og þræða vélina aftur áður en næsta form er tekið. Ég hef verið að æfa mig að stinga á Juki vélinni. Hún er eins og spíttbátur miðað við heimilissaumavél svo það er öllu erfiðara að vinna við hana standandi en Pfaff vélina mína.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.6.2011 | 22:33
Indverskt karrý byggpilaf
Þessi byggréttur var á borðum heimilisfólksins í fyrsta sinn í kvöld. Uppskriftin er frá All Recipies. Þetta er einfaldur réttur, auðveldur í meðförum og býður upp á mikla möguleika í útfærslu. Ég skipti út Allrahanda kryddinu (Allspice) og setti í staðinn matskeið af mulinni spænski papriku (venjulegt paprikuduft) og matskeið af þurrkaðri steinselju. Það kom mjög vel út. Það er lítið karrýbragð svo þau sem vilja meiri karakter geta óhrædd bætt við það. Það er ekki ólíklegt að Indverjar sverji af sér nokkur líkindi með þessum rétti og sinni þjóðlegu matarhefð.
Á smápönnu ristaði ég strimla af ferskri papriku í heitri olívuolíu og lagði þá svo yfir pilafið í skálinni ásamt meiri þurrkaðri steinselju. Aðrir sem eldað hafa réttinn leggja til að í stað mandlna og rúsína megi setja ertur og gulrætur. Með þessu höfðum við ferskt salat að hætti hússins.
Hér kemur svo uppskrifin í mínum meðförum:
Innihald:
25 gr smjör
2 saxaðir sjalottlaukar
2 söxuð hvítlauksrif
1,5 bolli bankabygg (frá Vallanesi)
1 msk paprikuduft
1 msk þurrkuð steinselja
1/2 tsk turmerik
1/4 tsk karrý
1/2 tsk salt
1/8 tsk pipar
3,5 bollar vatn
1 kjúklingasoðteningur
1/4 bolli saxaðar möndlur
1/4 bolli rúsínur
Eldað kjöt af 2 kjúklingalærum og leggjum. Ristuð paprika í strimlum.
Aðferð:
Bræða smjörið við miðlungshita í stórri pönnu eða rúmgóðum potti. Bæta söxuðum lauk og hvítlauk ásamt byggi úr á pönnuna. Hitað í 5 mínútur og hrært oft í svo ekki festist við.
Kryddi blandað saman og svo hrært saman við byggið. Vatni helt út á, kjúklingakrafti hrært saman við. Látið malla við vægan hita í 30-40 mínútur. Síðustu mínúturnar er möndlum, rúsínum og söxuðu kjúklingakjöti bætt í pottinn og hitað með. Á meðan eru paprikustrimlar ristaðir í heitri olíu á annarri pönnu og svo lagðar yfir pilafið í framreiðsluskálinni.
Matur og drykkur | Breytt 14.7.2011 kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2011 | 13:22
Vandræðalaus epla- og bláberjaskel
Þessa epla- og bláberjaböku gerði ég fyrr í mánuðinum, sérdeilis einföld í vinnslu og ljúffeng í munni. Vissulega eru mörg handtökin við þessa böku en engin erfiðisvinna þó. Fyllinguna má svo léttilega aðlaga að smekk og þörfum hvers og eins, breyta og bæta við því sem fólki hugnast. Myndin hér fremst er af mínu eintaki svo lesandinn sér að þetta er ekki óvinnandi vegur.
Kökuskreytingar teljast ekki til minna sterkustu hliða. Ég hef ekki átt þjála samvinnu við rjómasprautur. Kökur sem ekki þarf að skreyta eða eiga beinlínis að vera ófrýnilegar eru því í miklu uppáhaldi hjá mér. Þessi kökuflokkur einkennist af náttúrulegri fegurð hráefnisins sem fær að njóta sín án tilgerðar. Lesandinn athugi að í besta falli er þetta er mjög upphafin ímynd af hliðrun og í versta falli beisk öfund með stungulagi í garð þeirra sem búa að þeirri færni að töfra fram goðsagnakenndar bollakökur og hnallþórur með krúsindúllum.
Uppskriftin að bökunni er héðan á vef BBC og deigið í skelina er hér hjá Taste. Umsagnir þeirra sem notað hafa uppskriftirnar eru mjög gagnlegur. Það eru þær sem stýra vali mínu á vefuppskriftum.
Bloggar | Breytt 6.8.2011 kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2011 | 11:28
Heilhveitibrauð
Hér er uppskrift af tilgerðarlausu heilhveitibrauði ásamt myndum af bakstrinum - English translation in comments below ("Athugasemdir")
5 dl heilhveiti (300 gr)
3 dl hveiti (180 gr)
1,5 msk þurrger (50 gr pressuger)
1 tsk salt
1 tsk sykur
1/2 dl olía (rétt rúmlega það)
3 dl volgt vatn
Þurrefni og þurrgeri blandað saman, olíu og vatni hrært saman við, hnoðað duglega í nokkrar mínútur í höndunum. Látið lyfta sér í skál undir klút í klukkutíma. Hnoðað duglega, mótað í hleif, lagt á plötu og látið hefast aftur í 25 mín. Bakað í miðjum ofni við 200°C í 20-25 mínútur.
Tekið skal fram að ég nota aðeins helminginn af saltinu, þ.e. hálfa teskeið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2011 | 20:10
Sætt mangó kryddmauk





Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.4.2011 | 08:14
Debrecen ferðasaga 7 - myndir
Það var afmæli hér í gær. Sonurinn hóf afmælisdaginn sinn á því að vakna klukkan 6 til að mæta í próf klukkan hálf átta. Mánudagsmorgnar eru víst fráteknir fyrir próf í deildinni. Skemmtilegar helgar þá eða hitt þó heldur. Við fengum okkur svo nýbakaða og volgt Baconos Croissant í bakarí þegar hann kom heim og var búinn að opna afmælisgjafir sem bárust. Svo var bara slökun eftir prófið, horfðum á bíómynd fram að hádegi.
Á meðan hann var í skólanum fór ég í paprikuleiðangur með Lázsló á grænmetismarkaðinn. Það er erfitt að fá þurrkaðar, heilar paprikur á þessum árstíma en við fundum þó einn sölubás. Hinar ýmsu gerðir malaðrar, ungverskrar papriku fylla hins vegar heilu hillumetrana úti í búð og hægt er að kaupa duftið í hálfs kílóa pakkningum eins og kaffi.
László bauð mér svo með sér í starfsstöðvar kærleiksþjónustu sviðs kalvinsku kirkjunnar þar sem hann er prestur. Þar er miðstöð kirkjunnar fyrir aldraða og fatlaða í borginni. Um 250 manns njóta þaðan ýmis konar þjónustu, m.a. heimavitjana, aðstoð við að komast til læknis og við samskipti við opinberar stofnanir. Húsnæðið hefur ekki gott aðgengi, það er í kjallara með þröngum stiga, langur og mjór gangur liggur eftir endilöngu og þröngt að komast inn í öll herbergi af honum. Þó fer fram fjölbreytt félagsstarf í húsnæði miðstöðvarinnar sem alla jafna er sótt af um 100 manns í viku hverri. Það var saumaklúbbur í gangi þegar ég kom. Á vegg þar inni var lífsins tré úr keramiki. Laufin bera nöfn notenda þjónustunnar og starfsmanna. Ég var svo leyst út með gjöfum, keramikflís með segulstáli og heklaðri blúndu sem blindur notandi bjó til.
Ég gerði heiðarlega tilraun til að kaupa mér skó eftir hádegið. Það er mýgrútur af skóbúðum hérna og skómörkuðum. Ég er búin að þræða þær síðan ég kom. En það er eins og mitt númer sé bara ekki til í þvi sem ég get hugsað mér að ganga í, hvorki í sérverslunum né á mörkuðum. Svo ég er jafn skólaus og þegar ég kom. Þetta erindi fer að falla á tíma því ég flýg heim á morgun.
Seinni partinn mæltum við mæðginin okkur mót við háskólann og gengum þaðan á veitingastað í grenndinni sem gjarnan er sóttur af háskólafólki og héldum upp á afmælið.
Eftirmáli: Heimferðin þann 13. apríl var tíðindalítið, langt ferðalag.
Bloggar | Breytt 3.5.2011 kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2011 | 05:56
Debrecen ferðasaga 6 - myndir
Sunnudagurinn var tekinn snemma. Ég var við skírn 5 barna í Miklukirkju og var athyglisvert að sjá hvernig hún fór fram. Þetta var ekki í messu heldur afmörkuð athöfn ein og sér sem stóð í 20 mínútur. Í stað skírnarfonts eins og við eigum að venjast í lúthersku kirkjunni á Íslandi, var vatni hellt úr könnu á höfuð skírnarbarnsins og stór skál höfð undir. Það var nú ekki mikið vatn sem fór í skálina enda sjálfsagt helt af mikill natni. Börnin voru áberandi eldri en tíðkast heima og voru ekki sérstaklega klædd fyrir skírnina, bara í sínum fötum og yfirhöfnum líka.
Því næst fór ég í lúthersku kirkjuna og var við almenna guðsþjónustu þar. Hér er vefsíðan þeirra: http://degy.hu/templomunkrol Þetta er lítill söfnuður sem hittist í kirkjubyggingu frá 1889. Um margt minnti umhveri og athöfn á íslenska sveitakirkju. Guðsþjónustan stóð í rúman klukkutíma, þó engin væri altarisgangan, enda var predikunin um 35 mínútur og svo tók við 7 mínútna ávarp frá altari. Tveir prestar þjónuðu, mætingin var góð og vel tekið undir í söng.
Það sem eftir lifði sunnudags tók ég því að mestu rólega, ef ég man rétt. Lagði mig um eftirmiðdaginn, keypti eitthvað smálegt í matvörubúð með kvöldmatnum, eldaði og horfði svo á bíómynd.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2011 | 19:53
Debrecen ferðasaga 5 - myndir
Í gær fór sonurinn með móður sína í skoðunarferð um háskólasvæðið í Debrecen. Þetta eru ábúðamiklar byggingar sem líta margar út eins og æðri menntastofnanir en sumar eins og magninnkaup af Moggahöllum í stærri kantinum. Vorið er allt að taka við sér. Við gengum í gegnum skóginn að skólanum. Í kringum skóginn er varað við vasaþjófum enda nokkuð um að fólk haldi til í skóginum og viðhafi eigin útfærslu af sjálfsþurftabúskap.
Hin mikla vorhátíð svínsins á aðaltorginu var áfram uppspretta innblástur og menningar. Þegar Ungverjar koma saman er búið til gúllas. Fólk hittist almennt ekki til að grilla heldur malla pottrétt yfr hlóðum. Á markaðnum var hægt að panta forláta garðhúsgögn með sérútbúnu borði fyrir gúllaspottinn í miðjunni. Það mátti gæða sér á ýmsu á markaðnum. Ég fékk mér ungverskan skyndibita, kássu í brauði. Á bekk sátu nokkrir krakkar og gæddu sér kát á steiktu brauði með sýrðum rjóma. Þau kinkuðu glaðlega kolli þegar ég mundaði myndavélina og sögðu "tjís". Þarna voru líka barnagull innan um annað þjóðlegt handverk.
Um kvöldið sótti ég gospeltónleika í Miklukirkju, Nagytemplom, hjá stærsta söfnuði kalvinista í Debrecen. Kirkjan tekur 2000 manns í sæti, á sunnudögum eru 3 guðsþjónustur og söfnuðinum þjóna 8 prestar. Nema hvað, æskulýðspresturinn og organistinn hafa starfrækt gospelhópinn Éden í 3 ár við góðan orðstí og undirtektir. Stórt svið hafði verið byggt yfir ræðustólinn (sjá samanburð við síðustu myndina í syrpunni af sama svæði, tekin í morgun) og stórar ljósastæður þveruðu salinn í basilíkunni. Það voru þrjár myndatökuvélar í gangi og öllu fagmannlega varpað á tvo stóra skjái sem eru í kirkjunni. Lýsing var notuð til skreytingar á veggi og loft. Neðst í þessari færslu er stutt kvikmynd sem ég tók á tónleikunum.
Skólafélagi minn er einn af prestunum. Hann hafði sem betur fer varað mig við því að það væri kalt í kirkjunni. Ég sé bara eftir því að hafa ekki verið í ullarbrók. Það var bót í máli að sætin í kirkjubekkjunum eru upphituð. Tónleikarnir stóðu í tvo og hálfan tíma í troðfullum sal. Það var ekkert hlé og fólk stóð aldrei upp. Þó varð ég að standa upp af og til og færði mig þá upp af vegg. Það var hreinlega kalt að standa við vegginn og að endingu flúði ég í sætið mitt til að halda á mér hita. Það var skítkalt úti og hvasst að loknum tónleikum. Þegar heim kom réðst ég á suðusúkkulaðibirgðir sonarins frá jólum og bjó til heitt súkkulaði en þó ekki fyrr en ég var búin að nappa nýþveginni ullarlangbrók af snúrunum og skella mér í.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2011 | 13:25
Debrecen ferðasaga 4 - kvikmynd
Á meðan lesandinn bíður óþreyjufullur eftir frekari fréttum má stytta sér stundir yfir þessari stuttmynd frá svínahátíðinni sem ég tók í gær.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2011 | 08:33
Debrecen ferðasaga 3 - myndir
Gærdagurinn var ljúfur. Upp úr ellefu gengum við inn á torgið við Gömlu kirkjuna og hittum skólafélaga minn, László Petró, framan við kirkjuna. Á meðan við bitum eftir László gengu framhjá okkur fjórir karlar með kontrabassa og einn í síma. Þessi sýn var líkust inngangi að tónverki, tilvistarlegur listgjörningur. Mig grunar þó að þeir hafi bara verið að flytja kontrabassann fyrir tónleika á útisviði á torginu.
Við fórum svo saman á þjóðlegan ungverskan veitingastað, Flaska. Nafnið þýðir einmitt það, flaska, eitt af fáum orðum sem ungverska og íslenska eiga sameiginleg. Annað slíkt orð sem ég þekki er táska. Matur var ljúffengur. Ég fékk mér steikta önd með heitu rauðkáli, brúnuðum kartöflum og eplum. Öndin bragðaðist eins og besti lambahryggur. Í eftirrétt fékk ég mér pönnuköku með kotasælu, ávaxtabitum og vanillurjómasósu.
Það byrjaði markaður, tileinkaður svínarækt, á torginu í gær og stendur hann alla helgina. Þar bar margt athyglisvert fyrir augu sem tengist menningu Ungverja, mikið mannlíf og matarlykt í loftinu.
Ég bæti svo við færsluna seinna í dag.
Af nógu er að taka
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)