Gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár

Kær kveðja til ættingja og vina, nær og fjær, með ósk um fögnuð og frið á jólum með minningum og vonum sem verma og efla hjarta og þor. Gleðilega jólahátíð því okkur er frelsari fæddur.

Heartfelt greetings to relatives and friends, near and far, wishing you joy and peace at Christmas with memories than warm and strengthen your heart and your courage. Merry Christmas for unto us a Saviour is born.

Jól 2011 - Ólöf I. DavíðsdóttirJól 2011 - Snorri HalldórssonJól 2011 - Elías Snorrason


Osso Buco súpa

Kvöldmaturinn var Osso Buco súpa eftir uppskrift taste.com.au . Þetta er einstaklega einföld matreiðsla á ódýrum rétti, líklega rétt innan við 1.000 krónur þessi skammtur sem dugði fyrir þrjá með ristuðu brauði. Hér fylgja myndir af frumraun minni og leiðbeiningar með uppskriftinni á íslensku eins og ég eldaði hana.

Osso Buco súpaOsso Buso súpaOsso Buco súpa

 

 

 

 

 

 

 

 
1/2 kíló Osso Buco
1 msk olía
1/2 saxaður laukur
1 kramið hvítlauksrif
2 gulrætur í sneiðum
1 lítri nautakjötssoð (eða vatn og soðteningur)
1 dós hakkaðir tómatar (gjarnan kryddaðir)
1 lítið lárviðarlauf
svartur, nýmalaður pipar

Kjötið er brúnað létt í olíunni á pönnu í nokkrar mínútur.  Kjötið svo sett í pott ásamt öllum hinum innihaldsefnunum og látið malla við vægan hita í einn og hálfan tíma. Þá er potturinn tekinn af hitanum. Kjötið er fært upp á disk, kroppað í sundur frá beininu með göfflum og sett aftur út í súpuna. Maturinn er tilbúinn.

Gott er að skera í himnuna sem umlykur kjötsneiðarnar svo það verpist minna upp á þær við steikingu. Stækka má uppskriftina upp í kíló af kjöti, bæta við hinum helmningnum af lauknum og hálfum lítra af soði til viðbótar. Það kemur vel út að strá nýrifnum parmesanosti yfir súpuna í disknum.
Osso Buco súpa


Föstudagur til fyllingar

Sumir dagar eru sólríkari en aðrir, líða hjá eins og undir heillastjörnu. Dagurinn í dag var einn af þeim.

Í hádeginu fór ég á Listasafn Íslands þar sem listakonurnar Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá og Kristín Gunnlaugsdóttir fjölluðu um verk sem þær eiga á yfirlitssýningu safnsins, ÞÁ OG NÚ.  Tilefni sýningarinnar er útgáfa ritverksins "Íslensk listasaga" en hún er þó sjálfstæð frá ritverkinu og ekki ætlað að vera sýnishorn af bókunum. Það var mátulega stór hópur sem sótti spjallið sem gaf þægilega nánd við verkin og listakonurnar í senn. Andrúmsloftið var létt og viss glaðværð ríkjandi. Mér skildist að þetta framtak, að fá listafólkið sjálft til að hitta gestina við verkin þeirra, sé nýlunda hjá Listasafninu og stendur hugur til að endurtaka leikinn. Gestir gáfu þessu góðan róm, voru áberandi ánægðir og þakklátir. Umgjörðin öll átti ekkert skylt við sýningaropnun, bara hversdagsleg heimsókn án umstangs eða tilgerðar. Haft var á orði að sýningargestir hér á landi ættu ekki að venjast svona nánd í kringum listsýningar og var almennt tekið undir það um leið og fólk lýsti ánægju sinni með tækifærið.

Dadian Gallery, Washington DCÍ skólanum mínum í Bandaríkjunum var mikið um svona uppákomur, bæði í tengslum við galleríið og svo vinnustofu listafólks í skólanum. Listafólk sem gegndi stöðu staðarlistamanns kenndi jafnframt við skólann meðan á dvöl þeirra stóð, 6 vikna stúdíónámskeið með litlum hópi nemanda. Vissulega gaf þetta fólk mismikið færi á sér en vinnustofan er þó ávallt opin og nemendur hvattir til að rölta þar inn þó ekki sé nema til að sjá hvað verið er að vinna við hverju sinni. Ég get þó ímyndað mér að listafólkið hafi verið misánægt með þetta fyrirkomulag en það veit þó að hverju það gengur þegar það gerir vistsamninginn við skólann. Það væri ánægjulegt ef íslenskur listamaður/-kona tæki sig upp og settist að í Washington DC í nokkra mánuði til að vinna að list sinni og miðla nemendum um leið. Þess ber að geta að handan við götuna er listadeild The American University svo það eykur stórlega möguleika listafólks til að tengjast deiglunni. Þar sótti ég líka námskeið. Borgin iðar af list og menningu, með mörgum og stórum söfnum, svo þetta er góður viðkomustaður fyrir listafólk. Ef einhver listamaður/-kona hefur áhuga á að vita meira um staðarlistamannsprógrammið hjá Wesley skal ég með glöðu geði leggja fram það sem ég veit og grennslast fyrir um framtíðarplönin á þeim bæ.

Ljósmyndin er tekin af vefsíðu gallerísins, Dadian Gallery, með tengli inn á væntanlegar sýningar.


Vlogg - Röndótt efni


Um vloggvinnslu - Röndótt efni

Í færslunni hér að ofan er nýjasta vloggið. Það er smá basl að fá það til að birtast á moggablogginu með ritaðri færslu. Ég er að reyna að finna út úr því en ef það er ekki á forsíðunni þá er þetta tengill á færsluna sem má smella á eða með því að fara beint á Vimeo Ég fæ "embedded code" ekki til að virka þegar ég lími hann inn í HTML-haminn. Leiðbeiningar vel þegnar frá kunnugum.

Í þessu vloggi fjalla ég um það litla safn sem ég á af röndóttum efnum. Þetta er mikil framför frá fyrra myndbandi hvað varðar hljóðupptöku og lýsingu. Svo eru þarna líka tilraunir til að vinna viðbætur, s.s. kynningarspjald með hljóðeffektum og innsettar ljósmyndir með bakgrunnsuppfyllingu. Þetta er líka heimatilbúið, meira að segja hljóðið úr minni eigin saumavél í upphafi og niðurlagi. Aftur setti ég enskan texta. Það hefur tekið mig viku að gera þetta myndband. Upptakan tók þó ekki meira en eina og hálfa mínútu í annarri atrennu. Það kalla ég gott.

Hljóðið tók ég upp aukalega á tölvuna mína, felldi það svo að hljóðinu í myndbandsupptökunni og skipti svo út hljóðrásum. Lýsingin eru loftljósið og svo tveir borðlampar á hreyfanlegum örmum. Ég setti ljóssíur (úr sníðapappír auðvitað) yfir perurnar. Mér gekk ekki að snúa öðru ljósinu þannig að ekki yrði endurkast í gleraugunum. Tel mig þó vita hvernig ég á að fara að því, snúa ljósinu enn meira frá og setja hvítt spjald á vegginn á móti mér í staðinn til að endurkasta birtunni af ljósinu á mig.

Þetta vlogg hlóð ég inn á Vimeo í stað Youtube. Vimeo notkun er háð því að notandi hafi gert myndbandið sjálfur eða átt stóran þátt í gerð þess. Ég verð að hreykja mér af því að ég gerði nánast allt myndbandið sjálf. Eiginmaðurinn stillti hljóðrásirnar saman því hann er svo vanur að gera það og nú kann ég það. Allt annað er mitt verk. Svo ég uppfylli örugglega notkunarskilmála Vimeo. Það væri ofurgott ef mér tækist að gera tvö vloggskot á mánuði. Ef lesandinn hefur tillögur að viðfangsefni til upptöku, s.s. spurningar sem ég gæti svarað eða sýnt handbragð til skýringa, má gjarnan senda mér skeyti í athugasemdum hér fyrir neðan. Myndbandið verður þó aldrei lengra en ein og hálf mínúta að hámarki. Það er með vilja gert því sjálf nenni ég tæpast að horfa á lengri myndbönd á netinu nema viðfangsefni þeirra skipti mig máli.


Um bloggun og breytingar

Mannalæti - Ólöf I. DavíðsdóttirÞað hefur stórlega dregið úr tíðni bloggfærslna hjá mér. Ég er þó engan veginn hætt að blogga. Ég hef bloggað hér og þar í bráðum 10 ár. Fyrsta bloggið mitt var "Snittur - Vefannáll: hugarflugur og útúrdúrar." Það var með nokkuð öðru inntaki en hér. Þessu bloggi, "Fljóðið við fljótið", var komið í gang til að skrá ferðasöguna á meðan ég var í meistaranámi í Bandaríkjunum. Það er gott að ég gerði það því annars hefði svo margt af mínu stússi þar fallið í gleymskunnar dá án þess að nokkuð minnti mig á ýmislegt sem ég vil geta rifjað upp. Sem minnir mig á að ég þarf að taka öryggisafrit af því.

Eftir heimkomuna þurfti ég að finna mér nýjan fókus og hef ég mest megnis skrifað um textílvinnuna mína og matargerð. Það er ekki síður skemmtilegt, svo ekki sé minnst á gagnlegt. Uppskriftir sem ég hef gleymt hvar ég fann, finn ég nú á mínu eigin bloggi og með myndum sem gerir þær enn skemmtilegri. Hvoru tveggja ætla ég að halda áfram.

Þessa dagana er ég að kynna mér notkun vídeós sem bloggs, svo kallað vlogg. Þetta er skemmtilegur miðill. En hjálpi mér hamingjan hvað það er seinlegt og mikil handavinna. Í einfeldni minni hélt ég að þessi aðferð gæti orðið svona "miða og skjóta" aðferð með tímanum. Ég vissi og hafði lært, en hafði gleymt, hvað þetta er miklu meira "klippa og líma, klippa og líma,klippa og líma...." en að pakka inn jólagjöfunum. Eins og er verður vlogg engin hvíld frá lyklaborðsvinnu sem ég var að vonast til að geta sparað mér eitthvað. Það er líka gríðarlegur tímaþjófur, þó ég sé ekkert að flýta mér. Upptakan sem ég er að vinna með núna hefur þegar tekið 8 klukkutíma og hún er ekki enn tilbúin til sýningar. Samt er hún innan við ein og hálf mínúta. Markmið mitt er að hvert vlogg sé ekki lengra en minúta. En kannski verður þetta fljótlega einfaldara þegar ég er búin koma föstu formi á þetta og umgjörðin öll orðin mótuð, bæði við upptökur, úrvinnslu og frágang. En þangað til verð ég að umbera tæknilega hnökra og axarsköft þess sem er að læra og er fús að leyfa öðrum að fylgjast með því. Gagnlegar ábendingar eru vel þegnar í athugasemdum.

 


Vídeóblogg og vinnuaðstaða

Hér neðar er vídeóblogg um saumaverkefnið sem ég er að vinna í núna.


 

Uppsetningin á vinnuberginu er smátt og smátt að slípast til. Þegar ég byrjaði á teiknivinnunni sem ég tala um í myndbandinu kom á daginn að vinnuborðið er enn of lágt. Það er 85 cm á upphækkunum sem ég taldi að yrði mátulegt þar sem ég er ekki meðalmanneskja á hæð. En borðið hefur reynst of lágt. Ég þarf að beygja mig smávegis yfir það, sem ég get tæpast gert, og verð þá að styðja mig með vinstri hendi til að bera mig uppi. Ég get hins vegar ekki sett neinn þunga á handlegginn nema kreppa hnefann og leggja hnúana á borðið. En þá verður öxlin skökk því hún ýtist upp og vindingur kemur á bakið. Flatann lófann með boginn úlnlið get ég ekki lagt á borðið til að styðja mig. Besta lausnin er líklega að hækka borðið um 5 cm til að byrja með. Þá er framundan að finna tímabundna lausn á því til að prófa hæðina áður en ég legg út fyrir lengri borðfótum. Hins vegar verður borðið þá of hátt þegar ég sker efni sem er mikil nákvæmnisvinna því þá virka engin strokleður.

Að segja mér að fá mér þá bara rafmagnsborð er álíka hugsunarlaust og að suða í mér að fá mér strípur í hárið. Ég væri til í að fá mér rafmagnsborð ef ég hefði tekjur af því að sauma. Það er ekki raunin ennþá. En kona getur alltaf látið sig dreyma. Strípurnar eru hins vegar "off limits".


Vinnuherbergið Annexía

Vinnuherbergið mitt hefur smátt og smátt tekið á sig mynd alvörunnar. Eiginlega má segja að það sé ekkert annað eftir en að geta unnið þar að gagni. En aðstaðan er öll í áttina að þeim þörfum sem ég hef til að geta notað hana, þó stutt sé hverju sinni. Stærsta áskorunin hefur verið að útbúa umhverfi til að vinna standandi auk þess að vera hagnýtt og gott í umgengni, innréttað af hófsemi og hagsýni. Einnig skiptir geymslurými miklu máli, að hlutirnir séu aðgengilegir án þess að útheimta klifur, bogur eða lyftingar. Þetta er langt í frá fullkomið en þó mun betra en eldhúsborðið eitt á árum áður. Hér eru svo myndir með skýringum og neðar fleiri myndir með útskýringum á því hvernig ég sauma standandi:

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Herbergið er lítið, 2,35m x 3,15m. Leiðsögnin hefst frá vinstri til hægri á fyrstu myndinni sem tekin er úr dyragættinni og heldur svo áfram réttsælis í herberginu. Svarta borðið er á upphækkunum svo það er í þægilegri hæð til að skera efni, aðeins lægra en saumaborðið. Undir því er ýmsu staflað til geymslu. Draumurinn er að fá kommóðu á hjólum þar undir. Á veggnum við svarta borðið er hönnunarveggur úr flónelsklæddum einangrunarplötum. Straubrettið stendur svo við gluggann þegar ég nota það en annars stendur það samanbrotið vinstra megin við gluggann. Hillurnar og saumaborðið eru hillukerfi frá IKEA. Undir saumaborðinu er skúffukálfur fyrir áhöld. Þar ofan á liggja skurðarstikur og motta. Ofan á saumaborðinu er skúffukassi með tvinna og nálum. Til hliðar við saumaborðið er skattholið sem ég fékk í fermingargjöf. Þar geymi ég aðallega efni og meiri tvinna. Þarna langar mig að hafa háa kommóðu. En ég tými ekki að láta skattholið frá mér og hef ekki annan stað fyrir það en þarna.

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

Vinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Og þá er það rúsínan í pylsuendanum, hvernig ég sauma standandi. Á gólfinu framan við saumaborðið er gúmmimotta sem ég hef skorið úr fyrir fótstiginu. Fótstigið fer öfugt ofan í gatið, þ.e. þykkari hlutinn snýr frá saumavélinni. Lítið pappaspjald með broti er við þykkari jaðarinn á fótstiginu til að hindra að það strandi á mottukantinum þegar stigið er á það það. Í stað þess að þrýsta táberginu á fótstigið eins og maður gerir í sitjandi stöðu þá nota ég hælinn. Ég stend í tábergið og hef þungann á því en stend þó aðeins léttar í þann fótinn en hinn. Mottan gegnir því hlutverki að "lækka" fótstigið á gólffletinum og stuðla að því að hægt sé að standa í báða fætur og dreifa þunganum sem jafnast. Fótstigið þarf að liggja lægra því annars yrði að standa á einum fæti. Þetta er ekkert grín, skal ég segja ykkur. Ökklinn hefur miklu minni hreyfanleika þegar maður stendur í fótinn en þegar maður situr á stól og tyllir bara táberginu ofan á fótstigið. Eins og ég hef sett þetta upp er niðurstiginu sennilega mestmegnis stjórnað með hnénu, rétta úr því án þess að læsa því og um leið sígur hællinn niður og þrýstir á fótstigið. Ég skar úr mottunni fyrir tveimur ólíkum fótstigum og geymi bitana til að loka því gati sem ég nota ekki í það og það skiptið, nú eða báðum og hef þá heila mottu þegar ég geri eitthvað annað en að sauma við borðið. Annað sem ég varð að breyta í saumasiðum mínum er að vera í skóm. Áður var ég alltaf bara í sokknum á hægri fæti þegar ég sat og saumaði. Það voru mikil viðbrigði.

Vinnuherbergi - Ólöf I. DavíðsdóttirVinnuherbergi - Ólöf I. Davíðsdóttir

 


Næla

Næla - Ólöf I. DavíðsdóttirÞessa nælu gerði ég einu sinni eftir leiðbeiningum sem ég fann á veraldarvefnum. Þessi aðferð og úrfærsla ku vera í anda viktoríanska tímans svo hugmyndin er ekkert slor. Samt nokkuð sérkennileg tenging því Viktoría drottning syrgði í 40 ár og þá var ekki notað neitt skrautlegt skart. En kannski fundu áræðnir skartgripasalar og hégómlegar konur sér leiðir út úr puntkreppunni. Það var víst mikið um svart skart á þeim tíma, búið til úr svartarafi. Svartaraf, gagat, er ekki raf heldur svokallað steindarlíki, viðarleifar þjappaðar undir miklu þrýstingi. 


Bláberjamuffins

Þessar bláberjakökur eru eftir uppskrift frá "The Australian Women's Weekly Cookbooks: Muffins, Scones and Bread".

BláberjamuffinsInnihald:
300 gr hveiti
4 tsk lyftiduft
150 gr púðursykur
1 egg, léttþeytt
180 ml súrmjólk
125 ml bragðlítil matarolía
150 gr bláber (fersk eða frosin)

Aðferð: Sigtið þurrefni saman í skál, hrærið hinum hráefnunum saman við. Setjið í muffinsmót, 6-8 stykki. Bakið við 175°C í 25 mínútur.

Kökurnar eru mjúkra og safaríkar, miðlungsstórar. Ég setti pappírsmót inn í silikón muffinsform, setti deig í sem nam hæðinni á pappírsmótunum og fékk 8 kökur út úr því. Þær tvöfölduðust í hæðina við bakstur. Við geymslu til næsta dags í þéttu iláti urðu kökurnar svolítið klístraðar svo ég mæli með að þær séu borðaðar upp til agna sama dag eða settar frysti þegar þær eru orðnar kaldar ef það þarf að geyma þær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband