Færsluflokkur: Bloggar

Debrecen ferðasaga 5 - myndir

Í gær fór sonurinn með móður sína í skoðunarferð um háskólasvæðið í Debrecen. Þetta eru ábúðamiklar byggingar sem líta margar út eins og æðri menntastofnanir en sumar eins og magninnkaup af Moggahöllum í stærri kantinum. Vorið er allt að taka við sér. Við gengum í gegnum skóginn að skólanum. Í kringum skóginn er varað við vasaþjófum enda nokkuð um að fólk haldi til í skóginum og viðhafi eigin útfærslu af sjálfsþurftabúskap.

Debrecen 2011 136 comprDebrecen 2011 134 comprDebrecen 2011 138 comprDebrecen 2011 141 comprDebrecen 2011 132 compr Debrecen 2011 145 compr

Hin mikla vorhátíð svínsins á aðaltorginu var áfram uppspretta innblástur og menningar. Þegar Ungverjar koma saman er búið til gúllas. Fólk hittist almennt ekki til að grilla heldur malla pottrétt yfr hlóðum. Á markaðnum var hægt að panta forláta garðhúsgögn með sérútbúnu borði fyrir gúllaspottinn í miðjunni. Það mátti gæða sér á ýmsu á markaðnum. Ég fékk mér ungverskan skyndibita, kássu í brauði. Á bekk sátu nokkrir krakkar og gæddu sér kát á steiktu brauði með sýrðum rjóma. Þau kinkuðu glaðlega kolli þegar ég mundaði myndavélina og sögðu "tjís". Þarna voru líka barnagull innan um annað þjóðlegt handverk.

Debrecen 2011 146 comprDebrecen 2011 110 comprDebrecen 2011 052 comprDebrecen 2011 174 comprDebrecen 2011 107 comprDebrecen 2011 115 comprDebrecen 2011 113 compr 

Um kvöldið sótti ég gospeltónleika í Miklukirkju, Nagytemplom, hjá stærsta söfnuði kalvinista í Debrecen. Kirkjan tekur 2000 manns í sæti, á sunnudögum eru 3 guðsþjónustur og söfnuðinum þjóna 8 prestar. Nema hvað, æskulýðspresturinn og organistinn hafa starfrækt gospelhópinn Éden í 3 ár við góðan orðstí og undirtektir. Stórt svið hafði verið byggt yfir ræðustólinn (sjá samanburð við síðustu myndina í syrpunni af sama svæði, tekin í morgun) og stórar ljósastæður þveruðu salinn í basilíkunni. Það voru þrjár myndatökuvélar í gangi og öllu fagmannlega varpað á tvo stóra skjái sem eru í kirkjunni. Lýsing var notuð til skreytingar á veggi og loft. Neðst í þessari færslu er stutt kvikmynd sem ég tók á tónleikunum.

Debrecen 2011 159 comprDebrecen 2011 161 comprDebrecen 2011 164 comprDebrecen 2011 165 compr

Skólafélagi minn er einn af prestunum. Hann hafði sem betur fer varað mig við því að það væri kalt í kirkjunni. Ég sé bara eftir því að hafa ekki verið í ullarbrók. Það var bót í máli að sætin í kirkjubekkjunum eru upphituð. Tónleikarnir stóðu í tvo og hálfan tíma í troðfullum sal. Það var ekkert hlé og fólk stóð aldrei upp. Þó varð ég að standa upp af og til og færði mig þá upp af vegg. Það var hreinlega kalt að standa við vegginn og að endingu flúði ég í sætið mitt til að halda á mér hita. Það var skítkalt úti og hvasst að loknum tónleikum. Þegar heim kom réðst ég á suðusúkkulaðibirgðir sonarins frá jólum og bjó til heitt súkkulaði en þó ekki fyrr en ég var búin að nappa nýþveginni ullarlangbrók af snúrunum og skella mér í.

 


Debrecen ferðasaga 4 - kvikmynd

Á meðan lesandinn bíður óþreyjufullur eftir frekari fréttum má stytta sér stundir yfir þessari stuttmynd frá svínahátíðinni sem ég tók í gær.

 


Debrecen ferðasaga 3 - myndir

Gærdagurinn var ljúfur. Upp úr ellefu gengum við inn á torgið við Gömlu kirkjuna og hittum skólafélaga minn, László Petró, framan við kirkjuna. Á meðan við bitum eftir László gengu framhjá okkur fjórir karlar með kontrabassa og einn í síma. Þessi sýn var líkust inngangi að tónverki, tilvistarlegur listgjörningur. Mig grunar þó að þeir hafi bara verið að flytja kontrabassann fyrir tónleika á útisviði á torginu.

Debrecen 2011 065

Við fórum svo saman á þjóðlegan ungverskan veitingastað, Flaska. Nafnið þýðir einmitt það, flaska, eitt af fáum orðum sem ungverska og íslenska eiga sameiginleg. Annað slíkt orð sem ég þekki er táska. Matur var ljúffengur. Ég fékk mér steikta önd með heitu rauðkáli, brúnuðum kartöflum og eplum. Öndin bragðaðist eins og besti lambahryggur. Í eftirrétt fékk ég mér pönnuköku með kotasælu, ávaxtabitum og vanillurjómasósu.

Debrecen 2011 087 comprDebrecen 2011 070 compr Debrecen 2011 079 comprDebrecen 2011 076 comprDebrecen 2011 074 comprDebrecen 2011 081 compr

 

Það byrjaði markaður, tileinkaður svínarækt, á torginu í gær og stendur hann alla helgina. Þar bar margt athyglisvert fyrir augu sem tengist menningu Ungverja, mikið mannlíf og matarlykt í loftinu.

Debrecen 2011 089 comprDebrecen 2011 060 comprDebrecen 2011 054 comprDebrecen 2011 059 compr 

Ég bæti svo við færsluna seinna í dag.

 

Af nógu er að taka


Debrecen ferðasaga 2 - myndir

Allt í lagi, ég skal viðurkenna að ungverska flugfélagið er ekki alfullkomið. Kannski gerðist það ekki hjá þeim heldur á Kastrup eða á flugvellinum í Búdapest en ferðataskan mín brotnaði. Í morgun gekk ég því út í Tesco og hafði þar upp á píparalímbandi til að styrkja hana fyrir næstu flugferð. Þar fór 10 ára ábyrgð framleiðanda töskunnar á ytra byrði hennar fyrir lítið. Taskan hefur bara farið einu sinni áður í flugferð. Hún reyndar gerði það gott sem leikmunur á sýningunni Góðverkin kalla hjá Halaleikhópnum í vetur. Nú er hún mörkuð, stýft framan hægra.

Hlýr dagur og sólríkur, sannkallað stuttermaveður fyrir Íslending. Ég þurfti þó að kaupa mér bol með síðum ermum því ég tók bara einn með og hér verður svalt innanhúss þegar líður á kvöld því það er engin ástæða til að kynda lengur. Maður fer bara fyrr að sofa og stingur sér undir sæng.Síðdegis fórum við mæðginin á kaffihús og hittum skólabróður minn. Það var alveg hreint yndislegt að sitja undir sólhlíf í heitum vindinum. Myndavélin var með í för en var ekki munduð til myndatöku. Það verður að bíða til morguns en þá ætlum við að skoða kirkjuna hans, þá stóru gulu, og fá okkur svo ungverskan hádegismat. Mér hefur verið ráðlagt að mæta svöng því ungverskar máltíðir séu staðgóðar og krefjandi.

Á heimleiðinni af kaffihúsinu fengum við okkur svo ungverskan kúluís um lúgu á kökubúð. Sonurinn hefur af miklum rausnarskap hlaðið í mig ýmis konar ungversku sætabrauði, m.a. þeirra útgáfu af kókoskúlum og kirsuberjavínarbrauð (eða þannig sko) sem ég sé vel fyrir mér að væri gott volgt með vanilluís. Það tekur á taugarnar að lifa svona á brúninni. 

Í kvöld eldaði ég svo pottrétt með samtíningi úr skápunum að viðbættum lauk og gulrótum úr Tesco. Þar sem ég þekki til minna takta við eldamennsku þótti mér vissara að setja upp "forklæde" svo nýji bolurinn liti ekki út eins og gervipardus á eftir.

Debrecen 2011 compr

Debrecen 2011 002 compr 

 


Debrecen ferðasaga 1 - myndir

Það er skammt stórra högga á milli hjá mér, reyndar er það hálfgert strandhögg í þetta skiptið. Ég lagði land undir fót og er í heimsókn hjá frumburðinum í Debrecen í Ungverjalandi. Ferðalagið var tíðindalítið þó langt væri og samsett úr aðskiljanlegustu einingum, m.a. lengstu ferð sem ég hef farið með leigubíl. Ég var svo ljónheppinn að hafa heila sætaröð fyrir mig í báðum flugferðum svo ég lá fyrir og las eins og mig lysti.

Það liggur við að mér finnist ég loksins sigld. Það er ekki að furða því gamla auglýsingastefið um "Gullfoss með glæstum bragð" hljómaði í kollinum á mér þar sem ég sat í vél ungverska flugfélagsins Malev. Sætisrýmið var svo rúmgott að manneskja að meðalhæð hefði getað krosslagt fótleggina. Þegar svo borin voru fram rúnstykki með osti, rifnum gulrótum og kryddsmjöri ásamt drykk án þess að það þyrfti að kaupa það sérstaklega, minntist ég þess að nú er hún Snorrabúð stekkur (aka íslensk flugfélög). Þegar valið stóð um vatn, tvær gerðir af ávaxtasafa, gos, rauðvín eða hvítvín ásamt kaffi eða te, rifjaðist upp Gullfossdraumur minn úr æsku. Mig langaði alltaf að sigla með Gullfoss, það var svo mikill glamúrbragur á þessari ímynd, en hann var lagður af áður en ég komst í siglingu.

Ég átti góðan dag á Statens Museum for Kunst í Kaupmannahöfn. Þar sá ég málverkasýningu  Bob Dylans og kom hún verulega á óvart, gleðilega mjög. Planið er að skrifa aðeins um hana seinna. Í morgun fór ég svo á miðbæjarrölt í Debrecen og fyrsta búðin sem ég fór í var álnavöru- og garnbúð. Hér er hægt að fá götuskó í öðrum litum en svörtum. Mig vantar eitt skópar svo ég hef ærið erindi að rölta um bæinn. Ég var fljót að renna á lyktina og finna álnavörubúð, fyrsta búðin sem ég hætti me´r inn í.

Hér er vorið komið, gróðurinn að taka við sér og hlýtt á daginn. Það má segja að ég haldi til í póstnúmeri 101. Aðaltorgið er hér við enda götunnar þar sem aðal kirkja borgarinnar Református Nagytemplom (Reformerta Miklakirkjan. Skólabróðir minn í USA er prestur við þessa kirkju og ætlum við að hittast á næstu dögum. Það verða svo rokktónleikar í kirkjunni á laugardagskvöldið og ætla ég ekki að missa af þeim.

Af öðrum túristaafrekum mínum í dag má nefna viðkomu í Tanner handverkmiðstöðinni og svo toppað með drykk á alvöru tehúsi. Það var dauft yfir vinnustofunum, engin virtist opin og ekkert að sjá utan stólar úr trjádrumbum í portinu. Það lifnaði svo yfir testofunni á meðan við sátum þar enda hægt að panta sér ungverska vatnspípu. Því miður er moggabloggið ekki þægilegt til uppsetningar á myndasyrpum svo það getur verið að næsta syrpur verði á Feisbúkk í opnum aðgangi.

Debrecen 2011 024 comprDebrecen 2011 011 comprDebrecen 2011 019 comprDebrecen 2011 045 compr Debrecen 2011 044 comprDebrecen 2011 043 comprDebrecen 2011 036 comprDebrecen 2011 050 comprDebrecen 2011 048 comprDebrecen 2011 029 comprDebrecen 2011 031 comprDebrecen 2011 026 compr

Debrecen 2011 032 comprDebrecen 2011 023 comprDebrecen 2011 010 comprDebrecen 2011 007 compr


Góðverkin kalla!

Leikaralið í Góðverkin kalla! - Ljósmyndar: Eggert Jóhannesson (Séð og Heyrt)

Leikritið Góðverkin kalla! var frumsýnt af Halaleikhópnum þann 4.  febrúar. Yðar einlæg leikur þar hlutverk. Það var yfirmáta skemmtilegt að sýna verkið fyrir fullu húsi. Bæði voru viðtökur áhorfenda með eindæmum líflegar og svo er áhöfnin úrvalslið einskærra gullmola. Þetta er frumraun mín á leiksviði og ég er alsæl með að hafa komist í gegnum allt ferlið, sérstaklega æfingarnar og nú sýningar. Það hefur algjörlega bjargað mér hvað allir í Halaleikhópnum hafa tekið mér vel, verið styðjandi og hvetjandi og verið einstaklega góð við mig. Verkinu var leikstýrt af Margréti Sverrisdóttur, leikkonu og Oddi Bjarna Þorkelssyni, leikstjóra. Þau eru algjör gæðasamloka. Þau hafa kennt mér gríðarlega mikið um leikinn og ekki síður um mennskuna og það hefur verið mjög nærandi. Að öllu samanlögðu og frádregnu hefur þetta verið mér gjöf lífsgleðinnar enda vettvangur þess að leika sér af fullri alvöru, líkt og í æsku.

Það voru miklar tilfæringar því tilheyrandi fyrir mig að taka þátt í þessu verkefni, finna leiðir til að gera ekki of mikið af neinu til að ráða við þetta án þess að fá "bakreikning". Fyrir vikið hefur ýmislegt annað skemmtilegt þurft að bíða til að spara líkamsburðina. Um leið hefur það kallað á að ég haldi til streitu þeim lífsstíl að stunda gönguferðir og sund. Enda hef ég lagt af í vetur, búin að missa öll meistarakílóin mín, þ.e. aukakílóin sem laumuðu sér inn á mig vegna kyrrsetu á meðan ég skrifaði meistararitgerðina á vorönninni. Ég segi eins og er, frekar leik ég aftur í leikriti en að láta plata mig með gylliboðum á einhverja líkamsræktarstöðina.

Myndin af leikhópnum sem hér fylgir með birtist á síðum Séð og Heyrt, tekin af Eggerti Jóhannessyni.


Veiðileyfi á gangandi fólk

Rauða ljósið skilst sem veiðileyfi á hinn gangandi vegfaranda sem enn er úti á götunni eftir að græni kallinn slokknar. Þetta er sérstaklega áberandi á beygjuakreinum. Það er ekki rétt að enn sé rautt á akandi umferð því á meðan grænt er á gangandi er grænt á akandi í sömu stefnum. Bilstjórar sem ætla að beygja yfir gangbrautina virða oft ekki rétt hins gangandi, sérstaklega ekki eftir að græni karlinn slokknar. Þannig var mér næstum slátrað af tveimur bílum í röð á Suðurlandsbrautinni við Grensásveginn í vetur.
mbl.is Lengja tíma til að komast yfir götu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjöldin hækkuð um leið á vatn og skólp

Á mínu heimili hækka þessi gjöld samanlögð um 6.000 krónur auk innheimukostnaðar sem samtals gerir 783 krónur á innheimtutímabilinu. Ég hef enga stjórn á þessum útgjöldum sem greiðandi vörunnar/þjónustunnar því notkun er ekki mæld. Tilfærsla innheimtunnar er réttlætt í bæklingi með "einföldun boðleiða" (hvað sem það þýðir) og "skilvirkni við innheimtu" (sem var einföld fyrir mig og án sérstaks innheimtugjalds). Hér er komið nýtt batterý, innheimtudeild Orkuveitunnar með tilheyrandi starfsmannahaldi geri ég ráð fyrir, húsakosti, tæknibúnaði og pappírshaldi. Ég geri ráð fyrir að boðleiða- og skilvirknibótin sé öll Orkuveitumegin og fyrir það þarf ég að borga tæpar 7.000 krónur aukalega.
mbl.is Vatns- og fráveitugjöld innheimt sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttamolar á nýju ári

Jólaljós í tré

Nýja árið hefur farið nokkuð vel af stað. Ég komst næstum slysalaust í gegnum jól og áramót. Ég brenndi mig á bökunarplötu við smákökubakstur svo freknurnar eru horfnar þar af á handleggnum. Ég toppaði það þetta svo með því að hella sjóðandi vatni á magann á mér í gær og brenna mig. Eftir kælingu afréð ég að vissara væri að fara á slysadeildina. Eftir fyrstu aðhlynningu þar með deyfingu og kæliumbúðum, síðan óhjákvæmilegri bið og loks læknisskoðun og leiðbeiningum var mér vísað inn á stofu merktri "Flugeldaslys" til að fá auka umbúðir með mér heim. Miðað við gauraganginn á skólalóðinni við hliðina á okkur á kvöldin og fram á nótt er líklega enn von á flugeldaslysum. Það er vissara að halda merkingum svo sprengjutrítlarnir verða ekki sendir í gifs.

Mín meiðsl eru sem betur fer ekki alvarleg. Þau munu þó há mér þannig að ég kemst ekki í sund í viku. Það er súrt því ég hef verið að mana sjálfa mig til reglulegra sundferða. Ég á fyllilega inni fyrir því að hreykja mér af að vera komin upp í fimm sundferðir á viku og hafa haldið þeim takti síðan fyrir jól. Í ofanálag jók ég vegalengdina um 50% fyrir viku og var að byrja að venjast því. Til að grobba enn frekar fór ég að synda skriðsund á bakinu um helgina. Þetta er kannski ekki merkilegt fyrir marga enda vegalengdin ekki nema 300 metrar. En þetta er stórafrek í ljósi þess að það er ekki nema ár síðan ég byrjaði á sundnámskeiði og lærði almennilega að synda. Ætli geimferðir séu ekki næsta áskorun.

Leikfélagið sem ég gekk til liðs við í haust hefur reynst alveg hreint ljómandi skemmtileg vitleysa. Halaleikhópurinn stefnir á frumsýningu á dramatíska gleðileiknum "Góðverkin kalla" í byrjun febrúar.  Það verður enginn svikinn af brosbrestum og þindarverkjum sem skellir sér á sýningu.

Mér til fróðleiks og yndisauka ætla ég svo að sitja námskeið í Háskólanum sem áheyrandi á vorönninni. Ég á svo sem doðrant um sama efni en það er bara miklu skemmtilegra að hafa félagsskapinn og komast úr húsi um leið. Ég held því fram fullum fetum að þetta sé ekki sprottið af aðskilnaðarkvíða við stúdentsástandið og er dauðfegin að þurfa ekki að skrifa aftur eina einustu ritgerð eða taka eitt einasta próf.

Saumaskapurinn fer svo að komast aftur í gang eftir frumsýningu. Á því sviðinu standa miklar sviptingar fyrir dyrum, ný verktækni og áhöld og spennandi verkefni enda, eins og persóna mín í leikritinu lýsir yfir: "Hugmyndir eru ekki það sem okkur vantar." 


Tunglmyrkvi á vetrarsólstöðum

Tunglmyrkvi 21.12.2010 - Ólöf I. Davíðsdóttir

English translation in comments below 

Hér var farið snemma á fætur í morgun til að fylgjast með tunglmyrkvanum. Þó til sé alvöru stjörnukíkir á heimilinu létum við duga að trúa eigin augum. Af þeim 86 ljósmyndum sem við tókum reyndist aðeins ein vera þokkalega viðunandi enda myndavélarnar bara einfaldar vasaútgáfur, jafnvel rangt stilltar líka.

Það er einföld ánægja en grípandi að verða vitni að gangverki alheimsins, vitandi að ég á engan þátt í gangi himintunglanna en vita um leið að ég er hluti af þessari stórbrotnu lífveru sem veröldin er.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband