Færsluflokkur: Bloggar

Án höfuðverks

Flögur - óstungiðÉg fæ aldrei höfuðverk. En stundum veltist svo mikið til inni í kollinum á mér að mig sundlar. Það hendir þó aðeins þegar ég hugsa stíft um saumaverkin mín. Eins og núna - ég veit ekki enn hvernig ég vil stinga þetta nýjasta veggteppi. Það liggur gegnumstungið með títuprjónum, tilbúið til vélstungu, en mynstrið lætur á sér standa.

Ögn framar á blogginu setti ég inn færslu um þetta veggteppi á hönnunarstiginu og bað lesendur um álit. Uppsetningin hægra megin varð fyrir valinu. Það er með bútakúnst eins og aðra list - maður þarf að kunna reglurnar til að mega brjóta þær. Þessa meginreglu teygi ég og toga að ystu þanmörkum. Hér er það reglan um að saumar standist á sem fær að fjúka. Fyrir vikið verður endurtekning formanna laus við flatneskju. Slíkt misræmi getur pirrað fólk út í hið óendanlega. Fyrir vængstýfða fullkomnunaráráttu mína er þetta brandari af bestu gerð því samsetning þar sem saumar stemma ekki þýðir í lögbókum saumalöggunnar að maður kunni ekki að sauma. Harðsvíruðustu saumakrimmar kikna í hnjáliðunum við tilhugsunina um slíka fordæmingu. En ég er forhert og óviðbjargandi.


Einni gráðu ofar

FjölskyldanÞegar farið er að lýsa eftir manni í gestabók er tímabært að ræskja sig og hefja upp bloggraust.

Yðar einlæg útskrifaðist fá Háskóla Íslands með B.A. gráðu í guðfræði þann 23. febrúar sl. Af því tilefni bauð ég fjölskyldunni út að borða í Perlunni þar sem við snæddum af fjögurra rétta matseðli úr smiðju þriggja stjörnu Michelin kokks frá Þýskalandi. Þeir gerast víst ekki flottari. Við höfðum vissar efasemdir um að hann réði skammlaust við íslenska lambakjötið. En kjötið reyndist hreinasta afbragð svo við fórum heim södd og sæl.

Í febrúar og mars hef ég verið í vettvangshluta starfsþjálfunar, m.a. á Akureyri. Ég átti að halda vinnudagbók þennan tíma og því hefur lítið annað komist á blað, hvað þá heldur blogg, enda meir en nóg að skrifa um í skýrslurnar. En nú sér fyrir endann á þeim kafla. Svo vantar mig vinnu í nokkra mánuði.


Bland í poka

Bland í pokaÍ haust heimsóttu mig tvær bandarískar konur sem starfa með félaginu Material for the Arts í New York. Félagið safnar afgangs hráefni frá fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum sem getur nýst við listsköpun en hefði annars hafnað sem landfylling. Þessu er svo dreift endurgjaldslaust til skóla, félagsmiðstöðva, listafólks, endurhæfingarstofnana og fleiri þar sem restunum er umbreytt í margvíslegri listsköpun. Stöllurnar gáfu mér og fleiri íslenskum konum sem þær hittu smápoka sem afskurðum og ýmsum smáhlutum með áskorun um að búa til textílverk sem er a.m.k. 30x30 cm. Þessi verk ætla þær síðan að skrifa um í fréttabréf og tímarit.

Á myndunum er annars vegar innihaldið í pokaskjattanum mínum og svo smá sýnishorn af vinnunni minni sem komin er vel af stað. Þarna er nota ég aðferð sem ég hef ekki notað áður, álímingu (e. fusing), til að gera eins konar "kaleidoscope" eða mandölu. Ég klippti út samstæða bita úr efni og raðaði niður í stjörnu. Nú á ég eftir að fylla út í miðju og jaðra. Stefni á að ljúka því í dag. Það fer þó allt eftir því hvernig andinn blæs hvort verkinu lýkur í dag eða á morgun.

ÁlímingÞað er alveg nauðsynlegt að hafa fleiri en eitt verk í gangi í einu. Sumt þarf að fá að gerjast á miðri leið eins og flögurnar í næstu færslu á undan og þá er gott að grípa í annað á meðan. Bakvinnslan hefur þá næði til að finna snilldarlausnir fyrir viðfangsefnið. 


Hönnunarhamur

Þér, lesanda, gefst kostur á að taka þátt í skoðanakönnun. Hér neðan við erum tvær myndir af sitt hvorri útfærslunni á sama forminu. Segðu mér hvor fellur betur að auga þínu, myndin vinstra megin eða myndin hægra megin. Ef þú getur, segðu mér þá líka hvers vegna. 

Vinnumynd, Flögur IIVinnumynd, Flögur II

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er partur af heljarinnar samsæri. Ég er að vinna annað veggteppi úr sömu hugmynd og þetta hér. Það sem hér sést er aðeins brot af teppinu öllu. Auðvitað er ég einráð um hvor uppsetningin verður fyrir valinu og hef þegar myndað mér skoðun en mig langar til að gefa þér hlutdeild í heilabrotunum. Já, listin líkir eftir lífinu - valkostir, valkostir, valkostir. Þannig er líf listakonu líka - valkostir, valkostir, valkostir.


Íhugun

ÍhugunNú stendur yfir djúp efnisleg íhugun á þessum bæ. Þessi marmaralituðu bómullarefni hafa lengi beðið köllunar sinnar ofan í skúffu. Ég hef oft dregið þau fram, strokið og umbrotið, í þeirri von að finna hvert þau stefna. En þau hafa reynst jafn óráðin og ég sjálf. Þessar lífrænu línur biðja um mjúka og flæðandi uppsetningu. Ætli næsta skrefið verði ekki að handþvo þau og sjá hverju fram vindur þegar ég kreisti úr þeim vatnið og virði fyrir mér ólögulega hrúguna.

Það hefur alltaf verið mér torskilið hvernig fólk fer að því að fullmóta hugmynd, gera skissu og svo snið eða uppdrátt sem unnið er eftir. Mér hefur eiginlega fundist eitthvað vanta í mig því ég byrja yfirleitt með hálfkaraða grunnhugmynd og svo prófa ég mig áfram með hvað virkar fyrir hana.

Trust the processEn mín aðferð er víst líka fullgilt vinnulag og ekki síður árangursríkt að mati Shaun McNiff, listmeðferðarfræðings, sem skrifaði bókina, "Trust the process - an artist's guide to letting go". Höfundur fullyrðir að í listsköpun séu að verki vitsmunir sem beri uppi alla skapandi vinnu. Þetta afl getur leitt okkur í gegnum vandræði og jafnvel hagnýtt mistök okkar svo fremi að við treystum náttúrulegu ferli vinnunnar. Hið athyglisverða er að egoið getur ekki stjórnað þeim töfrum sem þarna eru að verki. Flæðið skilar okkur þangað sem við þurfum að vera en vissum ekki áður.

Ég held því áfram að vinna við mína flæðilínu. Á meðan ég les bókina velti ég því fyrir mér í aðra röndina hvernig slíkar hugmyndir mætti heimfæra í atvinnulífinu, við náttúruvernd og borgarskipulag. Maður náttúrulega púslar ekki til og frá með aldagömul hús á Laugavegi, Sundagöng og mislæg gatnamót, skólakerfi, hlutabréfakaup og borgarstjórn þegar á hólminn er komið. En ég velti fyrir mér hvað mundi verða ef það væri lagður tími og vinna í að fara um lendur ímyndunaraflsins til að uppgötva möguleika og prófa þá með því að rekja þá áfram á teikniborði hugans. Sumt hefur reynslan kennt að virkar og virkar ekki. En McNiff leggur áherslu á þrotlausa vinnu vísindamanna til að komast að því af hverju eitthvað virkar ekki.

Blómstrandi vetrarblámiSlík vinna fæðir af sér nýjar hugmyndir sem virka, hugmyndir um hluti sem við vissum ekki einu sinni af eða að gætu orðið til. Það er nýsköpun. Hér til hliðar ef mynd blóminu á eldhúsborðinu hjá mér sem hefur annan lit en blóm þessarar tegundar því einhverjum datt í hug að láta blómið sjálft drekka í sig annan lit.


Bútasaumur er snilld en ekki skammaryrði

LandmannalaugarEf borgarskipulagið væri sannarlega unnið eins og bútasaumur væri margt á betri veg. Það er algjör misskilningur hjá menntamálaráðherra að bútasaumsaðferðir séu meinsemd í borginni. Bútasaumur byggir þvert á móti á heildarsýn samhengis, verkkunnáttu, útsjónarsemi, frumleika og nýsköpun sem nærist á lifandi hefð.  Hér með býð ég menntamálaráðherra og hverjum þeim borgarfulltrúa sem vill einkakennslu í bútasaumi, í fullri alvöru.

Tilefnið er þessi orð menntamálaráðherra í fréttum RUV: "Ráðherra vill ekki bútasaumsaðferðir: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, gagnrýnir vinnubrögð Húsafriðunarnefndar og Reykjavíkurborgar við verndun húsanna við Laugaveg 4 og 6. Ráðherra kallar eftir aukinni samvinnu og að látið verði af bútasaumsaðferðum, en að þess í stað verði mótuð heildstæð stefna um varðveislu og uppbyggingu Laugavegarins."

Til hliðar er mynd af veggteppi sem ég gerði, innblásið af litadýrð ljósmynda frá Landmannalaugum. Þangað hafði ég aldrei komið þegar ég vann verkið en dreif mig í dagsferð í kjölfarið. Síðan hef ég safnað efnum í annað veggteppi með grágrænum litum Bláhnúks og bleikum litum líparíts.

Bútasaumur sameinar viðfangsefni margra fræðigreina: verkfræði, stærðfræði, formfræði, vélfræði, myndbygging, litafræði, efnisfræði, smíðar, fjármál, viðskipta- og markaðsfræði, verkefnastjórnun, bókmenntir, sálarfræði, hönnun, teikning, sniðagerð, saumaskapur, innanhússarkitektúr, endurvinnsla, umhverfisvernd, handverkskunnátta, ljósmyndun... Æ, ég þarf að koma mér að efninu.

Eitt bútasaumsteppi er eins og rekstur stórfyrirtækis á míkroskala. 


Vín og rósir

Eftir bóndadagssteikina og rauðvínsrest settumst við hjónin í kósísófann. Ég veit ekki hvaða kenndir vöknuðu með húsbandinu en í tilefni bóndadags þótti viðeigandi að sýna mér þetta myndband.

 


Af skvettum og skellibjöllum

Það varð úr að ég eyddi út fyrri færslu með skopmyndbandi um eftirspurn eftir íslenskum vopnabera á erlendri grund þegar ég gerði tilraun til að skeyta öðru myndbandi inn í gömlu færsluna. Það er þó ekki hundrað í hættunni því þetta er komið inn á annað hvert blogg og meira að segja sjálfur mogginn búinn að taka við sér seint og um síðir og fjalla um tiltækið.

Nei, þá hef ég nú þarfari þanka um að þenkja, svo sem hvað eigi að vera í kvöldmatinn á morgun. Í kvöld var hér appelsínumarineraður silungur, ofnbakaður, borinn fram með soðnum kartöflum og hollenskri sósu ásamt fersku salati með hunangssinnepsádreypi. Betri helmingurinn opnaði rauðvínsflösku sem hefur lengi beðið örlaga sinna. Hún fær þó að vera eitthvað áfram í dauðateygjunum enda enn hálf full eða hálf tóm eftir því hvernig á það er litið.Skrúður, Hótel Saga

Þetta hefur verið svona "gourmet" dagur. Mágkona mín og ég snæddum saman í hádeginu á Skrúði hótels Sögu (eða hvað sem þetta hótel heitir núna). Ég er svo fáguð á svona stöðum að hið hálfa væri nóg. Ég byrjaði á því að henda smjörstykkinu mínu í gólfið svo það klíndist vel yfir olíuborið parketið. Hin ráðagóða húsmóðir var snögg að snarhenda hnífinn, skafa smjörið upp af gólfinu og leggja hvort tveggja til hliðar. Í stað þess að baða út höndum eins og drukknandi maður til að vekja athygli þjóns sem gæti þá komið með annan hníf eftir dúk og disk sótti frúin bara annan hníf. Hún settist þá loks að snæðingi en fann ekki munnþurrkuna sína. Ég vissi af munnþurrkustaflanum við hliðina á hnífasettunum (nú veit ég um vopnabúr stjórnmálamanna) en vildi ekki arka aftur af stað svo fólk færi ekki að halda að ég ynni þarna. Þegar máltíðinni lauk og ég stóð á fætur sá ég að munnþurrkan hafði samanvöðluð stutt við mjóhrygginn á mér allan tímann svo það var engin furða hve vel fór um mig. Mágkona mína var hins vegar sjálfri sér til sóma og hinn albesti borðfélagi.


Hægt andlát

Skór öskubuskuÞegar ég var barn heyrði ég oft fólk tala um að best væri að fá hægt andlát í svefni. Svo bætti það við, "Ég vona að ég fái að fara þannig". Leikkonan vonast kannski eftir því að hljóta smart andlát í svefni

Ljósmyndina tók ég í Jardin des Tuileres í París í haust.  Skórinn er meira en mannhæðar hár, gerður úr pottum og pottlokum. Hann er gerður af indverska listamanninum Subodh Gupta.


mbl.is Sefur í háhælaskóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn meiri mátun

Mátun 3Mátun 4

Þetta potast, mjakast með hænufetum eins og sólin. Ég mátaði ýmsar útfærslur á veggteppinu með lausum pappírssneplum og digital myndavél. Það eru til myndbyggingarformúlur og þangað til ég lærði eitthvað um þær studdist ég eingöngu við brjóstvitið til að velja og staðsetja form á myndfleti. Ég nota enn brjóstvitið en með smá bókviti get ég nú betur fært rök fyrir valinu svo ég þurfi ekki að hljóma eins og Homeblest kexauglýsing. Mér finnst Homeblest gott - en bara nógu mikið af því. Minnir mig á það: setja Homeblest á næsta innkaupalista. Ekkert að því að kaupa pakka á tveggja mánaða fresti.

Ég hef af og til spurt veggteppið til nafns en það þegir þunnu hljóði. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband