Færsluflokkur: Bloggar

Börn byltingarinnar

Quilt-rammi DARÍ morgun lagði ég leið mína í safn sem "Byltingadætur Ameríku" reka í merkri byggingu. Þar var haldinn fyrsti afvopnunarfundurinn í heiminum á árunum 1921-1922 og er húsið nú verndað þjóðarminnismerki. Félagsskapinn stofnuðu konur árið 1890 eftir að "Byltingarsynir Ameríku" höfðu neitað þeim um inngöngu í félagsskap sinn. Það verður engin útnárakerling innlimuð í klúbbinn heldur verður að leggja fram skrifleg vottorð úr opinberum skrám sem færa sönnur á blóðtengsl í beinan ættlegg frá einstaklingum sem áttu þátt í að koma á sjálfstæði Bandaríkjanna. Það er að sjálfsögðu einnig tiltekið hverjir geta talist til þess hóps. Félagið hefur það göfuga hlutverk að vera kyndilberi föðurlandsástar með því að halda á lofti minningu þessa fólks, fræða og upplýsa almenning um lokaákall Washington heitins og hlúa að sannri föðurlandsást.

Dúkkuhús DARSjálft safnið samanstendur af sýningarsölum með matarstellum og bróderíi, herbergjum tileinkuðum sambandsríkjum landsins sem hvert um sig sýnir tíðaranda í húsbúnaði efnafólks ákveðinna tímabila og svo stóru skjala- og bókasafni. Það var mjög áhugavert að fara þarna um ganga í fylgd fjörgamallar félagskonu í blómapilsi sem afsakaði sig þegar hana rak í vörðurnar með því að hún væri nýkomin úr sumarfríi. Með mér var þýsk stúlka, Anne, fyrrum skiptistúdent við skólann sem er í heimsókn og var til í að gera hvað sem er til að hafa eitthvað fyrir stafni, meira að segja að skoða bróderí. Einnig skruppum við inn á Smitsoniansafn og sáum þar handverk og indjánamyndir. Þessi upptalning hljómar svolítið sérkennilega þegar bilið spannar allt frá byltingardætrum til indjána. En hver man ekki eftir kúrekamyndum þar sem karlmaðurinn fór að elta nautgripaþjófa til að hengja þá og á meðan var eiginkonu og börnum rænt af indjánum svo þá var plottið komið: kabojar og indjánar.

Rautt límband

Hér er setið og svitnað yfir skilmálum sjúkratrygginga til að ganga úr skugga um (að svo miklu leyti sem það er hægt) að maður lendi ekki í ógöngum þurfi að leita sér heilsubótar í Vesturheimi. Eiginlega er ég smeykari við það batterí en Tollgæslu- og innflytjendalöggjöfina. Reyndar fékk maðurinn minn að sjá um svitabaðið að mestu svo ég slepp nú tiltölulega vel. Ég vona að ég þurfi aldrei að nota þessa tryggingu.

Lautarferd nynema WTSNámskeiðin eru byrjuð og á ég eftir að fara á tvö þeirra. Þau eru öll hvert öðru áhugaverðara. Listnámskeiðin eru það áberandi, sérstaklega miðað við guðfræðinám. Listadeildin hér er sennilega sú elsta í landinu sem rekin er við guðfræðiskóla. Á listanum mínum eru tvö sálgæslunámskeið. Annað er færninám í sálgæslu og hitt um skapandi leik í starfi leiðtoga. Einnig tek ég námskeið í safnaðarfræðum um greiningarvinnu í safnaðarstarfi. Listnámskeiðin eru þessi: Vinnustofa með staðarlistamanni (sem er ofboðslega frægur - heil færsla um það siðar), íhugandi teiknun (sem krefst frekari útskýringa sem líka fá sér færslu síðar), leikræn miðlun í þjónustu og svo er það kapellukórinn. Við þetta bætist menningarnámskeið fyrir erlenda nýnema og er það skyldunámskeið á fyrstu önn. Rúsínan í pylsuendanum er eftir og verð ég að bíða eftir skýrari línum með þann pakka áður en ég get farið að tjá mig um málið. Þetta er einn kúrs í viðbót á listasviðinu.

Samtals gerir þetta 15 einingar. Það var nú sagt við mig bæði heima og  hér úti að ég yrði að passa mig að taka ekki svona margar einingar. Málið er að ég hef ekkert val. Ég verð að vera í fullu námi til að uppfylla vegabréfsáritunina og til að fá námslán. Og þó skólinn gefi nemum það svigrúm að teljast í fullu námi með aðeins 11 einingar af þeim 15 sem hann setur upp sem fullt nám, kemur mér ekki til hugar bæta við heilu ári á framfærslu hjá LÍN til að geta dundað mér í Ameríku. Nægar verða afborganirnar samt.

Í vikulokin ætla ég svo á útsölu í tilefni Verkalýðsdagsins, Labor Day. Vefnaðarvöruverslunin mín er með útsölu og kumpána (e. coupons) og ég ætla að nota tækifæri og koma mér upp einhverju hráefni til að vinna úr. Ég tók bara með mér áhöld til sauma en efnin vantar mig. Reyndar er ég ekkert nema útsjónarsemin og dró upp úr ruslastampi á ganginum tvennar buxur sem einhver fleygði og klippti úr þeim það sem gagnast mér. Maður veit aldrei hvenær kjarnorkuvetur skellur á og þá er nú gott að geta setið og sauma í kjallaranum hússins sem byggt var þegar kalda stríðið stóð sem hæst.

Öskubuska

Solunefndin - fyrirÞað er margt skrýtið í kýrhausnum og ýmislegt undarlegt í henni Ameríku. Hér hef ég leitað dyrum og dyngjum að áhöldum til að þrífa herbergið mitt en ekki haft árangur sem erfiði. Þegar ég hef spurt á skrifstofunni er mér sagt að það séu ræstiskápar á hverri hæð. Þegar ég segir að þeir séu tómir er svarað til baka að það eigi að vera áhöld þar og þá sé ég fram á jafntefli í borðtennis. Það gildir einu hvað "á" þegar ekki "er" og gagnslaust að sitja við þann keip. Ætli ég beri mig ekki upp við húsvörðinn næst. Hér er það lenska að ráðast á skítinn með sótthreinsunarbrúsa og þá verða allir rólegir. En að þrífa - svo það þurfi ekki að sótthreinsa - það er allt annar handleggur. Á skrifstofunni voru rekin upp stór augu og spurt: "En til hvers viltu ræstiáhöld?". Samt hafði sama skrifstofa beðist afsökunar á því að misfarist hefði að þrífa herbergið mitt fyrir afhendingu. Þá ætti að liggja í augum upp hvað ég vil með kúst og fægiskóflu.
Solunefndin - eftirÞað er tímabært að gefa smá innsýn í herlegheitin. Hér eru fyrir og eftir myndir úr herberginu mínu, Sölunefndinni. Fleiri mynda er að vænta á næstunni.

 

Fyrstu dagarnir

Það eru fleiri stórtíðindi frá fjölskyldunni. Frumburðurinn, Ágúst, flutti á þriðjudaginn til Ungverjalands þar sem hann hefur nám í læknifræði við háskólann í Debrecen ásamt Ólínu, unnustu sinni. Yngri sonurinn, Elías, byrjaði í Verslunarskólanum á þriðjudaginn. Með frúna farna í framhaldsnám er eiginmaðurinn, elskan mín hann Snorri, miðpunkturinn sem eftir stendur og heldur í alla þessa spotta. Það er svo mikil gleði að sjá alla þessa drauma rætast.

Nú er skólinn kominn í gang og í tvo heila daga hef ég setið á kynningarnámskeiði fyrir erlenda nýnema. Síðdegis og fram á kvöld var þriggja tíma fundur með kvöldverði fyrir alla nýnema til að leggja niður línurnar um formsatriði við einstaklingsbundið skipulag náms. Á morgun verður svo heilsdagsprógram fyrir alla nýnema sem í senn í samhristingur og undirbúningur fyrir dvölina í skólanum og í Wesley samfélaginu eða fjölskyldunni eins og það er gjarnan kallað.

Ég er ekki ein um að vera búin að fá alveg nóg, hvað þá að eiga annað eins eftir og kennslan ekki einu sinni byrjuð. Við útlendingarnir voru frædd um að hugsanlega kæmi við að þeim punkti að við fengjum nóg af þessu öllu alveg upp í kok. Það er partur af ferli menningaráfallsins sem við má búast. Þegar líða tók á þennan dag númer tvö var ég á köflum farin að halda að ég hefði hlaupið yfir hveitibrauðsdagana og ráðvilluna og þess í stað dottið niður á sprungubotninn eða "rock bottom" eins og stendur á teikningunni.

Þó er ég sennilega betur sett en allir hinir í útlendingahersveitinni eins og ég kalla okkur. Þau áttu öll eftir að skrá sig á námskeið, virkja netföngin sín og yfirhöfuð að lesa sér til um formsatriði og aðgerðaleiðir við stofnunina. Flest komu í fyrradag, einn beint á námskeiðið af flugvellinum eftir 20 tíma ferðalag frá Kóreu ásamt eiginkonu og tveimur börnum og hafði hann ekki sofið í tvo sólarhringa. Þetta var bagalegt fyrir þau því námskeiðið byrjaði á þriggja og hálfs tíma enskuprófi. Ég var þó búin að vera hér í viku og koma mér fyrir að miklu leyti. Reyndar voru þau flest dregin á vegabréfsárituninni fram á síðustu stundu og hafa kóreanskir nemendur við skólann, sem eru all nokkrir, ekki átt í svona miklu basli hingað til. Fleiri nemar frá öðrum löndum sem voru að koma aftur eftir frí hafa lent í meira stappi en nokkru sinni áður og var einni frá San Salvador var alfarið neitað um að koma aftur inn í landið og það án nokkurrar skýringar. Er þetta þó hennar þriðja og síðasta ár.


Profun, profun, einn, tveir, thrir

Nu sit eg a bokasafninu og laet a that reyna hvort faersla hedan vistist inni.

 Prófa að breyta.

 Enn önnur tilraun


Ein stærð fyrir alla

Það fást ekki góðar pylsur í IKEA í Marylandfylki. Að öðru leyti er allt eins og í Garðabænum. Og þó, það munar svolítið á verði þó dollarinn sé óhagstæður. Ég fór þangað a fostudag og keypti það allra nauðsynlegasta til að flytja inn á heimavistina í gær. Eftir að hafa legið yfir Target, Walmart og Macy's á netinu gat ég ekki hugsað mér þann stíl og leitaði á norðlægar náðir skandinavískrar hönnunar.

Það var svolítið klikkað að labba um hið kunnuglega IKEA sem er alveg eins og í Garðabænum og minna sig á að maður væri ekki á Íslandi og það þýddi ekkert að tala við starfsfólkið á íslensku. Enda er ég ekki frá því að ég hafi fipast þegar ég pantaði pylsurnar. Eiginmaðurinn fylgdi mér sem þrautseigur burðarklár og fullvissaði mig um að ég væri ekki að eyða of miklum peningum.

Ég leitast við að finna íslensk orð yfir það sem á fjörur mínar rekur þó ég efist ekki um færni mína í að tvinna saman slettum á báða bóga, kenni Kananum að segja gardínur og fjalla sjálf fjálglega
um seminarið mitt á blogginu. Við höfum spjallað um það í leiðöngrum okkar hvernig íslenska skyldi ýmis orð sem eins og sér hafa augljósa merkingu en þegar þau eru komin í orðasamband eða sem
yfirskrift einhvers fyrirbæris liggur ekki alltaf í augum uppi hvað við er átt. Hvað ætli "Kiss and ride" standi fyrir?

P.s.: Mer hefur ekkert gengdi ad blogga hedan af hotelinu thvi faerslurnar ur tolvunni minni vistast ekki a blog.is. Thad virkadi a velinni i lobbyinu. Eg vona ad that takist ad leysa thetta taeknivandamal. Allar tillogur vel thegnar. Frekar ferdasogur verda thvi ad bida betri tima.


Vefnaðarvestri

Samtíðin - auglýsing1

Í síðustu færslu örlaði á aðskilnaðarkvíða við efnisstaflann minn vegna burtfarar til Vesturheims. Tímaritið Samtíðin auglýsti á stríðsárunum að taubirgðir væru væntanlegar frá Ameríku. Nú er bara að sjá hvort enn sé eitthvað eftir og munu vefnaðarvöruverslanir vestra eiga von á eftirlitsinnliti mínu.

Eldri sonurinn spurði mig hvort ég mundi eitthvað láta sjá mig í skólanum í einhverjum þeirra leiðangra sem ég lýsti fjálglega að ég hefði í bígerð. Það er nú bara þannig að góðir landkönnuðir viða að sér upplýsingum og efnissækin saumakona getur ekki setið klæðalítil í gósenlandi hagstæðra tilboða bútasaumsverslana. Það er fjarri mér að hafa slíkt í flimtingum en ætli margri saumakonunni fyndist það ekki jaðra við helgispjöll að kíkja ekki inn í eina til tvær bútasaumsbúðir sem álpast í veg fyrir hana.


Verðandi Weslingur

Wesley Theological SeminaryFramundan er strandhögg vestanhafs, í Leifslandi Eiríkssonar, þar sem ég mun leggja stund á meistaranám í guðfræði næstu tvö árin. Skólinn er Wesley Theological Seminary og er staðsettur í Washington DC. Brottför er eftir  tvær vikur. Fjölskyldan verður heima enda með nóg af spennandi viðfangsefnum á sinni könnu. Þó fæ ég fylgd út, tvo fíleflda pikkalóa sem ætla að bera fyrir mig töskurnar, eiginmaðurinn og unglingurinn, sem fá viku skoðunarferð um lendur Vesturheims meðfram Potomac ánni. Annállinn minn fær af þessum sökum titil við hæfi, Fljóðið við fljótið, enda til hans stofnað að víðfrægja dáðir mínar, dútl og útúrdúra.

Wesley Theologial Seminary er af meiði meþódista og er stór á heimsvísu, alls 1.500 manns sem sækja námskeið. Helmingurinn er í námi til prófgráðu og hinn helmingurinn sækir ýmsar námsleiðir aðrar sem í boði eru eða koma þangað í gegnum samtök guðfræðiskóla í borginni, Washington Theological Consortium. Það sem dró mig að þessum skóla er listamiðstöð hans,  og námskeið um guðfræði og listir.

Ég mun búa á heimavistinni þar sem herbergið mitt verður ekki bara svefnstaður og lesrými heldur líka stúdíó, vinnustofa. Ég fæ lánaða saumavél hjá kunningjakonu minni úti svo ég þarf ekki að rogast með mína út eða eyða fé í nýja. Hér heima brýt ég heilann um hvaða verkfæri ég skuli taka með mér. Sumt er of dýrt til að kaupa það aftur og annað óhentugt til flutnings. Svo þarf ég að taka með mér bækur sem hafa reynst mér vel við saumaskapinn. Ætli það verði ekki aðallega fatnaður sem ég læt sitja á hakanum og kaupi mér úti það allra nauðsynlegasta enda allt svo ódýrt hjá henni Ammrikku, eða þannig. Verst þykir mér þó að skilja eftir öll efnin mín. Það er svipað og að senda listmálara út á tún og segja honum að skilja litina sína eftir heima. Það er nefnilega engin lausn að kaupa bara ný efni. Þetta er reyndar frábær afsökun til að kaupa efni en oft vinnur maður úr þvi sem fyrir er og kaupir ekki inn í nema það eigi erindi þangað. Kannski er ég orðin svona öguð.


Ég á afmæli í dag

Ólöf Ingibjörg DavíðsdóttirWhistling  Ég á afmæli í dag Whistling

Í gærkvöldi fann ég tvö sendibréf sem rituð voru í kringum 5 ára afmælið mitt. Annað skrifaði móðir mín og hitt móðurafi. Bæði voru send til afasystur minnar í móðurætt sem fluttist til Englands eftir seinna stríð og gekk í hjónaband.

Mamma skrifar þann 22. júlí 1967:
"Hún var búin að gera sér svo miklar vonir þegar hún yrði 5 ára, til dæmis að hún mundi ná upp á takka sjö í lyftunni. Svo var hún 5 ára í gær og ætlaði að sýna mér að nú næði hún upp á takkann. Þá var eins og maður hefði rifið úr henni hjartað þegar hún sá að hún náði ekki. Hún sagði að sennilega ætti hún ekki afmæli núna og að það væri kannski ekki sumar núna."

Ég man eftir þessu lyftuóbermi. Ég náði heldur ekki upp á rétta takkann á dyrasímanum í anddyrinu svo ég komst heldur ekki inn. En ég náði á bjölluna hjá húsverðinu. Það var pínlegt að hringja á bjöllunni hjá honum og biðja hann að ýta á lyftutakkann svo ég kæmist heim til mín.

Bréf mömmu sýnir að ég hafði stór plön fyrir þetta fimm ára afmæli og lyftubömmerinn hefur sett allt úr skorðum. Mamma skrifar áfram:
"Hann pabbi var að stríða henni Ólöfu í gær og sagði við hana að nú yrði hún að hætta með snuddu og fleira eins og hún væri búin að segja sjálf þegar þegar hún yrði 5 ára. En hún var ekki lengi að svara honum því hún næði bara upp á fyrsta takkann svo að þetta er allt í lagi lengur."

Það er engin furða að ég hugði á mikla landvinninga 5 ára enda farin að sendast ein í búðir og fara sjálf á róló upp á hvern dag með þriggja ára bróður minn í eftirdragi án fylgdar samkvæmt lýsingum afa míns þann 15. júní 1967. Afi skrifar líka:
"Hún sagði við mig einn daginn, "Þú verður að skrifa henni frænku minni og segja henni hvað ég er dugleg að sendast", svo það er eins gott að fyrir þig að minnast á það í næsta bréfi."

Ingibjörg Gísladóttir og Cyril Porter, 1947Ég man vel eftir bréfunum frá henni frænku minni, Ingibjörgu Stefaníu Gísladóttur Porter. Eiginmaður hennar var Cyril Porter. Bréfin voru lesin upphátt þegar þau komu og ég hlustaði andaktug á frásagnir af sumarleyfum í Portúgal, dansleikjum og gestakomum ytra. Frænka kom einu sinni í heimsókn til Íslands eftir að hún flutti út. Mér fannst þessi kona líkust gyðju þar sem hún sat með sígarettuna í löngu munnstykkinu á milli fingranna. Þegar ég yrði stór ætlaði ég að reykja sígarettur úr svona löngu munnstykki. Já, eitt af framtíðarplönum mínum var að reykja. En sú varð ekki raunin og ég giftist heldur ekki stráknum sem ég var skotin í þegar ég var tveggja ára.

Frænka mín gaf mér brúðarkjólinn sinn þegar ég giftist árið 1982. Það var yndislegt að fá að nota kjólinn og hún var svo ánægð með að hann væri notaður aftur. Þessi kjóll er nú orðinn 60 ára og sjálfri þætti mér mjög gaman ef tengdadætur mínar gætu notað hann. 

 


Innherjasaga

Vorsala Daz - vörður trúarinnarÁ vefsíðu Djáknafélags Íslands er grein sem ég skrifaði um starfsþjálfun djáknanema, Innherjasaga.
Myndin hér til hliðar er ekki prótótýpa af nýjum einkennisbúningi djákna heldur gegnir því hlutverki að skapa stemmingu fyrir lestur greinarinnar.

Myndin er héðan. Þessi fígúra er Vorsalla, vörður trúarinnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband