Færsluflokkur: Bloggar

Ring, ding, dingaling

BrunaboðiBrunabjallan á heimavistinni fór í gang með miklum látum áðan þegar ég sat í makindum og las um eyðingu Sódómu og Gómorru. Afar viðeigandi. Ef sagan væri að endurtaka sig í borgarumhverfi nútímans, skyldu viðvörunarkerfin fara í gang?

Sem betur fer var ég nýfarin í lopavesti og greip með mér flísteppi um leið og ég fór út svo það væsti ekki um mig þar sem við stóðum fyrir utan og biðum fregna af því hvort kviknað væri í eða kerfið farið í gang af öðrum orsökum. Svo var okkur sagt að næsta hús væri öruggt og þangað fóru nokkrir en ég og fleiri sáum meira vit í að fara yfir í mötuneytið og fá okkur kaffisopa. Brunaboðinn reyndist hafa farið í gang af völdum iðnaðarmanna sem voru að brjóta niður vegg sem gneistaði af með tilheyrandi rymyndun án þess að hafa þar til gerðar viftur í gangi svo rykmökkurinn setti kerfið af stað.

Nú sit ég aftur á vistinni og velti fyrir mér hverju þessi reynsla getur bætt við einræðuna sem ég er að semja fyrir leiklistartímann á morgun. 

 


Teiknun

Stúdíó 213Útundan mér sé ég sneið af graskersbrauði sem vinningshafi í graskersskurðarkeppni skólans deildi með okkur félögum sínum á vistinni. Það verða líklega graskersréttir á borðum næstu vikur til að nýta allt innvolsið úr graskerjunum sem rist voru í dag. Rétt áðan lauk ég við heimaverkefni fyrir teiknitíma á miðvikudaginn. Það er hið besta mál því ég hef áður lent í tímaklemmu með þessi verkefni. Nú þykir mér orðið næsta víst að ég sé einfaldlega tvisvar sinnum lengur að teikna en bókin gerir ráð fyrir svo ég lengdi tímann í morgun. Myndin er hér til hliðar. Kennarinn sagði okkur að eiga líka strokleður geðheilsunnar vegna. Mitt hefur verið notað ótæpilega enda flestar línur dregnar tvisvar eða oftar.

Á morgun verður starfslokaguðsþjónusta til heiðurs einum kennaranum hér sem hættir um áramótin. Mér þykir það súrt í broti því ég kom hingað einmitt til að læra af þessari konu. Mér tókst að komast að sem lærlingur hjá henni í haust til að vinna við stórt verkefni, innsetningu fyrir ráðstefnu í janúar. Því miður byrjar skólinn aftur sömu dagana og ráðstefnan verður haldin. Það finnst okkur báðum mikið svekkelsi og vitum eiginlega ekki hvernig hægt er að flétta þetta saman. Það er frekar súrt í broti að búa til listaverk og geta sett það saman né fengið að sjá það með eigin augum. Sjáum til með það.


Hrekkjalómur

Iceland AKA Little Britain CommonwealthVið heimavistargemlingar héldum alþjóðapartý á föstudagskvöldið. Eftirvæntingin var mikil og margir spurðu með öndina í hálsinum hvort mitt herbergi yrði ekki Ísland. Ég hélt nú ekki. Í anda hreinræktaðra íslenskra hrekkjalóma brá ég fyrir mig húmornum og breytti herberginu mínu í háðsádeilu. Yfirskriftina sjáið þið á myndinni: "Iceland AKA  Little Britain Commonwealth". Til að ganga inn þurfti fyrst að berjast í gegnum hríðarbyl enda var gefin út snjóflóðaaðvörun um kvöldið.

Innandyra rúllaði heimildamyndaflokkurinn "Little Britain" á tölvunni minni og undir yfirbreiðslunni lúrði saumavélin mín merkt kyrfilega "Weapon of Icelandic terrorist" með ljósbláu blikkljósi fyrir framan. Hinir huguðustu hikuðu við að gægjast undir handklæðið.

Til að hafa þjóðlegar hefðir í hávegum undir erlendri áþján bauð ég upp á örsmáar rúgbrauðssamlokur með íslensku smjöri og íslenskum osti, Stóra-Dímon. Sjálfur Síríus sá svo um eftirréttinn, suðusúkkulaðið eina og sanna. Veitingarnar hittu beint í mark og skopið sömuleiðis.Vopnavaldið


Ég berst á fáki fráum

RodeoÞessi bjalla sýndi reiðkúnstir sínar á sebrahestinum í gluggakistunni. Hún var snarlega snöruð af húsráðanda og komið fyrir kattarnef.

Kristshús

Fataflokkun í Christ HouseHeimilislausir í Bandaríkjunum eru flestir í Washington borg, höfuðborg landsins og stjórnarsetri. Annað hvert barn í borginni á á hættu að líða hungur og þriðjungur eldri borgara. Fimmtungur borgarbúa lifa við fátæktarmörk eða neðan þeirra sem er nærri tvöfalt landsmeðaltal og þriðja hæsta fátæktartíðni í landinu. Hér er hæsta tíðni fátæktar meðal barna í Bandaríkjunum. Í hverfum hinna tekjulægri er minni aðgangur að matvöru því matvörubúðir eru mun færri. Ríflega 20% lágtekjufólks teljast haldin offitu. Hornsjoppur sem selja takmarkað eða ekkert kjöt og landbúnaðarvörur eru aðal matarbúðirnar.

Útlendingadeildin mín fór í vettvangsferð í dag. Við heimsóttum Christ House sem veitir heimilislausum grunnheilsugæslu og rekur hjúkrunardeild fyrir allt að 35 karla. Starfsemin býður líka upp á áfangaheimili og varanlega búsetu með atvinnu fyrir einhleypa karla. Einnig geta heimilislausir komist  reglulega í sturtu. Margir þeirra sem starfa þarna hafa áður verið skjólstæðingar Christ House. Eftir kynningu á stofnuninni fengum við það verkefni að flokka yfirhafnir sem borist höfðu og þurfa að fara í dreifingu vegna vaxandi kulda. Við vorum fljót að því enda ekki mikið magn. Ekki voru þetta nú veglegar vetrarflíkur. Ég hugsaði með þakklætis til íslensku lopapeysunnar sem ég var í.Wesley nemar við Christ House

Mín lúxusvandamál þessa dagana er að ofninn minn hitnar lítið. Kerfið var sett í gang í gær og þá var tappað lofti af öllum ofnum. Núna rétt áðan var um það bil hlandvolgur ylur á ofninum. Skrifstofubyggingin hitnar á tveimur hæðum af þremur. Starfsmaður á einni skrifstofunni mætti með svefnpoka í morgun og sat í honum við vinnuna í dag.


Menningaráfall

OfnristÉg er að skrifa stutta ritgerð um menningaráfall mitt með hliðsjón af skema sem lagt var fyrir. Myndin er af ristinni á miðstöðvarofninum sem ég þreif í áföngum inn á milli þess sem ég glímdi við ritgerðarefnið. Þarna er ég búin að hreinsa nokkrar raufar. Alls eru raufarnar á ristinni 544 talsins. Þarf ég nokkuð að segja meira um ritgerðina?

Silkibrók og lopasokkar

KuldaskræfurÞað er farið að kólna verulega frá því sem var og ég er farin að finna fyrir kulinu hér innanhúss. Fyrir vikið er svefninn góður og samfelldur en það er ekki notalegt að fara á fætur. Það er ekki búið að kveikja á kyndingunni. Herbergið mitt er norðanmegin og því hlýnar ekki inni hjá mér með morgunsólinni. Ég sit því hér í íslenskri lopapeysu, ullarsokkum og komin í silkibrókina undir síðbuxurnar - innanhúss. Þó lofthitinn úti sé skráður sem á íslenskum meðalsumardegi væri þá er komið svolítið kul í loftið sem maður finnur berlega í skugga. Hér eru veðurlýsing og -horfur í Washington DC.

Silkibrókin er fyrirbæri sem ég vissi ekki af. Það er allt til í Ameríku. Heima á Íslandi tróð ég mér í síða ullarbrók þegar ég þurfti að fara út þegar kólnaði og fann fyrir þykktinni þegar ég var fullklædd. Hér fara konur í síðar silkigammósíur og langerma, þunna silkiboli. Lagskipting er lykilorðið. Klæða sig í lögum. Ég fékk mér ekki það fínasta fína en splæsti í bónusútgáfu af fyrirbærinu á fimmtán dollara. Það þýðir lítið að umreikna það í krónur þessa dagana.

Ég er að ganga frá miðannarsjálfsmati fyrir sálgæslunámskeið. Það telst góður texti á ameríska vísu að skrifa allt þrisvar. Fyrst skrifarðu hvað þú ætlar að segja. Svo skrifarðu það sem þú segir um málið. Síðan skrifarðu hvað þú varst að segja. Á íslensku heitir þetta stagl.

Svo á ég að skila ritgerð fyrir annan kúrs um menningarsjokkið sem ég hef orðið fyrir. Ég er nú bara krumpuð í framan við tilhugsunina um að gera það.


Súpueldhús og gistiskýli

SúpueldhúsÍ kjölfar efnahagsófaranna hefur verið tekin upp ný stefna í utanríkismálum. Ríkisstjórn Íslands ákvað á fundi nú síðdegis að breyta sendiráðum sínum í þjónustuver þar sem Íslendingar í nauðum staddir á erlendri grundu geta fengið upplýsingar um næsta súpueldhús eða gistiskýli. Því miður hefur ríkisstjórnin ekki tök á að greiða útlagðan kostnað Íslendinganna við að komast á þessa staði því risnukostnaður er allur uppurinn vegna fjárútláta við kosningabaráttu um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Utanríkisráðuneytið treystir sér ekki til að upplýsa um nánari tilhögun á starfssemi þjónustuveranna þar sem ekki hefur enn náðst samband við alla sendifulltrúa til að tilkynna þeim um breytta starfshætti.


mbl.is Brugðist við vanda Íslendinga erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Námsmenn á flæðiskeri

Það hafa allir nóg með sig um þessar mundir. Ég hef áhyggjur af stráknum mínum  og  tengdadóttur sem eru í námi erlendis. Ég hef áhyggjur af því að þau geta ekki millifært peninga til að borga húsaleigu og mat og því verði sjálfhætt í náminu. Mér finnst lika sárt sem mömmu hans að geta ekki sent þeim gjaldeyri til að tryggja afkomu þeirra. Það skiptir svo miklu máli að þau geti haldið áfram að læra. Þau eru svo dugleg og ég er hreykin af þeim.

Í ofanálag hefur hann legið á sjúkrahúsi í útlandinu alla þessa viku, hundveikur. Mamma getur ekki heimsótt hann og af einhverri einfeldni held ég að honum liði miklu betur ef ég væri hjá honum. Þó sjúkrahúsið í sé tæknilega vel statt er aðbúnaður sjúklinga bágborinn. Hann verður sjálfur að skaffa borðbúnað, meira að segja glas til að drekka úr. Hann getur beðið um að fá að borða en ég veit ekki hvort hann þarf að borga fyrir það sérstaklega. Hann getur ekki talað við starfsfólkið nema læknana sem skilja hann varla nema hann skrifi á ensku því þeir hafa litla þjálfun í ensku talmáli og geta því illa tjáð sig sjálfir við hann.

islandtv-1Sjálf bjargaðist ég fyrir horn. Skólagjöld annarinnar voru að fullu greidd, húsnæðið á heimavistinni fram að áramótum líka og skylduáskriftin í mötuneytinum fyrir hrunið mikla. En ég þarf samt að eiga fyrir mat því mötuneytið afgreiðir bara hádegis- og kvöldmat fjóra daga vikunnar og það má ekki taka mat með sér þaðan út. Peningarnir mínir eru á Íslandi og ég var ekki með skotsilfur hér sem dugar fram að jólum. Ég átti farmiðann heim í síðustu viku og var svo fegin að vera heima þegar ósköpin dundu yfir í stað þess að skjálfa hér á beinunum við mbl.is. Tveimur dögum áður en ég flaug aftur vestur hringdi í mig kær vinkona og bauð mér smá gjaldeyri sem hún átti. Mér þótti svo vænt um að hún skyldi muna eftir mér. Þetta breytti öllu því þarna var ég komin með samanlagt það sem ég þarf til að geta klárað önnina. En ég er samt á tauginni því ég veit ekki hvort ég á að geyma peningana mína undir koddanum eða inni á bankareikningnum mínum hér úti í Ameríku. Hvað ef sá banki fellur?

Ég er búin að lifa svo spart að hið hálfa væri nóg. Ég get ekki sparað meira. Ég baka brauðið mitt, nískast til að kaupa ekki annað álegg en ost og skinku. Ég hef notað tepokana tvisvar og þegar kirkjur hafa komið hingað með kvöldmat handa okkur á laugardegi hef ég tekið með mér mat fyrir sunnudaginn. Þegar ég hef þurft að fara einhverra erinda eyði ég ekki í neitt, fer ekki einu sinni á kaffihús og fæ mér tebolla. Ég sé eftir peningunum sem fara í fargjöldin. Til að njóta þeirrar menningarauðlegðar sem borgin býr yfir verð ég að eyða í fargjöld. Ef ég sit bara á vistinni til að spara peninga fer ég á mis við þá menningu sem gefur námi mínu einhverja burði. Sem betur fer var ég búin að borga leikhúsmiða sem er skylduverkefni vegna námsins og fer ég á sýninguna á sunnudaginn með skólasystur minni. Það verður mikil tilbreyting. Verst er að við vorum búnar að ákveða að fá okkur bita eftir það. Nú hefði ég frekar viljað taka með mér nesti!

Annað og öllu verra er að ég þarf að fara að taka ákvörðum um vormisserið. Skráning hefst eftir viku og í framhaldi af því þarf að huga að greiðslu skólagjalda. Ég get ómögulega tekið ákvörðun um áframhaldandi nám á meðan efnahagsmálin eru svona óljós og þung í vöfum.


Aftur í villtra vestrið

Þá er ég komin aftur vestur, búin að sofa, vakna, borða og farin að velta því fyrir mér hvenær ég ætti að leggja mig aftur. Farangurinn minn var tekinn fyrir í tollinum og ég spurð í þaula hvort ég væri með evrur. Einnig var flett ítarlega í gegnum geisladiskaveskið mitt með "Little Britain" og ég spurð hvað þetta væri. Ætli ameríska útgáfan hefði verið gerð upptæk ef hún hefði verið í farteski mínu? Meðan ég man, ég þarf að fara og kaupa einhvern mat. Kannski gott að minna sig á aðhaldið. Eða er þetta brot minnst um mat?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband