Færsluflokkur: Bloggar

Ekki orð um það meir

Frá móttöku skólaforsetaSvona til þess að blogga ekki um þið-vitið-hvað því það er á allra vörum og erlendir blaðamenn á landinu af þeim sökum ætla ég að bæta fyrir gamla vanrækslusynd. Það er nokkuð síðan ég var á mynd á forsíðu skólablaðsins, 1. tölublaði frá 25. ágúst, þar sem sagt var frá upphafi haustmisseris. Svo skrifaði ég greinarstúf sem er á forsíðu 6. tölublaðs frá 29. september en það er ekki enn komið inn á vefinn. Fyrir þá sem vilja fylgjast með skólastarfinu er hér slóðin á skólablaðið, Wesley Journal.

Greininni fylgdi ljósmynd sem ég tók við það tilefni sem greinin fjallaði um. Á daginn kom að samþykki allra sem voru á myndinni þurfti til að hægt væri að birta hana samkvæmt einhverjum lagabálki og þar sem það lá ekki enn fyrir við prentun blaðsins stóð til að afmá andlitin af myndinni. Það bjargaðist þó á síðustu stundu með ætluðu samþykki þeirra þar sem þau höfðu frétt af greininni og þá tjáð tilhlökkun sína yfir að mynd af þeim birtist á prenti. Það var víst ákveðið að láta það duga. Hér eftir geng ég með skrifblokk og penna að öllum þeim sem lenda inni á myndum sem ég tek þar sem fólk afsalar sér með öllu tilkalli til fjár og frama í kjölfar myndbirtingarinnar þó síðar yrði og heimilar mér og þeim sem ég kann að framselja heimildina til að breyta myndinni að vild, svo sem að móða skorur, afmá vörtur og gera hverjar þær breytingar sem ég tel nauðsynlegar til að gera myndirnar frambærilegri.

Kærir einhver sig um að sitja fyrir hjá mér?

 


Heima er best

Gervitunglamynd af ÍslandiNú sit ég í náttfötunum í stofunni heima, búin að fara í heitt bað og bíð þess að nógu framorðið verði til að skríða í bólið. Það var yndislegt að ganga út úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar og finna skarpa, ferska loftið þrengja sér ofan í lungun. Það gerðist reyndar ekki alveg strax því fyrst fylltust öll vit af díselútblæstri rútu í lausagangi. Svo ég hélt snögglega niðri í mér andanum (og náði um leið öllu kolmónoxiðinu inn í kerfið hjá mér) þangað til ég kom fram fyrir rútuna og þá dró ég djúpt að mér andann.

Ég var verri en nokkur sveitalúði (dreifbýlisfólk, fyrirgefið samlíkinguna) þegar ég lenti suður frá og hef aldrei verið svona utan við mig á ferðalagi. Ég var orðin framlág eftir langt ferðalag og hafði ekki komið blundur á brá alla leiðina. Það var sama hvað ég reyndi, ég gat ómögulega látið fara þokkalega um mig í Flugleiðasætinu. Ég byrjaði á því að skilja veskið mitt eftir í flugvélinni og þurfti að sækja það með aðstoð tollvarða sem ómögulega vildu hleypa mér til baka inn landganginn og gengu sjálfir í verkið og sóttu veskið fyrir mig. Verandi orðin vel sjóuð í öryggisleit á bandarískri grundu setti ég á sjálfsstýringuna við öryggishliðið. Ég reif fartölvuna upp úr fartölvutöskunni og setti í sér bakka ásamt skónum mínum. Síðan setti ég allt annað lauslegt í annan bakka og skellti loks litlu ferðatöskunni upp á röntgenlínuna. Tollvörðurinn við bandið þreif tölvuna upp í bakkanum og ýtti henni inn í gegnumlýsingartækið. Ég æpti næstum upp yfir mig: "Já, takk fyrir, bara þeyta henni alla leið út á gólf, takk fyrir" en ákvað að vera ekki með uppsteyt. Alla lausamunina mína reif hann líka upp úr bakkanum og sendi allt í lausu inn í maskínuna. Ég spurði hvort það væri ekki óhentugt að hafa allt svona í lausu og skóna í sitt hvoru lagi. Hann sagði að það þyrfti ekki af fara úr svona skóm. Svo ég sagði þurrlega að ég væri að koma frá Bandaríkjunum og þar væri maður næstum rifinn úr öllu. Augnabliki seinna heyrði ég hann segja við vinnufélaga sinn að þessi Bandaríkjamenn kunni ekki að framkvæma öryggisleitina. Eiginlega jók það ekki öryggiskennd mína gagnvart flugferðalögum í Bandaríkjunum.

Jæja, ég í gegnum hliðið og arka sem leið liggur inn að flugstöð í fótspor næstu manneskju á undan. Þó ég hafi nokkuð oft farið þessa leið allra síðustu árin hefur ekki haft neitt upp á sig að leggja leiðina á minnið því hún hefur aldrei verið hin sama vegna innanhússbreytinga. Og fyrr en varir er ég komin inn í brottfararsalinn og sé engan útgang. Konan á undan mér stóð jafn sauðsleg og ég og skimaði í kringum sig. Ég vona að hún hafi getað afsakað sig með því að hún væri útlendingur. Ég sá engin skilti og gekk heilan hring um brottfarasalinn, þrælviss um að ég væri ekki á réttum stað. Að endingu bar ég mig upp við tollvörð og baðst afsökunar á því að spyrja svona: "Ég var að lenda og get ómögulega fundið útganginn. Hvar kemst ég út?" Sá glotti gleitt. Hann hefur öruggleg skemmt vinnufélögunum konunglega í næstu kaffipásu. Hann sagði mér að fara aftur inn í ganginn. Þar væru fullt af skiltum sem vísuðu mér leiðina. Ég inn ganginn, sný við og sé þá lítið auglýsingaskilti á gólfinu til annarrar hliðar, "Arrivals", og við hliðina á því annað lítið sem náði mér í mitti og á því stóð, hvað haldið þið? Arrivals! Afsakið, en ég er Íslendingu að koma inn í íslenska flugstöð og ég leita ekki að neinu "Arrivals". Þá sé ég glerrennuna sem komufarþegar ganga inn í og beint ofan við hana upp undir rjáfri út við vegg ,"Komur", með hálf væskilslegum fonti. Ég reyndi að hressa upp á Stella í framboðisjálfstraustið með því að telja sjálfir mér trú um að engin þessara skilta væri í eðlilegri sjónlínu og því viðbúið að fólk arki framhjá. Ég hugga mig við það að tollvörðurinn var örugglega ekki spurður að þessu í fyrsta skipti.

Fyrst ég bar búin að tefjast svona þvert ofan í þá fyrirætlun mína að vera snögg í gegn og þess vegna aðeins með handfarangur ákvað ég í skyndi að bæta gráu ofan á svart og kaupa súkkulaði í fríhöfninni. Þar varð ég fyrir því áfalli að sjá hvern verðmiðann á fætur öðrum sem benda til þess að danska einokunarverslunin sé búin að taka yfir reksturinn. Eftir að hafa svo borgað fyrir nammið dreif ég mig að tollskoðuninni en skildi vörurnar eftir við kassann. Ég sneri svo við á síðustu stundu (ekkert grunsamlegt) og sótti vörurnar, alveg búin á því.

Gamla, góða ríkissjónvarpið tekur vel á móti mér með Stellu hinni síkviku á vettvangi stjórnmálanna. Það væri kannski heillaráð á þessum þrengingatímum að setja Stellu í stjórnina. 


Heim á leið

Ég fer heim í frí á morgun og verð í viku. Þó bloggfærslan sé opinber þá verð ég ekki í opinberum erindagjörðum heldur einkaerindum. Það verður boðið upp á kaffi og matarkex eftir hendinni nema vöruskortur og okur hamli eðlilegum innkaupum.

Námsskráin III

Sizygy eftir Tim HolmesÞá er komið að þriðja námskeiðinu sem ég segi frá hér á blogginu. Þetta er vinnustofa með staðarlistamanni, kallað "Arts practicum". Þessi tiltekna vinnustofa heitir "Body Psalms" og er undir handleiðslu Tim Holmes, höggmyndasmiðs og kvikmyndagerðarmanns. Hann er annar tveggja staðarlistamanna skólans þetta misserið.

Viðfangsefni þessa námskeiðs tengist nýjustu verkum hans, stuttmyndum í syrpunni "Body Psalms" sem snýst um endurhelgun mannslíkamans sem tærustu tjáningu guðs á veru sinni andspænis þeirri kynferðislegum markaðsvæðingu líkamans sem neysluvöru. Holmes skrautritar ritningavers á líkama dansarar og myndar svo hreyfingar þeirra. Það er ekki hægt að lýsa þessu nánar heldur er best að lesandinn líti á sýnishorn. Það kemur hér neðst í færslunni svo myndin hér til vinstri af einu verka hans lendi ekki í klessu við myndbandið.

Við erum tíu sem sitjum þetta námskeið og í tímum höfum við rætt reynsluna af því að lifa í líkama og unnið úr því bæði hvert um sig og í sameiningu að gefa þessum hugsunum okkar einhvers konar skapandi form. Í gærkvöldi fluttum við svo afraksturinn inni í kór kapellunar sem við breyttum í japanskan garð og gáfum verkum okkar umgjörð í hefðbundinni, japanskri tedrykkju athöfn. Mitt framlag er textílskúlptúr sem ég mun vinna að áfram og kynnti í gær með vinnuteikningu og frásögn af innihaldi verksins. Ég verð áfram í bréfasambandi við leiðbeinandann á meðan ég lýk verkinu.

Hér eru nokkrar myndir frá umbreytingargjörningi okkar í gærkvöldi, japönsku tedrykkjunni í kirkjunni:
wts 259comprFrá kynningu nemendaTeáhöld skoðuðSkrolla í garðinum
 

 

 

 

 

 

Í kvöld sótti ég svo móttöku til heiðurs listamanninum á heimili velunnara hans inni í borginni. Þar voru margir af skúlptúrum hans til sýnis og það var alveg einstakt að fá að sjá þá framyfir það að skoða þá á vefsíðu. Mörg verkanna tengjast friðarboðskap og hefur Holmes m.a. gert verðlaunagrip fyrir Friðarverðlaun kvenna frá Sameinuðu þjóðunum.

Hér koma tvö myndskeið úr verkum Holmes og hið þriðja er nokkuð eldra viðtal við hann í vinnustofu sinni um höggmyndir hans:


Sitt af hvoru tagi.

Þessi færsla verður bland í poka.

Sunnudaginn síðasta ákvað ég að lesa svolítið utandyra en hefndist rækilega fyrir það. Næsta morgun vaknaði ég útsteypt í rauðum flekkjum sem mig klæjaði mikið í og sveið undan. Ganga þurfti úr skugga um að ég hefði ekki lent í ásókn rekkjumaura og því herbergið mitt skoðað í tvígang, í seinna skiptið af meindýraeyði sem ákvað að eitra í glugganum mínum til að fyrirbyggja ásókn moskíflugna. Í næstu viku verður svo þrifið upp úr gluggafalsinu (og er ég hæstánægð með það). Í kjölfarið ætla ég að biðja um að það verði yfirfarið svo ég hætti að fá fýlupöddurnar inn.

En það þurfti meira til með útbrotin á mér. Ég lagðist í sukk með hydrókortisón sprey en það hafði lítil áhrif. Næsta nótt varð svefnlítil vegna óþæginda. Í gærmorgun stökk ég út í apótek eftir meira spreyji og ofnæmistöflum. Það breytti litlu en ég hef þó trú á að ofnæmistöflurnar hafi farið að segja til sín í nótt. Einnig benti skólafólk mér á annars konar lyf í smyrslformi og tókst mér að fá annað þeirra lánað í gærkvöldi. Það var eins og við manninn mælt, kláðinn dvínaði. Ég fór því aftur í apótekið í morgun og þurfti að hemja mig til að kaupa ekki sterkari sortina, slíka ofurtrú hafði ég á blöndunni. Þess í staði keypti ég að auki enn annað smyrsl sem notað er í verstu tilfellum ofan á hitt. Afleiðingin er sú að ég hef verið nánast ónæm fyrir snertingu í allan dag, svo vel hafa smyrslin minnkað. Roðinn hefur hjaðnað verulega en eftir stendur bólgan undir bitunum. En ég á von á að sofa betur í nótt.

Erna og Ólöf í skólagarðinumInn í þennan sorta kom ljósgeisli frá fögru landi ísa eftir krókaleiðum. Erna, bloggvinkona mín, sem býr í Virginia fylki kom við hjá mér nýbitinni í hádeginu á mánudeginum. Við þekktumst ekki fyrir tíð moggabloggsins og hittumst nú í fyrsta skipti. Það var yndislegt að hitta hana. Ekki einasta er hún ákaflega viðkunnaleg, heldur talar hún líka svo góða íslensku (eins og Stella sagði í orlofinu). Ég á nú bara við að það var svo eindæma stórkostlegt að heyra einhvern tala íslensku hér á milli húsa - eins og ég sé búin að vera hér í hundrað ár. Hún er búin að bjóða mér heim við hentugleika og þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um og taka því. Nú vil ég fara að fá smá svigrúm í skólanum til að komast eitthvað frá.

Það var húllumhæ í skólamessunni í gær. 50 ár eru liðin síðan skólinn flutti allt sitt starf inn í borgina í nýtt húsnæði sem hann lét reisa. Húsin eru öll komin til ára sinna og fyrir tveimur árum hófst tuttugu ára áætlun um endurnýjun. Ég er í skólakórnum og fluttum við sálminn "O for a thousand tongues to sing" eftir Charles Wesley og við trommuslátt og slógum algjörlega í gegn. Charles Wesley mælti með að fólki syngi sálminn árlega á degi afturhvarfs síns. Svo var myndarleg afmælisterta eftir hádegismatinn. Skólinn er duglegur að halda upp á tímamót og minnast þeirra í guðsþjónustum. Það er fínt, þá fáum við kannski oftar tertu. Þetta eru náttúrulega engar hnallþórur. Ætli ég skelli ekki í eina í tilefni af 1. des sem forsetinn okkar vill nú fara að endurglæða. Það er rétt að benda á að stúdentar Háskóla Íslands hafa alltaf haldið upp á daginn og er guðsþjónusta þar fastur dagskrárliður og henni útvarpað.

Hér er svo poppaðri útsetning á sálminum: 


Í startholunum

EfnisvalHér eru myndir af efnunum sem ég ætla að nota í myndina fyrir sálgæslunámskeiðið sem ég hef áður sagt frá. Þetta er tilraun til sjónrænnar framsetningar guðfræði. Það er ekkert nýtt af nálinni heldur hefur fylgt kristni frá örófi alda. Það sem er heldur sjaldgæfara er vísvitandi viðleitni til þess á guðfræðinámskeiði. Skólinn gefur þennan möguleika þar sem það á við í samráði við prófessorana. Myndin varð þannig til að ég velti því fyrir mér hvernig umfjöllunarefni námskeiðsins myndi líta út ef það væri mynd. Biblían öll er mjög myndræn í framsetningu og þess vegna liggur beint við að teikna þær myndir upp. Hér er ég að búa til nýja táknmynd, nokkuð sem fullt vit er í fyrir mér og þegar ég lagði tillöguna fyrir prófessorinn var hann fljótur að tengja. Svo þarna er minn nagli sem ég hitti á höfuðið. Lokaritgerðin felst þá í að gera hugmyndafræðilega grein fyrir myndmálinu og styðja það guðfræðilegum rökum.

Seinni myndin er svo af einu þeirra sem ég féll algjörlega fyrir í búðinni þegar ég kom mér upp smá byrjunarbirgðum. Það er skelfilegDraumaefniðt að ætla sér að byrja upp á nýtt að kaupa efni til að sauma úr vegna þess að ég kaupi ekki efni í ákveðin verk heldur meira í líkingu við listmálara sem kaupir sér túpur sem hann svo vinnur með til að fá þá tóna sem hann notar. Frekar snúið en lógískt fyrir mér. Ég kaupi aldrei mikið af hverju efni um sig, svo sem fjórðung úr metra. Ég á því ekki mikið af efnum en fjölbreytt úrval. Þar sem ég tók engin efni með mér var ekki um annað að ræða en kaupa inn. Ég setti niður fyrir mér nokkurs konar palléttu til að vinna með og þessi efni koma úr þeim bunka.

Á morgun, mánudag, á ég von á spennandi heimsókn. Segi ekki meira um það. Það er bara spurningin hver verður fyrstur til að blogga um viðburðinn. 


Námsskráin II

Þá er það næsta færsla um námskeiðin mín þetta misserið.

Þetta er námskeið um grunnfærni í sálgæslu, "Counseling skills for pastoral ministry". Kennarinn minn er Mary Clark Moschella. Hér er á ferðinni nokkuð sem lærist aðeins með æfingu og þess vegna gerum við einmitt það í tímum, æfum okkur hvert á öðru í hlutverkjaleikjum með skálduðum vandamálum af blaði. Einnig eigum við að taka upp á myndband eitt raunverulegt sálgæslusamtal þar sem við erum sálgætirinn, greinum það viðtal og skilum skýrslu, hittum kennarann til handleiðslu á eftir og skrifum svo aðra skýrslu um reynsluna af okkur sjálfum. Við lærum 6 módel kennimannlegrar guðfræði sálgæslunnar og set ég þau hér inn á máli Engilsaxa án þess að roðna:

- Basic correlational model,
- Family systems model
- Social systems / contextual model
- Narrative model
- Relational model
- Contemplative model

Þetta á svo allt saman að setja í alls kyns fræðilegt samhengi ýmissa orða sem ég varð að fletta upp í orðabók. Einnig ígrundum við persónu sálgætisins, s.s. sjálfsskilning, guðfræðilega skoðun og fagleg mörk auk þess að skoða hin ýmsu starfssvið hirðisþjónustunnar. Og meira til.

Kennslubækurnar eru þessar:
Sarah A. Butler. Caring ministry: A contemplative approach
Paul Schaffee. Accountable leadership
Pamela Cooper-White. Shared wisdom
Carrie Doehring. The practice of pastoral care: A postmodern approach
John Savage. Listening and caring skills: A guide for groups and leaders
Peter Steinke. Healthy congregations: A systems approach
Charles Taylor. The skilled pastor: Counseling as the practice of theology
Edward Wimberly. Recalling our own stories

Festival of Light IIÞað er ekkert smá átak að komast yfir að lesa þetta allt saman. Ég var að ljúka við þriðju bókina, þessa eftir Doehring. Það er bara ekki hægt að hraðlesa hana, það er svo margt áhugavert í henni. Áður var ég búin með Savage og Taylor. Þetta er heldur mikil keyrsla á aðeins þriggja eininga námskeiði. Til viðbótar fyrri upptalningu á verkefnum er önnur stutt ritgerð til viðmótar um sjálfsmat, framsaga um sálgæsluviðtalið sem við tökum upp, önnur framsaga í hópvinnu um eina bók og loks lokapróf. Mér finnst prófinu vera ofaukið í þessu öllu saman. Þetta verður reyndar eina lokaprófið sem ég tek þess önnina. Og þó, það er einhver próftutla í lokin á menningaraðlögunarnámskeiði erlendra nema fyrir utan prófin sem tekin eru þar í upphafi hverrar einustu kennslustundar til að ganga úr skugga um að við höfum lesið heima. Hmmm.... meira um það seinna.

Myndin er af listaverki eftir Zachary J. Oxman og heitir "Festival of Ligth II" og tók ég mynd af því í stærstu samkunduhúsi Gyðinga hér í Washington. Þar var mikið af listaverkum í fáguðum og látlausum helgidómi.


Róðarkappar í kappræðu

AmeríkuörnNú rétt áðan lauk fyrstu kappræðu forsetaframbjóðenda hinna sameinuðu fylkja. Nemendur komu saman niðri í setustofu og fylgdust spenntir með sínum manni. Mér fannst nú nokkuð ljóst hvor fengi meiri hluta atkvæða ef setustofan væri kjördæmi út af fyrir sig. Ég var ákaflega hreykin af sjálfri mér sem erlendum nemanda að láta sjá mig við þetta tækifæri og þess þá heldur að horfa á frá upphafi til enda. En svo segi ég ekki meira um það nema það að ég ætla mér að slá um mig í næstu kennslustund okkar útlendinganna enda eigum við að skrifa um fréttaflutning á sjálfan kosningadaginn. Sem betur fer verður kosningavaka í setustofunni svo ég fæ þetta allt beint í æð ásamt skýringum.

Ef persónuhögum mínum er það helst að frétta að ég get farið að varpa öndinni léttar vegna skordýraplágunnar sem flýr inn um gluggann iog nn í herbergið mitt skógarmegin við húsið. Það er svo sem enginn skógur við skólann. Trén eruFélagi í bjöllukórnum of fá til þess að sú skilgreining eigi við. En þau eru svo há og mikil um sig að ég verð bara pínulítil í brekkunni og það kalla ég nú bara skóg. Einhverjar hlussubjöllur hafa staðið í þeirri meiningu að hér inni væri ættarmót. Þær eru svo stórar að þega þær fljúga framhjá loftljósinu bregður skugga fyrir birtuna. Svo setjast þær með smelli sem á skordýraskala hlýtur að hljóma sem BÚMM!

En það gæti líka verið erfidrykkja því aragrúi af skordýrahræjum liggur í gluggafalsinu. Hér er engin ryksuga til að ná þessu upp. Það er ekki heiglum hent að standa við gluggann og horfa út. Ég réðst á glufu meðfram endilöngu glugganetinu í fyrradag og lokaði fyrir hana með málningarlímbandi. Það virðist duga í bili því bjöllunum hefur ekki fjölgað og ég hef náð þessum þremur sem reyndust vera hér inni þegar ég lagði límbandið. Við aumingja bjöllunum blasir bara annað af tvennu, tortíming eða dauði. Samkvæmt minni rökfræði er niðurstaðan sú sama.

Nánari lýsingar á skordýraskaðræðinu gef ég aðeins mínum traustustu vinum þegar við komumst á trúnó stigið.


Allt á hvolfi

bats_upside_down_comprÉg hef verið öfugu megin við sjálfa mig í dag. Ég vakti aðeins frameftir í gærkvöldi til klára að lesa einhverjar restar sem stóðu eftir fyrir daginn í dag. Klukkan eitt eftir miðnætti gafst ég upp og slökkti ljósið án þess að hafa lokið lestrinum og vaknaði svo grútmygluð við vekjaraklukkuna á venjulegum tíma klukkan sjö í morgun. Ég hef því þjáðst af landfastri þotuþreytu í allan dag sem var eins og grá sletta ofan á svartan flóka gærdagsins. Mánudagar eru strembnir því ég er í tímum frá tíu að morgni til sex að kvöldi svo mín er orðin framlág þegar kemur að háttatíma um ellefu leitið. Hér er hváð við því að ég segist fara í rúmið upp úr ellefu. Það er þó ekkert nema eðlilegt við það ef maður ætlar að vakna klukkan sjö.

Skólafélagi minn hefur þulið upp vikuprógrammið hjá sér sem útheimtir svefnskerðingu svo um munar. Hann sefur fjóra og hálfan tíma á nóttu. Hann gerir aldrei bara einn hlut í einu heldur leggur sig fram við fjölvinnslu (multi task). Eini svokallaði frítíminn hans er þegar hann hleypur því honum hefur ekki dottið neitt í hug sem hann getur afgreitt á meðan og sagðist hann hafa mikið velt því fyrir sér hvernig hann gæti nýtt hlaupatímann betur. Mér finnst það gæðanýting á tíma að hlaupa eingöngu. Ég kunni ekki við að benda honum á að hætta að hlaupa úti heldur nota innibretti og þá geti hann aldeilis hamast í öðru á meðan. Bara binda sig vel við brettið svo hann renni ekki fram af.

Annars var dagurinn góður, eins og flestir reyndar. Ég flutti verkefni í tíma í morgun sem fékk góðar viðtökur með beiðni frá prófessornum um að fá að sýna það öðrum prófessor sem innlegg fyrir námskeið sem þeir verða með saman næsta haust. Ætli það gerist nokkuð betra á amerískan mælikvarða? Ég er hæstánægð. Þrautin þyngri er að komast með tærnar á eigin hæla í næsta verkefni á sama námskeiðið. Og þó, ef ég er öfugu megin þá getur það alveg gengið upp að tærnar séu að aftan og hællinn að framan.

Kirkja á hvolfiÉg átti svo fund með prófessornum í hádeginu vegna lokaverkefnisins. Þó gefin séu upp viðmið fyrir úrvinnslu þá eru þau aðeins hugsuð sem hluti af beinagrind að svo miklu leyti sem þau nýtast til þess. Markmiðið er ekki að taka hvert og eitt atriði fyrir heldur aðeins það sem varðar þann flöt sem nemandinn velur sér. Maður hefur því mjög frjálsar hendur með útfærsluna. Mín verður að grunni til vegglistaverk og stutt guðfræðileg úttekt á því. Það var auðsótt mál að fá að vinna á þennan hátt með lokaverkefnið enda hugmyndin mín vel afmörkuð og hugsunin skýr. Af ábendingum hans að skilja sýnist mér ég þurfa að leggjast yfir "process" guðfræði til að búa til tilvísunarramma yfir túlkun mína. Ég bara kinkaði kolli, skrifaði "process theology" og lagðist svo á gúggl þegar heim kom. Ef einhver getur séð aumur á mér þarna út þá eru ábendingar vel þegnar. Ekki væri verra ef viðfangatengslakenningum væri hnýtt saman við þessa guðfræði. Einnig væri vel þegið að fá íslenskt orð yfir "process" guðfræði þó svo ritgerðin verði á ensku. Mér finnst bara ómögulegt að verða fræðimaður sem getur ekki talað íslensku.


Námsskráin I

Michael Koppel: Open-hearted ministryÞað er löngu orðið tímabært að kynna námskeiðin sem ég sæki þetta misserið. Í dag hef ég verið að lesa fyrir annað sálgæslunámskeiðið af tveimur sem ég er á. Þetta er framhaldsnámskeið og heitir "Creative play in pastoral leadership". Prófessorinn er Michael Koppel. Viðfangsefnið er að þroska guðfræðilega ígrundun á eðli og uppsprettu skapandi leiks og framlagi hans til úrlausnar viðfangsefna safnaðarleiðtoga í umönnun, sálgæslu og uppfræðslu. Hugmyndir um sköpunarkraft og leik eru skoðaðar frá sjónarhóli ýmissa fræða.

Aðalbækurnar okkar eru þessar:
"Open-Hearted Ministry: Play as Key to Pastoral Leadership". Hún eftir Koppel prófessor og er nýkomin út.
"Creativity: Flow and the Psychology of Discovery and Invention" eftir Mihaly Csikszentmihalyi.
"Mighty stories, dangerous rituals" eftir Herbert Anderson og Edward Foley.
"The unshuttered heart: Opening aliveness/deadness in the Self" eftir Ann Belford-Ulanov.

Þessar kennslustundir eru mjög ánægjulegar. Áhugaverðar og vekjandi umræður og svo þrungnar en þægilegar þagnir inn á milli þess sem við hlustum á hvert annað, segjum sjálf frá og hlæjum saman, einkenna tímana. Manni getur ekki annað en liðið vel þegar maður leggur sitt í púkkið því það er alltaf eins og allir hafi dottið niður á Stóra Sannleik með vangaveltum sínum. Reyndar er Ameríka að vissu leiti svona á yfirborðinu, eins konar staðalform samskipta. En í þessum kennslustundum finnst mér ekki vera neina yfirborðsmennska og nánast eins og kennarinn sé að uppgötva eitthvað nýtt í sinni eigin bók á hverjum degi. Þagnirnar finnst mér óviðjafnanlegar. Maður á þeim ekki að venjast í fyrirlestrum. Þetta eru ekki svona þagnir sem koma þegar verið er að fletta einhverju upp eða leita að orðum yfir það sem á að segja næst heldur bara þögn til að hugsa og horfa út um gluggann.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband