Færsluflokkur: Bloggar
18.11.2008 | 21:55
Meiri snjó, meir snjó, meiri snjó
Ég sá fyrstu snjókornin í dag út á milli gluggatjaldanna í síðustu kennslustund útlendingaherdeildarinnar. Bekkjarsystir mín frá Indlandi átti erfitt með að hemja sig og sitja kyrr. Ég held að hún hefði viljað hlaupa út þessar 60 sekúndur sem snjókoman stóð yfir. Snjórinn hvarf líka jafn hratt og hann kom. Þessi sérstæða mynd af snjókorni, séð frá hlið, og fleiri eru af vefsíðunni SnowCrystals.com . Þar er ýmis fróðleikur um snjókorn og einstakar myndir.
Nú er að byrja að rökkva úti og á milli nakinna greina trjánna sé ég litablöndu síðdegishimins vetrarins í fölbláum og fölbleikum, lagskiptum röndum ofan við ljósgrábláan skýjabakka. Ég er fegin að glugginn minn snýr í norðvestur þegar mest er að sjá á þeim hluta himinhvolfsins. Kvöldhúmið og sólarlagið eru oft stórfengtlegt sjónarspil.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2008 | 04:26
Þytur í laufi
Það er von á næturfrosti í nótt og jafnvel örlítilli snjókomu. Þó eru engar líkur á að þann snjó festi. Mér finnst það samt spennandi tilhugsun að hér fari að koma vetur. Fyrir mér er búið að vera langt sumar síðan í ágúst því oft hefur tíðarfarið í haust verið á við meðalsumar og gott betur á Fróni. Ég hef tekið myndir af útsýninu mínu út um herbergisgluggann minn og þannig skráð niður breytingar á flórunni. Fyrsta myndin var tekin í seinni hluta ágúst, sú næsta í fyrstu viku nóvember og sú þriðja í gær. Ég hef satt að segja verið nokkuð spennt fyrir því að sjá hvernig trén líta út undir öllu þessu laufskrúði.
Hér má fylgjast með veðurspánni fyrir mitt póstnúmer
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.11.2008 | 03:22
Bræðrabönd og systrastrengir
Mér rennur í grun að Leifur hinn heppni hafi sannarlega verið heppinn og dreift sæði sínu um lendur Norður Ameríku forðum daga. Þessi viðhorf gætu verið ættarfylgja. Mér sýnast niðurstöður Sumarliða vera hinar sömu og kennslubókarhöfundur nokkur heldur fram um Bandaríkjamenn.
"Americans generally believe that theirs is a superior country, probably the greatest country in the world" (Gary Althens, American Ways. Yarmouth: Intercultural Press Inc., 2003, xxix).
Althens heldur áfram:
"Foreigners [...) tend to be perceived as underdeveloped Americans" (Ibid, xxx).
Skyldi sjálfsmynd bandarísku þjóðarinnar hafa einkennst af sjálfshóli og yfirburðarhyggju um aldamótin 2000 sem stafi af vanmáttarkennd og nagandi efa um eigin getu? Það er kannski kominn tími á þjóðaruppgjör hér vestan hafs líka.
Í einlægum ættjarðaranda fór ég á jólabasar Íslendingafélags Washington DC. Þetta er 40 ára gamalt félag og ræddi ég við nokkrar konur sem hafa búið hér allt frá seinna stríði. Það var ofur krúttlegt að sjá íslenskan varning á boðstólum. Ég var á toppi tilverunnar þegar ég gæddi mér á rjómapönnuköku og smurbrauði með hangikjöti. Heim fór ég með klump af íslensku rúgbrauði og Síríus rjómasúkkulaði. Einum seljendanna hafði tekist að komast yfir fjóra pakka af mjólkurkexi og þeir voru keyptir á einu bretti fyrir opnun. Það er kannski eins gott því annars hefði sennilega verið slegist um þá eins og í réttunum. Eiginlega vantaði réttarstemminguna með söng og brennivínstári. Það hefur kannski brostið á með söng eftir að ég fór. Ég á þorrablótið eftir og þá er aldrei að vita hvernig fer því römm er sú taug...
Nokkrar myndir frá basarnum og af mér og Ernu bloggvinkonu:
![]() |
Sjálfsmyndin lítið breyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.11.2008 | 01:59
Bókaormar
Bókasafnið hér í Wesló er ágætt á mælikvarða lítil guðfræðiskóla en við höfum einnig aðgang að bókasöfnum annarra guðfræðistofnana auk bókasafns American University. Það er eins og að lenda í tímavél að koma inn á bókasafnið. Þetta er hálfrar aldar gömul bygging og sömu húsgögnin eru þar enn og þegar opnað var. Ég þarf endilega að fara með myndavélina þangað út. Þar eru nokkrir afar fallegir stólar. Það læra fáir þar inni því það fer alls staðar jafn illa um mann. Fagurfræði og þægindi virðast ekki alltaf fara saman.
Ég er að viða að mér heimildum til að setja niður í ritgerð um mína eigin guðfræði sköpunargáfunnar (e. creativity) og fann svo áhugaverðar tilvitnanir í námsbók á öðru námskeiði að ég fór á stúfana og fann frumheimildirnar. Það er nú nokkuð annað en heima á Fróni þar sem ég þurfti oft að paufast við að vísa í einhvern annan sem sagði að hinn hefði sagt það. Ein bókin var í álmu nýrri bóka. Þegar ég kom þangað langaði mig ekki aftur heim - eitt augnablik. Mig langaði bara að sópa bókum niður á gólf, setjast í hrúguna og lesa. Ég sá svo spennandi bækur að hið hálfa væri nóg. Er virkilega hægt að missa sig yfir guðfræðibókum?
Núna sit ég með ritsafnið "The Postmodern God" til að lesa ritgerðina "Liturgy and Kenosis" eftir Jean-Yves Lacoste úr bók hans "Expérience et Absolu". Svo ætla ég að glugga í "The Size of God" um guðfræði Bernard Loomer. Síðan ætlaði að taka "Care of Souls and the Classic Tradition" en sit uppi með vitlausa bók, "Contemporary Theology and Psychotherapy", báðar eftir Thomas C. Oden. Sennilega hef ég gripið bókina við hliðina á þeirri sem ég ætlaði að taka. Það er svolítið forvitnilegt að glugga í hálfrar aldar gamalt efni með yfirskriftinni samtíma-eitthvað. Fjórða bókin í fanginu á mér er ritsafnið "Spiritual Direction and Care of Souls".
Ég slæ svo botninn í þetta með ljósmyndinni. Þetta er leirlistaverk sem hangir uppi í anddyri sendiráðs Nýja Sjálands. Burkninn er mikið notaður sem tákn um nývöxt og sést jafnt í nýrri list sem og eldri frá landinu. Við útlendingarnir fórum íí vettvangsferð sendiráðið og var tekið vel á móti okkur þar. Yfirlýst stefna Nýja Sjálands er að fá innflytjendur sem búa yfir ákveðinni þekkingu og kunnáttu sem mig undar ekki að þeir hafi viljað fá fólk í landkynningu til að láta þetta berast. Önnur sendiráð sem skólinn hafði samband við ýmist synjuðu beiðninni eða svöruðu ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.11.2008 | 15:47
Bizzarre Bazaar

Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2008 | 02:47
Helgireitur þjóðar
Heimili George Washington, fyrsta forseta lýðveldisins, að Mount Vernon í Virginiu er helgur staður í huga Bandaríkjamanna. Þar varði ég deginum enda veðrið með eindæmum gott. Hitinn slagaði í 20 stig og ekki bærðist hár á höfði. Þegar ég kom að landareigninni var rúturöðin lengri en svo að ég sæi fyrir endann á henni svo það runnu á mig tvær grímur, hvort betur hefði verið heima setið en af stað farið. En það fór lítið fyrir fólki þegar inn fyrir girðingar var komið svo ég átti létt með að skoða mig um.
Það hefur mikið verið lagt í þennan stað. Hópur kvenna, keypti eignina af Washington fjölskyldunni um miðja 19. öld sem gat ekki lengur staðið undir henni en hafði þráast við að selja hana kaupsýslumönnum og fasteignabröskurum. Skilyrðin voru að setrið yrði sögulegt minnismerki. Þessu gegndu kvennasamtökin "Mount Vernon Ladies' Association", fyrsta kvenfélagið á landsvísu, undir forystu Ann Pamela Cunningham. Kvennahópurinn mátti leggja sig allan fram um að bægja hersveitum beggja fylkinga í borgarastyrjöldinni frá staðnum. Stefnuskrá félagsins heitir á félagskonur að "láta ekki vanvirðandi hendur breyta því, né láta skemmdarvarga vanhelga það með fingrum framþróunar." Um miðja 20. öld tókst kvenfélaginu að kaupa upp landssvæði handan árinnar til að tryggja óbreytt útsýni yfir Potomac ána. Eitthvað finnst mér þessi brýning við hæfi í dag og hefðu kvenfélögin á Íslandi sem best getað blásið nýju lífi í verkefni sín.
Mér varð hugsað til Hrafnseyrar við Arnarfjörð, menningarsögu Íslendinga og varðveislu okkar arfs til framtíðar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.11.2008 | 13:54
Ekki bend' á mig....
... segir varðstjórinn.
Eiginlega hef ég frekar trú á að löggan sé ekki að gera ekki neitt.
Í ljósi atburða sem urðu við mótmælaaðgerðir flutningabílstjóra finnst mér líklegt að alla vega sé eitthvað í farvatninu, þó ekki sé nema vegna þess að Hinir og Þessi boða mótmælastöður hingað og þangað út af efnahagsástandinu. Það er talað um reitt fólk. Varla er löggan bara að panta úðabrúsa af Amazon.
![]() |
Ekki verið að breyta bifreiðum á vegum lögreglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2008 | 02:54
Síðari hálfleikur
Nú fer að síga á seinni hluta þessa misseris. Einhver notaði j-orðið á kóræfingu í dag og var sussað með það sama. Ég er komin viku lengra í íhugunum mínum, komin í áramótastemmingu og farin að velta fyrir mér hvort ég hafi gengið til góðs götuna fram eftir vegi. Ég var líka að átta mig á að ég skrifaði "flugeldar" á hurðina mína í morgun og teiknaði rakettur með.
Í fyrramálið flyt ég seinni hugleiðinguna af tveimur og bað ég prófessorinn áðan um að umbera umstangið því þessi eins og sú fyrri er frumort í stað hugljúfs upplesturs úr hugrenningabókum annarra. Einhvern vegin er ég haldin þeirri þráhyggju að ég þurfi að búa eitthvað til sjálf til að læra almennilega af þessari fyrirhöfn. Hann sagðist fúslega verða við bón minni..
Við fengum gestakennara í einu faginu í dag. Það var mjög áhugavert og gagnlegt að fá aðra nálgun á viðfangsefnið okkar. Eiginlega langar mig að leggja inn pöntun - meira af þessu, takk fyrir. Það er merkilegt hvernig kennarar skapa sér orðstír af allt öðrum toga en þeir höfðu sennilega hugsað sér. Nemendur hér velta því minnst fyrir sér hvort kennarinn viti nógu mikið. Þeim er meira í mun að hann geti kennt, veki skilning nemenda og hjálpi þeim að tengja bitana saman í nothæfu námi. Hér leggja sumir kennarar áherslu á gríðarlega mikinn lestur, svo mikinn að sumir komast vart yfir efnið, hvað þá að vinna úr því svo skilningur og innsæi situr á hakanum.
Einn er sá kennari hér sem nemendur slást um að komast á námskeið hjá og hef ég skráð mig hjá henni á vorönninni á "History of Christian spiritual practices". Viðfangsefnið er fyrst og fremst áhugavert og útundan á námsskrá guðfræðideildar Háskóla Íslands svo það fyllir vel upp í hjá mér. Nái ég ekki inn hjá henni skráði ég mig til öryggis á "Foundations of Christian spirituality". Svo er ég á biðlista fyrir ritskýringanámskeið Jobsbókar og eitt fræðilegt listanámskeið, "Art as worship, worship as art". Kennarinn á listanámskeiðinu er búin að segja að komist ég ekki inn af biðlista taki hún mig samt inn til viðbótar. Önnur sem ég er skráð á eru "The moral imagination" sem er siðfræðikúrs og fái ég ekki Job ætla ég á "Leading formation in congregations".
Biðlistar eru settir upp fyrir námskeið sem eru með takmörkuðum nemendafjölda og þar er fólki raðað inn eftir nánd við útskrift samkvæmt einingafjölda. Þarna getur því komist inn fólk sem ætlar sér ekkert að útskrifast fyrr en á eftir mér, vorið 2010. Ég er búin að átta mig á því að þó skrifræði sé ríkjandi í henni Ameríku þá er Kaninn ekki endilega mjög flinkur við útfærslu hennar. Skólinn minn telst þó vera mun manneskjulegri en tíðkast almennt. Hér er lögð áherslu á jafnræði og þess vegna eru bílastæði ómerkt að og enginn getur eignað sér eitthvert bílastæði, ekki einu sinni forseti skólans. Kennararnir verða bara að mæta snemma í vinnuna ef þeir vilja vera vissir um að fá stæði.
Myndirnar tók ég í leiðöngrum mínum um borgina, þá efri í milligangi National Gallery of Art þar sem vatn fossar beint á glervegg og rósarunnar í blóma fyrir innan. Neðri myndin er innan úr dúkkuhúsi í American Art Museum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.11.2008 | 01:31
Á afrekum mínum er enginn endir
Sameiginlega eldhúsið okkar vistargemlinga er svo óvistlegt að maður missir móðinn og fær heimþrá við að koma þangað inn. Ég tók allt úr út einum neðri skápanna og þreif hann til að setja svo kassann með eldhúsdótinu mínu þar inn. Þar fann ég forláta pott en hinn skringilega - Crock Pot - sem ég þreif og hugði mér gott til glóðarinnar þegar ég hefði undir höndum einhverjar uppskriftir eða leiðbeiningar um notkun hans. Tæknin á bak við þennan pott er moðsuða, aldagömul matreiðsluaðferð sem Íslendingar notuðu langt fram á síðustu öld. Um eldamennsku torbæjararfleifðarinnar má lesa hér Svo fann ég bloggfærslu Guðrúnar Jóhannsdóttur um hægsuðu.
Undir hádegi í dag bretti ég svo upp ermar og skellti í pottinn því lítilræði sem ég keypti inn í gær fyrir alvöru máltíð með nautakjöti og sósu. Sósa er orðið aðalmálið hjá mér. Það er næstum aldrei sósa með neinu og þá sjaldan það gerist er hún allt annað en lystug eða góð. Í pottinn fóru kartöflur, blaðlaukur, laukur, rauð paprika, tómatar, kjöt, rauðvín og krydd. Lokið setti ég yfir, stillti á lágan straum og skilti þetta svo eftir næstu 6 tímana. Þá veitti ég matinn upp úr soðinu, hellti því í pott og þykkti í ljúffenga sósu.
Ég bauð tveim nemum frá Suður Kóreu að borða með mér. Önnur er orðin alveg uppgefin á matnum í mötuneytinu því hann er of bragðlítill og einhæfur fyrir hennar smekk sem alist hefur upp við mikið af fersku grænmeti og hrísgrjónum í alla mata. Hún gat ómögulega komið því fyrir sig hvað sósa væri og beið því spennt eftir því að prófa. Kajenn piparinn í matnum bjargaði mér svo máltíðin stóð undir vonum hennar. Ég steingleymdi að mynda herlegheitin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.10.2008 | 13:56
Ekki-frétt ársins
Mér er í raun alveg sama um hvað málið snýst en efnistök fréttaritara eru einstök. Ég vona að allir kennarar í fjölmiðlafræði taki þessa nálgun fyrir í næsta tíma.
Eðli málsins samkvæmt er lítið meira hægt að segja og því stóra spurningin hvort það átti að skrifa nokkuð yfirhöfuð.
![]() |
Meiðyrðamáli vísað frá dómi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)