Færsluflokkur: Bloggar

Englakór

Það sem ég sit frammi á röngu tímabelti um miðja nótt er upplagt að ylja sér við góðar minningar. Ég hef eignast tvær góðar vinkonur í skólanum, Swapna og Heesung. Önnur er frá Indlandi og hin frá Suður-Kóreu. Þær hafa ekki bara veitt mér frábæran félagsskap heldur líka ómetanlega stuðning. Þær eru báðar nýnemar eins og ég. Swapna kom til Bandaríkjanna í ágúst og á ættingja í grenndinni. Á Indlandi á hún stóra fjölskyldu og ef ég man rétt þá eru þær fimm systurnar. Heesung á eiginmann heima í Suður Kóreu og saknar hún hans mikið enda aðeins verið gift í tvo mánuði þegar hún kom í ágúst. Við gætum ekki haft ólíkari menningarlegan bakgrunn en kannski er það einmitt þess vegna sem okkur kemur svona vel saman. Við gerum ráð fyrir mismun og erum forvitnar og fúsar að skilja. Við höfum líka meiri samúð með þolraunum hver annarrar í framandi landi.

Charlie's AngelsStaðsetning skólans var sameiginleg ástæða okkar fyrir námsvali og höfum við ýmist saman eða í sitthvoru lagi farið í leiðangra. Eiginlega höfum við lært meira af hver annarri um aðstæður en af heimamönnum. Raunar eru fremur fáir af innlendum nemendum skólans áhugasamir um útlendingana sem kemur spánskt fyrir sjónir vegna þess að skólinn gortar töluvert af þessari fjölbreytni og segir hana ákaflega mikilvæga fyrir nemendurna. Við útlendingarnir erum sum hver enn að velta fyrir okkur hvar og hvernig við höfum svona mikil áhrif því við þrjár erum sammála um að lítið sé sóst eftir innleggi úr sérstöðu okkar. Mig grunar að hinn almenni Ameríkani sé ekkert yfir sig spenntur fyrir innflytjendum.

Alla vega er ég að kynnast nýrri menningu í gegnum vinkonur mínar, Swapna og Heesung. Swapna á til dæmis í mestu vandræðum með að drekka úr glasi vegna þess að á Indlandi snertir maður ekki drykkjarílát með vörunum. Drykkjarrör leysir ekki vandann. Við erum búnar að prófa það. En ég dáist að því hvernig hún drekkur úr flösku án þess að snerta stútinn með vörunum eins og hún gerir heima hjá sér. Ég læt mig ekki einu sinni dreyma um að ráða við það. Í samanburði við þær hef ég minnst þurft að glíma við aðlögun í mataræði. Vestrænn matur er þeim framandi. Heesung líður fyrir hvað maturinn er saltur enda kóreskur matur lítið saltaður en þeim mun kryddaðri. Ég hughreysti þær þó með því að sumt sem við fáum í mötuneytinu sé bara einfaldlega vont og þær þurfi ekkert að leggja á sig að reyna að venjast því. Sjálf hef ég ákveðið að borða aldrei aftur niðursoðnar strengjabaunir. Það er saga að segja frá því sem í stuttu máli gengur út að að niðursoðnar strengjabaunir eru einfaldlega móðgun við þroskaðan matarsmekk.

Framundan hjá okkur stöllum er ekkert minna en að bjarga heiminum enda köllum við okkur "Charlie's Angels". Það hefur mjög víðtæka skírskotun, m.a. þá að Charles Wesley var sálmaskáld mikið og við allar í skólakórnum. 


Það er yfir oss vakað

Daginn sem ég lendi á ættjörðinni er hringt í mig frá fyrirtækinu sem á íslenska kreditkortið sem ég borgaði flugfarið með. Er fylgst með ferðum mínum?


Án viðauka

Jólasmákökur húsbóndansÉg er komin heim, búin að leggja mig og fara í freyðibað. Og ef þið haldið að það gerist ekki betra þá get ég toppað þessa unun með því að eiginmaðurinn bauð mér upp úr heimabakaðar smákökur frá eigin hendi og unglingurinn hafði bakað amerískar súkkulaðibitasmákökuhlussur sem eru langtum betri en allar þær súkkulaðismákökur sem ég hef fengið í Ameríku sjálfri í haust. Þeim er ekki fisjað saman feðgunum.

Stund sannleikans rann svo upp eftir að ég fór á fætur eftir lúrinn. Baðvogin beið mín. Ég hef sannast sagna haft nokkrar áhyggjur af þyngdinni. Fötin þrengja nú meira að mér og það réttlætti spurningu sem ég fékk í haust um hvort ég mundi verða "nýnemi 10, 20 eða 30". Ég bað um skýringu. Þetta er þekkt menningarfyrirbæri um þyngdaraukningu nýnema í bandarískum háskólum.Súkkulaðibitasmákökur Elíasar Ég sagði verða "nýnemi 0". Það var flissað að þessari einfeldni minni og kannski hugsaði einhver að þarna væri enn einn útlendingurinn sem vissi ekkert um Ameríku. En á vigtina fór ég og nálin stóð á sama stað og í ágústmánuði. Geri aðrir betur. Skýringin hlýtur þá að liggja á bannsettum þurrkaranum úti. Ég hætti fljótlega að setja peysur og boli í þurrkarann því topparnir urðu allir of stuttir eftir þvottinn. En buxur hafa áfram fengið endurtekna eldskírn enda lítið um þvottasnúrur á stúdentagörðunum, mörgum til mikillar armæðu. Svo nú er bara að endurtaka leikinn frá undanförnum jólum - ekki gramm á lendar mínar - og halda svo áfram í amerísku aðhaldi þegar út verður farið í janúar.


Teikn(un) á lofti

Sjálfsmynd Ólafar þá stundinaYðar einlæg sorterar og pakkar af fullum þunga þessa stundina. Ísskápurinn er í affrystingu og í kjallaranum malla tvær þvottavélar. Þá er bara eftir að skúra svo allt verði hér tandurhreint yfir jólin. Þau held ég þó ekki hátíðleg meðal amerískra heldur flýg heim á morgun og fagna hátíðinni á Fróni í faðmi fjölskyldu og vina. Ég ætla ekki að reyna að segja hvað ég hlakka til að koma heim.

Það sem af er desember hefur enginn tími gefist til að skoða hina vesturheimsku frummynd verslunarjóla en til stendur að bæta úr því í dag. Það verður þó ekki nema til að kaupa kleinuhringi handa unglingnum, kannski peysu á sjálfa mig af því að það er sjokktilboð í dag og svo tvo engla ef ég finn einhverja sem mér líkar. Ég held að búðarrottum þykið lítið til minna umsvifa koma. Í fyrradag fór ég með Swapna, indverskri vinkonu minni og skólasystur á opið hús í tilefni jóla hjá Byltingardætrunum sem ég hef sagt hér frá áður, skoðuðum jólatréð við Hvíta húsið og fengum myndir af okkur með jólasveininum. Það gerist ekki amerískara.

Hér til hliðar er sjálfsmynd sem var síðasta verkefni teiknitímans. Það er svo merkilegt að teikna mynd af sjálfum sér. Þar glímir maður við innprentaða staðalímynd af sjálfum sér, jafnvel óskaímynd, og verður að sætta sig við að það sem fer á blaðið er aðeins það sem maður getur raunverulega séð fordómalaust í speglinum þá stundina. Það var svo gefandi að hlusta á umsagnir skólasystkina. Ein lærdómurinn er sá að tvær teikningar verða aldrei eins. Sjálfsmyndirnar okkar verða aldrei eins heldur breytast eftir skapi okkar og geðhrifum hverju sinni. Það er einhver lítill fugl að hvísla því að mér að þessi vitneskja hafi gríðarlega mikilvæga þýðingu fyrir sjálfsþekkingu og sjálfssætti. Þarna er vettvangur fyrir sálgæsluna. Teiknitíma í guðfræðideild HÍ, takk fyrir.


Jóli og ég

Sankti Kláus og ég hittumst í dag við jólatré Hvíta hússins í dag. Hann sagðist fljúga yfir Ísland á hverju ári og bað kærlega að heilsa öllum frændum sínum, jólasveinunum á Íslandi.

Olof og Santa


Enginn piparúði enn!

Það er orðið fréttnæmt að lögreglan hafi ekki enn beitt piparúða. Ég ætla rétt að vona að ungmennin séu óvopnuð. Það virðist vera nóg að hía á lögguna og þá lemur hún mann.
mbl.is Mikill viðbúnaður við þinghúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handabaksaðferðir

men at workEinkennilegt verklag hér á bæ! Um helgina var komið á 24 stunda kyrrð á stúdentagörðunum þar sem nú er lokavika og stendur kyrrðin fram á hádegi næsta föstudag. Um leið var tilkynnt að á mánudagsmorgni hæfust viðgerðir á einu karlasalernanna í húsinu mínu (með tilheyrandi múrbroti sem nú stendur sem hæst). Einnig á að hefjast utanhússviðgerð undir gangstétt fyrir framan húsin okkar þar sem gufulögn lekur. Þar verða sjálfsagt notaðar vinnuvélar og önnur hávaðatól. Og ekki bætir úr skák að fengið var fólk í að mála eldhúsið hér á  ganginum mínum og hófst sú vinna klukkan sjö í morgun. Hér fékk enginn að lúra og nú er enginn friður til að læra.

Essið mitt

Consumed - sýnishornÁ borðinu liggur heimfærð guðfræði í vinnslu, textílverk sem er mín framsetning á guðfræði sköpunargáfunnar. Með þessu skila ég nokkurra síðna ritgerð. Hún er næstum tilbúin en veggteppið verður að bíða fullnustu sinnar þangað til ég kem heim því saumavélin mín hér úti getur ekki stungið. Í gær tókst mér að kaupa aðra vél, notaða, sem lofar mjög svo góðu en vegna annarloka verður það að bíða fram á nýárið að kanna burði hennar, kosti og galla.

Titill verksins er "Consumed" og byggir á kraftaverkasögunni um smábrauðin og fiskana. Til hliðar er myndbrot af verkinu. Þetta er áhugavert viðfangsefni vegna þess að það er unnið á sálgæslunámskeiði en ekki listanámskeiði. Bak við þetta er langtum meiri vinna en að skrifa ritgerðir og taka próf auk þess sem þetta reynir á fleiri skilvit en rökhugsun og minni. Það skyldi enginn halda að fólk sleppi eitthvað léttar frá slíku vinnuframlagi. Ég skal alveg gangast við því að þarna er ég í essinu mínu.


Fyrsti snjórinn

Fyrsti snjórinnÞað er búi að snjóa og nú eru þrjár saumavélar inni hjá mér. Skyldu vera tengsl þarna á mílli? Það á jafnvel að snjóa meira svo þá get ég kannski opnað verksmiðju 

Teiknun

WendyVestan við Atlantsála hefur guðfræðineminn lokið næstsíðasta verkefni teikninámskeiðsins "Contemplative drawing". Þetta er mynd af Wendy vinkonu. Við teiknuðum hvor aðra og höfðum mjög gaman af því. Það er með ólíkindum hve mikið er hægt að læra á tiltölulega stuttum tíma. En þá er líka gríðarleg vinna á bak við það. Ég var 8 klukkutíma að koma þessu sómasamlega á blaðið. Þó ég sé búin að fá pöntun frá annarri skólasystur minni hyggst ég ekki leggja þetta fyrir mig. Alla vega ekki á meðan það tekur mig heilan vinnudag að klára eina mynd. Ég þyrfti að vera orðin svo svakalega fræg til að geta réttlætt eðlilegt tímakaup. Bútasaumarar hafa verið að sauma andlitsmyndir fríhendis með venjulegum heimilissaumavélum svo það væri spennandi áskorun að halda áfram að teikna og ná þeirri færni að geta teiknað grunndrættina eina svo vel að manneskjan þekkist og sé trúverðug.

Skólinn minn leggur í orði gríðarlega áherslu á mikilvægi listar og listiðkunar fyrir guðfræðina og guðfræðingana sjálfa. Það getur kannski vel verið að stundum vantar svolítið smávegis upp á framkvæmd þeirrar stefnu en þar sem batnandi manni er best að lifa legg ég mitt af mörkum til bóta á því sviði. Ég fékk stundartöflu skólans breytt þar sem búið var að setja öllu þrjú akademísku listanámskeiðin á sama tíma. Ég sagðist sjá það í anda að öll ritskýringarnámskeiðin væru sett á sama tíma. Það hafði víst engum dottið í hug að stemma stundatöfluna af eftir að kennarar voru búnir að setja tímana sína inn.

Ég sé skemmtilega möguleika í að nota teiknun sem nálgun í andlegri iðkun heima á klakanum og horfi með Góðrarvonaraugum til kyrrðardaga Skálholts. Koma tímar, koma ráð. Hér fyrir neðan er svo mynd úr síðasta teiknitíma. Í upphafi tímans hengjum við myndirnar okkar upp, göngum hringinn og rýnum í verkin.
Teiknitíminn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband