Vorverkin

Ruminated - hlutamynd

Þetta hefur verið ágæt vinnuhelgi, þrátt fyrir kvef og góðviðri sem toga í krafta mína hvort í sína áttina. Ég saumaði saman veggteppi fyrir námskeiðið "Art as Worship, Worship as Art" í dag. Eftir er að leggja það saman með vatti, stinga og sauma svo bryddingu. Myndin er af hluta verksins. Það kallast á við annað verk sem ég gerði á síðustu önn, "Consumed". Þriðja verkið verður svo fyrir ritskýringarnámskeiðið í Jobsbók. Það verður síðasta stykkð af þrennu. Öll þrjú verkin mynda eina heild.

Jobsbókarnámskeiðið hefur verið áhugavert og mörgum steinum verið velt við þar. Hitt námskeiðið um list og tilbeiðslu hefur verið svona la,la. Þar skrifum við um heimalesturinn í hverri viku og skilum inn og hef ég leyft mér að láta allt fjúka enda kemur þetta ekki fyrir annarra augu en kennarans. En svo spjöllum við líka um viðbrögð okkar og ég gekk gjörsamlega fram af hópnum einu sinni þegar ég sagði að mér þætti viðkomandi listaverk hreinasta rusl og lágkúra kristninnar. Það fór náttúrulega þvert fyrir brjóstið á bekkjarfélögum mínum sem tilkynntu mér að sumum gæti nú fundist þetta gott og göfugt og það væri fullt af fólki sem finndist þetta frábært. Ég tók alveg undir að það gæti svo sem vel verið en það breytti ekki því að mér finndist þetta áfram klént og stæði við það. Það er stundum erfitt að hafa hugsjónir hér, nema maður geti límt því við að guð hafi sagt manni það. Ég á bara afskaplega bágt með að klína því sem ég segi upp á guð. Einhvern vegin þykir mér ábyrgara að hafa sjálf algjörlega rangt fyrir mér og gangast við því. En það er nú bara einu sinni ég.

Mín undarlegustu endaskipti á tilverunni hafa fengið góðar undirtektir í Jobsbókarnámskeiðinu, þ.e. frá kennaranum, þegar nemendur hafa horft á mig stórum augum - hvað er konan að segja - eins og þegar ég lét út úr mér að kannski hafi sköpunin aldrei verið fullkominn heldur aðeins góð. Guð leit á allt sem hann hafði gert og sá að það var harla gott. Að fullkomleikahugsunin sé okkar uppfinning ásamt skilgreining hennar. Eina leiðin til að fullkomleiki gangi upp er að hugsa hann sem heild, að vera heill. Það er nefnilega hægt að vera heill þó mikið vanti upp á.

Og nú er þessi útúrdúr minn kominn á netið og hverfur þaðan aldrei aftur eftir að ég hef ýtt á "vista og birta". Ég ætla að vista þessa hugsun með mér og vona að hún eigi eftir að birta upp tilveruna hjá mér þegar ég þarfnast þess mest.

Mín eigin hugleiðing um Jobsbók á námskeiðinu er hér, "A good enough god". Hún er á ensku og þykir mér leitt að hafa hana ekki í íslenskri þýðingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband