Færsluflokkur: Bloggar

Reglugerðarrækni

Þetta er yndisleg frétt um sandkassapólitík í hnotskurn. Ég get svo sem skilið að hver skuli hafa sitt klósett því það er gríðarlegur kostnaður samfara útskilnaði geimfara. Þó hefði ég haldið að hann jafnaðist út í birgðahaldinu. En þetta með þrekhjólið gengur fram af mér. Það minnir mig á leik okkar krakkanna sem tókum frá rólu með því að setja í hana stein og segja að heilagur andi væri í rólunni. Við áttum það öll til að setjast í rólu og halda henni bara til að vera leiðinleg svo annar gæti ekki rólað, jafnvel þó við værum löngu búin að missa áhugann á því að róla. Svo þegar við þurftum að taka okkur pásu frá tíkarskapnum þá var settur steinn í róluna.

Hér í landi kanverskra er mikil virðing borin fyrir reglugerðum. Kannski er lögum ekki sýndur alveg jafnmikill sómi. En reglugerðir, þær eru ófrávíkjanlegar. Ég þurfti að undirrita skjal til að komast í vettvangsferð með listasögukúrsinum. Skjalið undanskilur American University allri ábyrgð ef eitthvað skyldi koma fyrir í ferðinni. Samt þarf ég að koma mér sjálf á milli staða. Það er eins gott að mér verði ekki bannað að pissa í klósettin þar í skólanum í frímínútum þar sem ég borga bara fyrir einn kúrs og það á lægra gjaldi en nemar í fullu námi þar sem ég er skráð í gegnum skólann minn.


mbl.is Ósætti í geimnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kanabrauð

KanabrauðRúnnstykki sem ég baka hér út eru engu lík. Ég er búin að týna uppskriftinni einu sinni og til að eyða ekki tíma mínum aftur í slíka dauðaleit þá set ég hana inn á bloggið. Hún er aðlöguð að mínum smekk út frá grunnuppskrif sem ég segi svo meira frá í lokin.

600 gr hveiti
1/2 tsk salt
1/2 tsk sykur
4 tsk þurrger
2 msk olívuolía
5 dl volgt vatn

Í minni útfærslu skipti ég út hluta af hveitinu. Ég byrja á 9 dl (500 gr) af hveiti, 1 dl af haframjöli og 1/2 dl af hveitikími. Deigið þarf að vera heldur rakt því haframjölið tekur í sig nokkuð af vökvanum við lyftingu. Ef þarf þá nota ég hálfan desilítra til viðbótar af hveiti en það kemur ekki í ljós fyrr en búið er að elta allt deigið saman og það loðir vel saman. Fyrsta lyfting er 45 mínútur. Hnoða, skipta upp í 12 bollur og raða á plötu. Síðari lyfting er 20 mínútur á meðan ofninn er að hitna. Bakað við 210°C í 8-10 mínútur.

Mér finnst best að frysta það sem ég ætla ekki að borða sama dag og taka brauðin svo úr frosti eftir hendinni. Ég læt þau yfirleitt þiðna við stofuhita og tek þau þá út áður en ég fer að sofa til að eiga nýtt brauð í morgunmat.


Ekki til setunnar boðið

Þoka að morgniÞað var svartaþoka þegar ég fór á fætur í morgun. Það hefur lítið borist af færslum um sjálfa mig inn á bloggið þessa önnina. Það svo sem eru og eru ekki ástæður fyrir því. Þessi önn hefur verið daufari, meiri innilokun og minni innblástur almennt. Námskeiðin mín hafa flest gengið ágætlega en sum ekki staðið undir væntingum. Í einu þeirra hefur mér tekist að halda mínu striki þó lítil væri inngjöfin. Kennarinn þar kom að máli við mig og sagðist hafa áhyggjur af mér því námskeiðið væri svo langt undir mínum burðum og ég sagði bara eins og er, að mér þætti það ekki ekki gefandi. Um annað námskeið tók ég bara þá ákvörðun að halda það út. Því átti að vera lokið um miðja önn en það sér ekki fyrir endann á því og ekkert sem ég get gert við því. Ég er farin að finna áþreifanlega fyrir menningarmismun í umgengni við samnemendur mína. Sumt af því er yndislega krúttlegt og sumt einfaldlega pirrandi. Ég býst við að það sé gagnkvæmt. Ég er þreytt að nota ensku allan daginn, þreytt að lesa ensku, þreytt að skrifa á ensku, þreytt að reyna að vera gáfuð á ensku.

Seat of Wisdom 1En nóg um það. Hér er bók sem ég bjó til á námskeiði sem lauk í vikunni. Þessi bók fjallar um líf í líkama og í henni eru myndir af stólum og setflötum í skólanum. Ég gat aðeins sett 45 myndir í hana og á miklu fleiri af yndislegum og skelfilegum stólum. Bókin sló algjörlega í gegn og sennilega verður falast eftir henni á uppboð í lok annar. Ég ætla þó ekki að selja hana því mig langar að eiga hana sjálf og ég hef engan áhuga á að gera annað einstak. Ég lít á listaverkin sem ég vinn hér eins og ritgerðirnar mínar. Hvort tveggja er í senn afrakstur minn og framlag í fræðunum. Það er í raun merkilegt að hið ritaða orð fer ekkert lengra en á skrifborð kennarans. Verkefni nemenda eru mörg framúrskarandi í innsæi og hugsun en verða engum aðgengileg og byggja því lítið upp í kringum sig. En listaverkin, þau eiga sjéns á að sjást og fólk vill eignast þau. Þau ná í gegn og segja meira en þúsund orð. Nemendasýningar eru þó fátíðar. Annað hvert ár er sýning á verkum nemenda og kennara. Það er valið inn á hana í galleríi skólans. Ég hef rætt að hér þurfi að vera undirheimagallerý starfrækt allt árið þar sem öll verk sem nemendur sjálfir kæra sig um að sýna séu sett upp um skemmri tíma, mánuð í senn, óháð gæðum og inntaki. Hér eru nokkrar vinnustofur fyrir nemendur með listamönnum á hverri önn og það er súrt í broti að verkin sem þar verða til koma ekki fyrir annarra augu. Það er nefnilega ákveðinn lærdómur í því líka að sýna verkin sín og fá viðbrögðin til baka.
Seat of Wisdom 2Seat of Wisdom 3Seat of Wisdom 4


Terror á Snjáldru

Það þarf ekki að segja meira. Ætli framtíðin verði ekki sú að vegabréfsáritanir verði afgreiddar í gegnum Snjáldru.
mbl.is Stóri bróðir í Facebook?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn mótorhjólagæi

Ég vona að Dalai Lama verði ekki stoppaður af eins og vélhjólamaður í Leifsstöð. Mig langar til að sjá hann og heyra ef hann kemur til Íslands.
mbl.is Friðarráðstefnu aflýst vegna Dalaí Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylduboð

Þetta er eins og íslenskt fjölskyldudrama. Þessi þolir ekki hinn og hinn getur ekki verið í sama herbergi og þessi. Þessi kemur ekki ef hinum er boðið og hinn kemur ekki nema þessum sé boðið. Svo verður að passa að þessir fari ekki að rífast og hinir verða að vera farnir áður en þessir mæta. Svo er haldin aukaveisla daginn eftir með afgöngum fyrir alla þá sem ekki er hægt að láta hina sjá að maður umgengst. Ég held að leikskólasamskipti séu einfaldari en alþjóðastjórnmál.
mbl.is Dalai Lama meinuð innganga í S-Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert smjér handa mér

Þá er bara að kaupa franskt smjör í staðinn í Whole Foods. Eða ætli Whole Foods selji ekki franskar vörur vegna þess að Frakkar voru óviljugir á sínum tíma?


mbl.is Hætta að kynna íslenskar vörur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Morgunleikfimi

Viktoría við sængurverinSvona teygji ég mig á hverjum morgni þegar ég fer fram úr.

Ég stóðst ekki mátið að kippa þessu inn af vefsíðu visir.is um búdrýgindi Viktoríu Beckham.


Sárabót

Nú líður mér ögn skár yfir að sitja uppi með sjúkratryggingu frá þessu gróðabraski.
mbl.is 90% skattur á bónusgreiðslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær drepur maður mann...

... og hvenær drepur maður ekki mann?

Hvernig borðar maður brauð eða hvernig er brauð borðað? Er þetta ekki sama spurningin?

Hvenær vinnur lögmannsstofa að máli og hvenær vinna lögmenn lögmannsstofunnar að máli?

Jón Gerreksson hefði verið snöggur að benda á klemmuna í þessu máli.


mbl.is Störfuðu ekki sem lögmenn fyrir Baug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband