Færsluflokkur: Bloggar
5.4.2016 | 09:57
Vorblær í fataskápnum
Þessi kjóll var að koma undan saumavélinni. Nýlega gekk ég í útlenskan saumaklúbb á Facebook þar sem meðlimir sauma kjóla úr teygjanlegum efnum. Þaðan hef ég fengið mikinn innblástur, sérstaklega vegna þess að efnisval er miklu meira í ætt við minn smekk en svart-og-grátt sem ríkir ár eftir ár yfir íslenski fatatísku, vetur jafnt sem sumar.
Sniðið er Onion 2035. Ég hef saumað annan kjól áður eftir því en hann varð allur eitthvað svo stór og teygður. Svo ég aðlagaði sniðið betur. En nú lenti ég í því að þessi nýjasti kjóll er eiginlega 5 kílóum of lítill. Eftir stutta umhugsun áttaði ég mig á því að teygjueiginleikar efnanna voru mjög ólíkir. Sá fyrri var úr viskósjersey sem er mjög teygjanlegt og þungt. Þess vegna varð hann allur svona laus á mér þó ekki væri hann of stór. Þessi nýi er úr þykkara bómullarjersey sem er áprentað og því stífara fyrir vikið. Hann gefur því minna eftir og heldur betur formi. Mér sýnist ég því þurfa snið í tveimur stærðum eftir því hvernig jersey efni ég nota.
En ég gerði fleira fyrir kjól númer tvö. Mér fannst hálsmálið of sítt og vítt svo ég grynnkaði það. Einnig var axlarsaumurinn of langur út á öxlina. Ég færði því axlirnar til, mjókkaði þær um tvo sentimetra við ermasauminn og bætti þessum tveimur sentimetrum við axlarsauminn í hálsmálinu. Ermasaumurinn situr því hærra á öxlinni og hlýrinn á brjóstahöldunum hættir að gægjast fram fyrir.
Annað gerði ég líka við sniðið. Ég gerði ráð fyrir bakfettunni svo kjólfaldurinn kippist ekki upp að aftan og kjóllinn kiprast ekki heldur í fellingar yfir mittið á bakinu. Þessi breyting fellst í því að stytta baksauminn eftir kúnstarinnar reglum og síkka faldinn að hluta. Það er ekki erfitt, maður þarf bara að kunna það.
Erma- og kjólfaldar eru stungnir með tvíburanál í venjulegri saumavél en að öðru leyti er kjóllinn saumaður saman í overlockvél. Hálsmálið er frágengið með teygjuskábandi.
Þetta er fyrst flíkin sem ég sauma úr digital áprentuðu jersey. Ég hef lært af því. Mér sýnist að mér sé óhætt að sníða slíka flík eftir réttri stærð en viskósjersey hins vegar númeri minni. Nú er bara að vinda sér í að sauma næsta kjól með þennan reynslubanka í farteskinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2016 | 11:31
Innflutningur og tilfæringar
Mér brá þegar ég áttaði mig á að hingað hefur ekki komið færsla síðan síðla árs 2014. Það verður að segjast eins og er að Fésbúkkinn hefur tekið við sem miðlari þó það hafi bæði kosti og galla. Kostirnir eru einfaldleiki þess að setja inn færslu, fleiri lesendur og viðbrögð lesenda. Á blogginu hér fást varla nokkur viðbrögð, ég verð að deila færslunni á FB svo einhver lesi hana og fæ svörin þar inn en ekki hér. Enda er heldur flóknara fyrir fólk að skilja eftir svar hér en á FB En hér get ég skrifað meira í einu án þess að velta mér upp úr því hvort einhver nenni að lesa það og nota bloggið þá frekar sem dagbókarform til eigin ánægju.
Ég flutti í fyrra. Það hefur tekið hálfa eilífð að koma sér fyrir og ég hef ekki enn getað útbúið mér viðunandi aðstöðu fyrir hannyrðir og föndur. Núna stendur yfir tilraun til að gera anddyrið að vinnurými. Arkitektúr samtímans er stundum furðulegur. Gamla íbúðin okkar sem bvggð var 1958 nýtti fermetrana mjög vel. Sú sem við fluttum í var byggð 2004. Anddyrið og gangurinn inn eftir íbúðinni í framhaldi af því eru 13 fermetrar. Anddyrið er 10 fermetrar, í löguninni 2x5 metrar, með dyrnar á annarri skammhliðinni. Slíkur flötur væri stórt og rúmgott svefnherbergi. Það nýtist ekki sem sjónvarpshol en gæti verið heimaskrifstofa. Það mætti fylla annan vegginn af fataskápum og hafa bókahillur eftir hinum endilöngum. Nú stendur yfir tilraun, að gera það að vinnustofu fyrir mig þar sem inngangurinn er stúkaður af með skáp og ef til vill með léttum vegg síðar. Áður en nokkuð varanlegt verður sett þar upp ætla ég að prófa að lifa og hreyfa mig í rýminu og sjá hvort saumavélinni og tölvunni semji á sama borðinu.
Það var ekkert tekið til fyrir þessa myndatöku. Þetta er eins og ljósmynd af ófarðaðri kvikmyndastjörnu.
Þetta eru mikil viðbrigði eftir að hafa átt vinnuherbergið á gamla staðnum þar sem ég hafði tvö vinnuborð og hillur sem auðvelt var að komast að, stóran glugga og hurð sem mátti loka þegar óreiðan fór fyrir brjóstið á mér. En það þýðir ekki að gráta það. Annað rými, annað líf. Líklega á nýji staðurinn eftir að verða einhverjum öfundarefni sem býr við þrengri húsakost en ég.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.12.2014 | 10:47
Í fantaformi
Frúin er komin með kort á tveimur líkamsræktarstöðvum. Það stafar ekki af metnaði eða göfugum markmiðum. Ástæðan er sú að ég fékk snert af myrkfælni á þeim fyrri, Vézer Fitness, og fannst ástæðulaust að leggja það á mig þegar seinni staðurinn, Segner Fitness, var bjartur og rúmgóður, mátulegu hitastigi, fersku lofti, huggulegum búningsklefum og snyrtiaðstöðu, fleiri tækjum, leikfimirimlum og teygjuaðstöðu. Vézer er fyrir konur eingöngu, sem og þriðji staðurinn sem ég skoðaði hjá Judy Gym Nöi Fitness. Hvað ungverskar konur láta bjóða sér,segi ég nú bara. Hjá Judy var myglulykt, dimmt og gömul, lúin tæki með sprungnu áklæði. Hjá Vézer var engin teygjuaðstaða eða svæði fyrir lóðavinnu. Kannski er litið svo á að konur noti ekki lóð, þó þar sér rekki að lóðum til að fullnægja öllu réttlæti. Hjá Segner, þar sem ég byrjað í gær, er kraftlyftingadótarí. Kannski árangur hina smitist yfir á mig.
Þar sá ég græju sem auglýst er víða um bæinn á plakötum, svo kallaða Flabélos maskínu. Þetta er nýmóðins hristari sem þeytir af þér spikinu með aðferð sem ku byggð á þyngdarlögmáli Newtons. Meira að segja Rússar notuð þessa aðferð við þjálfun síns íþróttafólks á áttunda áratugnum, skal ég segja ykkur. Að sjá er að trúa, hér er kynningarmyndband, gjörið þið svo vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2014 | 21:08
Parasetamol á ungversku
Fyrsta vikan í þessari Ungverjalandsferð hefur liðið hratt en verið svo ósköp ljúf með litlu fjölskyldunni. Auðvitað fær amman nýbakaða bara bestu bitana. Hún þarf ekki að vakna á nóttunni og þarf sjaldan að skipta um bleyju. Hún er þó búin að passa einu sinni í tæpa klukkustund, svona rétt til að sanna að henni væri treystandi fyrir verkefninu. Henni tókst til með ágætum.
Farangur minn var í lágmarki svo það kom að því að skreppa þyrfti í búð eftir nauðsynjum, svo sem tannkremi, sjampói, nærfötum og sokkum. Það veit á gott að ég er ekki fatafrík því fatnaður kostar lítið fyrir íslenskt seðlaveski. Það er ekki hlaupið að því að eiga samskipti við verslunarfólk þegar maður talar ekki ungversku. Ég á í mesta basli með að muna hvernig bera á fram tölustafinn "einn". Ég kann að þakka fyrir mig og er búin að sjá að ég þarf nauðsynlega að læra að biðjast afsökunar. Svo væri viðkunnanlegt að kunna að bjóða góðan daginn og svara slíkri kveðju.
Tungumálið er sérstakt og erfitt fyrir Íslending að styðjast við ritmálið til að glöggva sig á framburði því hljóðin eru mörg önnur. Á þetta reyndi verulega þegar ég fór að fylla á verkjalyfjabirgðir heimilisins. Ég vissi hvernig pakkinn leit úr en gat ómögulega lagt á minni að á honum stæði Panodal. Svo ég arkaði inn í apótek og sagði: "Parasetamol" enda búið að segja mér að það þekktist hér undir því orði. Afgreiðsludaman lét þennan eina kúnna í allri lyfjabúðinni bíða dágóða stund eftir sér. Þegar hún kom af kontórnum gekk hún meðfram endilöngum afgreiðsluskenknum, framhjá þremur afgreiðslukössum og tók sér stöðu við þann fjórða og innsta, bauð þá lokst góðan dag og spurði mig erindis. Ég brosti og sagði: "Parasetamol". Hún spurði á móti: "Parasetamol?" Ég kinkaði kolli og endurtók brosandi: "Parasetamol". Hún hristi höfuðið með flóttalegum hissusvip og sagði neitandi: "Parasetamol." Ég setti upp hissusvip á móti, reisti augabrúnirnar og endurtók með undrunartón: "Parasetamol?" Aftur hristi hún höfuðið.
Ég þagði smá stund. Svo ég greip til ólíkindabragðs og spurði varfærnislega: "Do you speak English?" Þá hörfðaði hún og kallaði á annan starfsmann. Sú kom fram og heilsaði mér á ungversku. Aftur spurði ég: "Parasetamol?" Hún leit á fyrri starfsmanninn stórum augum og sagði með "döööh!" tón: "Parasetamol." Sú var alveg jafntóm og yppti öxlum lítillega. Sú seinni horfði á hana smá stund og ég held ég hafi getið mér rétt til um hvað hún hugsaði. Svo sneri hún sér að hillunni fyrir innan afgreiðsluborðið (því í Ungverjalandi er almenningi ekki heldur treyst til að kaupa sér verkjalyf í lausasölu hjálparlaust) og leit niður í neðstu hilluna. Ég fylgdi augnaráði henni og kom þar auga á Panadolið. Ég benti af ákafa á hilluna, veifaði með fingrinum og sagði með gleðiraust: "Panodal!". Svo fékk ég að kaupa parasetamolið og þakkaði kærlega fyrir mig á ungversku áður en ég gekk út.
Framan af hélt ég að misheppnuð samskipti okkar stöfuðu af því að ég kynni ekki að bera "parasetamol" rétt fram. Það á að hljóma eins og maður hafi þrýst lofti fram undir efri vörina á lokuðum munninum og haldi við stútmynduninni á vörunum á meðan loftinu er þrýst úr í kinnarnar á meðan orðið er sagt. En nei, þetta voru ekki tungumálaörðugleikar heldur vissi afgreiðslukonan ekki hvað parasetamol er.
Minnug þess að vandinn lægi ekki í tunugmálahæfileikum mínum fór ég daginn eftir að leita að psyllium fræskurni sem margir á Íslandi þekkja undir vörumerkinu HUSK. Ég fór í annað apótek sem er með sérstaka heilsuvörudeild. Þar voru fjórir starfsmenn og enginn þeirri skyldi hvað ég bað um fyrr en þær létu við skrifa orðið. Þá var það auðvitað til í duftformi. Svo ég spurði með látbragði hvort það væri til í hylkjum, fékk neitun og lærði þá um leið orðið fyrir pillur. Þá lagði ég til atlögu við grænvæna heilsuvörubúð í nálægum verslunarkjarna og spurði eins og sá sem valdið hefur: "Psyllium tablet?" Þar var strax kinkað kolli, gengið að hillu bak við skenk og komið til bara með tvær sortir. Ég tók þær báðar í hönd og las utan á þær með gáfumannasvip, auðvitað allt á ungversku, og komst að þeirri niðurstöðu að ég yrði bara að velja í blindu trausti.
Í lokin er svo mynd af mér að skála í heitum, krydduðum eplasafa á jólamarkaðnum á Kossuth torgi í dag. Stóra planið var að fara aftur á torgið klukkan fimm og sjá ljósin tendruð á 35 ára og 13 metra jólatré sem er tilkomumikil sjón því öll ljós við torgið eru slökkt á meðan. En ég gleymdi mér við heimabakaða marengstertu, strompbrauð og marsipanmola með aðventukaffinu heima á Hatvan utca.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2014 | 16:53
Í landi Magyára
Nú upphefst ritun ferðaannáls að nýju þar sem undirrituð hefur langt land undir fót og komið sér fyrir undir súð á slóðum Atla Húnakonungs. Tilefnið er fæðing fyrsta barnabarnsins sem bar til í Ungverjalandi í liðinni viku. Hingað kom ég síðasta sunnudag, 23. nóvember og hitti mína elskulegu sonardóttur í fyrsta sinn. Hér eftir verður hún kölluð Eva í þessum skrifum sem eru upphafsstafir hennar. Okkur kom prýðilega saman sem veit á gott því á ævintýrum okkar mun enginn endir verða. Hún kom svo heim af sjúkrahúsinu með móður sinni daginn eftir. Það er merkisviðburður á ævinni, að koma heim í fyrsta sinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2014 | 16:28
Tæknitröllið - vídeóblogg, m.ö.o. vlogg
Ég er ekki hætt að mynda. Nú er það glíman við teiknimyndaforritin. Muvizu er ókeypis forrit sem hlaða má niður af netinu. Fjöldi leiðbeiningamyndbanda eru þar aðgengileg.
Bloggar | Breytt 3.5.2014 kl. 13:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.8.2013 | 21:14
Myndbandasafnið - Vlog: Mas miðaldra konu
Þetta blogg hlýtur er farið að bera merki vannæringar svo ég gríp til neyðarráðstafana og set inn hlekki á myndböndin sem ég hef gert síðan í desember. Síðustu tvö myndbönd voru tekin upp í sumarleyfinu í ár.
Ég sat ekki auðum höndum í vetur heldur gerði búninga fyrir Halaleikhópinn. Hér er smá pistill:
Síðast en ekki síst er svo myndband innblásið að Degi rauða nefsins. Kannski fæ ég að vera með í ár.
Nú um stundir læri ég HTML forritun á netnámskeiði hjá Skillcrush. Það fann ég í gegnum umfjöllun MBL um Hallfríði Öddu Birnir. Vefsíðugerð er áhugaverð og ég tel gagnlegt fyrir mig að kunna þar eitthvað til verka þegar kóðun er annars vegar. Kannski má skrifa þetta á uppátektarsemi hinnar miðaldra konu, og þó. Ég sótti í vetur tvö námskeið um nám fullorðinna og þar kom fram að eldri nemendur vilja í vaxandi mæli stunda sitt nám á netinu. Það er ekki galið fyrir mig að kunna þá eitthvað til verka, læra að byggja upp veflægt nám og finna nýjar leiðir til að brillera.
Svo er ég byrjuð að undirbúa efri árin. Ég bað um munnhörpu í afmælisgjöf því mér finnst alveg ótrúlega töff að geta spilað á hljóðfæri á elliheimilinu. Ég verð sú á herbergi 302 sem blæs í tíma og ótíma en það kemur ekki að sök því hin gamalmennin slökkva bara á heyrnartækjunum sínum. Svo spila ég í gríð og erg á setustofunni þangað til starfsfólkið borgar undir mig langdvalir á sólarströndum með flöskusjóðnum sínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.12.2012 | 21:03
Kryddsíld og Labbrabb nr. 2 - Mas miðaldra konu (vídeóblogg)
Það er nokkuð um liðið síðan ég setti inn myndband svo þá er ekki ekki seinna vænna að setja inn það síðasta áður en ég set inn það nýjasta. Strangt til tekið ætti það þá að vera sama myndbandið, eða hvað. Fyrst það eldra og svo hið nýrra, svona svo þið ruglist ekki.
Kryddhillan mín er eins og tímalínan á Feisbúkk.............
Kona skal klæða sig við hæfi, alla ævi.......
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2012 | 07:43
Nýjungar - Mas miðaldra konu (vlog - vídeóblogg)
Tækninýjungar og lífsviðhorf fara saman. Stefna mín er að daga ekki uppi sem nátttröll í samtímanum. Nýjasta vídeobloggið (vlog) er hér fyrir neðan. Mæli þó með að þið horfið frekar á Vimeo útgáfuna með því að smella hér því hljóðið er hærra þar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.10.2012 | 07:31
Labbrabb nr. 1 - Mas miðaldra konu (vídeóblogg)
Lífsviskan er hér í essinu sínu, hugleiðingar á gönguför. Það hefur orðið dráttur á að ég setji þetta myndband hér inn og eins gott að drífa í því þar sem nýtt vlogg er væntanlegt í vikunni. Njótið og takið mark á mér: farið út að ganga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)