Parasetamol á ungversku

Fyrsta vikan í þessari Ungverjalandsferð hefur liðið hratt en verið svo ósköp ljúf með litlu fjölskyldunni. Auðvitað fær amman nýbakaða bara bestu bitana. Hún þarf ekki að vakna á nóttunni og þarf sjaldan að skipta um bleyju. Hún er þó búin að passa einu sinni í tæpa klukkustund, svona rétt til að sanna að henni væri treystandi fyrir verkefninu. Henni tókst til með ágætum.

Farangur minn var í lágmarki svo það kom að því að skreppa þyrfti í búð eftir nauðsynjum, svo sem tannkremi, sjampói, nærfötum og sokkum. Það veit á gott að ég er ekki fatafrík því fatnaður kostar lítið fyrir íslenskt seðlaveski. Það er ekki hlaupið að því að eiga samskipti við verslunarfólk þegar maður talar ekki ungversku. Ég á í mesta basli með að muna hvernig bera á fram tölustafinn "einn". Ég kann að þakka fyrir mig og er búin að sjá að ég þarf nauðsynlega að læra að biðjast afsökunar. Svo væri viðkunnanlegt að kunna að bjóða góðan daginn og svara slíkri kveðju.

Tungumálið er sérstakt og erfitt fyrir Íslending að styðjast við ritmálið til að glöggva sig á framburði því hljóðin eru mörg önnur. Á þetta reyndi verulega þegar ég fór að fylla á verkjalyfjabirgðir heimilisins. Ég vissi hvernig pakkinn leit úr en gat ómögulega lagt á minni að á honum stæði Panodal. Svo ég arkaði inn í apótek og sagði: "Parasetamol" enda búið að segja mér að það þekktist hér undir því orði. Afgreiðsludaman lét þennan eina kúnna í allri lyfjabúðinni bíða dágóða stund eftir sér. Þegar hún kom af kontórnum gekk hún meðfram endilöngum afgreiðsluskenknum, framhjá þremur afgreiðslukössum og tók sér stöðu við þann fjórða og innsta, bauð þá lokst góðan dag og spurði mig erindis. Ég brosti og sagði: "Parasetamol". Hún spurði á móti: "Parasetamol?" Ég kinkaði kolli og endurtók brosandi: "Parasetamol". Hún hristi höfuðið með flóttalegum hissusvip og sagði neitandi: "Parasetamol." Ég setti upp hissusvip á móti, reisti augabrúnirnar og endurtók með undrunartón: "Parasetamol?" Aftur hristi hún höfuðið.

Ég þagði smá stund. Svo ég greip til ólíkindabragðs og spurði varfærnislega: "Do you speak English?" Þá hörfðaði hún og kallaði á annan starfsmann. Sú kom fram og heilsaði mér á ungversku. Aftur spurði ég: "Parasetamol?" Hún leit á fyrri starfsmanninn stórum augum og sagði með "döööh!" tón: "Parasetamol." Sú var alveg jafntóm og yppti öxlum lítillega. Sú seinni horfði á hana smá stund og ég held ég hafi getið mér rétt til um hvað hún hugsaði. Svo sneri hún sér að hillunni fyrir innan afgreiðsluborðið (því í Ungverjalandi er almenningi ekki heldur treyst til að kaupa sér verkjalyf í lausasölu hjálparlaust) og leit niður í neðstu hilluna. Ég fylgdi augnaráði henni og kom þar auga á Panadolið. Ég benti af ákafa á hilluna, veifaði með fingrinum og sagði með gleðiraust: "Panodal!". Svo fékk ég að kaupa parasetamolið og þakkaði kærlega fyrir mig á ungversku áður en ég gekk út.

Framan af hélt ég að misheppnuð samskipti okkar stöfuðu af því að ég kynni ekki að bera "parasetamol" rétt fram. Það á að hljóma eins og maður hafi þrýst lofti fram undir efri vörina á lokuðum munninum og haldi við stútmynduninni á vörunum á meðan loftinu er þrýst úr í kinnarnar á meðan orðið er sagt. En nei, þetta voru ekki tungumálaörðugleikar heldur vissi afgreiðslukonan ekki hvað parasetamol er.

Minnug þess að vandinn lægi ekki í tunugmálahæfileikum mínum fór ég daginn eftir að leita að psyllium fræskurni sem margir á Íslandi þekkja undir vörumerkinu HUSK. Ég fór í annað apótek sem er með sérstaka heilsuvörudeild. Þar voru fjórir starfsmenn og enginn þeirri skyldi hvað ég bað um fyrr en þær létu við skrifa orðið. Þá var það auðvitað til í duftformi. Svo ég spurði með látbragði hvort það væri til í hylkjum, fékk neitun og lærði þá um leið orðið fyrir pillur. Þá lagði ég til atlögu við grænvæna heilsuvörubúð í nálægum verslunarkjarna og spurði eins og sá sem valdið hefur: "Psyllium tablet?" Þar var strax kinkað kolli, gengið að hillu bak við skenk og komið til bara með tvær sortir. Ég tók þær báðar í hönd og las utan á þær með gáfumannasvip, auðvitað allt á ungversku, og komst að þeirri niðurstöðu að ég yrði bara að velja í blindu trausti.

Eplasafi á Kossuth torgi

Í lokin er svo mynd af mér að skála í heitum, krydduðum eplasafa á jólamarkaðnum á Kossuth torgi í dag. Stóra planið var að fara aftur á torgið klukkan fimm og sjá ljósin tendruð á 35 ára og 13 metra jólatré sem er tilkomumikil sjón því öll ljós við torgið eru slökkt á meðan. En ég gleymdi mér við heimabakaða marengstertu, strompbrauð og marsipanmola með aðventukaffinu heima á Hatvan utca.

Aðventukaffi á Hatvan utca

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú verður orðin góð í ungverskunni um það leiti þegar þið komið heim til Íslands.

Snorri (IP-tala skráð) 1.12.2014 kl. 07:37

2 identicon

það er meiri háttar mál að "lenda" á óskiljanlegu tungunmáli. Eitt sinn leitaði ég að lyfi í Finnlandi til að minnka brjóstsviða. það sem bjargaði mér að ég var með gamlar umbúðir héðan að heiman.  Kveðjur frá óverðurs Reykjavík - það nú að verða ágætt veður og enginn fær frí úr vinnu eða skóla út af veðri h´ðer en einhver fá víst frí á norðurlandi. Mánudagsknús.

Ragnheiður Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2014 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband