20.5.2010 | 23:28
Eftirköst fræðanna
Ég álpaðist upp í Háskóla að hlusta á heimsfrægan kvenguðfræðing, dr. Elisabeth Schüssler Fiorenza, í gær. Þar sat ég eins og spýtukall á trébekk í klukkutíma og finn enn fyrir því. Ég verð að gangast við því að ég veit næstum ekkert hvað hún sagði vegna blöndu af framburði og framsagnarmáta ásamt afleitum hljómburði í Háskólakapellunni. Það eina sem ég náði með vissu var orðið "emancipation" aftur og aftur og að Jesús vígði ekki fólk. Ég skildi ekki einu sinni orðið "emancipation "og varð að fletta því upp þegar ég kom heim. Ég hélt kannski að ég mundi þá muna merkingu þess það sem eftir er eftir alla fyrirhöfnina. En svo er ekki því ég varð að fletta því aftur upp til að skrifa hér að það þýðir lausn eða frelsi. Þetta er skiljanlega mjög neyðarlegt fyrir manneskju sem er nýútskrifuð með meistaragráðu eftir nám í enskumælandi landi. Nú megið þið ekki misskilja mig og halda að ég sé vanþakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að hlusta á fræðikonuna í eigin persónu. Slíkt er alltaf sterkt innlegg í fræðimennsku. Ætli ég sé ekki bara svolítið svekkt.
Það liggur mikil vinna á bak við ævistarf fólks á borð við Elisabeth Schüssler Fiorenza. Ég hef lesið efni frá henni í námi mínu og það var gott. Það þarf skarpan huga og umfram allt leikgleði til að velta við steinum, jafnvel sömu steinunum aftur og aftur, og hlaða þeim í nýjar vörður sem hafa merkingu og vægi á vegferð okkar.
Ég set hér aftur nokkrar myndir af bók sem ég gerði í meistaranáminu sem andóf við þeim miklu setum sem fræðunum fylgja og tilhneigingu guðfræðinnar til að líta framhjá visku líkamans og reynslunnar af lífi í líkama. "Colophon" textinn er fyrir neðan myndirnar.
students sit a lot and learn a lot in seminary. while there i sat in many chairs and suffered many hours from posing my body at a 90°angle. i felt that body and theology were not in agreement. thats nothing new. issues of the body have long been issues of theology. now its as if there has been a shift from disciplining the body to ignoring its wisdom. the term seat of wisdom is an old tradition in christian art for virgin mary with baby jesus on her lap. the word body is also a theological term for the context we live in with others together with god. there are no bodies in the photographs, just a jumble of chairs at wesley theological seminary. that can mean a lot of things.
to start with - imagine what its like to sit in them.
then think about your body.
what does it mean to be a body? theres wisdom in that.
title: seat of wisdom author: ólöf i. davíðsdóttir paper: southworth linen paper font: perpetua font colour: brown printing: epson inkjet binding: accordion cover: paper, cardboard place: washington dc, usa time: 2009 copy: 1/1
| photographs taken at: wesley theological seminary, washington dc, usa camera: sony cyber-shot 4.1 image software: gimp number of images: 45 title image from cover of seat of wisdom by louis bouyer, 1962
|
Bloggar | Breytt 21.5.2010 kl. 08:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2010 | 09:44
Stunguvinna
Veggteppið potast áfram. Í gær byrjaði ég að stinga það eftir miklar vangaveltur um mynstur. Framan af degi rissaði ég á pappír þær saumlínur sem mér datt í hug og sú sem varð ofan á veldur svima, bókstaflega, því stungan skiptir sífellt um stefnu. Ég þarf þó að æfa það form betur áður en ég sting það í teppið. En ég fann annað stunguform til að nota með, æfði mig á því og stakk svo í teppið. Það kallast páskaegg og er auðvelt í vinnslu. Þetta er hringur með línu þvert yfir. Ég mæli með því að maður æfi sig með tvinna sem er ekki samlitur efninu svo maður sjái vel til verka.
Einu sinni sem oftar vakti þessi stunguvinna upp löngunina til að eignast beinsaumsvél með stóru koki (breidd opsins). Það er bara ekki eðlilegt hvað þær eru dýrar. Það eru til vélar sem eru sérstaklega hannað fyrir svona vélstungu, kallaðar long-arm. Þær kosta yfirleitt ekki undir hálfri milljón. Mig vantar nú ekki endilega slíka maskínu. Það eru til lágstemmdari vélar (og með minna op) en þær kosta samt sitt. Ein slík frá Pfaff sem seld er hér á landi kostar 190 þúsund. Ég veit af öðru merki sem ég ætla að skoða fljótlega, Juki vél. Þetta er ekki bara pjatt. Þessar flóknu, tölvustýrðu heimilisvélar, eins og ég á, eru viðkvæmar fyrir því að mikið sé stungið á þær fríhendis. Það er alltaf hætt við því að tímagangurinn í þeim ruglist þegar efnið er hreyft fríhendis undir fætinum og það er dýrt að fara með þær á verkstæði þegar það gerist til að láta endurstilla þær. Á meðan læt ég mig dreyma um stóra vinninginn. Fyrst þarf að borga námslánin.
Stunguna á myndinni fyrir ofan fann ég á bloggsíðu þar sem ritari ætlar sér að setja inn 365 stungumynstur og lýsingu á aðferð með myndbandi á jafn mörgum dögum. Myndbandið er hér:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.5.2010 | 22:57
Mannalæti
Nú er meistaranáminu lokið og ekki annað eftir en að bíða eftir skírteininu. Útskriftin er á mánudaginn kemur en ég fer ekki út til Bandaríkjanna til að vera viðstödd. Það er hægt að gera margt fleira merkilegt fyrir 3000 dollara. Í staðinn verður til terta heima hjá mér á mánudaginn. Að sjálfsögðu var sest við sauma í beinu framhaldi enda ekkert annað sem keppir um krafta mína og athygli núna. Það er mikill munur og mér líkar það vel.
Ég er að sauma veggteppi, hið þriðja eftir sömu hugmyndinni. Það er óvenjulegt þegar ég á í hlut að vinna áfram með sama mótívið. Slíkt hefur ekki höfðað til mín. Einu sinni er þó allt fyrst. Teppin eru sett saman úr eins konar skífum sem eru saumaðar úr nokkrum efnisbútum og er allt skorið fríhendis jafnóðum og saumað er. Tilvísun formanna er í manna, morgunverð Ísraelsmanna í eyðimörkinni. Hér eru nokkrar myndir frá vinnunni. Þetta byrjaði sem leikur að formum fyrir þremur árum. Það á að vera áfram leikur en nú þegar maður er orðinn svona lærður er ekki hægt að segjast bara vera að leika sér svo nú þarf að finna gáfulega skýringu á atferlinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2010 | 09:36
Öskusólarlag
Þær voru nokkrar myndanna sem ég tók vestur yfir Laugardalinn í gærkvöldi þar sem sólin settist í öskumettuðu andrúmsloftinu. Myndirnar eru teknar á venjulega heimilisvél. Ég hefði svo gjarnan viljað eiga vandaðra tæki við þessar aðstæður.
![]() |
Litskrúðugt sólarlag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.4.2010 | 18:33
Biblíuleg sagnalist á íslensku - myndband
Framundan er upprisuhátíð páskanna. Af því tilefni set ég inn myndband af æfingu á flutningi guðspjalls páskadags að hætti biblíulegrar sagnalistar. Þetta er aðferð sem ég lærði í meistaranáminu út i Bandaríkjunum. Þetta verður sannkölluð Íslandsfrumsýning því ég hef ekki gert þetta hér heima áður.
Að hættri enskra kallast þetta "biblical storytelling" og byggir á frásagnarlist munnlegrar geymdar. Ég fann að ég bjó að ríkulegum heimanmundi í íslenskum þjóðsögum meðan ég var að læra þetta. Enda valdi ég mér íslenska þjóðsögu til að flytja á námskeiðinu. Ég bið lesandann að athuga að vegna birtuskilyrða varð ég að snúa baki í salinn fyrir myndatökuna. Þegar stóra stundin rennur upp verða kirkjugestir ekki fyrir aftan mig. Það er svona með tæknina. Hún er skilyrðum háð. Það sannaðist því hér hversu sveigjanlegur þessi jarðneski tjáningarmáti líkamans og raddarinnar er.
Ýmsar bjargir eru aðgengilegar á netinu til að kynna sér þessa aðferð og læra að nota hana. Þó er gott að nema hana í góðum hóp enda segir maður sjaldnast sjálfum sér sögur. Hér eru nokkrir tenglar:
Network of Biblical Storytellers
Calvin Institute of Christian Worship
Guðsþjónustan er í Guðríðarkirkju, Grafarholti, klukkan ellefu á páskadag. Þetta verður fjölskylduhátíðarguðsþjónusta þar sem börnin verða leyst út með glaðningi er hæfir tilefni dagsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.3.2010 | 15:42
Námsfólk er ekki grátkór
Námsfólk er ekki að væla heldur er það að benda á að því verða æ fleiri bjargir bannaðar til að sjá um sig sjálft og standa undir menntun sinni fjárhagslega.
Það er löngu tímabært að bjóða námsfólki í fullu námi að fá lán fyrir framfærslu á sumrin án þess að vera bundið af námsframboði og sérstökum sumarönnum. Eðlilegra væri að lengja viðmið haust- og vorannar enda telst sumarnám við HÍ alltaf til skólaárs vetrarins áður. Atvinnutekjur námsmanns yrðu áfram til frádráttar og fengi hann óvænt vinnu þegar komið er fram á sumar þá yrði dregið frá í næstu úthlutun eins og tíðkast hvort eð er. Í ofanálag eru rannsóknar- og námsstyrkir fyrir fólk í framhaldsnámi afar fáir og rýrir og dreifast heldur ekki jafnt yfir öll fræðasvið.
Reglur LÍN hafa ekki fylgt atvinnuþróun hér á landi. Það er ekki nýtt fyrirbæri að námsfólki gangi illa að fá sumarvinnu. Fyrirtæki hafa í mörg undanfarin ár dregið saman afleysingaráðningar á sumrin. Framleiðslufyrirtækjum sem halda þurfa fullum afköstum árið um kring hefur stórfækkað. Það var byrjað áður en útrásinni þótti hagkvæmara að flytja framleiðsluna út. Ferðaþjónustan virðist ekki var mannaflsfrekur atvinnuvegur yfir háannatímann þrátt fyrir að hótelum fjölgi eins og myglusveppum. Sveitarfélög byrjuðu að draga saman seglin í sumarstörfum fyrir mörgum árum. Leikskólar sem voru vinsæll valkostur til sumarstarfa loka nú i mánuð á sumrin og draga saman starfsemina án afleysingafólks hina sumarmánuðina. Samsetning atvinnulífsins hefur löngu breyst. Fólk á suðvesturhorninu stekkur ekki svo glatt í fiskvinnslu eða á sjó. Hér er enginn Ísbjörn eða Bæjarútgerð lengur og útgerðin er löngu farin yfir í frystitogara sem skráðir eru á landsbyggðinni og sigla með aflann í stað þess að láta vinna hann í landi. Getur 5 manna fjölskylda skólafólks með 3 ung börn flutt inn á verbúð á Flateyri í 3 mánuði og fengið barnapössun líka á sama tíma og hún borgar leigu af stúdentaíbúðinni í Reykjavík?
Það er mikill misskilningur að háskólanema langi til að vera á námslánum. Það er bara svo fáir sem fæðast með silfurskeið í munninum. Atvinnutækifærum ómenntaðra hefur stórfækkað vegna breyttra atvinnuhátta nútímans svo það er ekki lengur raunverulegur valkostur að mennta sig ekki og fara bara að vinna.
![]() |
Háskólanám að verða forréttindi hinna efnameiri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2010 | 07:42
Orðhengilsháttur
Eðli máls breytist ekki með orðavali. Áróðursmeistari spilavíta fullyrðir að íslensk málnotkun sé neikvætt áróðursbragð og því eigi ekki að segja "spilavíti" heldur "kasínó". Eitthvað finnst mér sá málflutningur vera eftir á og úr tengslum við íslenskan veruleika. Þetta orðskrípi er í ætt við nafngiftir útrásarinnar sem hættu að reka fyrirtæki og áttu nú bara félög. Það var ekki nógu gott að kalla þau félög heldur urðu þau að heita "group" eða "holdings" eða "properties". Það er liður í því að búa til glansmynd sem fær ekki staðist vottun raunveruleikans á hvötunum að baki spilafíkn og skelfilegum afleiðingum hennar.
Það er mikil einfeldni ef við trúum því að það sé "gott að fá spilamennskuna upp á borðið". Þetta er rangt orðaval og sýnir kannski hvað áróðursmeistarar eru útsmognir. Þetta heitir fjárhættuspil og ef útlenskum orðum er ætlað að ná merkingunni betur þá er það kallað "gambling" upp á ensku. Spilavíti eru rekin til að græða. Gróðinn rennur ekki í vasa fjárhættuspilaranna heldur eigenda spilavítanna og þeir ganga svo frá hnútunum að húsið tapar ekki.
Jafnvel þó hér yrðu rekin lögleg spilavíti yrðu alltaf til leyniklúbbar þar sem meira er lagt undir og meiru tapað. Eigendur spilavíta mundu alltaf finna sér leiðir til að skjóta undan skatti, þó ekki væri með öðrum leiðum en að kalla gróðann útlenskum nöfnum í bókhaldinu.
Það yrði orðspori Íslands síst til framdráttar að opna hér spilavíti. Hér hafa fjárhættuspilarar útrásarinnar þegar rúið landið inn að skinni og þeir borga ekki brúsann sinn. Ef þeir voru spurðir út í vafasama gjörninga sína, var viðkvæðið ávalt að þetta væri allt löglegt. Samt var sú spilamennska ekki uppi á borðinu. Ég hef enga ástæðu til að treysta fyrirætlunum gróðafíkla, hvort sem þeir kalla sig fjárglæframenn eða "bossa" upp á ensku.
![]() |
„Kasínó er raunhæfur kostur“ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.1.2010 | 18:53
Innsýn í listina
Listasagan er svo sannarlega spennandi, líka eftir á. Það mætti reyndar segja að lstasagan sé síkvik en ekki uppþornaður minjagripur liðinna hátiða mannsandans. Uppgötvanir, sem framfarir í tækni og vísindum færa okkur, draga fram fléttur í samhengi sem við ekki vissum af og þá þarf stundum að skrifa fræðibækur upp á nýtt.
Hér er slóð á myndbandið með fréttinni. Það gekk ekkert að setja inn "embedded" slóð.
![]() |
Dánarorsök Caravaggio upplýst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2010 | 21:25
Nafnaskipti fyrir 4 dögum
Af hverju var skipt um nafn á hluta eignasafnsins fyrir fjórum dögum, samkvæmt þessari frétt á mbl. is, "Landic skiptir um nafn (sjá afrit hér fyrir neðan)
"Landic skiptir um nafn
Landic Property Ísland hefur skipt um nafn og mun nú bera heitið Reitir fasteignafélag. Í tilkynningu segir að undanfarið ár hafi verið unnið að því að verja íslenska starfsemi félagsins og losa um erlendar eignir og veðskuldir. Rekstur íslenska eignasafnsins sé nú tryggður og standi traustum fótum.
Reitir verða sjálfstætt félag í meirihlutaeigu íslenskra banka. Samningarnir tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll innlends fasteignasafns í sjálfstæðu félagi, að því er segir í tilkynningunni."
Ég spyr, var það gert til að koma eignum undan úr þrotabúinu?
![]() |
Landic Property gjaldþrota |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.1.2010 | 13:45
Dundur
Kona getur verið mjög afkastamikil þegar hún á að vera að gera eitthvað annað. Afköstin núna eru bókamerki úr afgöngum. Ég kalla þessi verk "Rifrildi" og bera þau nafn með rentu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)