17.10.2010 | 11:02
Áfram veginn, framhald úr síðasta þætti
Litirnir urðu heldur fleiri í veggteppið en ég sýndi í síðustu færslu. Myndin í síðustu færslu var grunnvalið, svo spann ég út frá því. Nú er ég búin að sauma saman nokkrar einingar. Framundan er að raða þeim upp og skeyta saman með fleiri ræmum. Þessi nálgun í vinnslu kallast upp á ensku "design as you go." Ég mundi kalla það "hannað eftir hendinni." Verkið er þegar komið með nafn eftir tillögu Nínu Leósdóttur sem stakk upp á "Sprettur," innblásið af því að þetta er fyrsta verkið sem ég sauma alfarið standandi og í hlaupaskónum í þokkabót. Vinnuaðstaðan er öll að taka á sig mynd, ýmis tæknileg vandamál á standandi saumaskap hafa verið að leysast smátt og smátt. Þegar það er allt komið í viðunandi horf mun ég setja hér inn myndir af því hvernig til tókst og útskýra snilldina á bak við það.
Hér á eftir koma myndir að Sprettinum (kk. et.) eða Sprettunum (kvk. flt). Fyrst er aftur sama mynd og í síðustu færslu af grunnvali efna. Ég byrjaði með steinamynstrið lengst til vinstri á myndinni og valdi hin út frá því. Næsta mynd er með efnunum sem ég bætti við það. Svo koma myndir af stykkjunum sem ég er búin að sauma saman.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2010 | 10:38
Efnisval, vinnuaðstaða og verð á saumavélum
Nú er ég að velja efni í nýtt veggteppi. Þetta er niðurstaðan:
Ég hef ekkert saumað í allt sumar. Það var eiginlega ekki aðstaða til þess en nú er vinnurýmið aftur komið upp og býður eftir næstu sendingu hilluefnis til IKEA. Helst af öllu snýst þó málið um að ég hef þurft að hugsa þetta saumadæmi upp á nýtt og leita að leiðum til að sauma standandi. Aðalmálið varðandi standandi saumaskap er að þrýsta á fótstigið fyrir saumavélina. Það er meira en að segja það, megið þið trúa. Þegar maður vill sauma standandi til að hlífa bakinu þá gengur ekki að standa á öðrum fæti. Nú ætla ég að athuga hvernig gengur að nota hælinn í staðinn fyrir tábergið á fótstigið en standa um leið í tábergið á þeim fæti. Það þarf svolitlar tilfæringar í kringum það, byggja upp pall í kringum fótstigið sem það er fellt niður í. Um leið þarf maður að standa jafn hátt í báða fætur án þess þó að eiga á hættu að hrasa út af pallinum. Ég er komin með hugmynd að útfærslu en áður en ég fer í fjárútlát hennar vegna ætla ég að prófa þetta með að stafla upp tréplötum, bókum eða því sem ég finn hér heima í skúmaskotum.
Vissulega eru til saumavélar sem þarf ekki fótstig á, eru t.d. með start/stop takka ofan við nálina. Það er lítið til af þeim hér á landi. Ég veit þó af einni sem hér fæst og kostar um 350 þúsund krónur. Ég á ágætis saumavél, takk fyrir, og kaupi mér ekki aðra fyrir einn takka. Það er ótrúlega lítið úrval af ódýrum, vönduðum saumavélum til sölu hér. Vörumerkið Brother er með ágætis saumavélar með start/stop takka og kosta þær ekki mikið. Þær ódýrustu kosta 200 til 300 pund í Bretlandi.
Framhald í næsta pistli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.9.2010 | 10:02
Fyrirmyndir til innblásturs
Það eru tvær bútalistakonur sem ég er að skoða núna. Önnur er Ellin Larimer og hin er Pat Pauly.
Efra verkið er eftir Ellen Larimer og hið neðra er eftir Pat Pauly:
Þó stíll þeirra sé ólíkur eiga þær það sameiginlegt að vinna með línuna en með mismunandi hætti. Með því á ég við að lögun, stefna og samhengi línunnar er afgerandi þáttur í myndbyggingu verka þeirra. Myndlist byggir á nokkrum eðlisþáttum: línu, formi, lit, áferð og rými. Þjálfun í að horfa á myndlist felur m.a. í sér að skilja þess þætti, beitingu þeirra og áhrifum í verkinu. Ég læri mikið af því að skoða svona verk nánar og skilja hvernig hönnun þeirra er hugsuð. Slík yfirlega hefur reynst mér góð þjálfun fyrir augað, hún kennir mér að sjá, enda liggur skilningur og innsæi að baki þeim uppgötvunum sem ég geri við það.
Hér er íslensk vefsíða þar sem Hafdís Ólafsdóttir fræðir um myndbyggingu og formfræði.
Á vefsíðunni The Textile Blog er færsla um Pat Pauly og verk hennar. Á þessum vef skrifar John Hopper um sögu textíllistarinnar.
Einn meginmunur á hefðbundnum bútasaum og "art quilting" (sem ég kalla bútakúnst) liggur í hönnuninni. Í "art quilting" er tekist á við myndbygginguna og formfræðina frá grunni í eigin hönnun. Í hefðbundnum bútasauma er vissulega líka unnið með eigin hönnun en þar er þó alla jafna stuðst við þekkt form og þau útfærð með litavali og uppröðun. Þar vill stundum gleymast af formin og línurnar út af fyrir sig eru ekki nóg til að fá fallegt teppi, jafnvel ekki heldur þó valin séu saman séu góðir litir og mynstur á efni. Samspil allra þessara þessara skiptir máli fyrir heildarmyndina, t.d. hvaða fletir eru ljósir og hverjir eru dökkir. Ég hef oft rekið mig á að erfitt er að fá efni í ljósum litum sem henta í listrænan bútasaum.
En svo er líka þriðji styrkleikaflokkurinn, "medium" eða miðlungs, sem líka er erfitt að finna. Bútasaumsefni eru gjarnan í mettuðum litum því þeir grípa augað og hefð er fyrir því að ramma þá inn með hlutlausari litum, s.s. dröppuðu eða grátónum, jafnvel í lítið minni styrkleika/mettun. Í bútasaum er því oft gripið til þess ráð að setja fram andstæður í ólíkum litum í stað þess að nota litastyrkleika eða lýsingu. Þetta á meðal annars þátt í því að fólk í listrænum bútasaumi fer út í að lita efnin sín sjálf til að fá þá tóna og litróf sem verkin þeirra þarfnast. Það er efni í heila stúdíu út af fyrir sig og helst af öllu eigið þvottahús með nægu rennandi vatni!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2010 | 19:31
Skartgripagerð með endurvinnslu
Þó hljótt sé á bloggsíðunni minni er fjarri því að líf mitt sé einhver lágdeyða. Á milli þess sem ég fer í gönguferðir og sund eða þurrka af heima hjá mér og raða í skúffur og skápa dunda ég mér við að læra að nota áhöld til skartgripagerðar. Þó handbragðið eigi enn eitthvað í land með að vera vel þjálfað þá hef ég gert skemmtilegt skart úr perlum sem ég hef bý líka til. Hér er sýnishorn:
Perlurnar bý ég til með endurvinnslu og hef ég einnig dundað mér við að vefja allt víravirkið, tengikróka og keðjulás. Þetta er glettilega skemmtilegt, ekki síst vegna þess að verkið er ekki fljótklárað og því hægt að hlakka til þess að koma að því aftur síðar. Sumir eru ekki hrifnir af slíku dundi heldur vilja skella í föndur á augabragði og klára sem fyrst. Það hentar mér ekki alfarið. Ég tel ekki afköstin heldur nýt vegferðarinnar á meðan hluturinn er búinn til, alveg eins og með aðra listsköpun. Það er ferlið en ekki afurðin sem listamaðurinn nærir sitt innra líf á. Seldar afurðir geta hins vegar skaffað salt í grautinn og smjör á brauðið. Það styrkir reyndar sjálfsmyndina líka.
Annar kostur við skartgripagerðina er að ég þarf ekki að sitja við hana og get jafnvel rölt um. Nú er bara að finna einhverja leið til að vinna standandi í báða fætur við saumavélina. Það er öllu flóknara.
Set hér inn myndband um hinar ýmsu tangir sem nota má við skartgripagerð og virkni þeirra, fengið af síðu WigJig Jewelry Making University, http://www.squidoo.com/cutjewelrywire
Bloggar | Breytt 24.9.2010 kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2010 | 11:17
Söguþráður saumaskapar
Það rifjaðist upp fyrir mér í morgun að ég á tvö bútasaumsverk sem innblásin voru að atburðunum 11. september 2001 þó þau fjalli ekki um þá í sjálfu sér. Bæði verkin eru frá árinu 2004.
Hér er annað þeirra, "Salt jarðar":
Hitt verkið varð til stuttu síðar, "Lát Líkn lifa":
Ég hef lítið getað saumað um hríð en langar samt að segja svo dæmalaust margt með taui og þræði. Á meðan hrannast upp hugmyndir svo nú ríður á að festa þær einhvern vegin niður og geta sótt í þann sjóð síðar ef færi gefst. Inntak verka minna tengjast oft áhrifum atburða á mig eða afstöðu minni til málefna. Til að tjá þetta leita ég gjarnan í sagnaminni hefðar sem er mér töm en bý þá oft um leið til nýjar táknmyndir með litavali eða formum. Það er mín leið til að stuðla að sífelldri og nauðsynlegri endurnýjun hefðarinnar sem um leið stuðlar að varðveislu hennar sem lifandi tjáningar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2010 | 17:55
Möffins með hvítu súkkulaði og möndlum
Áður en þessi uppskrift að gómsætum möffins hverfur í gleymskunnar dá innan í kokkabókahillunni minni ætla ég að setja hana hér inn í færslu í von um að leitarforrit netsins hjálpi mér að finna hana í einu vetfangi í framtíðinni. Uppskriftin er aðlöguð að uppskrift úr "The Australian Woman's Weekly Cookbooks: Muffins, Scones and Bread" með því sem til var í eldhússkápunum.
2 bollar (300 gr) hveiti
2 tsk lyftiduft
2/3 bolli (150 gr) sykur
1/2 bolli (100 gr) hvítt súkkulaði, saxað
1/2 bolli (75 gr) möndluflögur
60 gr smjör, brætt
3/4 bolli (180 ml) mjólk
1 egg, léttþeytt
Þurrefni sigtuð saman í skál. Öðrum efnum hrært saman við. Skipt í möffinsmót. Bakað við 175°C í 25 mínútur. Passar í 6 stórar (3/4 bolla mót) möffins eða 12 minni.
Upprunalega uppskriftin tilgreinir 140 grömm af súkkulaði og notar ristaðar makadamíuhnetur en ekki möndlur. Mér finnst upplagt að nota það sem eftir er af möndlupokanum til að strá ofan á kökurnar fyrir bakstur eða bara bæta því við og hafa þéttara möndlubragð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.7.2010 | 10:44
Útskriftarveisla á afmælisdegi - framtíðarsýn
Afmælis- og útskriftarveisla var haldin þann 21. júlí sl. Útskriftin var 10. maí sl. Þá útskrifaðist ég með akademíska meistaragráðu í guðfræði frá Wesley Theological Seminary í Washington DC í Bandaríkjunum. Gráðan heitir Master of Theological Studies (MTS) og er fullnuð með lokaritgerð eftir tveggja ára nám. Áhersla mín í náminu var á guðfræði og listir. Í meistararitgerðinni tengdi ég saman listsköpun og sálgæslu á hagnýtan hátt í kjölfar vettvangsrannsóknar. Heiti ritgerðarinnar er "Face Value: Self-portraits as World View in Pastoral Care."
Á námstímanum lauk ég einnig fyrsta stigi í verklegu námi í sálgæslu á sjúkrahúsi frá National Institutes of Health Clinical Center. Það er réttindanám, vottað af Association of Clinical Pastoral Education. Námið er ekki til hér á landi en síðast þegar ég vissi hafði Landspítalinn þær kröfur að starfsmenn sálgæsluteymis sjúkrahússins hefðu lokið því
Undanfarin tvö ár eru búin að vera mikið ævintýri og upplýsandi á margan hátt sem um leið gerir kröfur til endurskoðunar og endurmats. Ég er ánægð með námið, sérstaklega vegna þess að þar buðust mér aðrar áherslur í vali, nálgun og úrvinnslu viðfangsefna en tíðkast hér á landi. Ég mundi segja að meistaranámið mitt hafi höfðað til fjölgreindar og veitt tækifæri til hagnýtrar útfærslu viðfangsefna.
Ég er eðlilega mikið spurð hvað ég ætli svo að gera við þetta allt saman. Það er nú svo um guðfræðimenntað fólk að vilji og veruleiki fara ekki alltaf saman þegar út á vinnumarkaðinn er komið. Þá reynir á fólk að finna sér vettvang sem nærir á einhvern hátt þá köllun sem knúði það til dáða, oft á allt öðrum vettvangi en það hafði kannski upphaflega stefnt á. Löngun mín liggur til þess að sinna hópastarfi fullorðins fólks sem fléttar saman fullorðinsfræðslu, skapandi virkni og sálgæslu til eflingar mennskunnar í viðfangsefnum dagslegs líf og lifandi rækt við andlegt líf. Þetta hljómar kannski eins og lýsing á blöðru. En þegar glöggt er skoðað er sú lýsing ekki fjarri sanni. Blaðran er tákn þess tilefnis sem blæs hana upp. Það lekur svo úr henni eftir því sem líður á og við leggjum hana frá okkur þegar hlutverki hennar er lokið. Þannig lít ég á andlegt starf. Það á ekki að steypa upp staðnaða skúlptúra, verkefni sem engan endi taka og halda fólki föstu í persónulegri eða praktískri merkingu. Fólk er fljót sem flæðir með hjartslætti lífsins. Viðfangsefni þess breytast og stundum þarf að fletta við síðu. Á vettvangi kirkjunnar þarf að vera sveigjanleiki til að þróa og þroska starf með fullorðnu fólki sem kemur og fer eins og aðstæður þess leyfa eða krefjast.
Mig langar að vinna með fólki í slíkum aðstæðum, hlæja með því og gráta eins og við á og finna saman leiðir til verðugs lífs sem er þrungið merkingu í samhljómi tilverunnar. Þar gegnir skapandi virkni mikilvægu hlutverki því hún nær að nálgast viðfangsefnin með líkingamáli sem oft nær betur að tjá og túlka reynslu okkar og úrvinnslu en orðin ein. Skapandi virkni tengir fólk saman í samfélagi til áhrifa í eigin lífi og hefur burði til að hafa áhrif út fyrir hópinn, jafnvel út í þjóðfélagið. Þetta er einnig erindi kirkjunnar því guð sem sendir hana á erindi við manneskjur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.7.2010 | 18:57
Mannalæti - veppteppi
Hér er nýjasta veggteppið mitt, "Mannalæti." Það er 74x85cm að stærð, saumað saman úr bútum og einnig með applikeringu. Síðan stakk ég það fríhendis í saumavélinni. Bryddingin er saumuð niður bæði í vél og í höndunum.
Inntak verksins tengist frásögnum Gamla testamentisins af forsjá og nægjusemi. Þetta eru sögurnar af brauðinu frá himnum, manna (2Mósebók 16). Um svipað leiti og ég fór að vinna þetta teppi, dembdust yfir okkur fréttir að málshöfðunum vegna svika, svika sem knúin voru af ágirnd og hroka. Pörupiltarnir kepptust hver um annan þveran að bera upp ámátlegar sjálfsréttlætingar í fjölmiðlumog kölluðu það afsakanir á skipbrotinu sem þeir höfðu lent í. Þessar óskyldu sögur runnu saman í þrunginni merkingu.
Það er nú aldeilis búið að taka tímann sinn að sauma þetta stykki þó ekki sé það stórt. Ég sneið og saumaði saman bútana í apríl og byrjaði að stinga teppið fyrir tveimur mánuðum. Stungunni hefði ég átt að geta lokið á einni dagstund. Ég vildi að afköstin gætu verið meiri en sé ekki fram á að það breytist í bráð. Það bíða svo mörg spennandi verkefni eftir því að komast af pappírsstigi hönnunar yfir í tauið. Á vorönninni hannaði ég nokkur altarisklæði í meistaranáminu í kúrsi sem ég tók við Wesley um textaraðir Þjóðkirkjunnar frá föstu til uppstigningardags. Það verður að bíða betri tíma og potast kannski áfram, einn bút í senn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2010 | 09:08
Ferð að Gígjökli
Unglingurinn og ég fórum inn að Gígjökli í síðustu viku. Við vorum svo heppin að komast þangað áður en svæðinu var lokað vegna flóðahættu ofan úr vatnslóni sem myndast hefur uppi á jöklinum. Landssvæðið allt er tilkomumikil sjón, þakið öskulagi eins og í framúrstefnulegri skáldsögu. Meðfylgjandi myndir sýna í raun ekki hvernig landið kom okkur fyrir sjónir. Áhrifin skila sér ekki til fulls á myndum. Vegna sólskinsins er lýsingin á mörgum myndanna ekki góð enda myndavélin ekkert til að monta sig af.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.5.2010 | 20:40
Öllu gamni fylgir nokkur alvara (eða Besti flokkurinn hvað?)
Það hefur þótt til mannkosta að taka sjálfan sig ekki of hátíðlega og geta gert góðlátlegt grín að sjálfum sér. Það þykir einnig háttvísi að vera fyndinn á eigin kostnað en ekki annarra. Við Íslendingar erum þeim eiginleika gædd að geta gert grín að okkur sem þjóð. Við verðum ekki einu sinni hörundsár þegar erlendar þjóðir gera grín að okkur. Við brosum góðlátlega því okkur finnst það krúttlegt. Um leið verðum við upp með okkur vegna þess að eftir okkur var tekið. Við erum skemmtilega hégómleg. Sumir telja það stafa af minnimáttarkennd og þjóðrembu. Við tökum spaugið ekki nærri okkur því við tökum ádeiluna ekki til okkar.
En við, sem þjóð, eigum til að taka gagnrýni sem sett er fram af fullri alvöru með sama hætti. Við tökum gagnrýni ekki til okkar heldur. Við getum ekki tekið okkur alvarlega því við erum hégómleg. Gagnrýnisraddir eru gjarnan beittar þöggun. Ýmist er gert lítið úr þeim sem gagnrýnir, hæfni hans og þekkingu, hann sakaður um óháttvísi eða beitur háði á móti og jafnvel afskrifaður sem kjánalegur. Fræg að endemum eru nýfallin ummæli stjórnmálamanns um að skýrsla rannsóknarnefndar muni þvælast tímabundið fyrir okkur. Í fréttum í dag kvartaði forsætisráðherra undan því að þingmaður hefði ekki haldið gagnrýni sinni innanhúss því mikilvægt væri að stjórnin birtist út á við sem alsæl, samhent fjölskylda. Veruleikinn virðist aukaatriði. Það skiptir mestu að koma vel fyrir. Gagnrýnandinn var vændur um óháttvísi til að drepa málefninu á dreif. Ráðamenn þessa lands virðast ekki deila þeirri afstöðu með mér að málefnaleg gagnrýni sem tekin er upp af alvöru fyrir opnum tjöldum og leiðir til endurskoðunar og jafnvel breytinga á framkvæmd eða skoðunum, er ein af forsendum trúverðugleika og trausts í stjórnmálum.
Í þessu ljósi vil ég skoða háðsádeilu Besta flokksins. Það er innistæða fyrir henni. Kannski ekki gulltryggð upp í topp. En þess hefur heldur ekki þurft hér á landi undanfarin ár. Þau sem ættu að taka gagnrýnina til sín og bregðast við með uppbyggilegum hætti vilja þagga hana niður með því að afskrifa hana sem fíflalæti. Hégómleikinn er auðmýktinni yfirsterkari. Um leið gleymist að öllu gamni fylgir nokkur alvara. Ég tel Besta flokknum vera fullkomin alvara með háðsádeilu sinni. Ég ætla ekki að leggja mat á alvöru hans með framboðinu. Þar verða verkin að sýna merkin. Þess hefur þó heldur ekki þurft hér á landi undanfarin ár.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)