12.2.2012 | 13:49
Fleiri prufur
Enn sauma ég prufur fyrir verkið sem ég vinn við núna, sama og síðasta færsla fjallaði um. Á þessu stigi málsins snýst það um að finna bestu aðferðina við að setja saman myndflötinn þar sem ég þarf að sauma inn í hann margar mjóar ræmur. Hrifnust er ég af áferðinni á bleiku prufunni en þar sem þetta verða nokkuð margar ræmur, er ég að velta fyrir mér að leggja þær sem skáband inn í saumana í stað þess að sniða þær sérstaklega. Ég þarf aðeins að sofa á þessu og líklega að gera aðra prufu eins og þessar með fjólubláu og grænu stykkjunum en hafa ræmurnar sérsniðnar og teikna þær þá þannig inn á sniðteikninguna. Vel á minnst, þá þarf ég eiginlega að gera nýja sniðteikningu líka. Áður en ég hefst handa finnst mér þessi vinna eiga skylt við það að bera sólskin í húfum. En það er bara áður en ég byrja. Um leið og ég er byrjuð hverfur allur svona fyrirsláttur og verkið hefur sinn gang.






Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.