Færsluflokkur: Bloggar

Fyrirsögn í anda Vísis - myndir

Er nú Mogginn kominn með fyrirsagnir í anda Vísis? Ef fréttaefnið hefði
verið tárvotir aðdáendur á tónleikum poppstjörnu hefði ég getað tekið
fyrirsögninni athugasemdalaust. Hér er gert lítið úr grafalvarlegum
aðstæðum fólks og ég sem lesandi sit eftir með það óbragð í munninum að mannleg þjáning sé höfð í flimtingum.
mbl.is Tárvot mótmæli HIV sjúkra í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sköpun byggir ekki á eyðileggingu

Sem skapandi listakona fullyrði ég að sköpun byggir ekki á eyðileggingu heldur umbreytingu. Að segja svona eins og ráðherrann gerir er yfirklór og göfgun á ranglæti. Staðreyndin er sú að það er akkúrat ekkert verið að byggja neitt upp í kjölfar hrunsins heldur verið að eyða því sem þó er enn  til.

Þegar ég geri veggteppi tek ég ekki hráefnið og brenni að til ösku. Ég klippi og sker það vissulega en það er ekki eyðilegging heldur umbreyting. Það er mikill misskilningur á eðli efnisheimsins að halda að hlutir hverfi og hætti að vera til. Spilling efnahagskerfis er enn til staðar, fákunnátta ráðamanna er enn við lýði og það virðist ekki skipta máli hver er við stjórnvölinn. Spilling og fákunnátta voru ekki eyðilögð við hrunið. Spilling og fákunnátta verða alltaf til. Í stað þess að afneita því ætti að gangast við ábyrgð og láta þau sem ollu skemmdunum axla ábyrgð. Svo á bara ekkert að leyfa þessu fólki að halda skærunum til að klippa til sín bútasaumteppi.


mbl.is Skapandi eyðilegging hrunsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helför og handverk

Holocaust Survivor CookbookGærdagurinn var frídagur hjá mér, lognið á undan storminum. Fyrripartinn var ég á Helfararsafninu. Ég fór þangað í sumar en komst ekki inn á aðalsýninguna. Ég þurfti þó að ljúka því af vegna námskeiðs sem ég sit í haust og á að skila skýrslu um heimsóknina í næstu viku. Í minjagripabúðinni rakst ég á nokkuð sem kom mér á óvart enda skildi ég ekki út á hvað hugmyndin gekk. Þetta var matreiðslubók eftirlifenda helfararinnar. Nú er ég búin að lesa mér aðeins til og skilst að þetta sé minningabók. Uppskriftirnar fylgja frásögnum einstaklinga af reynslu þeirra og viðkomandi leggur til uppskrift frá fjölskyldu sinni. Þetta er kannski ekki svo ógalin hugmynd þó í fyrstu hafi ég hugsað með mér að nú hefði Kaninn farið yfir strikið í skrumi markaðshyggjunnar og helfararsafnið fallið á hælkróknum. Hér fylgir með umfjöllun og sýnishorn úr bókinni. Ég svipaðist um eftir einhverjum bókum um úrvinnslu listafólks og viðbrögð við helförinni en sá ekkert slíkt í hillunum.

Eftir hádegið fór ég á handverkssýninguna Washington Craft Show. Þetta er vönduð sýning og sýnendur valdir inn af dómnefnd. Fyrir vikið er fjölbreytni í verkunum þar sem ekki komast að margir með sömu hönnunina. Ég sá nokkur textílverk auk fatnaðar. Bæði var þar bútasaumur, útsaumur og þæfing.

Hér eru sýnishorn:

Bútasaumur frá Erin Wilson:
Erin Wilson

Hún sagðist reyndar ætla að nota litavalið á því sem ég klæddist í gær í listaverk. Ég fylgist spennt með því á vefsíðunni hennar.

Bútasaumur frá Carolyn Beard Whitlow:
Carolyn Beard Whitlow

Útsaumur frá Natalia Margulis:
Natalia Margulis

Applikering frá Chris Roberts-Antieau:
Chris Roberts-Antieau

Þæfing og útsaumur frá Susan Levi-Goerlich:
Susan Levi-Goerlich     Susan Levi-Goerlich

Blönduð tækni frá Shelley Jones

Textílverk frá Susan Hill

Ég set þetta hérna inn til að finna þetta aftur sjálf ef ég þarf að farga einhverju svo farangurinn verði viðráðanlegur við heimkomuna. Deginum lauk svo með máltíð og spilamennsku ásamt nokkrum samnemendum mínum. Boðið var upp á pottrétt og eftirmat að hætti Suðurríkjanna.

 

 


Greitt með gatinu á túkallinum

Hvernig er hægt að byggja spítala þegar ekki er til peningur til að reka hann? Er þessi fjármálaspeki sprottin af sama vitlausrameiði og útrásarhrunið?
mbl.is Skrifað undir viljayfirlýsingu vegna nýs Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þöggun mennskunnar

Af hvaða meiði skyldi sprottin sú stefna að vilja gæta jafnræðis trúfélaga með því að leggja niður aðstöðu til trúariðkunar? Við fyrstu sýn virðist slíkt vera sett fram af einhvers konar velferðarhugsjón í því skyni að fyrirbyggja að einum sé gert hærra undir höfði en öðrum á samanburðarskala sem þeir er um ræðir hafa ekki smíðað sjálfir. Það er ýjað að göfgi með því að verið sé að verja minnihlutahópa. Það væri vissulega rétt að taka slík sjónarmið með inn í reikninginn ef staðfest stefna slíkra talsmanna væri að efla iðkun andlegs lífs og virða trúarhefðir sem lifandi eru í samfélaginu. En ef þessi sjónarmið eru liður í þöggun margbreytileika mannlífsins, útstrokun tákna og atferlis sem hafa víðtækara innihald og merkingu en samlitur hversdagsleiki, þá eru þau í raun aðför að trúfrelsi og þar með samviskufrelsi þeirra sem iðka sína trú í samfélagi við aðra. Þau gegna því hlutverki að verja þau sem ekki iðka trú, verja þau frá því að finnast að þau tilheyri ekki og séu utangarðs í sammannlegri reynslu.

Þetta verndunarsjónarmið er sprottið af þröngsýni og ótta. Þröngsýni gagnvart því um hvað trúarlíf snýst og ótta við hið ókunnuga. Þau byggja á þeim fordómum að fólk sem trúir sé frábrugðið öðrum, eigi ekki samleið með öðrum og eigi að snauta inn í skáp með það sem gefur lífi þeirra gildi, innihald og tjáningu. Því er hafnað að vitund um hið heilaga sé þeim kær. Þetta er að gerast í þjóðfélagi sem hefur í sívaxandi mæli hvatt fólk til að stíga út úr kompum sem ýmsir fordómar fyrri tíðar hafa hrakið þau inn í. Við dáumst að fólki, og það sem réttu, sem hefur af seiglu haldið sínu striki þvert á þvinganir samfélagsins og lifað sem sannar manneskjur. Við vitum líka af fólki sem hefur bugast undan áþján fordóma. Það er tjón sem við ættum öll að harma.

Það er ólíðandi í nútímaþjóðfélagi að hafðir séu uppi tilburðir til að ritskoða með útstrikun þær staðfestingar sem annað fólk gerir á lífsgildum sínum með því að gera það ósýnilegt á opinberum vettvangi. Það er ekki jafnræði heldur misrétti. Það er kúgun. Í raun er verið að senda þau skilaboð að knýi trúarsannfæring fólks það til að láta gott af sér leiða í veröldinni og taka á samfélagsmeinum með virku framlagi til velferðar þá skuli það gert undir rós, undir veraldlegum merkjum og umfram allt að láta þess ekki sjást merki. Hver er ávinningurinn af því fyrir samfélag mennskunnar?

Ég fagna því þegar Háskóli Íslands kemur til móts við þarfir nemanda sinna, hvort sem það snýr að eflingu náms eða persónulegrar velferðar nemenda og hvet til áframhaldandi umræðu og úrlausna á hverju því sviði er það varðar. 


mbl.is Vilja leggja niður alla aðstöðu til trúariðkunar innan HÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veggteppi um þjóðarmorð í vinnslu

Bakgrunnur veggteppisVeggteppi sem ég er að vinna að núna fjallar um þjóðarmorð. Þetta er hluti af lokaverkefni við námskeið um guðfræði mannréttinda þar sem viðfangsefni okkar er þjóðarmorð. Við erum að lesa reiðinnar býsn af veraldlegum textum um málefnið og eigum svo að skrifa í lokin 20 síður af okkar eigin guðfræðilegu umfjöllun um það. Mér fannst það satt að setja heldur rausnarlegt þar sem flestir nemendur í námskeiðinu hafa lítinn guðfræðibakgrunn, hafa jafnvel ekki enn lokið grunnnámskeiðum í trúfræði og margir á fyrsta ári. Án þess að gorta þá hefur mér fundist þetta frekar þunnur þrettándi, verandi sjálf á fimmta ári í guðfræði. Það þýðir þó ekki að ég sé eitthvað flinkari en hinir, bara að nálgun efnisins dansar frekar á jaðrinum og gengur lítið á dýptina. Ritgerðin vafðist mikið fyrir mér. Ég var eiginlega bara strand. Þangað til kvöld eitt er ég gekk til sængur og lagðist á koddann. Ég var með hugann við þetta námskeið og frústrasjón mína. Svo ég spurði sjálfa mig, og það ekki í fyrsta skiptið, hvernig ritgerðarefni mitt liti út ef það væri mynd. 20 sekúndum seinna var það komið á hreint, þemað mótað og hönnun veggteppis lokið.

Þá lagði ég til við kennarann, sagðist ekki skilja verkefnið en ég gæti saumað veggteppi og skrifa styttri ritgerð um inntak þess og guðfræðilegan grunn. Hún féllst á það enda samkvæmt stefnu skólans. Mig grunar samt að hún hafi enn háleitari hugmyndir um þessa ritgerð en ég. Það hvarflar ekki að mér að skrifa fleiri en 10 síður. Enda er það vandasamara að skrifa styttri ritgerðir en lengri. Ég fæ þá bara mínus fyrir þennan kúrs.

Verkið mitt fjallar um mikilvægi vitnisburðarins - frásögn og hlustun. Biblíulega grunninn sæki ég í frásögnina af drápi Kains á Abel þar sem blóð Abels hrópaði til guðs af jörðinni. Einnig byggi ég á innreið Jesú í Jerúsalem þegar fólkið hrópaði honum lof og frammámenn vildu þagga niður í því. Jesús sagði af ef þau þögnuðu mundu steinarnir hrópa. Tesa mín gengur út að ódæðisverkin verða ekki hulin. Jörðin, sem við erum sköpuð af og hverfum aftur til þegar við deyjum, geymir vitnisburðinn.

Myndin er af bakgrunninum sem ég er búin að sauma fyrir verkið. Yfir þetta koma fótspor sem halda svo áfram út úr verkinu. Litavalið er innblásið af svart hvítum fréttamyndum en í gráum og grænum tónum.


Engan skyldi undra...

Umferðarmerki...að það þurfi enskukunnáttu til að aka bíl af öryggi um stræti Vesturheims. Hér er mikið af umferðarskiltum án tákna og er texti notaður í staðinn. En það er ekki nóg að skilja ensku. Maður þarf líka að vera mjög hraðlæs - á ferð - og hafa rétta sjónskerpu til að greina textann á annað borð. 

 


mbl.is Sektuð fyrir lélega ensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gluggagægjur

Er ekki hægt að höfða gagnsókn?
mbl.is Handtekinn fyrir að hella upp á kaffi berrassaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meistaraverkefni í guðfræði

Hér að neðan er kynningarmyndband sem ég bjó til vegna vettvangsrannsóknar til undirbúnings meistararitgerð minni í guðfræði við Wesley Theological Seminary. Þetta bjó ég til fyrir fund með áhugasömum sjálfboðaliðum í skólanum. Ég hef svo hugsað mér að endurtaka tilraunina á Íslandi.

 


 

 

 


Skapandi viðbrögð

 
Ljósmyndirnar voru teknar í New York á sýningu American Folk Art Museum og á minningarsafni um harmleikinn 11. september 2001. Í lokin er mynd af verki eftir sjálfa mig. Tónlistin er flutt af Sigurði Flosasyni og Gunnari Gunnarssyni, af diski þeirra, Sálmar lífsins.

mbl.is Átta árum síðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband