Færsluflokkur: Bloggar

Song Dong: Waste Not

Sýningin "Waste Not" eftir kínverska listamanninn Song Dong í samvinnu við móður hans er uppsetning á munum sem fjölskylda hans hélt til haga. Þetta hófst með áróðri menningarbyltingarinnar um að sóa engu. Þetta var líka nauðsynlegt því skortur var á öllu mögulegu. En svo komst þetta upp í vana og hélst við eftir að þjóðfélagið fór að innleiða kapitalisma  og aðgangur að nauðsynjum varð eðlilegri. Eftir að faðir listamannsins dó varð söfnun móður hans að sjúklegri áráttu til marks um að hún gat ekki sleppt hendinni af látnum eiginmanni sínum. Hún lét loks til leiðast að fara í gegnum safnið sem sorgarvinnu með hjálp sonar síns og setja það síðan upp sem sýningu til að votta minningunum virðingu og finna lífi sínu merkingu í nýju samhengi. Á miðju gólfi stendur burðargrindin úr húsi gömlu konunnar. Hennar umsögn um sýninguna var þessi: "Það var þá aldrei að þetta ætti ekki eftir að koma að notum."

Hér er stutt myndband sem ég bjó til úr ljósmyndum sem ég tók á sýningunni og er ég þar að æfa mig á nýfenginni kunnáttu af námskeiði sem ég sit nú í haust um notkun margmiðlunar í safnaðarstarfi.


David - the young artist

David at Metropolitan Museum of ArtThis is David, a creative boy I ran across in the Metropolitan Museum of Art in New York. As I watched him draw with passion his own impression of Jackson Pollock's, "Number 28", I could only admire the power in his strokes of crayon against the paper in his hand.

David, I wish you well on your continued adventures into a playful life.

David graciously allowed me to take his photo with his mother's permission.


New York - Dagur 2

Þessi færsla er færð til bókar eftir á. Sjá skráningardag hér að neðan. Myndir koma síðar.

Fimmtudagur, 27. ágúst 2009

Eftir að hafa neitað mér um að fara á fætur klukkan rúmlega fimm í morgun þegar ég vaknaði tókst mér að steinsofna til hálf sjö. Ég vaknaði útsofin og hvíld, fékk mér tebolla, trefjastöng og banana á meðan ég glápti á spjallþætti morgunsjónvarpsins, fór svo í sturtu, gerði mig túristaklára og furðaði mig svo á að klukkan var ekki enn orðin hálf níu. Nú í lok dags skil ég ekkert í þessu drolli á mér og hef uppi fögur fyrirheit um að vera farin út fyrir allar aldir í fyrramálið.

 

Fyrsti áfangastaður dagsins var World Trade Center reiturinn. Svæðið er girt af og tjaldað fyrir vegna framkvæmda og því erfitt fyrir gangandi vegfarendur að átta sig á aðstæðum. Eftir að hafa sótt minningarsýningu við Liberty Street sem liggur meðfram reitnum fór ég á Burger King á horninu og fékk mér hábít. Þar smokraði ég mér út í glugga og tók yfirlitsmynd. Eftir að hafa séð fréttamyndir í gegnum árin allt frá falli turnanna árið 2001, rifjað þær upp á safninu og sjá svo gryfjuna eins og hún lítur út í dag með byggingarkrönum, flutningabílum og aðföngum, kom mér til hugar orðasambandið “iður jarðar”. Þarna er nýtt líf í mótun og það sem fyrir augu ber eru innyfli þess. Framtíðarsýn er í mótun, ofin í móðurlífi þjóðarsálar.

 

Ég gekk svo út og fékk mér sæti á torgi við hornið til að ráðfæra mig við leiðsögubókina góðu. Þá fór í gang hver lúðurinn á fætur öðrum með slíkum óhljóðum að ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Þar sem hvorki datt né draup af fólki í kring sat ég sem fastast þegar torgið fylltist af byggingaverkamönnum í fullum herklæðum, galsafegnir og sennilega hvíldinni fegnir. Einn settist hjá mér og við tókum tal saman. Ég sagði honum að mér liði eins og ég væri í fráteknu sæti innan um alla þessa verkamenn. Hann bað mig sitja áfram því þetta væri reglubundin brunaæfing og þeir færu allir aftur að vinna von bráðar.

 

Þaðan lá leið mín á Metropolitan Museum of Art. Það var heljarinnar ferðalag, þrjár lestir og góður göngutúr. Safnið var engu líkt. Ég valdi mér lítið brot af því og var það samt meira en nóg og dugði mér ekki dagurinn í þær tvær deildir sem ég vildi skoða. Eftir 3ja tíma viðveru ákvað ég að fara og það tók mig hálfan annan tíma að komast út. Það var alltaf eitthvað sem glapti mig. Heimsóknin á safnið verðskuldar heila færslu út af fyrir sig.

 

Klukkan var orðin 6 þegar ég skreið inn á hótelherbergið. Ég hlóð myndum dagsins inn á tölvuna, 122 talsins og af rælni leitaði ég að opinni nettengingu. Það tókst svo ég talaði smástund við eiginmanninn og náði að setja inn færslu gærdagsins á bloggið áður en línan slitnaði. Eftir tveggja tíma hvíld var orðið tímabært að fá sér kvöldmat svo ég gekk aftur út og beit á jaxlinn þegar þreytan í fótleggjunum ætlaði að gera út af við mig. Ég gekk niður eftir Broadway, enda hótelið á horni Broadway og 73ja Vestur stræti. Svengdin var farin að hrjá mig en alltaf vildi ég ganga aðeins lengra. Ég átti eftir iðrast þess því ég var farin að hafa áhyggjur af því að hníga hreinlega niður enda varla búin að borða síðan fyrir hádegi. Þegar ég var komin niður á Times Square spyrnti ég við fótum og sagðist ekki fara lengra, fór inn á næstu hliðargötu og fékk mér samloku. Lestina tók ég til baka frá 42. stræti. Það er náttúrulega bilun að ganga allan daginn og halda svo áfram um kvöldið eins og enginn sé morgundagurinn. Fjórir dagar í New York eru varla upp í nös á ketti svo ég má hafa mig alla við.


New York - dagur 1

Þessi færsla er færð til bókar eftir á. Sjá skráningardag hér að neðan. Myndir koma síðar

Miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Í morgun lagði ég land undir fót í örstutt sumarfrí, 4 daga. Þar sem þetta er fullstutt til að fara heim til Íslands fór ég til New York með rútu. Það var í upphafi draumurinn að komast þangað einhvern tíma, helst á meðan ég væri úti, en þar sem skólafríin fram að þessu hafa verið bókuð í annað og sama verður uppi á teningnum á haustönninni þótti mér þetta kærkomin sárabót. Mig langar svo mikið til að fara heim núna að ég á hreinlega bágt.

Ég var eins og dreifbýlisálfur þegar ég kom inn á Penn lestarstöðina. Þó eiðsögubækur segi manni af öryggisástæðum að líta út eins og maður viti hvert maður sé að fara er mér gjörsamlega fyrirmunað að gera mér upp slíkan kunnugleika á staðháttum svo vel fari. Með slíkum látalátum mundi ég líta út eins og óknyttastelpa, flautandi með stút á vörum, skondrandi augum hingað og þangað á meðan ég mundi sverja af mér allan tilgang með veru minni á brautarpallinum. Í Washington DC hef ég heyrt “utanbæjarfólk” tala um hvað lestarkerfið sé flókið og stressandi. Í samanburði við New York er DC eins og sandkassi á róluvelli! Ég rambaði á rétta lest í fyrstu atrennu og skrímslið spýtti mér upp á yfirborðið á réttum stað á Efri Vestur Síðu. Hótelið er handan við næstu gatnamót.

Eftir að hafa pústað smástund, fengið mér að drekka og strokið af mér svitann skoðaði ég möguleikana á skoðunarafrekum með hliðsjón af því hvaða menningarsetur væru í grenndinni því það styttist í algengan lokunartíma. Ég setti stefnuna á Lincoln Center því leiðsögubókin sýndi á mynd að þar handan við götuna væri American Folk Art Museum.  Aftur reyndi ég við lestina og hafði erindi sem erfiði. Þegar ég kom út að horninu sá ég bara musteri hinna síðari daga heilögu. Enn braut ég reglur leiðsögubókarinnar, dró hana upp á úti á götu, fletti og horfði í kringum mig. Kirkjan stóð sem fastast svo ég ákvað að ganga þangað samt eins og Indiana Jones í trausti þess að mér yrði að þeirri trú minni að dyr safnsins lykjust upp fyrir mér þegar að þeim kæmi. Og viti menn, svo varð!

Byggingin leyndi á sér því hún hýsir líka ítalskt kaffihús og útibú frá Alþýðulistasafninu. Enn reyndi þó á trú mína því á útihurðinni stóð að þetta væri safnabúðin. Inn fór ég, í það minnsta til að spyrja hvar safnið væri því leiðsögubókin var vita gagnslaus. Mér þótti ég himinn hafa höndum tekið enda komin inn baksviðs í musteri hinna síðari daga heilögu. Safnið er þarna með útibú og þar stendur nú yfir myndarleg sýning á listrænum bútasaumsteppum. Safnvörðurinn sagði mér að það væri opið lengi í dag, til hálf átta, svo ég þurfti ekkert að flýta mér. Teppin þarna eru eftir afró-amerískt listafólk sem vinnur með þemu jassins í menningararfi sínum og lífsreynslu. Það var yndislegt að sjá þessi verk. Sum hver voru stórvel hönnuð, önnur skemmtilega útfærð og sum mjög persónuleg.

Safnvörðurinn svo síðar að það stæði yfir önnur quilt sýning í aðalsafninu. Það lá við að það liði yfir mig þegar ég vissi hvað er í boði – ein sú allra frægasta meðal bútasaumara, Paula Nadelstern, er að sýna kaleidoskóp teppin sín. Það verður opið þar lengur á föstudag svo þá ætla ég þangað í sömu ferð og á MOMA, Museum of Modern Art. Það verður heilsdagsferð. Aðrir mega flykkjast á Never Never Land þessa dagana og skæla þegar þeir sjá kvikmyndastjörnur en ég ætla að fara á taugum á föstudaginn og skjálfa við teppin hennar Pálu.

Ég gekk þessar 10 blokkir til baka til að sýna mig og sjá aðra. Skrapp ég inn í tvær smáverslanir og sá að þar er ekki verið að spandera í gólfpláss enda leigan örugglega svimandi há á hvert ferfet. Ég var hungruð sem ljón þegar ég kom til baka á hótelið og hugði mér gott til glóðarinnar enda enn helmingurinn eftir af samlokunni sem ég tók með mér í rútuferðina. Þar sem ég sat uppi í rúmi og japlaði á henni á meðan ég horfði á sjónvarpið varð mér ljóst að ég yrði að fara aftur út fyrir nóttina og kaupa mér eyrnatappa. Það var fólk í næsta herbergi. Mig langar ekkert að vita hvernig þau ætla að verja hvíldartíma sínum í háborg ferðamennskunnar auk þess sem mér veitir ekki að svefnhvíld ef mér á ekki að svelgjast á Stóra Eplinu og leggjast í dvala eins og Mjallhvít þegar ég kem aftur til DC.


Er heil brú í heilfæði?

Þetta er búðin sem vildi ekki styggja viðskipavini sína og hætti því að kynna íslenskar vörur sem þar eru seldar þegar Íslendingar hófu hvalveiðar að nýju. Sölu var þó ekki hætt því þessar vörur seljast víst ágætlega og það eru ekki bara Íslendingar sem kaupa þær. Þar hef ég rekist á smjör, osta, skyr, súkkulaði og vatn frá Íslandi auk þess sem búðakeðjan ætlaði í skipulagða markaðssetningu á íslenskum silungi í vor en hætti við vegna þess að við hófum hvalveiðar að nýju.

En nú skil ég af hverju 4 lögreglumenn voru á bílastæði Whole Foods í Bethesda í gær að segja fólki til í hvaða stæði það skyldi leggja. Ég hélt að kannski væri von á frú Obama í helgarinnkaupin. Mér fannst það mikill lúxus að þurfa ekki að leita að stæði en fannst það ofþjónusta að fá vopnaða lögreglumenn í verkefni sem illa sofnir unglingar í netvestum sinna með hangandi hendi við Kringluna heima um jólin.


mbl.is Viðskiptavinir mótmæla forstjóranum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stúdentamatur

Túnfisksalat með brösuðum kartöflum og sterkum ostiNú er um að gera að borða það sem átekið er í ísskápnum. Mig langaði í eitthvað verulega gott í kvöldmatinn því ég hef verið að horfa á túrbó kokkinn Gordon Ramsey elda hvern gómsætan réttinn á fætur öðrum í veitingahúsum sem hann veitti yfirhalningu. Ég rölti upp í eldhús enda búin að afþýða ísskápinn minn, þrífa hann og bera upp að útidyrum. Ég smalaði ýmsu á salatdisk á meðan ég lét mig dreyma um hágæðaeldamennsku. Salatið reyndist ekki sem verst en öllu verra var að þegar ég var hálfnuð með það kemur á daginn að veitingahúsið sem Gordon er í akkúrat núna er undirlagt af kakkalökkum, flugum og rotnandi mat. Ég lét því restina að salatinu bíða fram að næstu auglýsingum og skóflaði restinni í mig á meðan ég horfði á tryggingasala banna börnum að leika sér því dót væri hættulegt og ótryggt.

Salatið góða er Baby Aragula, túnfiskur, paprika, tómatur, sterkur ostur, afgangur af pönnubrösuðum karftöflum með lauk og loks gráðaostasósa með. Mér varð að góðu.


Beint á ská 1 1/2

Þessi dagur hefur verið frekar á ská. Loftkælingin í húsinu bilaði snemma í sumar og ég var orðin frekar úrvinda um hádegisbilið hér inni í 27 stiga hita og 70% raka. Úti var öllu verra, sama rakaprósenta með 32 stiga hita. Núna klukkan hálf ellefu að kvöldi er hitinn úti enn 30 gráður á celsíus. En aftur að að fyrri stöðu mála. Nýþvegið hárið var farið að klístrast við hálsinn á mér og kveikti hjá mér þá löngun að fara í klippingu. Eftir að hafa útskýrt vel og vandlega fyrir klipparanum hvað ég vildi og hvað ég vildi ekki og fengið það staðfest til baka hvernig hárið yrði klippt gat ég ekki annað en brostið í grát þegar konan færði sig frá speglinum fyrir framan mig og ég sá hvað hún hafði gert við hártoppinn á mér. Konan sagði, "Ekki gráta, það vex aftur." Ég gat bara stunið upp, "Já, en mig langar að lita vel út." Ég held ég hafi núna samúð með útrásarvíkingnum sem við fréttum að hefði eytt 700 dollurum í klippingu. Það hefur sennilega verið þrælslundin mín sem knúði mig til að borga samt þjórfé fyrir klippinguna.

Ég fór í bókabúðina til að hressa mig við, keypti handavinnutímarit og fór þaðan í bakaríið. Ég varð voða glöð að sjá að eina borðið í bakaríinu var laust svo ég ætlaði að setjast niður með tebolla og tímaritið. Þegar röðin kom að mér segir konan á undan mér við samferðafólk sitt, "Við skulum bara setjast við borðið." Ég tróð mér framhjá gólfviftunni og settist í gluggakistuna og hefði svitnað ofan í tebollann ef ekki hefði verið lok á honum.

Úr bakaríinu fór ég í matvörubúðina eftir mjólk og öðru lítilræði sem þegar upp var staðið reyndist 48 dósir af alvöru gosi á sjokkprís og ætti að endast mér til jóla. Það sem ég stend í kassaröðinni er byrjað að kalla á 3 bíleigendur í hátalakerfinu og biðja þá að færa bílana sína tafarlaust af stöðusvæði slökkviliðsins ella yrðu þeir dregnir í burtu og eigendurnir sektaðir. Ekkert bólaði á bílstjórunum og starfsfólkið á kössunum fór að skiptast á skoðunum. Um leið og minn maður byrjar að skanna vörurnar mínar segir hann hátt og snjallt við vinnufélaga sína, "Af hverju leysið þið þetta ekki bara í eitt skipti fyrir öll og skjótið þetta lið?" Svo leit hann á mig, bauð góðan dag og brosti. Ég brosti á móti og reyndi að vera viðkunnanleg á meðan mig langaði mest til að hlaupa út úr búðinni. Það sló ekki á kvíðann þegar hann endurtók tillögu sína við mig. Ég var smeykust um að einhver mundi firrtast við, ganga upp að manninum og skjóta hann. Og ef viðkomandi væri jafn óhittinn og ég væri allt eins líklegt að það yrði ég sem félli í valinn.

KattarhárÞegar ég kom heim er kötturinn að míga á gólfið, sennilega af því að hún þekkti ekki lyktina af kamrinum sínum því ég setti aðra tegund af sandi en verið hefur. Það var ekki mér að kenna, þetta var það sem eigendurnir skyldu eftir. Ég hasta á köttinn og stugga við henni, hundurinn verður æstur og stekkur á köttinn, kötturinn hvæsir, stekkur í burtu og hundurinn á eftir geltandi. Ég fór á eftir þeim báðum, henti hundinum út í garð og þreif svo upp eftir köttinn. Þegar ég er búinn að ganga frá vörunum kemur kötturinn mjálmandi. Ég gruna hana um græsku og elti hana. Þá var hún búin að skíta á sama stað og míga aftur við hliðina. Ég varð ekki glöð. Ég varð svo hundleið á þessu húsi og vildi bara komast í burtu. Ef kötturinn gerir þetta aftur þá fer ég með hann í klippingu þar sem ég fór í dag.


Icesafe í hnotskurn


mbl.is Segir einhug um að vísa eigi málinu frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmæli og andmæli

Potbelly samlokaUnglingurinn á afmæli í dag, 16 ára strákurinn. Klár og flottur strákur, eins og stóri bróðir hans. Ég er fjarri góðu gamni fjölskyldunnar sem fór út að borða og í bíó. Í tilefni dagsins fór ég því á uppáhalds samlokustað afmælisbarnsins, Potbelly, og fékk mér ítalska samloku í hádegismat.Mótmæli í DC

Tilefni ferðarinnar var að fara á Corcoran listasafnið. Ég hef verið að draga það að fara þangað til að eiga eitthvað eftir enda að verða búin með leiðsögubókina. Safnið reyndist lokað í dag svo það býður betri tíma. Á leiðinni gekk ég fram á mótmælendur sem höfðu uppi andóf vegna meðferðar Tyrkja á kristnum Koptum. Þegar ég kom til baka síðar hafði hópurinn verið leystur upp og um 15 lögreglumenn vörðu hornið. Þetta var á næsta götuhorni við Hvíta húsinu. Þar við er svæði sem mótmælendur hafa getað athafnað sig á óáreittir haldi þeir almannafrið svo ég giska á að þetta fólk hafi staðið fyrir óleyfilegum mótmælum utan andófsmarka. Þetta er flókið líf. Ég set hér inn stutt myndband sem ég tók af mótmælunum í dag svo þið fáið stemminguna beint í æð.



Mark Newport: Superhero Ég fór því í staðinn á Renwick galleríið sem þið sjáið hinu megin við mótmælendurna á myndbandinu. Þar stóð yfir smellin sýning listamannsins Mark Newport sem prjónar ofurhetjubúninga sem passa engum frekar en nokkur getur staðið undir þeim væntingum að vera ofurhetja. Hér er umfjöllun um aðra sýningu hans og þar eru margar góðar myndir. Þessi hluti færslunnar er tileinkaður Ragnheiði, vinkonu minni, sem hefur gaman af því að fara með mér á söfn í veraldarvefnum.

 


Útskrift og sætar sælustundir milli stríða

CPE útskriftarhópurinnNú hef ég lokið námi mínu á fyrsta stigi í klínískri sálgæslu (Level I CPE). Framan af hélt ég að þetta ætlaði engan endi að taka en þegar námskeiðið var hálfnað fór tíminn loks að líða. Þetta er vel meint og í því samhengi að framan af vorum við að taka inn svo mikið af nýjum upplýsingum og finna þeim stað í kommóðum hugans að við keyrðum mikið til í yfirdrifi. Þegar á leið fóru hlutirnir að raðast með minni fyrirhöfn þar sem við átti.

Í tilefni dagsins bauð ég kóreskum kunningjahjónum mínum í kvöldmat. Í dag fagnaði ég svo með sjálfri mér í túrístastemmingu í gamla borgarhluta Alexandria í Virgínufylki og sleit skósólunum fram eftir degi á King Street þar sem úir og grúir af smáverslunum og veitingastöðum í gömlum, fínlegum húsum.

Alexandria, VirginiaNú sit ég við sjónvarpið og horfi á kvikmyndina "The Edge" með Anthony Hopkins og Alec Baldwin í aðalhlutverkum. Rétt í þessu var Hopkins að draga Baldwin upp úr gryfju sem hann hrakti hann í og situr með skyndihjálparbók til að kynna sér hvernig hann eigi að loka slagæð sem rifnaði í sundur þegar trjágrein stakkst í gegnum annað lærið á Baldwin í fallinu. Áhorfendur fengu ekki að sjá aðgerðina því framleiðendur nýttu sér meðvitundarleysi Baldwin til að skilja okkur eftir í óminni. En rétt í því sem ég hef lokið við að skrifa þetta er Baldwin dauður um leið og björgunarþyrlan finnur þá félaga. Ég held að myndinni sé að ljúka - konan stendur á bryggjunni.

Framundan er svo skólasetning að nýju eftir 2 vikur. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband