Færsluflokkur: Bloggar

Öskubuska og umbreytingin

Nú er komið að hinni síðari opinberun Sölunefndarinnar, þ.e. annar þáttur um hamskipti á heimavist. Fyrsti hluti, Öskubuska, var á dagskrá DC rásarinnar í ágúst síðast liðnum og löngu orðð tímabært að leyfa tryggum áhorfendum/lesendum að sjá hvernig nú er í pottinn búið hjá Fljóðinu við fljótið.

Hér eru "fyrir"-myndir. Skiljið þið mig núna þegar ég kalla herbergið Sölunefndina? Það eru kannski svolitlar ýkjur að segja að hjarta mitt hafi verið við það að bresta en það seig þó alla vega sem nemur einu rifbeini. Þó vissi ég á hverju var von því ég heimsótti skólann fyrir hálfu öðru ári. Ég held að það hafi aðeins dregið úr fallinu.

Sölunefndin 1  x

Sölunefndin 2

Nú er ég búin að færa húsgögn, setja gardínurnar í felubúning með því að festa mynstrað sjiffon utan yfir þær, fá mér gólflampa, setja upp lítil veggteppi eftir mig á veggina og þennan líka fína efnisbút eins og hið besta listaverk. Ég hef líka skipt um yfirbreiðslu á stólnum skelfilega. Margir leggja hann á hliðina og nota hann sem borð. Hann er ómeðfærilegri en ruslagámur og ámóta smekklegur. Þangað til ég datt niður á þetta fallega efni faldi ég stólinn með grænu flísteppi eins og sést á myndum í fyrri færslunni. Púðana fékk ég á sjokksölu í The Pier. Annað sem ég hef keypt var á útsölu eða svo ódýrt að það þurfti ekki að leita meira. Það hvarflar ekki að mér að eyða fúlgum fjár í þetta herbergi því ekki fer ég að dröslast með endurbæturnar með mér. En huggulegt skal það vera, svo langt sem það nær.

Ég var svolítið svekkt yfir staðsetningunni í húsinu til að byrja með en áttaði mig svo á öllum kostunum: það snýr frá bílaplaninu svo það er hljóðlátara, er í norðurátt svo það er svalara og ég get haft dregið frá gluggunum í hitasvækju á daginn, það hefur útsýni í stað þess að ég mæni á risa-campus-blokk American Universiti hinu megin við planið. Ég horfi á laufkrónur trjánna alveg upp við gluggann svo ég sé ekki til himins og í vetur þegar laufin eru fallin hef ég himininn eins og hann leggur sig því engar eru byggingarnar sem ná upp í sjónlínu héðan. Svo er ég bara á besta stað eftir allt saman ef allar breytur eru teknar með í reikninginn.

 


Bank, bank, einhver heima?

BankaútibúLoksins tókst mér að komast í bankann í dag. Það er stutt að ganga í næsta útibú sem er í krúttlegu, frístandandi múrsteinshúsi. Þetta var afar heimilislegt því til að komast í biðröð og fá afgreiðslu þurfti ég fyrst að skrifa mig inn í gestabók, svona af gömlu gerðinni með penna á blað. Það var heldur enginn vopnaður vörður við dyrnar. Hann kom reyndar inn á meðan ég beið, hefur kannski þurft að fylgja starfsmanni í einhverjum viðvikum sem gera miklar öryggiskröfur.

Þessi mynd er úr öðru útibúi en ósköp svipuðu hvað hönnun varðar. Ætli það hafi ekki verið um tíu gjaldkerastúkur en aðeins einn gjaldkeri. Hún sat með hönd undir kinn eftir að hafa afgreitt kúnna - nánast eins og hún ætti von á að mega bíða enn um stund. Rólegt útibú atarna.

Ég stofnaði bankareikning stuttu eftir að ég kom og gögnin hafa verið að tínast inn um lúguna hjá mér síðan. Fyrst debetkortið, svo lykilnúmerið, ýmsar tilkynningar út af nýjum reikning og svo loks eitt gluggaumslag. Já, þá fyrst hefur maður lifað þegar maður hefur fengið gluggaumslag. En það var nú bara reikningsyfirlit allra minn auðæva. Ég er nú hrædd um að aurarnir fari fyrir lítið ef íslensk stjórnvöld fara ekki að grípa í taumana svo það virki og hefti þetta gengdarlausa gengisfall krónunnar. Ætli ég verði ekki bara að halda bílskúrssölu í næsta fríi heima eða senda yngri soninn út með tombóludót.


9/11 Unity Walk

9/11 Unity WalkEiningarganga 11. september, "9/11 Unity Walk", fór fram í Washington DC í dag. Til hennar var fyrst efnt árið 2005 og ári síðar bættist New York við. Hér í DC er gengið eftir götu sem í daglegu tali er nefnd "Embassy Row" og í New York er farið um fjármálahverfið í kringum "Ground Zero". Allir trúarsöfnuðir sem hafa aðsetur við gönguleiðirnar hafa sameinast um framkvæmdina og taka á móti göngufólki með vatni, veitingum og velfarnaðaróskum. Tilgangurinn er einfaldur og skýr: að tengja fólk með skilningi og virðingu í garð hvers annars.

Ég slóst í hópinn og hlýddi m.a. á Arun Gandhi, barnabarn Mahatma Gandhi, og Mpho Tutu, dóttur Desmond Tutu. Mpho Tutu er nú í forseti göngunefndarinnar. Skipulagning göngunnar er mikil vogun og trúarhóparnir sýna fram á vilja sinn með ýmsu móti. Til dæmis var frátekinn salur fyrir bænahald múslima í samkunduhúsi gyðinga, hinu stærsta í borginni þar sem gangan hófst, enda stendur Ramadan mánuðurinn yfir. Inni í almenna samkundusalnum fór svo fram bænakall múslima í inngangi að dagskrá göngunnar.

Hér fylgja nokkar myndir og er skólafélagar mínir á þeirri síðustu.

9/11 Unity Walk9/11 Unity Walk9/11 Unity Walkwts 229compr9/11 Unity Walk

 


Góða veislu gjöra skal

Það reyndust mér mikil búdrýgindi að söfnuðurinn í Mount Olivet, meþódistakirkju í Arlington, kom færandi hendi með kvöldmat handa okkur nemendunum. Mötuneytið er aðeins opið fjóra daga í viku svo við sjáum um okkur sjálf hina dagana við heldur bágbornar aðstæður. Ég var rétt ófarin niður að elda þegar mér bárust boðin um "Community Dinner" og á ég því enn til góða steiktu kalkúnabringuna sem ég keypti á ofurtilboði fyrir viku og frysti. Hún fer í ofnrétt sem ég svo frysti í skömmtum.  En nóg um það.

Hlaðborð Mount Olivet Hlaðborð Mount Olivet

wts 195compr

 

 

 

 

 

 

 

 Hlaðborðið sem okkur var boðið upp á var fjölbreytt og hið girnilegasta. Ekki einasta fékk ég kvöldmat í dag  heldur fékk ég líka afganga til að eiga á morgun. Þegar ég spurðist fyrir um spínat með pólentu var mér bent á að ein úr hópnum, Lisa, hefði eldað hann. Ekki einasta fékk ég leiðbeiningar um hvernig ég skyldi malla hann heldur góðan slatta af elduðu spínati sem ég svo frysti. Lisa sagði mér að spínatkássuna gæti ég fengið mér með ommilettu, inn í samloku, með maísbrauði, bætt í hana tómötum eða notað í böku. Fyrir nú utan að kaupa mér hrað-pólentu og skella sjálf í einn svona spínatrétt sem mér fannst svo góður.Lisa og Ólöf

Ýmsir söfnuðir munu víst færa okkur stundum mat á laugardögum. Þetta er rausnarlegt góðverk og mikil gjafmildi. Við vitum ekki með fyrirvara hvort það kemur matur svo ætli ég plani þá ekki frekar að elda á föstudegi. Föstudagur á reyndar að vera flakkdagur hjá mér, þ.e. ef ég ætla á flakk þá á nota ég föstudag og gríp mér eitthvað hentugt í helgarinnkaupum á leiðinni heim. En þetta þarf nú allt að vera eftir hjartslætti eins og hjá öllum hagsýnum húsmæðrum.


2+2=4

Einstein að ullaÞað er ekki eðlilegt hvað fólk getur verið fyndið án þess að vita það.

Sú saga gengur innan guðfræðideildar Háskóla Íslands að aðrar deildir segi að fólk læri guðfræði af því það sé glatað í stærðfræði. Ég er á þveröfugu máli og segi að séð fólk glatað í stærðfræði þá ráði það ekki við guðfræðina. Þessu til staðfestingar hef ég setið við að reikna út skapalón fyrir kirkjulistaverk í yfirstærð og er byrjuð að teikna formin upp. Það hefði ekki verið vinnandi vegur fyrir guðfræðinema sem er glataður í stærðfræði.Skapalón

Nema hvað, mig vantaði stóra reglustiku sem ég hafði fengið lánsloforð um frá listamiðstöðinni og fór í morgun að sækja gripinn. Var þá aðeins við skólafélagi minn, guðfræðinemi í hlutastarfi á skrifstofunni. Í leiðinni sýndi ég honum sirkil og spurði hvort hann gæti sagt mér hvað þetta héti á ensku. Hann glennti upp augun, blés þungan og sagði: "Ég veit það ekki, ég var glataður í stærðfræði."

Hér til hægri getur að líta fyrsta áfanga, einn áttunda úr hring sem er tveir metrar í þvermál - án þess að hafa risa sirkil 


Grænmeti er góðmeti

LarryBoy ICaleb litli átti stjörnuleik með barnapíunni, Samantha, þegar ég fór út eftir hádegi í dag. Um leið og ég steig út á stétt sagði hann ákveðinn, "Þú mátt ekki sjá hvað við erum að gera". Ég sagði þá að það hlyti að vera eitthvað ákaflega spennandi. Þá brosti hann út undir eyru og spurði hvort ég vildi leika við þau. Svo ég spurði á móti hvort ég mætti það og það var auðsótt svo fremi að ég vildi teikna LarryBoy. Ég var til í það ef Caleb væri til í að hjálpa mér því ég vissi ekki hvernig LarryBoy liti út. Það var auðsótt og fékk ég greinargóðar leiðbeiningar og leiðréttingar eftir því sem þörf var á. Það mátti ekki nokkur maður ganga svo hjá að sá stutti reyndi ekki að lokka til leiks en margir sögðust illa til þess í sveit settir -  ýmist á leið á skrifstofuna, í fínu fötunum, kunnu ekki að teikna LarryBoy eða vissu ekki hver hann er.

LarryBoy IISvona fyrir þá sem ekki vita, enda ég nú öllu fróðari, þá er LarryBoy ein hetjanna í Veggie Tales sem framleitt er af "Big Idea" með því markmiði að efla andlegt og siðrænt samfélag með skapandi fjölmiðlun, svo ég vitni nú í vefsíðuna, enda komin með LarryBoy og félaga hans á hreint.

Ritað þriðjudaginn, 9. september 


Íslenskunemar í Washington DC

The Washington Icelandic MeetUpHér í Washington hittist vikulega hópur innfæddra sem lærir íslensku á eigin spýtur. Þennan hóp fann ég í gegnum vefsíðuna Meetup sem hýsir tengslanet þúsunda hvers kyns áhugahópa víða um heim. Hópurinn hittist í Pálínuboði í heimahúsi þetta skiptið og horfðum við saman á kvikmyndina "Djöflaeyjuna".

Félagar báru á borð kynstrin öll af íslensku góðgæti. Gestgjafinn, Matthew, bar fram Fjallagrasamjólk, Veronika bakaði Ástarpunga, Joe gerði síldarsalat með eplum og rauðrófum, Jessica hafði bakað rúgbrauð og Noah kom með Reyka Vodka og Síríus súkkulaði. Útslagið gerði skyráskorun Joe, "Þekktu Skyrið", þar sem bera þurfti kennsl á íslenskt skyr meðal annarra mjólkurafurða. Eins og í öllumSkyráskorun rammíslenskum veislum voru fjölmargar kræsingar aðrar á borðum og laumaði ég þar að lakkrísnum góða sem ég maulaði hér á í fyrri færslu.

Það var, satt að segja, svolítið ævintýralegt að fara í heimsókn á bandarískt heimili og fá íslenskar veitingar og íslenska afþreyingu ofan í íslenskar umræður. Inn á milli fannst mér þau öll vera Íslendingar. Ég dáist að fólki sem tekur það upp hjá sér að læra móðurmálið mitt. Mér finnst það jaðra við sérvisku og velti því fyrir mér í aðra röndina hvort það sé allt í lagi að umgangast slíka einstaklinga.

Íslenskar kræsingar í DCEin í hópnum er í doktorsnámi í mannfræði við háskólann hérna við hliðina á mér. Við eigum örugglega eftir að hittast á skólatíma. Þetta er í rauninni frekar íslenskt fyrirbæri: að þvælast út í heim og finna heimtaugina í næsta húsagarði.

Skyldi einhver íslensk stofnun eða félag styðja við starf slíkra hópa í íslenskunámi?

 


Vín og rósir

I grasagardinumLaugardagur til lukku með fellibylnum Hönnu. En Ike er væntanlegur og hann er víst öllu hressari. Hanna lét lítið fyrir sér fara hérna í Spring Valley hverfinu eftir því sem ég best veit. Hér var logn í allan dag en rigndi þessi lifandis býsn. Eitthvað var um vatnsflaum og flóðaskemmdir í borginni og einn maður lét lífið er hann misst stjórn á bíl sínum á blautri hraðbraut. Ég set hér inn tengil á vefsíðu Washington Post. Það er allsendis óvíst að hægt sé að skoða myndirnar þar endalaust og kannski þarf að skrá sig inn. En allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Síðdegis þegar stytti upp fór ég í gönguferð og kom við í matvörubúð. Mig langaði í vín með kvöldmatnum og fann flösku á fínu verði, aðeins fjórir dalir, en tappatogari kostaði 15 dali svo ég lét hann eiga sig en lét ræksnið í félagseldhúsinu í kjallaranum duga. Ég held það beri vott um mikið vanþakklæti að segja að aðeins í Gúlaginu hafi fólk haft verri eldunaraðstöðu. Og þó, leigan hér er ekki með afslætti og aðstaða önnur á ýmsan hátt verri en gera má ráð fyrir á almennum leigumarkaði fyrir þetta verð. Eftir að hafa fengið tortillur þrisvar þessa vikuna í mötuneytinu og innanskafnar leifar af lasagna fjórða daginn fannst mér tímabært að fá alvöru mat - með sósu. Sósa tíðkast ekki hér, ó, nei. Svo ég eldaði mér hakkbollur með gráðaosti og gerði með því alvöru lauksósu og heimagerða kartöflumús. ÞettaVeigamikill kvoldverdur var himnesk máltíð. Þessu skipti ég í box og frysti. Nokkrir strákar hérna á vistinni spurðu hvort ég væri ekki til í að elda með þeim einhvern tímann. Ég held að þeir hafi fengið heimþrá og matarást á mér.

Vínið reyndist ágætis sull með salatinu og leifunum af gráðaostinum frá í gær. Af því að fólk með vínvit krefst nánari upplýsinga þá var þetta hvítt Zinfadel frá Woodbridge vínekrunni. Og gúggliði svo! Þeirra mottó er að fólk fái gott vín við öll tækifæri. En það sel ég ekki dýrara en ég keypti, fjórir dalir - á tilboði. Það er bannað að vera með áfengi í sameiginlegu rými heimavistarinnar svo ég sat nánast eins og í skammarkrók með matinn minn og flöskuna inni á herbergi. Það komst þó upp um mig því ég þurfti að leita mér aðstoðar við að ná gúmmítappanum í flöskunni. Alls staðar kom ég að lokuðum dyrum því allir voru niðri að horfa á sjónvarpið. Tappanum náði ég þó úr eftir að hafa troðið togararæskninu nánast í gegn. Mér var sagt hér að við Evrópumenn borðum alltaf svo seint. Ætli það sé nokkuð betra að borða fyrr og vera svo að nasla nammi og snakk allt kvöldið?

KakoavoxturFöstudagurinn fram að kjötbollum var hinn ánægjulegasti. Ég fór með Anne, þýsku kærustunni sem ég hef áður nefnt, í grasagarðinn. Það var frábær ferð, fallegt umhverfi, gott veður þrátt fyrir hitann og yndislegt að komast frá skólalóðinni. Ég sá kakótré með ávöxtum í fyrsta sinn á ævinni, fjöldan allan af orkideum og sá ótrúlegustu listaverk sem líktu eftir plöntum. Þetta var ágætis inngangur að bók sem ég er að lesa á námskeiði um skapandi leik í þjónustu umönnunar. Bókin er nokkurs konar "standard" eftir... ég get ekki skrifað það, verð að afrita og líma... Mihaly Csikszentmihalyi... og heitir "Creativity". Meira um það seinna. Núna segi ég bara: "Skál!"

Ritad laugardaginn, 6. september


Í hitamóki

Það var heitt í dag, svo heitt að þegar ég fór út í frímínútum um tvöleitið var eins og ég gengi í gengum stífan svamp og lungun fylltust af steypu en ekki fersku lofti. Það er víst svona heitt því nú haustar að og þá gefur sumarveðrið yfirleitt hressilega í. Hitinn verður orðinn notalegur í október. Á mínu heimili heitir það nú bara sumar. Einu ummerki haustsins sem ég sé er litur laufblaðanna. Þeim gulu fjölgar og falla til jarðar.

Skirnarfontur WTSÍ kvöldstillunni var messa úti í skólagarðinum undir skjólsælum trjám milli húsa. Það bærðist ekki loginn á kertum sem stóðu á altarinu. Það er ný sýn að sjá fólk ganga berfætt í grasinu til altaris og taka við efnunum, svolítið Jesúlegt. Sjálf var ég klædd í stuttbuxur og ermalausan bol, nokkuð sem ég hef aldrei áður gert við guðsþjónustu. Það var ekki nokkur vegur að vera í skálmum og ermum. Ég fann til með prestinum sem var í síðri ölbu yfir eigin fatnaði. Það var þó ekki á henni Lucy Hogan að sjá að henni væri heitt, ekki heldur í hamsi. Hún hefur áheyrilegan ræðustíl, drífandi, hnittin og oft íbyggin. Mér var ráðlagt að taka predikunarnámskeið hjá henni ef mig langaði á slíkan kúrs. Hér er líka annar kennari í predikunarfræðum þar sem fólk getur drukkið í sig alla takta blakkra eldklerka og verið hreykin af því. Það gæti líka verið ágætis viðsnúningur fyrir mig að taka það upp.

En núna sit ég og reyni að negla saman handrit að kórlestri ritningartexta. Það er áhugavert miðlunarform í stað þess upplesturs sem við eigum að venjast á Fróni. Ætli ég taki ekki fyrir guðspjall næsta sunnudags um son ekkjunnar í Nain.


Dæmigerð dagbókarfærsla

SturtusveifÞessi dagur hefur verið svona sitt lítið af hverju, aðallega í því skyni að koma að einhverjum skólabókalestri. Eftir að hafa lesið fram eftir morgni í nokkrum skorpum fór ég að taka svolítið til inni hjá mér, m.a. að hella burt vatni af loftkælingunni háværu. Það vildi nú ekki betur til en svo að þegar ég sturtaði svo niður í klósettskálinni að vatnsflaumurinn hélt uppi óstöðvandi för sinn um pípulagnir skólans og ég veit ekki hvert. En þar sem öll vötn renna til sjávar vona ég að það skili sér þangað á endanum. Til að halda vatnsreikningi skólans innan eðlilegra marka voru góð ráð dýr enda Erfiðishelgin (Labor Day weekend) á hápunkti og það á messutíma. Alla vega voru allir símar á talhólfi þegar mér loksins tókst að hafa upp á einhverjum númerum til að hringja í. Loks, eftir tveggja tíma frárennsli kom kona með skrúflykil og lagði til við pípulögnina og kom þá í ljós að þetta var undantekningarsalernið sem þurfti að nota skrúfjárn á. Ég er nú ekki svo mikil kveif að hafa ekki reynt að stoppa þennan vatnsflaum en hnífsblaðið dugði mér ekki eftir þá upplýstu ágiskun að skrúfgangurinn væri falinn undir rósettunni hinu megin við sturtusveifina. Ég bíð ekki í það hvernig farið hefði ef lögn hefði gefið sig og flætt úr um allt. Þá hefði ég nú bara hringt í 9-1-1.

Epikuriskur samtiningurEftir þetta Nóaflóð í smækkaðri mynd lagði ég af stað í gönguför til að verða mér úti um fleiri stílabækur. Ég reyni að nota svona erindi til að kynnast hverfunum í kringum mig og fór því gangandi frá endastöð skólabílsins sem við Weslingarnir samnýtum með nemum American University við hliðina. Eftir gott staldur í Office Depot fékk ég mér í svanginn hjá Epicurean kompaníi á Connecticut Avenue og settist með matinn út enda framhlið hússins í skugga á daginn, dró þar fram skólabækur og dvaldi um hríð.

Kona við næsta borð tók mig tali eftir nokkra stund og sagði mér undan og ofan að erindum sínum. Það var öllu léttara hjal en símtalið á borðinu hinu megin við mig um eiginmanninn sem skrapp á barinn í gærkvöldi og kom ekki heim fyrr en eftir hádegi eftir að hafa sofið úr sér í bílnum á planinu eins og venjulega. Ekkert vera að vanda um við mig fyrir að hlusta á annarra manna samtöl. Það þurfti ekkert að hlusta því það komst enginn hjá því að heyra. En þarna sat ég í hlýrri golunni og meðan ég las mér til um flónsku Guðs var ég hluti af þeim lífstakti sem við sláum öll. Ég sá að stundum hef ég verið ágætis flón og að stundum hefði ég mátt vera meira flón.

AkarnÉg valdi svo aðra gönguleið heim á vist og gekk þá fram á sendiráð Ísrael. Viðbúnaðurinn þar var öllu meiri en við hið bandaríska á Laufásveginum og þykir okkur nú nóg um þar. Spölkorni lengra gekk ég fram á eftirlæti Chip og Chap úr Andrésblöðunum. Önnum dagsins var þó hvergi nærri lokið er heim kom. Eftir þrifabað og dundur lagðist ég í handíðir og útbjó teikningamöppu úr pakkakassa sem ég hirti úr endurvinnslustaflanum frammi á gangi og nappaði líka tómum kexpakka og gerði mér hólfabakka í skrifborðsskúffuna þar sem allt veltur hvað um um annað. Ég er nú mest hissa á að einhver borði þennan ósóma, ef ekki vegna óhollustu þá bara vegna þess að þetta er ekki einu sinni gott. Ég get trútt um talað, maulandi á íslenskum lakkrís í súkkulaðihjúp. Heimskt er heimaalið barn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband