Færsluflokkur: Bloggar
12.7.2009 | 18:24
Helgistund og bútasaumur
Í morgun fór ég á helgistund hjá Unitarian Universalist söfnuði. Tilefni ferðarinnar var að sjá 7 bútasaumsveggteppi sem prýða veggi samkomusalarins. Þetta eru minningateppi um látna meðlimi safnaðarins. Á teppin eru bróderuð nöfn og í minningabókum sem fylgja teppunum geta ástvinir sett inn minningar og myndir sem fylgja verkunum. Upphafið að verkunum var teppi sem listakonan gerði til minningar um látna dóttur sína. Hin fylgdu svo í kjölfarið.
Nánari upplýsingar um veggteppin og myndir af þeim eru á heimasíðu safnaðarins.
Helgihaldið er frábrugðið því sem við eigum að venjast í lúterskri þjóðkirkju enda inntak og útfærsla önnur. Sem fyrirmynd af þvertrúarlegri samveru var stundin ánægjuleg og bjóðandi hverjum þeim sem elskar og metur það sem veröldin sameinar í okkur öllum. Einn söngvanna sem sunginn var er hér neðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.7.2009 | 01:29
Unglingar allra landa... hafið þið sameinast?
Ég gerði hagstæð bensínkaup í dag, keypti gallonið á 2,68 dollara. Tvekart tankur kostaði mig 1850 krónur. Hið íslenska, blæðandi bensínhjarta tók kipp af gleði yfir því að borga bara um 90 krónur fyrir lítrann þegar hann kostar tæpar 190 krónur heima á Fróni. Glöð kom ég heim í kot á frúarbílnum sem ég hef verið að nota af því að eigandinn er ekki að nota hann. Áðan kom unglingurinn í húsinu til mín og bað mig um lyklana að bíl móður sinnar og sagðist mundu skilja þá eftir á borðinu við útidyrnar. Gott og vel, ég hafði lagt bílnum fyrir bíl unglingsins sem komst hvorki lönd né strönd. Ég var bara fegin að þurfa ekki að fara út og færa bílinn. Svo þegar ég fór með hundinn út að labba sá ég að unglingurinn hafði einfaldlega skilið sinn bíl eftir heima og farið á bílnum "mínum" - á bensíninu mínu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.7.2009 | 02:00
Þjóðhátið
Þjóðhátíð hinna bandarísku hélt ég upp á með innfæddum við hjarta þjóðrækninnar, Washington minnismerkið í Washington DC í gær. Þar beið ég með fjöldanum eftir hinni árlegu flugeldasýningu. Það spurði mig kona sem ég rakst á seinna hvort það hefði verið mikil þvaga niðri í bæ og ég sagðist í sannleika ekki fær um að leggja mat á það. Það var bara fullt af fólki. Það var stappað en ég fann ekki fyrir því fyrr en allt var afstaðið og ég lagði af stað á lestarstöðina. En það var líka hluti af stemmingunni. Ég hefði ekki viljað missa af þessu fyrst ég var í grenndinni á annað borð.
Þetta mikla opna svæði, The Mall, gefur möguleika á mannfagnaði við ýmis tækifæri. Ætli þetta sé ekki þeirra Þingvellir?
Fólk kom vel undirbúið með góðum fyrirvara og lét fara vel um sig á meðan það beið. Öryggisgæsla var ströng og til að komast að minnismerkjunum sjálfum þurfti að fara í gegnum öryggisleit. Biðröðin var míla á lengd að mati nærstaddra. Ég lét mér duga að vera fyrir utan girðingu með ágætis útsýni í félagsskap ókunnugra rólyndismanneskja. Ég hafði verið vöruð við að það yrði mikil fyrirferð í fólki og læti. Ég kannski svo vön óstýrilæti Frónbúa að ég kalla ekki allt ömmu mína. Hér telst það reyndar ókurteisi að ganga með innkaupakerru á milli hillu og manneskju sem stendur við hilluna á móti og skoða úrvalið svo maður þarf að muna að biðjast afsökunar. Mér hefur fundist þetta fáránlegt en stóð mig svo að því að afsaka mig þegar ég þurfti að þvera sjónlínu í íslenskum stórmarkaði í síðustu heimdvöl minni.
En án allrar afsökunar, hér koma nokkrar myndir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2009 | 14:12
Kapellánsblogg
Hér er slóð á annál sjúkrahússkapelláns, Marshall, sem gæti gagnast fleirum en mér á sviði klínískrar sálgæslu. Hér er færsla frá honum sem fjallar um að biðja með sjúklingum. Þar vísar hann í mál sem kom upp þegar kapellán var sagt upp störfum vegna þess að hann bað ófrávíkjanlega í nafni Jesú. Þetta er ekki einfalt mál vegna þess að veröldin getur verið flókin. Það hafa verið skiptar skoðanir um fyrirbænir í námshópnum mínum. Sjálf bið ég yfirleitt ekki með sjúklingum nema þeir biðji mig um það og þá spyr ég hvort þeir vilji að við biðjum hér og nú eða að ég geymi þau í bænum mínum. Þetta er ekki "ein stærð hentar öllum" og maður veit aldrei fyrirfram hvað sjúklingar telja að geri sér gott. Beiðni um fyrirbæn hefur líka komið úr ólíklegustu átt, frá fólki úr gjörólíkri trúarhefð.
Siðfræðitexti sem við lásum velti m.a. upp þeirri spurningu hvort það væri verjanlegt að biðja fyrir sjúklingi án hans vitundar og samþykkis í okkar einkabænum. Ég elska svona spurningar. Þær teygja og toga tilvísunarramma okkar, setja forsendur okkar í annað samhengi. Frá siðfræðilegu sjónarhorni sé ég ekkert rangt við að biðja fyrir sjálfri mér varðandi samskipti mín við einstaka sjúklinga. Enda veitir mér stundum ekkert af því. Hvað varðar að hafa sjúklinga á eigin lista yfir dagleg bænarefni ætla ég ekki að tjá mig heldur vonast eftir málefnalegum og gagnlegum athugasemdum sem ég má geyma með mér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.6.2009 | 00:09
Líf og fjör
Þjóðháttahátíð Smithsonian stofnunarinnar stendur nú yfir, "Smithsonian Folklife Festival." Þetta árið var það handverkshefð Wales, sagnahefð afrísk-amerískra og tónlist Suður-Ameríku. Ég settist niður í tjaldi og hlustaði á konu segja sögur úr uppvexti sínum, hlustaði á tónlist frá Suður-Ameríku þar sem gestir tóku sporið og horfði einnig á djöfulinn dansa eins og í Venesúela. Svo rölti ég um ótalmörg tjöld með handverki frá Wales og átti skemmtilegt samtal við textíllistamann.
Eins og ég væri ekki þegar gengin upp að hnjám hélt ég áfram að ganga og kíkti við í Hirschorn listasafninu. Ég þarf að fara þangað aftur, óþreytt. Þar eru skúlptúrar og nútímalist. Eftir lokun eru svo listviðburðir fyrir utan. Ætli ég bíði ekki með það fram í september að sækja þá því það eru engar almenningssamgöngur á kvöldin hér í Útkjálkaholti.
Ég smellti af nokkrum myndum í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.6.2009 | 03:01
FICA
Í starfsnámi mínu á sjúkrahúsinu er til þess að ætlast að við framkvæmum svokallaða "andlega þarfagreiningu" - "spiritual assessment". Það hefur verið akkilesarhæll sálgæslufræðanna að þau hafa ekki sterkmótaða aðferðafræði frekar en guðfræði almennt. Þau módel sem stuðst hefur verið við eru tekin stundum nánast óstaðfærð úr öðrum fræðigreinum með orðfari sem hentar ekki tungutaki sálgæslufræðanna. Sem dæmi get ég nefnt að skráningarformið í tölvukerfi spitalans gerir ráð fyrir læknisfræðilegri nálgun og úrvinnslu sálgæslunnar. Það hentar illa en þar þó að taka tillit til svo fagfólk annarra greina sem ekki þekkja tungutak sálgæslufræða og guðfræði hvers konar geti skilið það sem fært er inn í sjúkrakrá. Skildi nokkur hvað ég var að segja.
Jæja, svona til að ég finni þetta aftur í stað þess að týna því í bókamerkjamöppu vefráparans mín set ég þessa slóð hér inn. Þetta er FICA módelið að andlegri þarfagreiningu. Hér eru frekari leiðbeiningar til hliðsjónar. Það er líka hægt að nota til sjálfsskoðunar. Hér eru svo minnismiðar til að hafa við höndina í viðtölum við sjúklinga og annars konar minnismiðar fyrir sjálfskönnun.
Mér lýst ágætlega á þessa útfærslu minnismiðanna sem er af þessari yfirlitssíðu um heilsugæslu fyrir einstaklinga með HIV smit.
FICA var þróað fyrir fagfólk heilbrigðisgreina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2009 | 00:16
Eini ákæruliðurinn?
![]() |
Hermenn kærðir fyrir klám |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2009 | 01:04
Hundakúnstir III
Við vorum bara tvær í húsinu, tíkin og ég. Hún lá upp við útidyr á hörðu steingólfinu. Ég gerði mér í hugarlund að hún væri þar til að verja innganginn og verja mig. Sennilega var hún þó frekar að bíða eftir að húsmóðir sín kæmi heim. Ég átti allt eins von á því að heimasætan hrasaði um hana þegar hún mundi staulast heim um nóttina. En engir dynkir eða upphrópanir heyrðust að ofan svo sennilega hefur þetta allt farið á besta veg.
Tíkin og ég fórum í gönguferð niður í miðbæ um síðustu helgi, spókuðum okkur eins og fínar dömur, hlustuðum á útitónleika og settumst að endingu niður utan við írskan pöbb. Hún fékk vatn í skál og ég hvítvínsglas. Ég hefði ekki trúað því ef einhver hefði sagt mér að ég ætti eftir að siða hund til að hlýða mér. Hún fór á hlýðniþjálfunarnámskeið fyrir einhverjum árum og er núna um 7 ára. Hún hefur ekki fengið neitt viðhald á því, að sögn húsmóðurinnar, sem bætti því við að það kæmi ekki að sök því tíkin væri svo löt. Mér finnst hún viljug og forvitin. Það er þó lítill leikur í henni, kannski vantar hana bara nýbreytnina. Helst mundi ég vilja koma henni upp á að eiga sér bæli, mér finnst eitthvað svo ómögulegt að sjá þennan stóra hund liggja á beru gólfinu. Hún bara þýðist ekki samanbrotið teppið sem ég hef verið að bjóða henni. Ef einhver lumar á ráðum til þess að koma henni á bragðið þigg ég gjarnan innlegg í athugasemdum. Dýrið er af kyni Chesapeake Bay Retriever og er áþekkt skepnunni á myndinni.
Í okkar venjulegum göngutúrum hefur tíkin mikið til haft sína hentisemi og framan af var bara ströggl að fara með hana í göngu. Hún bara stóð kyrr þar sem henni sýndist og bifaðist ekki. Auðvitað vildi hún rjúka upp um alla garða og á eftir öllum íkornum en undirrituð hélt þétt í ólina og hleypti ég tíkinni aldrei lengra frá mér en einn metra og lét ekki bifa mér út af gangstéttinni. Upp á síðkastið var tíkin farin að vera öll önnur, hætt þessu ströggli eins og var, fór af stað þegar ég togaði ákveðið í hana og sagði henni að koma. Svo þegar við fórum í bæinn minnti ég hana á að ganga við hæl og hún gerði það, ég sagði henni að bíða við umferðargötur og hún stoppaði með mér, ég sagði henni að fara að stað og hún gekk með mér. Svo þegar í bæinn var komið settist hún nánast eins og hugur minn, stundum með smá þrýstingi á lend en það var líka allt og sumt. Hún er líka búin að vera í markvissri setþjálfun hjá mér. Ég veit ekki hvort ég er hreyknari af sjálfri mér eða tíkinni. Þegar svo maður gekk hjá og sagði: "Þetta er vel siðaður hundur" ljómaði sálartetrið mitt að innan.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.6.2009 | 01:43
Ennþá hér
Níu manneskjur létust í lestarslysi í Washington DC í gær. 80 manneskjur eru slasaðar. Þetta var eitt af þessum hörmulegu slysum sem ættu ekki að geta gerst. Ég sat í lest á sömu línu um svipað leiti og vissi ekki hvað tafði því lestin hélt kyrru fyrir á brautarstöðinni. Fréttirnar sá ég svo þegar ég kom heim. Í morgun tók ég strætó áleiðis á spítalann eins og venjulega. Þegar á skiptistöðina var komið var tengivagninn minn rétt ókominn svo ég ákvað að doka eftir honum og fara að tilmælum yfirvalda um að reyna að komast hjá lestarnotkun í dag. Á meðan ég beið fór kona við hlið mér að ræða við mig um slysið. Henni var brugðið. Það voru margir aukavagnar á skiptistöðinni en engin hreyfing á þeim. Með allar vélar í gangi var hávaðinn gífurlegur þarna undir gólfi byggingarinnar sem hýsir samgöngumiðstöðina. Það var eins og eitthvað lægi í loftinu. Á endanum gafst ég upp á biðinni og gekk niður í lest. Þar var svipaður fjöldi og venjulega en ljóst að fólk forðaðist endavagnana. Sjálf færði ég mig til og fór í næsta vagn. Lestin er ekki vön að staðnæmast svona framarlega. Það var engu líkara en lestarstjórinn vildi komast sem lengst frá stöðinni.
Í morgun spurði svo leiðbeinandinn okkur hvort fólkið okkar væri allt búið að hafa samband og ganga úr skugga um að við værum óhult. Allir jánkuðu nema ég. Það rann upp fyrir mér að hérna úti gáir enginn að mér. Ég hafði hringt í manninn minn heima á Íslandi. Það hefur enginn hringt í hann og spurt eftir mér.
Þetta rann saman við það að á sjúkrahúsinu þar sem ég er í námi eru margir sjúklinganna deyjandi. Eitt verkefna okkar kapellánanna er að kortleggja stuðningsnet sjúklinganna. Vinnuspurningin gæti einfaldlega verið: "Hver gáir að þér?" Upp til hópa segist fólk vera með mjög gott stuðningsnet. Það er sjálfsagt allur gangur á því hvernig það reynist í raun. Þegar dokað er aðeins lengur við hjá rúmstokknum kemur stundum játning sem öðrum er ekki treyst til að heyra. Eða það er borin upp einföld ósk sem öðrum er ekki treyst til að uppfylla. Slík bón var borin upp við mig í dag og það var ljúft að verða við henni. Ég hef lært að þegar allt kemur til alls eru mannlega þarfir ósköp einfaldar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2009 | 12:21
Afmæliskveðjur
Sláið endilega á þráðinn til hans og óskið honum til hamingju með daginn.
Hér koma svo eftirlætiskarakterar hans úr kvikmyndasögunni:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)