2.8.2009 | 12:57
Bæn fyrir heilbrigði og gróanda
Það má biðja fyrir heilbrigði (enska: healing) í fleiru en einu samhengi. Það er hægt að biðja fyrir því að fólk læknist (enska: cure) og að það verði heilt (enska: whole). Mörg þekkjum við það á okkur sjálfum að vera laus við sjúkdóma en finna um leið til þess að vera ekki heil. Ef áherslan er lögð á að lifa heil erum við að beina sjónum okkar að því sem við þurfum að hleypa að í lífi okkar til að geta notið og notað það sem við þó búum að til að elska hvert annað og upplifa að lífið sé þess virði að hlúa að því. Þá erum við að biðja fyrir gróanda í lífi okkar. Slík bæn er líka opin fyrir læknismeðferð. Svo ég taki dæmi af fótameini sem ekki læknast, þó svo það fái alla viðhlítandi læknismeðferð og trúarbænir til lækningar, þá þarf að finna leiðir til að lifa með því ástandi þannig að það skerði velferð okkar sem minnst heldur efli hana. Vinkona mín sem er að mestu háð hjólastól til að komast ferða sinna og gengur aðeins við staf og í spelkum, hefur ekki getað dansað árum saman og saknar þess mikið. Hún fór á dansnámskeið í hjólastólnum! Kennarinn dansaði við hana og hún sat í hjólastólnum á meðan. Þetta námskeið gaf henni mikla gleði og nærði sál hennar þar sem fyrir var djúpur söknuður yfir lífi sem hún þekkti. Þessi reynsla gaf henni tilfinningu fyrir því að vera heil. Skerðing hennar skipti ekki máli til að njóta þess sem lífið bauð henni upp á.
Það verður að gæta þess að misnota ekki þessa nálgun til að vanda um við fólk eða tala niður til þess. Það eflir ekki heilbrigði þess heldur gerir lítið út því. Það meiðir. Til að geta nálgast viðfangsefnið þarf einmitt að gangast við því sem hamlar og dregur úr fólki kjark. Þegar við biðjum fyrir því að verða heil er það oft einmitt döngun sem við erum í mestri þörf fyrir auk ímyndunarafls og aðlögunarhæfni. Það er getan til að sjá möguleika og vera opin fyrir óvenjulegum úrlausnum. Þetta er verkefnið sem blasir við krabbameinssjúklingunum mínum á sjúkrahúsinu. Þar sem þetta er rannsóknarstofnun en ekki venjulegt sjúkrahús fara sjúklingarnir yfirleitt annað til að deyja nema það hafi dregist svo lengi að útskrifa þá að heimferð er ekki lengur kostur. Í slíkum tilvikum er það alltaf spurningin eftir hverju var beðið. Oftar en ekki var það bið eftir lækningu (enska: cure). Stundum er það læknirinn eða fjölskyldan sem bíður hennar en ekki sjúklingurinn. Sjúklingurinn er kannski tilbúinn til að kanna nýja lendur lífsins inn í dauðann. Í slíkum kringumstæðum á bæn fyrir heilbrigði alltaf við, að lifa heill í gegnum þetta stærsta verkefni lífsins - að deyja. Það þarf mikinn kjark til að lifa deyjandi og mikinn kjark til að fylgja fólki þá leið. Það er þá sem við þurfum að biðja fyrir gróanda.
Fyrir þá lesendur sem ekki þekkja til: Ég er í námi í klínískri sálgæslu, Clinical Pastoral Education, á rannsóknarsjúkrahúsi í Bandaríkjunum.
Myndin er af veflistaverkinu Healing Tree eftir Terry Dunne og má finna á heimasíðu hans. Verkið var unnið fyrir Mater Private Hospital árið 2002.
Reyndu að lækna dóttur sína með bænum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Aðalatriðið í þessu máli er ekki bænin heldur það að foreldrarnir leituðu ekki læknishjálpar - af trúarlegum ástæðum.
Sigurður Þór Guðjónsson, 2.8.2009 kl. 23:25
Trúin flytur fjöll þegar kemur að healing, og þar skiptir máli að sjúklingurinn vilji berjast og ná örrlítilli meiri lísgæðum með því að leggja á sig. ég lá lömuð í nokkra mánuði en var orði afskrifiðu í hjólastólinn.. en ég stend í dag af því ég ætlaði það og það tóks með stryrkri hendi hans að ofan og fjölskyldu minni og vinum.
Helga Auðunsdóttir, 5.8.2009 kl. 00:04
Þegar ég opnaði bloggið varð ég alveg heilluð af myndinni af trénu, einhvern vegin ást við fyrstu sýn! Ég upplifði mikla dýpt í því og hringformið gerði það svo umvefjandi. Þegar ég skoðaði það nánar á heimasíðu listamannsins sá ég það betur. Litirnir urðu skýrari og sólargeislarnir eru fyrst sterk gulir og svo í tveim minni gulum litum og síðan í mildum ljósgrænum lit. Mér finnst innsti hringurinn sem er dekkstur og með dökkbláum greinum draga augað til sín og gera dýptina svo áþreifanlega.
Svo eru það laufblöðin í mismunandi litum. Þau innstu ljósust. þau hafa sterk áhrif en ég veit ekki afhverju. þau eru í miðjunni og virka þannig á mig að ég fer inn á við og hjartað verður snortið. ...ég sit með tárin í augunum...
Það koma víða við tré í myndlist og í Biblíunni. Gæti þessi ritningarstaður átt við um þetta tré „Blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.“? (Opinberunarbók Jóhannesar 22. 2.) Tréð stendur í hinni nýju Jerúsalem, sem er á himnum og er lýst sem algjörri Paradís.
Jesús er vínviðurinn, við erum greinarnar (Jóh. 15. 5). Stofninn í Healing tree er sver og sterkur og stendur stöðugur sem dökkblái liturinn miðlar.
Svo eru það hjörtun? Mér finnst þau halda myndinni saman og fá mig til að hugsa hverjir ávextir minna greina séu; lífs míns. Páll postuli telur upp nokkur göfug einkenni: kærleika, gleði, frið, langlyndi, gæsku, góðvild, trúmennsku, hógværð og sjálfaga. (Gal.5.22). Það er ekki hægt að lifa lífinu og verða svona fullkomin! En hver veit nema hægt sé að ná að hafa 1% af þessum eiginleikum.
Einhvern vegin hef ég upplifað að baráttan við að vera kristin sé mín leið til að leitast við að bera eitthvað af þessum ávöxtum og fá hjálp til þess utan frá í samstarfi við Guð, föður, son og heilagan anda.
Eitt enn. Þverstæðan er „Náð mín nægir þér því mátturinn fullkomnast í veikleika.“(2. Kor.12.9).
Ragnheiður Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 12:54
Ragnheiður, þakka þér fyrir færsluna. Þetta er innilegur texti - eins og trú þín og persóna. Vinkonukveðja að Westan!
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 5.8.2009 kl. 22:28
Þetta var góð lesning nafna. Á sínum tíma frá síðla árs 91 til maí loka barðist dóttir mín fyrir lífi sínu. Ég leitaði að veg bænarinnar og til sértrúasöfnuða til að fá lækningu við fötlun hennar og veikinda en var ekki bænheyrð. Læknarnir fengu heldur engu við ráðið. Bænin er yndisleg leið til að fá frið í sálina og inn í kringumstæður jafnvel þótt útkoman sé ekki sú sem óskað er eftir.
Ég var döpur, sár og bitur þegar engrar lækninga var að fá, bölvaði út í vindinn og steytti hnefann í átt til Guðs og sakaði miskunnarleysi. Þær aðstæður sem dóttir mín var í var ofar mínum skilningi þrátt fyrir að ég leitaðist við að finna svar við þeim þjáningum sem hún þurfti að ganga í gegnum. - Ég trúi að tilgangur sé með öllu. Ég trúi á gæsku míns Æðri Máttar þrátt fyrir að hlutirnir fari ekki alltaf eins og ég gjarnan vildi.
Ég tók ákvörðun í samráði við lækna þegar að leiðarlokum kom að stoppa meðferð og leyfa dauðanum að líkna þjáðu barni. Ákvörðunin var erfið en ég elskaði mitt barn það mikið að ég gat ekki annað en gefið því fararleyfi. Bænir læknuðu ekki og læknum var orðið um megn að lækna líka.
Ef þú vilt þá get ég sent þér bók sem ég skrifaði um líf okkar saman þ.e. dóttur minnar, mín og læknanna.
Ólöf de Bont, 6.8.2009 kl. 15:33
Þakka þér fyrir, nafna. Ég minnist þessa að hafa lesið viðtal við þig um dóttur þína og lífsreynslu ykkar. Það snart mig djúpt og ég lærði af ykkur. Það væri fengur að bókinni þinni. Ég sendi þér skilaboð.
Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 6.8.2009 kl. 21:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.