17.7.2009 | 01:59
Einu sinni er allt fyrst
Í gær var ég á námskeiði utanbæjar ásamt fleiri nemum í klínískri sálgæslu. Þetta var úti í sveit og það var yndislegt að að sjá tún, engi og matjurtagarða, hlöður, fjós og traktora. Við ráðstefnusetrið var maísakur. Ég hef aldrei áður komist í tæri við ferskan maís á stöngli sem enn vex úr moldu svo það var ekki um annað að ræða en láta taka borgarbarnalega ljósmynd með túristayfirbragði úti við akurinn. Maísuppskera er seinni hlutann í júlí svo hann er nærri fullvaxinn.
Námskeiðið reyndist upp og ofan. Ég hafði á orði við samnemanda minn í dagslok að handbókin hefði eiginlega ekki passað við fyrirlestrana. Mér var svarað um hæl, "Þakka þér kærlega fyrir, þetta var vel að orði komist." Svo nú á ég handbók fulla af dóti sem ég veit ekki hvað er.
Næsta sunnudag leiði ég guðsþjónustu á spítalanum. Þar sem ég þurfti að semja guðsþjónustuna og spítalinn á engar handbækur þá setti ég upp guðsþjónustu samkvæmt íslensku handbókinni frá 1981 og snaraði textum yfir. Kollekta og ritningalestrar verða þau sömu og í kirkjum á Fróni þennan dag. Ég verð að segja eins og ég að ég sakna litúrgíunnar heima, messutónið og svörin höfða til mín. Þó ég sé ekki sú messuræknasta með hugsast getur þá tekst helgihaldinu stundum að tengjast einhverju sem bærist með mér þá stundina. Það er líka kunnugleikinn sem nærir sálina og stundum fæ ég einfaldlega heimþrá. Þá væri nú ekki amalegt að geta sungið eins og eina messu.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.