Fljóðið frækna

GangandiÁ afrekum mínum ætlar enginn endir að verða. Óhöpp morgunsins, (ég skar mig og brenndi mig - já, og marði mig í gærkvöldi) blikna í samanburði við þrekvirkið í gær - að ganga út í búð í úthverfalandi sem hefur ekki gangstéttir þó svo strætisvagnastoppistöðvar standi eins og tanngarður eftir götunni endilangri. Það er sniðið af vegöxlunum með óbrotinni línu og þar hjólaði fólk eins og það ætti heiminn. Svo ég álít að þar megi ég ganga líka. Þó leiðin sé ekki nema 2,3 kílómetrar tók það mig hálftíma að ganga þetta í hitanum. Bakaleiðin tók meira á, með fulla hjólatrillu af varningi og á endanum með regnhlíf í annarri hendi í kappi við þrumurnar sem færðust nær og nær. Hvern langar að standa úti í þrumuveðri með regnhlíf? Það er ekki gáfulegt.

Í dag eru það svo formsatriðin vegna sumarnámsins. Dagurinn hefst á venjubundinni læknisskoðun og svo er tveggja daga kynning fyrir nýtt starfsfólk og sjálfboðaliða (það er ég samkvæmt samningnum, reyndar "special volunteer"). Ég fékk send eyðublöð til útfyllingar vegna læknisskoðunarinnar og þau voru ámóta ítarleg og þessi sem ég fyllti út á sínum tíma þegar égHundur á laugarbarmi keypti mér líftryggingu. En nú veit ég ekki hvort ég á að fylla þau út eða ekki því fylgibréfið sagði mér að fylla þau út en þegar ég pantaði tímann í skoðunina komst allt í uppnám vegna þess að ég var með eyðublöðin. Skrifstofa læknisins átti víst að fá þau. Það er skrítið. Í þokkabót sagði skrifstofan að þessara upplýsinga sé ekki óskað fyrir sumarfólkið svo ég eigi að koma með eyðublöðin óútfyllt. Skrifstofustjóri sálgæsludeildarinnar sagðist bara leysa þetta með því að senda læknastofunni annað einstak og ég gæti tekið mitt með ef þau skildu týna sínu. Þessi lausn fannst mér jaðra við íslenska skilvirkni.

Einu áhyggjurnar mínar þessa stundina er rigningin úti. Það er búið að rigna viðstöðulaust síðan ég vaknaði klukkan fimm. Það verður ekki gaman að rölta í regnfötunum lengri vegalengdir, með engar gangstéttir, alveg upp við umferðina. Og þó ég taki strætó þá eru engin biðskýli. Ég verð því eins og hundur af sundi dregin þegar ég arka inn á National Institutes of Health. Kannski vissara að vera með aukaföt í poka.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband