23.4.2009 | 03:37
Á veiðum
Vegglistaverkið mitt um Jobsbók er nú komið saman þó gerð þess sé ekki lokið. Hér til hliðar er mynd af hluta þess. Þemað er Guð sem óvinur og sækir myndmálið í líkingu ljónsins og í hebresku sögnina [bala] sem þýðir að kyngja. Hún er notuð í merkingunni að eyða eða tortíma og þannig þýdd úr hebresku. Þetta er svo "nördalegt" að hið hálfa væri nóg en að gera svo listaverk í ofanálag strokar út allan kúristahátt svo eftir stendur svalur pakki.
Það sem eftir stendur af verkefnum annarinnar er lokaritgerðin í Jobsbók og lokapróf í listasögu. Mér finnst þetta svo lítið að ég hef mestar áhyggjur af að ég sé að gleyma einhverju. Ég á reyndar eftir að klára (man það núna) vinnubók sem á að fylgja listaverkinu sem ég sagði frá í síðustu færslu en hún er nú svo langt komin að það er bara handavinna eftir.
Ég stend núna í stappi við fjármálaskrifstofuna að endurgreiða mér námskeið sem ég sagði mig úr. Það strandar á því að "the system" segir að allt standi á núlli og því eigi ég ekkert inni. "The system" virðist ekki kippa sér upp við að ég hef borgað 15 einingar en tek 13 einingar. "The system" leysti það á einhvern undursamlegan sjálfvirkan hátt með því að skrá á mig námskeið sem ég veit ekki einu sinni til þess að sé til. Starfsfólk skrifstofunnar horfir á mig bláeygt og segir að samt sé allt í lagi hjá kerfinu. Á tíu daga tímabili hafa þau ekki enn haft tíma til að fara yfir reikninginn, villuleita og leiðrétta. Svo í dag rölti ég yfir í nemendaskrána (sem er hinu megin við skilrúmið) og fékk afritið af úrsögninni úr einingunum tveimur. Þar var mér sagt í óspurðum fréttum að fjármálaskrifstofan hafi ekki óskað eftir að fá að sjá þessa skráningu (sem staðfestir að það er akkúrat ekkert búið að gera í málinu). Sem betur fer er úrskráningin dagstimpluð. Það má Kaninn eiga að hann er reglugerðarsnati. Samkvæmt sömu reglugerðardrægni varð ég að skrifa á snifsi beiðni um að fá afrit af gögnunum mínum - samkvæmt alríkislögum. Svo er nemendur búnir að vara mig við því láta greiða mismuninn út. Ég skuli bara láta hann standa inni á reikningnum mínum til næsta misseris því annars skrái "the system" mig sjálfkrafa úr námi við skólann, úr öllum námskeiðum, lokar öllum aðgangi mínum og gerir lífmitt að svartri kómedíu næstu vikurnar.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.