Innsetningin í Richmond

I-M, hönnun Catherine KapikianRáðstefnan í Richmond var formlega sett í morgun svo ég get loksins opinberað hverju ég hef verið að vinna að úti í henni Ameríku í allt haust. Þetta er innsetning, hönnuð af kennara mínum, Catherine Kapikian. Minn þáttur í verkinu var að búi til sniðin fyrir öll formin í fullri stærð, þ.e. bókstafina, hringformin og þrenningartáknið með tilheyrandi útreikningum út frá litlum skissum sem gáfu ekkert uppi nema endanlega lengd. Einnig bjó ég  til þrenningartáknið. Ég hef heyrt því skotið á guðfræðinga að þeir hafi valið fagið vegna þess að þeir séu lélegir í stærðfræði. Ég segi nú bara að ef einhver er lélegur í stærðfræði þá ráði hann ekkert við guðfræði. Í þessari innsetningu er margur höfuðverkurinn fólginn og sem betur fer er þetta komið upp. Á morgun verður svo allt tekið niður og ekki notað aftur.

Verkið er allt saumað saman úr skelfilega óþekkum gerviefnum sem skríða þangað sem þeim sýnist án þess að svo mikið sem andað sé á þau. Sú fjölþraut var unnin af skólasystur minni, Soozung Sa Rankin. Þrenningartáknið var ég búin að sauma saman en þurfti að rekja upp aftur því það gekk í bylgjum. Ég harðneitaði að sauma það aftur, límdi það saman í staðinn og límdi það svo aftur á frauðkarton sem hangir laust framan á renningnum. Þarna á bak við eru opnar loftristar svo renningarnir eru á sífelldri hreyfingu sem gefur verkinu skemmtilega vídd. Við höfðum haft miklar áhyggjur af þessum loftstraumi en sem betur fer vann hann með okkur en ekki á móti.Altarisdúkur í Richmond

Í gærkvöldi var vinnustofa þar sem ráðstefnugestir tóku þátt í að koma þessu upp. Einn hópurinn var með mér í að ganga frá þessu líka stóra þrenningartákni sem varð að krækiberi á heiðarlyngi í rýminu. Lofthæðin er svo mikil að maður fær hálsríg af því að líta upp í kapelluloftið.

Einn vinnuhópurinn hannaði frá grunni dúk á altari sem þarna er og setti hann saman á tveimur tímum. Mynd af honum er hér til hægri. Efnið er límt saman með straulími og rimpað í höndunum enda ekki ætlað til frekari notkunar. Ég á ekki orð yfir það að fólki skyldi takast þetta á svo skömmum tíma án nokkur undirbúnings.

Ráðstefnan hefur verið mjög ánægjuleg, fólk áhugasamt og einstaklega forvitið um listaverkið. Í vinnustofunni sýndum við myndasyrpur um vinnuferlið sem ég setti saman og sú innsýn reyndist gefa fólki enn meiri nánd við hina endanlegu afurð. Það er svo sjaldan að fólk fái að fylgjast með tilurð listaverka en fyrir listamanninum er vinnan oft sterkasti þáttur verksins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gaman að sjá listaverkið - það er flott í stækkuninni. Það hefði verið frábært að sjá það "í alvörunni". Eiga bókstafirnir að þýða eitthvað eða eru þeir notaðir sem mynstur?  Ég hef tekið nokkrum sinnum þátt í verkstæðisguðsþjónustum - sem nokkrir hópar undirbúa. Oft notað í æskulýðsstarfi. þá hefur hver hópur sitt verkefni - t.d. einn að ákveða og flytja tónlist/sálma, prédikunarhópur, bænahópur og listahópur.  Oft mjög skapani. Ekki meira í bili. kveðja Ragnheiður

ragnheiður sverrisdóttir (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 19:01

2 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Bókstafirnir eru stafavíxl á orðinu "Imagination" því yfirskrift ráðstefnunnar var "What is Imagination".

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 25.1.2009 kl. 23:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband