18.12.2008 | 23:13
Ekki orð í tíma töluð
Stjörnuspáin mín hljóðaði svona í dag:
"Krabbi: Þið ættuð að líta vandlega í kringum ykkur og kunna að meta það sem þið hafið. Læstu veskið niður og krítarkortin með og náðu ekki í þau aftur hvað sem á sækir."
Námsmaðurinn í útlöndum hefur forðast í lengstu lög að eyða pening og staðið sig eins og hetja enda húsmóðir hagsýn og ekki þurftafrek. Ég var að lesa þetta núna undir háttatíma. Það er nú full seint að fá svona ráðleggingar eftir stórfelld útgjöld á hálfri viku.
Þegar ég kom á sunnudaginn þurfti ég að kaupa augndropa. Á mánudaginn fór ég í sjúkraþjálfun. Í gær fór ég til tannlæknisins míns í eftirlit því ekki vil ég sitja uppi með óvænta tannpínu í útlandinu. Unglingurinn fór í leiðinni í eftirlit hjá sínum tannlækni. Svo kom á daginn að mig vantaði sundbol því minn er úti í Ameríku. Einnig keypti ég 10 tíma kort þegar í laugina kom. Í dag fór ég til heimilislæknisins og svo til augnlæknis. Þaðan fór ég í apótek og leysti út augnlyf fyrir 5.000 krónur auk þess að kaupa millibilstannbursta fyrir kr. 2.000. Þeir eru enginn lúxus heldur nauðsynjar sem ég þarf til að halda tannheilsunni en var svo klaufsk að taka ekki með mér að utan. Þar til viðbótar vantaði mig rándýrt andlitskrem sem húðlæknir uppáleggur mér að nota svo ég fái ekki exem í andlitið. Það er sko engin merkjavara og fæst ekki í fríhöfninni. Ég á túpu úti sem er of stór fyrir leyfilegt magn í handfarangri og af því kremið er svo dýrt vil ég ekki láta hirða það af mér í öryggisleit. Túpan mín hér heima var að klárast.
Þess vegna finnst mér ekki mikið vit í að láta líf sitt stjórnast af stjörnuspám. Þær eru stundum svolítið úr tengslum við raunverulegt líf. En þær geta verið hin besta skemmtun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.