4.11.2008 | 02:54
Síðari hálfleikur
Nú fer að síga á seinni hluta þessa misseris. Einhver notaði j-orðið á kóræfingu í dag og var sussað með það sama. Ég er komin viku lengra í íhugunum mínum, komin í áramótastemmingu og farin að velta fyrir mér hvort ég hafi gengið til góðs götuna fram eftir vegi. Ég var líka að átta mig á að ég skrifaði "flugeldar" á hurðina mína í morgun og teiknaði rakettur með.
Í fyrramálið flyt ég seinni hugleiðinguna af tveimur og bað ég prófessorinn áðan um að umbera umstangið því þessi eins og sú fyrri er frumort í stað hugljúfs upplesturs úr hugrenningabókum annarra. Einhvern vegin er ég haldin þeirri þráhyggju að ég þurfi að búa eitthvað til sjálf til að læra almennilega af þessari fyrirhöfn. Hann sagðist fúslega verða við bón minni..
Við fengum gestakennara í einu faginu í dag. Það var mjög áhugavert og gagnlegt að fá aðra nálgun á viðfangsefnið okkar. Eiginlega langar mig að leggja inn pöntun - meira af þessu, takk fyrir. Það er merkilegt hvernig kennarar skapa sér orðstír af allt öðrum toga en þeir höfðu sennilega hugsað sér. Nemendur hér velta því minnst fyrir sér hvort kennarinn viti nógu mikið. Þeim er meira í mun að hann geti kennt, veki skilning nemenda og hjálpi þeim að tengja bitana saman í nothæfu námi. Hér leggja sumir kennarar áherslu á gríðarlega mikinn lestur, svo mikinn að sumir komast vart yfir efnið, hvað þá að vinna úr því svo skilningur og innsæi situr á hakanum.
Einn er sá kennari hér sem nemendur slást um að komast á námskeið hjá og hef ég skráð mig hjá henni á vorönninni á "History of Christian spiritual practices". Viðfangsefnið er fyrst og fremst áhugavert og útundan á námsskrá guðfræðideildar Háskóla Íslands svo það fyllir vel upp í hjá mér. Nái ég ekki inn hjá henni skráði ég mig til öryggis á "Foundations of Christian spirituality". Svo er ég á biðlista fyrir ritskýringanámskeið Jobsbókar og eitt fræðilegt listanámskeið, "Art as worship, worship as art". Kennarinn á listanámskeiðinu er búin að segja að komist ég ekki inn af biðlista taki hún mig samt inn til viðbótar. Önnur sem ég er skráð á eru "The moral imagination" sem er siðfræðikúrs og fái ég ekki Job ætla ég á "Leading formation in congregations".
Biðlistar eru settir upp fyrir námskeið sem eru með takmörkuðum nemendafjölda og þar er fólki raðað inn eftir nánd við útskrift samkvæmt einingafjölda. Þarna getur því komist inn fólk sem ætlar sér ekkert að útskrifast fyrr en á eftir mér, vorið 2010. Ég er búin að átta mig á því að þó skrifræði sé ríkjandi í henni Ameríku þá er Kaninn ekki endilega mjög flinkur við útfærslu hennar. Skólinn minn telst þó vera mun manneskjulegri en tíðkast almennt. Hér er lögð áherslu á jafnræði og þess vegna eru bílastæði ómerkt að og enginn getur eignað sér eitthvert bílastæði, ekki einu sinni forseti skólans. Kennararnir verða bara að mæta snemma í vinnuna ef þeir vilja vera vissir um að fá stæði.
Myndirnar tók ég í leiðöngrum mínum um borgina, þá efri í milligangi National Gallery of Art þar sem vatn fossar beint á glervegg og rósarunnar í blóma fyrir innan. Neðri myndin er innan úr dúkkuhúsi í American Art Museum.
Athugasemdir
Gangi þér vel í þessu Ólöf og það er gaman að fá að fylgjast með þessum dagbókarkornum þínum frá Ammrikunni. Liggur við að mig fari að langa til að feta í þín fótspor og kíkja út fyrir landsteinana og víkka sjóndeildarhringinn!!
Sunna Dóra Möller, 4.11.2008 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.