27.10.2008 | 23:50
Teiknun
Útundan mér sé ég sneið af graskersbrauði sem vinningshafi í graskersskurðarkeppni skólans deildi með okkur félögum sínum á vistinni. Það verða líklega graskersréttir á borðum næstu vikur til að nýta allt innvolsið úr graskerjunum sem rist voru í dag. Rétt áðan lauk ég við heimaverkefni fyrir teiknitíma á miðvikudaginn. Það er hið besta mál því ég hef áður lent í tímaklemmu með þessi verkefni. Nú þykir mér orðið næsta víst að ég sé einfaldlega tvisvar sinnum lengur að teikna en bókin gerir ráð fyrir svo ég lengdi tímann í morgun. Myndin er hér til hliðar. Kennarinn sagði okkur að eiga líka strokleður geðheilsunnar vegna. Mitt hefur verið notað ótæpilega enda flestar línur dregnar tvisvar eða oftar.
Á morgun verður starfslokaguðsþjónusta til heiðurs einum kennaranum hér sem hættir um áramótin. Mér þykir það súrt í broti því ég kom hingað einmitt til að læra af þessari konu. Mér tókst að komast að sem lærlingur hjá henni í haust til að vinna við stórt verkefni, innsetningu fyrir ráðstefnu í janúar. Því miður byrjar skólinn aftur sömu dagana og ráðstefnan verður haldin. Það finnst okkur báðum mikið svekkelsi og vitum eiginlega ekki hvernig hægt er að flétta þetta saman. Það er frekar súrt í broti að búa til listaverk og geta sett það saman né fengið að sjá það með eigin augum. Sjáum til með það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.