Þar fór það

dr zhivagoÉg hrökk upp af ómeðvitaðri hugleiðslu minni á rauðu ljósi í liðinni viku þegar unglingurinn í farþegasætinu spurði: "Mamma, hvaða lag ertu alltaf að raula?"

"Ha? Hvaða lag var ég að raula?", spurði ég og afkvæmið hóf upp raust sína og söng af innlifun. "Hvað, kanntu þetta?", spurði ég í forundran. "Já, auðvitað, ég er búinn að heyra það svo oft," var svarað að bragði.

Ég varð að segja eins og var - ég hafði ekki hugmynd um hvað ég hef raulað þindarlaust í gegnum árin. Þó gat ég huggað mig við að þetta lag er með þeim frægari úr heimi dægurtónmenntanna, svo mikið gat ég munað. En nú var líka hugarró minni raskað. Ég hef ekki mátt hefja upp raust mína síðan án þess að byrja að hugsa - hvaða lag er þetta? - og þá eru rósemdaráhrifin fyrir bý. Í aðra röndina vildi ég helst ekki vita hvaða lag þetta væri, það var hluti af sefjuninni að vita ekki. Ég hef velt því fyrir mér hvern ég þekki sem gæti þekkt lagið og sagt mér deili á því.

Í dag rölti ég í foreldrahús og þar sem við feðginin sátum við borðstofuborðið með sitthvorn bollann, hann með Moggann og ég með Su Doku í DV þar sem ég datt inn í sama hugleiðslugírinn varð einhver samsláttur á vírum og ég spyr upp úr eins manns hljóði, "Veist þú hvaða lag þetta er?", og trallaði af stað. Það voru engar véfréttarvöfflur á gamla manninum sem svaraði með annarri spurningu, "Er þetta ekki úr doktor Zhivago?"

Þar fór það. Nú mun ég aldrei raula þetta öðru vísi en sjá fyrir mér yfirvaraskegg í yfirstærð á andliti Omar Sharif.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband