Af skvettum og skellibjöllum

Það varð úr að ég eyddi út fyrri færslu með skopmyndbandi um eftirspurn eftir íslenskum vopnabera á erlendri grund þegar ég gerði tilraun til að skeyta öðru myndbandi inn í gömlu færsluna. Það er þó ekki hundrað í hættunni því þetta er komið inn á annað hvert blogg og meira að segja sjálfur mogginn búinn að taka við sér seint og um síðir og fjalla um tiltækið.

Nei, þá hef ég nú þarfari þanka um að þenkja, svo sem hvað eigi að vera í kvöldmatinn á morgun. Í kvöld var hér appelsínumarineraður silungur, ofnbakaður, borinn fram með soðnum kartöflum og hollenskri sósu ásamt fersku salati með hunangssinnepsádreypi. Betri helmingurinn opnaði rauðvínsflösku sem hefur lengi beðið örlaga sinna. Hún fær þó að vera eitthvað áfram í dauðateygjunum enda enn hálf full eða hálf tóm eftir því hvernig á það er litið.Skrúður, Hótel Saga

Þetta hefur verið svona "gourmet" dagur. Mágkona mín og ég snæddum saman í hádeginu á Skrúði hótels Sögu (eða hvað sem þetta hótel heitir núna). Ég er svo fáguð á svona stöðum að hið hálfa væri nóg. Ég byrjaði á því að henda smjörstykkinu mínu í gólfið svo það klíndist vel yfir olíuborið parketið. Hin ráðagóða húsmóðir var snögg að snarhenda hnífinn, skafa smjörið upp af gólfinu og leggja hvort tveggja til hliðar. Í stað þess að baða út höndum eins og drukknandi maður til að vekja athygli þjóns sem gæti þá komið með annan hníf eftir dúk og disk sótti frúin bara annan hníf. Hún settist þá loks að snæðingi en fann ekki munnþurrkuna sína. Ég vissi af munnþurrkustaflanum við hliðina á hnífasettunum (nú veit ég um vopnabúr stjórnmálamanna) en vildi ekki arka aftur af stað svo fólk færi ekki að halda að ég ynni þarna. Þegar máltíðinni lauk og ég stóð á fætur sá ég að munnþurrkan hafði samanvöðluð stutt við mjóhrygginn á mér allan tímann svo það var engin furða hve vel fór um mig. Mágkona mína var hins vegar sjálfri sér til sóma og hinn albesti borðfélagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir síðast.

Varð nú ekki vör við skellibjöllugang en hvaða engispretta sem er hefði dauðskammast sín vegna góðra viðbragða tilvonandi guðfræðingsins í hnífadeildinni. Skyldi konan vera Framsóknarmaður ;-)

Mágkonan (IP-tala skráð) 25.1.2008 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband