6.6.2020 | 09:45
Horst Bandel rúgbrauð
Stundum kemur sér vel að Internetið gleymir engu. Á sama skala gildir hið "forn"-kveðna að ef eitthvað fór ekki á Facebook, þá gerðist það ekki. Þetta sannast á rúgbrauði sem ég bakaði árið 2012 og setti mynd af á Facebook ásamt tengi á uppskriftina. Ég setti aldrei færslu um það hér á bloggið og steingleymdi síðan að þetta hefði nokkurn tíma gerst. Í morgun minnti samfélagsmiðillinn mig á þessa 8 ára gömlu stöðufærslu þegar myndin rann upp á skjáinn. Ég kom alveg af fjöllum en fannst ég himinn hafa höndum tekið að finna þessa uppskrift aftur. Hér er gamla myndin.
Þá skrifaði ég þennan texta með myndinni: "Horst Bandel rúgbrauð með súrdeigi. Loksins komið vel heppnað rúgbrauð með kjörnum. Það var seytt í 14 tíma. Þar vék ég frá uppskriftinni ásamt því að breyta vökvamagninu í ljósi fyrri tilraunar. Bragðmikð og margslungið, þétt en mjúkt og mátulega rakt." En vegna þessa að aulinn ég skráði þetta ekki niður almennilega þá veit ég ekki hversu mikill vökvi er mátulegur fyrir mitt mjöl og samblöndun. Ég sé það líka á textanum að þetta var ekki fyrsta bökun eftir þessari uppskrift. Svo þá er bara að prófa sig áfram aftur.
Ég hef haldið súrbúskapnum við en gert lítið af því að baka, sérstaklega eftir að við fluttum. En nú er ég að rifja upp gamla takta og naga mig í handabökin yfir því að hafa ekki haldið uppteknum hætti við baksturinn og að skrá hann því þá væri ég líklega áhrifavaldur og samfélagsmiðlastjarna í skugga Covid-19 súrdeigsuppsveiflunnar þessa dagana.
Á sínum tíma bakaði ég oft rúgbrauðið hans Mogens, eiginmanns Camilla Plum, dönsku búkonunnar sem gerði vinsæla sjónvarpsþætti um alls kyns matargerð fyrir danska sjónvarpið. Ég hristi rykið af þeirri uppskrift nýlega og brauðið var vægast sagt æðislegt. Mjúkt, safaríkt og bragðmikið, já, þannig vil ég hafa það.
Flokkur: Matur og drykkur | Facebook